<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

mánudagur, október 30, 2006

Frá 28.10.´06 

Keilir ofl.

Það er frekar sjaldgæft þessa dagana að finna afgangstíma í skjóðunni sinni. Þó fundum við félagar slatta af slíku um síðustu helgi og ákváðum að eyða í flakk. (þess háttar ferðir ganga annars undir nafninu "vísindaferðir" og hafa oftar en ekki skilað ómældri visku um mismikilsverða hluti)
Við byrjuðum með bíltúr um Helluhverfið sunnan( já, eða vestan) Hafnarfjarðar. Helluhverfið er iðnaðarhverfi, eins og menn vita, og þar leynast oft gríðarlega merkilegir hlutir í okkar augum, hlutir sem "venjulegt" fólk kallar vanalega argasta drasl. Eftir að hafa virt þetta mismerkilega drasl fyrir okkur góða stund lá leiðin upp með hesthúsahverfinu og upp að Kaldárseli. Mér sýnist raunar Áslandshverfið vera farið að flæða niður af hæðinni sinni og í átt að Heiðmörk. Líklega hverfur hið eldra hesthúsahverfið von bráðar undir blokkir og raðhús, en hið nýja mun væntanlega halda velli eitthvað lengur. Sumarbústaðahverfið í Sléttuhlíðinni hefur alltaf sinn sjarma, svona örstutt frá þéttbýlinu en þó út af fyrir sig - ennþá, a.m.k. Við ókum eins langt og leyfilegt var, og snerum við gamla fjárrétt við Kaldársel. Ofan við þessa rétt hefur fyrirhyggjusamur verkfræðingur hjá Hafnarfjarðarbæ ákveðið að þar í hrauninu væri góður staður fyrir brunahana. Þetta er eitthvert skýrasta dæmið um íslenska framsýni sem ég þekki - það mun eflaust ekki líða á löngu þar til þarna rís þétt íbúðabyggð. Þá verður auðvitað bráðnauðsynlegt að hafa brunahana.

Við áttum enn nokkuð eftir af ónotuðum tíma. Veðrið var þokkalegt svo við ákváðum að renna inn að Höskuldarvöllum. Ókum sem leið lá vestur Reykjanessbrautina (tvö ess, fyrrihlutinn er í eignarfalli, ekki satt?) og að slaufunni við Vatnsleysustrandarvegamótin (27 stafir). Vegslóðinn inn að Höskuldarvöllum er þokkalega fær öllum hærri bílum en tæplega fyrir fólksbíla. Það mátti sjá mikið jarðrask úti í hrauninu nærri veginum vegna vegaframkvæmdanna undanfarið. Einnig liggur vegslóði meðfram háspennulínunni og innar á nesinu er geysistór eldri efnisnáma sem ekki hefur verið jöfnuð út eftir notkun og er öll hin óhrjálegsta. Við ókum framhjá nokkrum slóðum til beggja handa sem lágu eitthvert út í hraunið til óvissra endastöðva.

Það er greinilegt að sá sem gaf Keili nafn hefur komið að norðan. Séð bæði úr austri og vestri virðist hann aðeins ómerkileg og ólöguleg öskuhrúga þó úr norðri myndi hann tignarlegt kennileiti í Reykjanessfjallgarðinum (sem á köflum er líkari tanngarði en fjallgarði)
Þegar inn að Höskuldarvöllum kom mátti víða sjá hjólför eftir bæði torfærumótorhjól og jeppa. Flest þeirra virtust þó í eldri kantinum og yfir hjólför sem lágu inn að Keili hafði verið sett lokunarmerki, greinilega að marggefnu tilefni. Við skiltið hafði verið útbúið þokkalegt bílastæði. Frá því lá svo sæmilegur vegslóði suður fyrir vellina og að hitaveitumannvirkjum í eigu Hitaveitu Suðurnesja. Á leið þangað var svo ekið fram hjá enn einni námunni þar sem hlaupið hefur verið frá jarðraskinu ófrágengnu.
Við hitaveitumannvirkin endaði slóðinn við malarplan með lokunarskilti. Á planinu voru tveir gámar og ein stór borhola með lokubúnaði sem heitt vatn vætlaði úr. Þarna sunnan við Höskuldarvellina og Trölladyngju eru allnokkrir hólar og hæðir og við sáum vegspotta liggja frá planinu upp milli þeirra og í hvarf við mikinn gufumökk. Við máttum til með að kanna hvaðan þessi gufa kæmi og laumuðum okkur þangað á jeppanum.
Handan hólanna gat að líta enn meiri mannvirki. Stór borhola þar sem upp virtist streyma gufa með töluverðu afli. Gufan virtist svo þéttast í stórum tanki og úr honum seytlaði c.a. 60-70 gráðu heitt vatn niður í tvö lítil kassalaga ker og þaðan niður á jörðina.

Við veltum fyrir okkur þessum mannvirkjum, kostnaðinum við þau og raskinu sem hafði fylgt þessum borunum sem svo á endanum virtust ekki gagnast neinum, það voru engar lagnir sjáanlegar frá þessum stað til mannabyggða.
Í bakaleiðinni ókum við inn á einn þeirra spotta sem við höfðum farið framhjá. Hann lá í vestur, inn að enn einum efnistökustaðnum, þar virtist aðallega hafa verið rótað við jarðvegi en ekki mikið efni tekið. Við tókum eftir einhverjum ljósum dílum sem ekki pössuðu við svart umhverfið og ókum dálítið lengra. Ljósu dílarnir reyndust vera afsag af stórum trébitum. Okkur datt í hug sperruendar úr einhverri timburhússsmíði, eða eitthvað viðlíka. Af þessum bútum voru nokkrir fullir svartir ruslapokar á staðnum en úr sumum hafði dreifst. Við reyndum að skilja hvað það væri sem ræki menn í erfitt ferðalag langt inn í hraun til að losa sig við timburúrgang í stað þess að fara einfaldlega með hann í Sorpu. Komumst ekki að niðurstöðu.
Ókum til baka út á aðalslóðann áleiðis að Reykjanessbrautinni. Stuttu síðar freistaði okkar annar vegslóði sem lá í gagnstæða átt við þann fyrri. Þessi reyndist alllangur, og hroðalega erfiður yfirferðar. Það var greinilegt að hann hafði ekki verið farinn oft eftir að hann var ruddur, en tilgangurinn var ekki ljós og hann vildum við finna. Eftir að hafa jaskast óralengi, að okkur fannst, komum við að litlu malarplani. Á því mátti sjá nokkrar brotnar leirdúfur, töluverðan fjölda haglaskota og í miðju planinu stóð eitt sirka tveggja tommu vatnsrör hálfan metra upp úr jörðinni. Enn ein borunartilraunin sem hafði skilið eftir sig jarðrask sem aldrei myndi jafna sig, enn einn vegslóðinn ruddur langt út í hraunið til einskis.


Við klöngruðumst til baka gegnum þetta einskismannsland. Það barst í tal að ef einhver vildi losa sig við kjötskrokk, tví- eða ferfættan væri þetta sannkallað kjörlendi. Við svipuðumst um eftir Geirfinni og Guðmundi, rýndum út yfir hraunbreiðuna og viti menn! Á einum stað glitti í eitthvað hvítt, sem ekki passaði við hraunmosann sem þarna þakti allt. Þetta mátti ekki láta óskoðað. Við stoppuðum bílinn og ég gekk yfir hraunið og mosann í átt að þessum hvítu dílum sem þarna voru á víð og dreif. Þegar nær dró sá ég að þetta voru bein. Ég hafði fundið Geirfinn!
Við lauslega athugun sá ég þó að fyrrum eigandi beinanna myndi hafa verið allstórvaxinn. Þegar ég hafði svo fundið bæði leggi og rif þóttist ég kenna þar stórgripabein. Ég gekk til baka til bílsins og við veltum fyrir okkur tilvist stórgripabeina þarna úti í kargahrauni þar sem varla var bílfær vegslóði nærri. Okkur datt í hug veljeppaakandi refaskytta, það var líklegsta skýringin sem við fundum. Málin áttu þó eftir að flækjast enn meir og verða dularfyllri.
Stuttu áður en komið var út á aðalslóðann aftur tók ég eftir einhverju brúnu í hraungjótu skammt frá veginum. Það virtist vera einhvers konar brúnmálaður kassi. Enn var stoppað og ég gekk af stað. Kassinn reyndist vera einhvers konar skápur, mögulega gamall stofuskápur. Á framhlið hans höfðu verið tvær glerhurðir. Skápurinn virtist hafa verið borinn þarna út í hraunið og fleygt niður í laut. Við það höfðu glerhurðirnar brotnað og brotin lágu í mosanum undir og við skápinn. Það hafði sannarlega ekki verið áhlaupsverk að koma þessum skáp á þennan stað, og ekki auðvelt að gera sér grein fyrir tilganginum. Það var hins vegar fyrst þegar innihald skápsins var skoðað, að mig rak í rogastans. Í honum lágu einhvers konar teppadruslur og önnur klæði ásamt heilum helling af beinum! Í fljótu bragði sýndust mér vera í honum beinagrindur af þremur allstórum fuglum. Eins og áður sagði höfðu verið tvær glerhurðir að framan og í bitanum milli þeirra voru tvö ljósaperustæði. Í öðru stæðinu var blá pera en hvít í hinu. Það var hreinlega ekki nokkur lífsins leið að geta sér til um hvað þetta hafði verið. Helst datt okkur í hug einhvers konar útungunarapparat en hvað hafði rekið eiganda þess til að ferja það alla þessa leið um hreinar torfærur til að losa sig við það var algerlega lokuð bók. Það hafði þurft háan fjórhjóladrifinn sendibíl, eða pallbíl til að ferja þessi ósköp og a.m.k. tvo hrausta menn til að bera skápinn svo langt út fyrir vegslóðann og í hvarf. Það var ekkert þarna í kring sem benti til einhverrar starfsemi af neinu tagi, aðeins hraunið, mosinn – og skápurinn.

Við héldum til baka út á aðalslóðann og þaðan út á Reykjanessbrautina. Brutum heilann um allar þær spurningar sem höfðu vaknað í ferðinni. Enn hefur engin niðurstaða fengist.

Frá 23.10.´06 

Hájúdú??

Þetta pistilkorn er myndtexti fenginn að láni af vefsíðu sem ég les stundum. Alveg bráðskemmtilegt. Ég vinn að íslenskri þýðingu textans en tillögur eru vel þegnar.
Ég veit um mann sem kaupir sér einn á 44 t til að komast í Setur og þótti súrtt að regast á malbigsrottu upp í Setri á lagskóm og var ekki með króg á framann og létt Reykjavíkur loftið vera í dekkum. En þessi á 44 túttnum þurti króga sig allan og fá 49 t til að filga sér til bigða og sumir hafa vitt til að snúa við en aðrir ekki. ( xxxxx þú ert bara bestur á öllum sviðum ) he he
kv,,,XXX
Svo mörg voru þau orð ( í það skiptið)

Frá 21.10.´06 

Keilir.

Já, hárrétt. Hér mun koma smápistill um Keili. Ekki er það þó Keilir AK 27, ekki Keilir GK 145, ekki Keilir RE 37 (sem þó væri pistils verður vegna fortíðar sinnar sem hinn margfrægi Einar Benediktsson BA 377. Það muna eflaust margir ennþá eftir því ævintýri þegar hann var fluttur inn, í trássi við lög og reglur, vildu margir meina. Varðskip var sent honum til höfuðs en skipstjórinn laumaði sér ljóslaus fram hjá Gæslunni og sigldi sína leið. Að lokum kom kerfið þó krumlum sínum yfir togarann með eftirfylgjandi málaferlum og nauðungasölum. Hann siglir ekki lengur íslenskan sjó) Ekki heldur um síðutogarann Keili GK 3, sem síðar hét Síríus RE og naut þess vafasama hlutverks að vera rónabæli í Reykjavíkurhöfn þegar útgerðarsögu hans lauk.
Nei, gott fólk! Þessi væntanlegi pistill mun fjalla um fjall. Ef þá fjall skyldi kalla, því Keilir er jú ekkert annað en ómerkileg hundaþúfa, að mati þess sem alinn er upp "- í faðmi fjalla blárra". A.m.k. virkar þetta svokallaða fjall ekki öðruvísi þegar maður nálgast það. Nóg um það í bili. Þarf að stunda bílskúrinn í dag því "litla-Berg" er komin út í kuldann í bili meðan aðkallandi verkefnum, sem krefjast bílskúrspláss´s, er sinnt. (þetta enska eignarfalls-ess er sett þarna af því mér fannst það svo flott). Þar til síðar.....

Frá 17.10.´06 

Co-op


Hann heitir Ágúst Örn og er afrakstur dansk-íslenskrar samvinnu. Fæddur í Danaveldi af danskri móður en framleiddur af íslenskum föður. Efnilegt ungmenni ef marka má bakgrunninn, foreldrarnir reglu- og sómafólk, enda sjálf komin af slíku fólki. (miðað við bakgrunnskenninguna hljóta efnileg börn að eiga vandaða foreldra. Og séð frá hinu horninu eignast vandaðir foreldrar efnileg börn. Líkurnar í þá áttina hljóta í öllu falli að vera nokkuð sterkar (svigi lokast)) ((annar svigi opnast) Það er samt þannig með foreldar Ágústs Arnar að móðirin er hætt að vera efnileg, þar sem hún hefur lokið námi og hafið störf í sínu fagi. Maður hættir nefnilega að vera efnilegur þegar námi er lokið og starfsævin hefst. Eftir það er maður duglegur og farsæll starfsmaður á framabraut. Og það er mamma hans Ágústs Arnar svo sannarlega. Góðir barnakennarar verða alltaf eftirsóttir, jafnt í Danmörku sem á Íslandi.
Það er svo aftur allt annað með pabbann, hann Jón Þór. Hann var ákaflega efnilegur ungur maður og lærði rafvirkjun. Hann hafði hins vegar ekki fyrr náð almennilegum tökum á faginu en hann söðlaði algerlega um, flutti til Danmerkur og hóf nám í skógræktarfræðum, enda uppalinn í sveit og hefur alltaf hneigst frekar í þá átt. Nú, á fullorðinsaldri er hann semsagt aftur orðinn efnilegur! )(svigi lokast aftur))
Hverjar eru framtíðarhorfur drengs sem á foreldra með uppeldismenntun, hvort á sínu sviði? Í starfi barnakennara er fólgin gríðarlega mikil uppeldisfræði, enda unnið með einstaklinga í mótun. Og hvað er skógrækt annað en uppeldisfræði? Þar er unnið með viðkvæmar plöntur sem sýna þarf alúð og hlúa þarf að ef þær eiga að vaxa og dafna. Ég vil álíta að drengur með slíka kjölfestu í upphafi lífssiglingar sinnar hljóti að eiga afar góða möguleika á að verða nýtur þjóðfélagsþegn.
Þá er það enn ónefnt að vissulega á snáðinn tvö föðurlönd. Sem nemi við danskan háskóla verður faðirinn að vera fullfær í dönsku, og er það svo sannarlega. Sem þaulvanur kúarektor á íslensku sveitabýli talar móðirin óvanalega góða íslensku, af Dana að vera. (Ég hef nefnilega bara eina viðmiðun af Dana sem "talar" íslensku - eða ekki) Það er því engin spurning að drengurinn verður í framtíðinni tvítyngdur, jafnfær á bæði mál.
Það má sjá af myndinni hvert krókurinn beygist. Aðeins nokkurra vikna og strax kominn á traktorinn með vagn aftaní. Einbeittur og ákveðinn horfir hann fram á við en nýtur þess stuðnings sem þurfa þykir þegar við á.
Framtíðin er hans.

Frá 14.10.´06 

I, spy...


Ég þarf að gera játningu. Það sem ég þarf að játa hefur hvílt á mér eins og mara að undanförnu, en aldrei eins og nú, þegar umræða um símahleranir rís jafn hátt og raun ber vitni.
Fyrir mörgum árum, raunar áratugum, var ég starfsmaður Osts og Svima á Ísafirði. Þá eins og nú og oft áður vildi bera við að símnotendum fannst upphæð símreiknings óviðunandi, töldu að ekki væri rétt reiknað út eða einhver bilun væri í "þessu sjálfvirka dóti" sem taldi skrefafjölda símtalanna.
Þess ber að geta að á þessum tíma voru s.k. bæjarsímtöl allmiklu ódýrari en símtöl milli landshluta, langlínusímtöl töldust þó á lægra verði eftir kl. 20 á kvöldin og um helgar.
Í sjálfvirku símstöðvunum voru rekkar með eins konar kössum í lóðréttum röðum. Hver kassi innihélt hundrað litla glugga og í hverjum glugga var lítill teljari. Hvert símanúmer í stöðinni hafði sinn glugga, þau hundrað fyrstu efst, síðan næstu hundrað og svo koll af kolli. Stöðin á Ísafirði taldi í upphafi þúsund númer og á miðjum virkum degi framleiddu þessir teljarar hreint út sagt dómadags hávaða sem blandaðist öðrum smellum og skellum í rofum og snertum stöðvarinnar. Á nóttunni var eðlilega allmiklu hljóðlátara en þó mátti stundum heyra einhvern teljarann tikka hratt og reglulega. Mátti þá gera ráð fyrir að viðkomandi símnúmer væri tengt við útlönd. Með því að líta á teljarana mátti auðveldlega sjá úr hvaða númeri var talað. Þess ber svo að geta að þetta var fyrir tíma grænna númera, spásíma og klámlína.
Um hver mánaðamót voru svo teljararnir myndaðir. Það var gert með sérstakri myndavél, sem líktist í flestu venjulegri linsuvél, en framan á henni var áföst stór, ferstrend trekt. Á hverjum teljarakassa voru svo festingar sem myndavélin var hengd á og hundrað númer mynduð í einu. Eitt af hlutverkum okkar starfsmanna var að fara með myndavélina í stöðvarnar í Súðavík, Bolungavík, á Suðureyri. Flateyri og Þingeyri og mynda teljarana á þeim stöðum. Síðan var filman send suður og framkölluð í höfuðstöðvum Osts og Svima. Þar voru svo reikningarnir útbúnir í samræmi við þær tölur sem viðkomandi teljari sýndi á myndinni.
Þegar svo einhverjum notanda fannst ranglega reiknað eða teljarinn ofvirkur var stundum sett sérstakt apparat inn á númerið hans. Þetta apparat var kallað Njósnari og tengdist viðkomandi númeri með sérstökum búnaði. Njósnarinn hafði þá náttúru að skrá þau símtöl sem hringd voru úr viðkomandi númeri, í hvaða númer var hringt, á hvaða tíma sólarhrings og lengd hvers símtals. Þessum upplýsingum skilaði Njósnarinn frá sér á gatastrimli. Með því að bera upplýsingar strimilsins saman við teljara viðk. númers mátti sjá hvort um einhverja talningarvillu eða bilun var að ræða. Raunar kom það aðeins einu sinni fyrir á mínum starfstíma að bilun greindist í teljara. Í öðrum tilfellum reyndist um eðlilega notkun (eða ofnotkun) að ræða.
Við höfðum heyrt af því sögur að manni nokkrum syðra hefði tekist að sanna framhjáhald á konu sína með aðstoð starfsmanns stofnunarinnar og Njósnara. Slíkar sögur gengu öðru hverju en alltaf óstaðfestar, þó vissulega mætti koma auga á nokkra möguleika með notkun tækisins. Rétt er þó að taka fram að Njósnarinn skráði aðeins ofantaldar upplýsingar, en hafði ekki búnað til að taka upp eða hljóðgreina símtöl á neinn hátt.
Eftir að símahlerunarmál míns gamla skólameistara Jóns Baldvins, komust í hámæli hefur mér orðið æ ljósara að þetta athæfi sem ég tók þátt í vestra getur ekki flokkast sem neitt annað en örgustu símahleranir. Að vísu munu þeir sem "njósnað" var um, jafnan hafa verið meðvitaðir um að slíkt væri gert, en ég get ekkert fullyrt um hvort einhverjir vinnufélagar mínir á stöðinni hafi misnotað apparatið í eigin þágu eða vina sinna.
Ég játa....

Frá 09.10.´06 

Reykjavík hin nýja.

Skrapp í smáleiðangur í gærdag upp með Reynisvatni. Langaði aðeins að líta á byggingaframkvæmdirnar í dalnum. Þegar Grafarholtið fór að byggjast velti ég því fyrir mér hvaðan þeir ætluðu að fá fólk í öll þessi hús. Það virðist þó hafa tekist að mestu og ekki seinna vænna að byggja annað hverfi. Göturnar eru komnar, a.m.k. nokkrar þeirra, og fljótlega koma þeir svo með stóru pokana sem á stendur: "Instant house - Just add water" Í leiðbeiningunum stendur svo: "For better results, and bigger house, use two or more sacks and more water" Svo setja þeir allt saman í stóra hrærivél og hella á jörðina. Þess vegna sér maður nýja blokk í hvert skipti sem maður ekur framhjá.
A.m.k. gæti maður haldið að þetta gengi svona fyrir sig, svo hratt ganga þessar hverfabyggingar. Ég hélt áfram upp með Reynisvatni. Þar framan við, á Geithálssvæðinu eru nokkrir sumarbústaðir. Sumir þeirra eru gamlir og aflóga, á einum stað má þó sjá snyrtilegan bústað þar sem eigandinn hefur byggt sér kirkju til eigin nota. Er nokkuð viss um að hún er heimasmíðuð en er ekki sóknarkirkja eins eða neins.
Á öðrum stað má sjá glænýjan, gríðarstóran bústað. Hvað skyldi eigandi hans hafa hugsað? Byggðin verður komin til hans eftir svo sem fimm ár, með sama áframhaldi.
En kannski er hann svo heppinn að bústaðurinn sé á sprungusvæði, svona eins og var með Rauðavatnssvæðið forðum, og íbúðabyggð verði þ.a.l. ekki skipulögð lengra uppeftir en orðið er. Mig minnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafir barist með oddi og egg gegn byggingum við Rauðavatn á þeirri forsendu að þar væri stórhættulegt sprungusvæði. Til glöggvunar þá er það sama svæðið og nýja Moggahöllin stendur á.

Frá 07.10.´06 

Fjörður Láfa.

Þegar einhverjum fyrir sunnan fannst tími til kominn að Ólafsfjörður kæmist í vegasamband tóku menn sér skóflu í hönd og gerðu veg um Múlann. Þeir urðu raunar að fara skrambi hátt fyrir til að sleppa ofan við klettabeltin sem rísa lóðrétt úr sjó upp í miðja hlíð. Þegar þeir höfðu svo pælt grjótið og gert akfæran veg enda til enda sagði einhver - líklega hefur hann líka verið fyrir sunnan, allavega verið ættaður þaðan-: "Strákar, er þetta ekki tómt helvítis rugl? Hefði ekki verið betra að fara bara í gegnum fjandans fjallið?"
Svo þeir tóku verkfærin upp aftur og byrjuðu að moka og sprengja og moka og sprengja. Að endingu náðu þeir í gegnum fjallið, vegurinn var opnaður en röndin í fjallinu ofan klettabeltisins markar enn minninguna um skortinn á hugmyndafluginu, í útlöndum voru menn fyrir löngu farnir að gera göt gegnum heilu fjallgarðana. Hér heima datt engum í hug að spyrja þá sem þar komu að verki, ekki fyrr en löngu síðar. Vegurinn sem lagður var um hlíðina á sama tíma og framsýnni menn í útlöndum fóru gegnum hlíðarnar gagnast nú aðeins að litlu leyti, til útsýnis og gönguferða.
Nú, þegar þeir hafa hækkað, lækkað, breikkað og malbikað Óshlíðina eru þeir loks farnir að spá í göng gegnum hana. Eftir allar lækkanirnar, hækkanirnar, breikkanirnar og allt malbikið er hlíðin ofan vegarins nefnilega enn á sínum stað - og enn hrynur jafn mikið úr henni niður á veginn. Grjótið sem kemur niður hlíðina á kannski auðveldara með að hitta fólk og farartæki á breiðum vegi heldur en örmjóum. Þeir gerðu rispur í hlíðina ofan vegarins, einskonar stalla, sem áttu að taka við grjóthruninu. En hlíðin er snarbrött, grjótið kemur yfirleitt fljúgandi niður hana, yfir stallana. Þessar stölluðu rispur, eða rispuðu stallar stöðva heldur ekki snjóflóð. Þess vegna liggur vinur minn og vinnufélagi úr Vélsmiðjunni Þór, í þaragróðrinum einhversstaðar fram af hlíðinni, nú líklega aðeins bein í kuldagalla.
Hversvegna í andskotanum gerðu þeir ekki göng gegnum Óshlíðina fyrir áratugum. Við búum í miðju Atlantshafinu, mitt á milli Evrópu og Ameríku. Í báðum álfum voru menn að gera jarðgöng á svipuðum tíma og vegurinn um Óshlíð var lagður. Við Íslendingar vorum hins vegar enn að leggja hestaslóða.
Ég stóð framan við húsið hennar Lólóar frænku við Hornbrekkuveginn á Ólafsfirði og horfði beint inn í stálið hinu megin fjarðar, þar sem munni Héðinsfjarðargangna mun koma. Opið er nánast beint upp af norðurenda gömlu flugbrautarinnar, inni í bænum að kalla.
Ég hugsaði: " Á Íslandi eru nú þegar allnokkur veggöng. Þetta eru hins vegar aðeins önnur göngin sem lögð eru þar sem enginn vegur er fyrir. Aðeins í Arnarneshamri við Álftafjörð vestra hefur slíkt verið gert áður. Það var vegur um Múlann, vegur um Oddsskarð, Hvalfjörð, Almannaskarð, Siglufjarðarskarð. Milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar hefur aldrei verið verið vegur. Ekki heldur milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar . Það hefur mátt klöngrast milli Sigló og Ólafsfjarðar yfir hásumarið um Lágheiði. En um Lágheiði er ekki vegur, aðeins troðningur. Héðinsfjörður hefur aldrei verið í vegasambandi, aðeins sjósambandi. Eina flugferðin þangað á landflugvél var farin í ógáti í þokuvillu með sorglegum endi".
Lóló frænka var því miður ekki heima. Ekki Kiddi heldur. Kannski hafa þau haft veður af komu vitleysingsins að vestan og náð að forða sér í tíma. Hvað veit ég?
Ég var orðinn svangur og þyrstur, svo ég fór í matvöruverslunina á staðnum og keypti mér appelsín og kleinupoka. Ók síðan niður að smábátahöfn og drakk appelsín og át kleinur þar sem trillurnar rugguðu við bryggju. Plastbátar og súðbyrtir trébátar í bland. Súðbyrðingarnir eru óðum að hverfa og mér fannst það tímanna tákn þegar allt í einu birtist stór vörubíll með krana. Meðan ég saup á appelsíninu og át kleinu sló bílstjórinn stroffu á sirka þriggja tonna trétrillu sem stóð í uppsátrinu á bryggjunni, og hífði hana upp á pall. Þetta var laglegasta trilla, hvítmáluð með grænan botn. afturbyggð með lúkar framanvert, en stýrishúsið hafði verið fjarlægt, líklega til að ná vélinni úr. Ég fylgdi af forvitni í humátt eftir vörubílnum þar sem hann ók að stórum spýtnabing í sandinum fyrir miðjum fjarðarbotni. Þar sturtaði hann trillunni af. Ég giskaði á að þeir Ólafsfirðingar væru að safna til áramótanna. Skyldi Evrópusambandið verða búið að banna brennur á Íslandi fyrir áramót eða ætli við sleppum með eina enn? Allavega, ef þeir í Brussel verða búnir að banna brennur fyrir 31.12. nk. má finna ágæta trétrillu í brennunni á Ólafsfirði. Hann hafði snúið henni þannig á pallinum, bílstjórinn, að hællinn sneri fram og því sturtaðist hún á stefnið í sandinn og hefur líklega lent óskemmd. Svona fara þær, gömlu trétrillurnar, þegar veiðiverkefnunum lýkur. Fáir treysta sér til að eiga þær sem hobbý, enn færri kunna að halda þeim við. Þeir fáu sem það kunna ennþá, eru orðnir of gamlir til að geta það. Plastbátarnir taka yfir. Bátar úr náttúrulausu efni.
Það var komið fram yfir miðjan dag. Ráðstefnunni á Akureyri átti að ljúka hálf fjögur svo ég lagði af stað inn eftir aftur. Fékk mér göngutúr í þartilætlaðri götu á Akureyri og reyndi að ná símasambandi við konuna. Það tókst ekki en ég tók eftir að göngugatan fylltist af konum sem augsýnilega höfðu verið á ráðstefnunni. Það lá að, mín bara á kjaftatörn með slökkt á símanum!
Ég gafst upp fyrir norðlenskum kuldagjóstri sem hafði kynnt komu sína um síðdegið. Settist upp í bílinn og ók inn að Grund. Skoðaði kirkjuna utanfrá, þvílíkt listaverk!
Þá hringdi konan. Var kominn til húss og búinn að hella uppá. Bauð mér kaffi sem ég þáði. Við lukum svo deginum á veitingastað í hjarta Akureyrar. Lögðum af stað suður rétt fyrir hádegi á sunnudegi í sama sólskininu og daginn áður. Heimferðin var tíðindalaus.

Frá 02.10.´06 

Út með firði.

Eins og áður var að vikið lá leiðin til Dalvíkur. Þega ég ók þar í gegn fannst mér upplagt að líta á bryggjuna, það var svo sem óvíst hvaða tíma maður hefði til þess á inneftirleiðinni. Ég rak augun í nótabát, sömu gerðar og "litlu-Berg" í bílskúrnum. Þar sem ég hef tekið myndir af þessari gerð báta hvar sem ég hef fundið þá, fannst mér gráupplagt að mynda þennan. Hann stóð á landi upp af smábátahöfninni, heiðgulur að lit og að sjá í mjög góðri hirðu.


Við hlið hans stóð allmiklu stærri frambyggður trébátur og um borð í honum var maður að vinna. Ég tók mér stöðu og mundaði símann. Maðurinn gaf mér auga svo ég bauð góðan daginn og kynnti erindið í fáum orðum. "Já, svona er þetta, meðan sumir byggja upp eru aðrir að rífa niður” sagði maðurinn og það virkaði þungt í honum hljóðið. Ég tók allt í einu eftir því að báturinn hans var allslaus, allur búnaður á brott, tæki og þess háttar.
Ég spurði hvort hann væri að henda bátnum. Jú hann kvað svo vera, þó ekki hefði það verið ætlunin. “Við keyptum þennan bát í vor af mönnum sem við héldum að væru vinir okkar. Hún náði nú ekki upp úr veskinu, sú vináttan” , sagði hann og var greinilega mikið niðri fyrir. Meðan hann talaði sá ég að stefnislykkjan, járnlykkja sem boltast fremst á kjölinn við mót stefnisins og notuð er til að draga báta á land, var rifin laus úr viðnum, sem virtist kássufúinn. “Það var mikið gengið eftir því að við fullborguðum bátinn áður en hann væri sjósettur” hélt hann áfram. “Þegar það var svo gert reyndist hann svo hriplekur að við höfðum rétt misst hann niður hvað eftir annað. Rafgeymarnir voru stöðugt tómir því dælurnar gengu nær stöðugt. Þegar við tókum hann á land til að skoða og reyna að þétta var hann svo fúinn að framan að lykkjan rifnaði úr honum. Seljendurnir sögðu bátinn í fínu standi en þeir vissu að hann var ónýtur, þess vegna vildu þeir fá hann borgaðan strax. Við höfðum ekki þekkingu til að sjá þetta en það var uppáskrifað að við hefðum keypt bátinn í því ástandi sem hann var. Það var ekkert hægt að gera”.
Maðurinn var afar sár, sem vonlegt var. Fleytan var virkilega falleg, hafði greinilega verið mikið tekin í gegn ofantil, hástokkar, lunningar, lúkar og stýrishús voru nýleg og trefjaplastað yfir allt. Við kaupin hafði báturinn greinilega fyrst og fremst verið dæmdur eftir útlitinu, þekkingarskortur hafði hamlað skoðun á því sem raunverulega skipti mestu máli – skrokknum sjálfum, borðum, böndum og saum. Því hafði farið sem fór.
“Við settum auglýsingu í hann á Fiskideginum. Það kom hingað maður sem nýverið hafði keypt bát austur á landi eftir uppboð. Sá bátur reyndist rúinn öllum tækjum og búnaði svo hann keypti það af okkur. Nú er ég að reyta það síðasta úr skrokknum en síðan á hann að fara hér upp á barnaleikvöll. Síðan er bara að líta í kringum sig eftir einhverri fleytu. Líklega fer maður í plastið”
Mér datt í hug að nefna við hann nótabát úr plasti sem ég veit um í reiðileysi úti á landi og hef jafnvel loforð fyrir. En ég gerði það ekki. Þóttist viss um að hann myndi finna þokkalega fleytu á svæðinu. Ég kvaddi manninn og óskaði honum góðs gengis. Þegar ég gekk til bílsins rak ég augun í enn einn nótabátinn þar sem sá vaggaði við bryggjuna í sólskininu, rauðmálaður, óyfirbyggður. Ég tók upp símann og hringdi eina mynd.

Leiðin lá til Ólafsfjarðar

Frá 29.09.´06 

Við sama hornið á heygarðinum.

Það var ræs fyrir kl. 8 sl. laugardagsmorgun. Konan var á leið á ráðstefnuna í H.A. sem skyldi hefjast kl. 9 og því ekki til setunnar boðið. Eftir að hafa skutlað konunum á staðinn átti ég daginn fyrir mig. Ég byrjaði á kaffiheimsókn til Óla frænda og Abú.(Óli frændi er raunar ekki frændi minn heldur konunnar, en sá sem er frændi er bara frændi skv. minni skilgreiningu. Þess vegna er Óli frændi bara Óli frændi) Óli frændi heitir annars Ólafur Sveinsson og er myndlistarmaður og -kennari við grunnskóla á staðnum. Hann er einnig mikill bifhjólaáhugamaður og hefur gert upp þónokkur gömul hjól og er alltaf með nokkur undir í einu. Eitt þeirra sem eru í endurbyggingu þessa mánuðina er risastórt BMW hjól sem mun vera eitt fyrsta lögregluhjól á Akureyri. Það er alltaf upplífgandi að heimsækja Óla frænda og Abú, Aðalbjörgu dýralækni sem raunar var ekki heima að þessu sinni..
Eftir kaffi og meððí hjá Óla var kominn tími á bryggjuna. Þeir voru mættir, karlarnir, enda einmunablíða og nægur fiskur í firðinum. Tveir stóðu á flotbryggju og spjölluðu við þann þriðja, sem kominn var um borð og bjóst til brottfarar. Farkosturinn ævagamalt trilluhorn sem þó virtist í besta standi og hirðu. Ég hinkraði álengdar og beið þess að sett yrði í gang. Þegar það svo gerðist, mátti heyra kyrrðina rofna af skellum tveggja strokka Mannheim sleggju, sem líklega var álíka gömul og báturinn, ef ekki eldri. Sá gamli leysti frá og lagði af stað út úr höfninni. Ég fylgdist með. Hann sigldi áleiðis að hafnarmynninu, en stoppaði svo allt í einu, sneri við og kom á fullri ferð að bryggjunni aftur. " Ég hlýt að vera orðinn eitthvað ruglaður, að gleyma beitunni" drundi í karli um leið og annar þeirra sem á bryggjunni höfðu staðið rétti honum poka innyfir borðstokkinn.
Mér fannst þetta dálítið merkilegt, en um leið lærdómsríkt. Þarna var karl sem greinilega hafði ekkert sérstakt athvarf á bryggjusvæðinu, s.s. skúr eða beitingaaðstöðu. Hann geymdi greinilega sína beitu í frystikistunni heima og mætti með hana til báts þegar gaf á sjó. Þíddi síðan upp og beitti uppstokkaðan línustubb meðan á útstíminu stóð. Hundrað krókar voru yfrið nóg fyrir þessa karla sem fyrst og fremst stunduðu veiðar sér til ánægju og heilsubótar. Eftir að hafa fengið pokann sinn setti sá gamli á fulla ferð aftur og var von bráðar kominn áleiðis út á fjörð.
Eftir gott spjall við svipað þenkjandi menn kvaddi ég og hélt út með firði, áleiðis til Dalvíkur. Næsti pistill mun því verða beint framhald í sama dúr.
Ég er farinn upp í Stykkishólm í síðustu ferð sumarsins á húsbílnum. Hann verður svo settur á hús í næstu viku.

Frá 26.09.´06 

Myndavél / sími.

Í asanum við að komast af stað norður á föstudaginn gleymdist myndavélin! Þ.a.l. hafði ég aðeins símann minn til að taka minningar á, og úr honum koma frekar grófar myndir. Það má því búast við að þegar fram í sækir muni maður þessa ferð aðeins í grófum dráttum.
Ég kíkti á Mána. Máni er ein þeirra fleyta sem við höfum átt gegnum árin. Þessi bátur, sem eitt sinn bar af öðrum í hirðu, þegar karl faðir minn var upp á sitt besta í nostrinu, grotnar nú niður í hirðuleysi við smábátahöfnina. Þvílíkar stundir sem eigandinn gæti átt á lognkyrrum Eyjafirðinum ef hann aðeins hefði burði til að halda bátnum í standi. En því er ekki að heilsa.
Þrátt fyrir allt er Máni þó óskemmdur, og að mestu eins og hann var þegar hann var seldur að vestan. Það sem laga þyrfti er flest smávægilegt. Húsið á þessum bát smíðuðum við Kjartan Hauksson kafari, í Vélsm. Þór hf. á Ísafirði, þar sem við unnum báðir. Ég sprautaði það samlitt bátnum árið ´90 og enn er ekki að sjá neina misfellu í lakkinu. Þeir bjuggu til góð efni á þeim árum.

Frá 24.09.´06 

Um hjartarætur!

Það er ekki laust við að manni hlýni um hjartarætur þegar maður sér svona fallega fleytu nefnda í höfuðið á manni. Að vísu sýnist mér þessi ekki hafa verið í notkun um nokkurt skeið, jafnvel óvíst að um frekari notkun verði að ræða. Það eru því kannski síðustu forvöð að virða fyrir sér bát með mínu nafni á. Kannski verður þetta skip horfið þegar ég á leið til Akureyrar næst
Þetta er tæplega algengt bátsnafn. Man ekki eftir því að hafa séð það fyrr á fleytu.
Ég minni á að fegurð er ákaflega afstætt hugtak. Eflaust hefur eiganda fleysins, eða þeim sem smíðaði stýrishúsið, þótt það fagurt. Ég er þess vegna tilbúinn til að skrifa upp á þá skoðun, eingöngu vegna nafnsins.

Frá 21.09.´06 

Halló Akureyri!

Eftir vinnu á morgun liggur leiðin til Akureyris! Maður er rétt kominn heim,vinna í tvo daga og svo aftur af stað. Ég ætlaði raunar að fara þessa ferð á Hundæðinu en asnaðist til að auglýsa hann áður en ég fór vestur og hann seldist nánast um leið. Ég varð að flýta brottför að vestan því það var beðið eftir bílnum hér syðra!

Við verðum því að fara á grjóninu konunnar. Er bölvanlega við að fara á honum út á land, svo lítill er hann. Það var nú líka ákveðið á sínum tíma að halda kílómetratölunni á honum í lægri kantinum, en nú liggur fyrir ríflega þúsund kílómetra rúntur norður í land, á einhverja leikskóla/uppeldismálaráðstefnu hjá HA. Meðan konan situr ráðstefnuna fer ég líklega á smábátabryggju þeirra Akureyringa, og fæ mér svo hring út í Ólafsfjörð. Þar á ég rætur og ætla að athuga hvort enn sjáist í þær.

Hef lagt inn pöntun á góðu veðri.
P.S.: Jeppinn með dráttarkrókinn og biluðu vélina var settur í gang í kvöld. Eftir að hafa notað lungann úr gærdeginum til að hluta sundur vélina, skipta um ónýta hluti og setja saman aftur, var komið að prófun í kvöld. Það rigndi raunar svo stíft í gærkvöldi að síðari hluti samsetningar beið þar til vinnu lauk í dag. Við prófun reyndist vélin ganga óaðfinnanlega, hvað sem síðar verður. Kostnaður við vélarviðgerðina nam kr. 4200.00 - fjögurþúsundog tvöhundruð.

Frá 20.09.´06 

Heima á ný.

Ég var að heyra sannkallaða furðufrétt í útvarpinu. Skv. henni hafa "fulltrúar" Nýs afls og Frjálslynda flokksins verið að funda undanfarið. Á fundunum hafa verið bornar saman stefnuskrár flokksins og hreyfingarinnar og rætt það sem á milli ber. Niðurstaðan er sú að þessi tvö "stjórnmálaöfl" munu verða sameinuð í einhverri mynd sem ég heyrði ekki vel hver skyldi verða.
Ég efa ekki að flokki eins og Frjálslynda flokknum muni verða styrkur að Nýju afli. Nýtt afl er, eins og allir vita, firnasterkt stjórnmálaafl sem nýtur ört vaxandi fylgis og virðingar meðal landsmanna. Frjálslyndi flokkurinn hefur undanfarið tekið mjúka vinstri beygju, ef marka má formanninn framsetta.
Framundan eru bjartir tímar í íslensku stjórnmálalífi. Við Íslendingar eygjum loks von! Von um að loks séum við raunverulega á leið til betra lífs. Sú leið er vörðuð tveimur máttarstólpum íslenskra stjórnmála sem eflaust munu sópa að sér fylgi í komandi kosningum. Annars vegar Adda Kitta Gauj, fulltrúa hinnar mjúku vinstri beygju (og annarra mjúkra lína) og hins vegar Jóni Magnússyni, fulltrúa Nýs afls, formanni þess, frambjóðanda og líklega eina skráða félaga.
Heill þeim, heill okkur!

Frá 14.09.´06 

Tonn af brotajárni-með krók

"Hi there! I´ve got the papers ready for you to sign" Þannig hljómaði upphaf símtalsins sem ég fékk í gærkvöldi. Ég sagði manninum að ég myndi hafa samband við hann í morgun og gerði það. Við gerðum út um kaupin á öldruðum Suzuki-jeppa með bilaða vél á bílaplani við Skúlagötu í ausandi rigningu. Ég tók númerin af á staðnum og lagði þau inn ásamt sölutilkynningunni klukkutíma síðar. Þar með var bílverðið strax komið í 35 þús. kall. Ég gaf mér sirka fimm mínútur til að líta á vélina og er nokkuð viss um að það er aðeins farin heddpakkning í henni. Einfalt og ódýrt mál að laga. Við sonurinn drógum hann heim fyrir myrkur í kvöld. Áður en við lögðum af stað smellti ég einni mynd af honum, þeirri fyrstu í röðinni "Fyrir og eftir" Takið eftir felgunum. Þær eru sirka 70% af útliti bílsins. Með vel útlítandi felgum eða góðum koppum ásamt vænni umferð af bóni má láta ljótustu druslu líta þokkalega út. Þessar felgur eiga eftir að taka stakkaskiptum (ásamt öllu hinu). Hann ætti að verða tilbúinn til notkunar síðari hluta október. Þá get ég flutt stóru bátakerruna sem ég smíðaði undir trilluna út í Kópavogshöfn eða í Hafnarfjörð þar sem hún getur staðið í geymslu án þess að taka hálfa innkeyrsluna hjá okkur.
Þessi jeppi er nebblega með krók!

Í fyrra málið fer ég vestur á fjörðinn fagra, Ísafjörð, í viku. Kannski kemst ég í tölvu þar, kannski ekki. Hver veit?

Frá 13.09.´06 

Bíló..

Mig langar að deila mikilvægu máli með einhverjum. Það getur verið ákaflega mikilvægt að kunna að yfirfæra sín vandamál á aðra, þó sú sé nú kannski ekki raunin í þetta sinn. Þetta er engu að síður ákaflega merkilegt og mikilvægt mál.
Þar sem strumpastrætó er nú dauður, er enginn bíll á heimilinu með dráttarkrók. Dráttarkrókur er ákaflega mikilvægt apparat fyrir þann sem sífellt vill standa í þeirri meiningu að hann sé að gera eitthvað og dandalast um allar trissur með kerru áfasta afturendanum því til stuðnings. Ég hafði samband við partasölu í Hafnarfirði og fann þar dráttarkrók sem passaði á Hundæðið. Á þessari aðgerð er hins vegar einn meinbugur. Hundæðið getur náttúrlega ekki dregið rassgat. Ekki svo að skilja að ég þurfi að draga slíkt, nema þá á eigin skrokki. En bíllinn er aðeins fislétt, framhjóladrifin innkaupakerra og ekki gerð til dráttar. Hann ræður ekki við að draga kerru fulla af mold, hvað þá trilluna, ef þess þarf.
Ég hef því svipast um eftir einhverju farartæki sem að gagni mætti koma án þess að kosta of mikið, og hef nú auglýst Hundæðið á netauglýsingum Moggans. Á sunnudaginn, á þeim sama miðli rak ég augun í Suzuki Vitara jeppa sem var sagður þarfnast lagfæringa og skoðunar. Ég hringdi.
Ég: Halló! Eig. Hello! Ég: Það er auglýstur Suzuki jeppi í þessu númeri. Eig: Do you speak english? Ég. A little bit. Hopefully enough - Eig: stutt þögn - what do you want to know? Ég: What needs repair? What´s the problem with the car? Eig: (sem auðheyrilega á ekki ensku að móðurmáli) I´m told that it´s the head-gasket. I´m not a specialist but I had one looking at it for me. Ég: Where can I see the car? Eig: Do you know Sölvhólsgata? It stands on a lot just between Sæbraut and Sölvhólsgata. It´s a white car, you´ll find it. I´ve removed the rear licence-plate but the other one is in place. The number is XX.- YYY
Við kvöddumst. Ég renndi niður í bæ til að líta á apparatið. Loks fann ég bílinn á stæðinu við Olísstöðina milli Skúlagötu og Sæbrautar. Þokkalegasti bíll, ekkert meira. Ég giskaði á að í lagi væri hann ca. 200 þús kr. virði. Bilaður svo til einskis virði. Ég beið mánudags og lét fletta upp bílnum hjá skoðunarstöð. Hann var með endurskoðun síðan í maí sl., aðeins smábilanir sem auðvelt og ódýrt væri að lagfæra. Fyrir utan heddpakkninguna. Af því að ég er bifvélavirki, þá veit ég að þessar eldri Suzuki vélar eiga til að tærast þar til gat kemur milli vatnsgangs og olíugangs. Við það hrærast vökvarnir saman í gráa eðju, vélin hættir að smyrja og kæla sig og eyðileggst að lokum. Ég athugaði með fáanlegar vélar og þær reyndust á verðbilinu 75 - 130 þús. Það sem einnig kom í ljós á skoðunarstöðinni var að bíllinn var skráður á tvo eigendur. Meðeigandi var einhver útlend kona búsett í Danmörku. Ég hringdi í bíleigandann. Spurði hann hvort vélin í bílnum blandaði olíu og frostlegi. Það vissi hann ekki. Ég útlistaði fyrir honum að sterkar líkur væru á að vélin væri einfaldlega ónýt. " I was afraid of that" var svarið. Ég spurði hvort vélin færi í gang. "Yes, but there is a lot of white smoke, truly a lot" Ég sagði honum aðí ljósi þess hvaða viðgerða bíllinn þarfnaðist gæti ég í hæsta lagi boðið honum þrjátíuþúsundkall. " I was hoping for forty" Ég sagðist ekki borga meira. "Okay, I´ll settle for thirty" Ég spurði hvort skráður meðeigandi væri innan seilingar. Hann sagðist vera eini eigandinn. Ég benti honum á að ég hefði rétt áður athugað með skráninguna og þar væri kona skráð meðeigandi. Svarið kom eftir augnabliksþögn: " Oh shit! That´s my ex-girlfriend" Ég sagði honum að hún myndi þurfa að samþykkja sölu á bílnum með undirskrift. " Oh shit! I really don´t want to talk to her" Ég spurði hvort hún byggi hér á landi. Hann sagði hana búa í Danmörku og kvaðst mundu reyna að ná sambandi við hana og fá hana til að senda einhvers konar skeyti eða umboð. Það ætti að vera vandalaust því hún ætti ekki bílinn og hefði ekkert með hann að gera.
Hann hringdi svo í mig í gærkvöldi og sagðist ekki hafa náð sambandi við sína fyrrverandi. "But, if I don´t get in contact with her within two days I´ll just get someone here to be my girlfriend for five minutes and sign the papers!
Ég sagði honum að hringja í mig þegar hann hefði undirritaða pappíra í höndunum. Um tilurð þeirra verður best fyrir mig að vita sem allra minnst.....

Frá 12.09.´06 

Beygla/bækur/bensín.

Hann klessti Skódann sinn illa, drengurinn. Keyrði aftan undir stóran jeppa, lenti á dráttarkúlunni og beyglaði og braut nánast allt framan á bílnum sínum. Jeppinn slapp óskemmdur, kvaddi og ók brott. Eftir stóð blankur háskólamaðurinn með bíl sem hann hafði lokið við að borga upp fyrir aðeins nokkrum dögum, nú stórskemmdan. Hann komst þó heim á bílnum en bar sig aumlega.
Ég hef áður búið til bíl úr þessum Skóda. Keypti hann á sínum tíma af Tryggingamiðstöðinni mikið skemmdan og gerði við hann úti í skúr. Ég var því nokkuð kunnugur framendanum, þó í þetta sinn væri skemmdin á hinu horninu.
Við notuðum laugardaginn í verkið. Lögðum Skódanum framan við húsbílinn og notuðum svo ferlíkið sem festu. Toguðum framendann í horfið með talíu og snyrtum svo til með nettari verkfærum. Húddið er ónýtt ásamt fleiru smálegu en það var lagfært eftir föngum og bíður þess að verða skipt út þegar réttir hlutir fást á partasölunum.
Hann fór að nota Skódann sinn aftur án þess að hafa lagt út krónu í varahluti. Nokkurn veginn hornréttan og hreint ekki svo ljótan, þó vissulega megi sjá brot og skálar í hlutunum sem á að henda þegar réttir fást í staðinn.
Hann varð svo glaður að um kvöldið kom hann færandi hendi til þess gamla. Hann vissi hvar áhugasviðið liggur, fór á bókamarkaðinn í WordClass húsinu og kom heim með þrjár bækur, ritröð eftir Ragnar Jónasson fv. bæjargjaldkera á Sigló. Siglfirskar þjóðsögur og sagnir/ Siglfirskir söguþættir/ Siglfirskur annáll.
Fyrir ekki löngu gáfu þau kærastan mér í afmælisgjöf Skútuöldina, fimm binda ritröð eftir Gils Guðmundsson.
Og ég sem ætlaði að smíða bát í vetur!
Ég var að henda strumpastrætó í gærkvöldi. Banamein hans var enn einn ótímabær heiladauði og nú var ákveðið að kaupa ekki fleiri heila í hann. Hann fór í Hringrás eins og hann kom fyrir – ekkert var tekið úr honum nema smávegis af persónulegum hlutum og svo geislaspilarinn.
Jú, raunar. Ég tappaði af honum hálfum tanki af bensíni og gaf háskóladrengnum á Skódann í þakklætisskyni fyrir bækurnar – og það að vera til......

Frá 06.09´06 

Bæir á Rauðasandi 1930 oflr.

Það fer dálítið drjúgur tími í að skrá þessa sögu eftir handriti Halldóru Ólafsdóttur frá Lambavatni, tengdamóður minnar. Ég er að reyna að ljúka þeirri vinnu sem fyrst og það bitnar á blaðrinu. Það má svo vera að ég setji þetta hér inn til hliðar þegar á líður.
Leó lánaði mér nokkrar bækur um sögu Siglufjarðar, sem ég hef verið að glugga í.
Við lestur bókanna kom m.a. í ljós að það voru Evanger- bræður sjálfir sem endurbyggðu hluta stöðvar sinnar á Staðarhólsengjum árið 1922, þremur árum eftir flóð. Verksmiðjan sjálf var ekki endurreist heldur söltunaraðstaðan, hluti bryggja og plana og nokkur smærri hús. Þessi stöð var rekin allmörg ár en síðan tekin niður.
Ekki hefur þetta stóra snjóflóð 1919 og allt það mann- og eignatjón er þar varð hindrað menn í að leggja í fjárfestingar á sama stað, enda hvorki hættu- né umhverfismat uppfundið á þeim tíma. Þarna hafa vegist saman áhættan við að endurbyggja á staðnum, þó í miklu smærri stíl væri, og svo hagræðið af því að nýta lóðina sem bræðurnir höfðu hvort eð var á leigu, ásamt steyptum landhluta bryggjanna og undirstöðum húsa og plana sem einnig voru til staðar. Í þeim steyptu hlutum sem enn stóðu eftir flóðið hafa verið fólgin mikil verðmæti - en því aðeins að þeim yrði komið í rekstur á ný, sem svo varð.
Gaman að pæla í þessu.......

Frá 04. 09. ´06 

Álftaver/Álftá

Það var ákveðið að loka verkstæðinu á hádegi sl. föstudag. Það var nefnilega komið að hinni árlegu veiðiferð í Álftá á Mýrum. Verkstæðið átti daginn frá kl. 15. og skyldi skila af sér á hádegi sunnudags. Ég er lítill stangveiðimaður, kýs stórvirkari veiðarfæri, eins og áður hefur komið fram. Stubban var harðákveðin í að koma með, eins og þrjú undanfarin ár. Við ákváðum að hæfilegt væri að leggja af stað á laugardagsmorgni, svona til að þeir vinnufélagar hefðu einhverja veiði til að monta sig af þegar við kæmum.

Þar sem verkstæðinu var lokað á hádegi föstudags hafði ég eftirmiðdaginn fyrir sjálfan mig. Var raunar ákveðinn í að sækja sundbuxurnar að Vík og taka einhverja hliðarslóða í leiðinni. Eftir að hafa sinnt aðkallandi verkefnum hér heima var lagt af stað. Veðrið var ágætt, sól og blíða vestast en heldur þyngdist er austar dró. Það tók slétta tvo tíma að aka að Vík og ég renndi að sundlauginni til að sinna erindinu. Ákvað síðan að nota veðrið og birtuna til að renna austur í Álftaver, hafði nefnilega aldrei komið þangað.

Mér fannst landið ekki ólíkt yfir að líta og í Flóanum. Endalaus slétta, tún við tún og móar á milli. Vegurinn lá í hring og bæirnir stóðu flestir í svipaðri fjarlægð frá honum. Við neðstu bæi stóð kirkjan. Engin venjuleg kirkja, heldur Þykkvabæjarklausturskirkja. Þarna heitir nefnilega Þykkvabæjarklaustur, þótt Þykkvibær sé einhversstaðar löngu vestar – þ.e.a.s. kartöfluþykkvibærinn. Ég stoppaði við kirkjuna. Hún reyndist ólæst og ég mátti til að líta inn.Kirkjan er í góðu ástandi og góðri hirðu. Látlaus sveitakirkja, dýrgripirnir geymdir undir plasthjálmi við hlið altarisins. Milliloft með nokkrum bekkjum.

Það var opið upp í kirkjuturninn, svo ég smellti mynd upp undir klukkurnar. Minntist þess þegar ég klifraði upp í kirkjuturninn í Grímsey til að sjá betur yfir þorpið. Á þessum turni voru port, ekki gluggar og því ekki hægt að sjá neitt út þaðan.


Ég rölti um kirkjugarðinn. Skoðaði legsteina og las lífsbaráttuna á þessum afskekkta stað úr ártölunum. Fæstir þeirra sem þarna lágu höfðu náð háum aldri. Nú á tímum hækkandi meðalaldurs teljast 65 -70 ár ekki hár aldur. Þarna mátti lesa aðra sögu.

Ég hélt til baka að Vík. Mér þótti orðið fullseint að nýta sundbuxurnar og skreppa í pottinn, svo ég fór á sjoppuna, keypti mér kvöldmat og hélt síðan heimleiðis. Tvívegis gerðist það á heimleiðinni að útlendingar á bílaleigu-yarisum þeystu fram úr mér. Minn hraði var þá u.þ.b. 110!

Það var gott að komast í bólið þegar heim kom. Laugardagurinn var tekinn frekar snemma, húsdrekinn gerður ferðaklár og lagt af stað upp að Álftá. Það var dýrlegt veður í Kópavogi en strax á Kjalarnesinu var kominn vindstrekkingur sem jókst í hálfgert hvassviðri undir Hafnarfjallinu. Þeir höfðu ekki aflað mikið, drengirnir af verkstæðinu. Einum fiski hafði verið landað þegar við komum á staðinn.

Við stubban völdum okkur stað rétt neðan við veiðihúsið, beittum maðki og létum liggja. Áin var steindauð. Stubbunni tókst þó að krækja í einn “fisk” undir kvöldið, og taldi sig þar með hafa jafnað hina þaulvönu veiðimenn.Hún vildi byrja snemma á sunnudeginum, en þegar leið á morguninn án þess að við yrðum vör fór hún að ókyrrast. Það varð því úr að við yfirgáfum piltana um ellefuleytið og ókum til Hvanneyrar. Stubbunni fannst gamla Hvítárbrúin svo merkilegt fyrirbæri að ég mátti aka ekki sjaldnar en þrisvar yfir áður en hún hafði skoðað nægju sína. Við gerðum svo góða ferð á Búvélasafnið.

Konur sem þykja stórar og miklar eru stundum kallaðar Katerpillarkonur. Þessi er að vísu ekki há í loftinu en hún hefur skapsmuni á við tvö suðuramerísk fótboltalið í ham. Þarna er lifandi komin hin eina og sanna Caterpillar-kona!

Ég fékk svo af mér eina mynd við Hanomag R12 dráttarvél árg. ´55. Svona vél, Hanomag R18 árg. ´58 gerði ég upp vestur á Ísafirði 1986. Hún var svo flutt með skipi norður til Furufjarðar á Ströndum ári síðar. Nýir eigendur þar náðu ekki að tengja sínar sálir við hina stórþýsku sál vélarinnar og því grotnar hún þar niður og bíður þess að verða að mold. Þau eru mörg forgengileg, mannanna verkin.
Eftir hefðbundinn Hyrnuís var svo haldið heimleiðis og deginum lokið við málningarvinnu

This page is powered by Blogger. Isn't yours?