<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

þriðjudagur, júní 27, 2006

Frá 27. 06 ´06 

Því miður, bókasafn!


Því miður, bókasafn!

Fullorðin hjón í götunni voru að minnka við sig húsnæði. Hann átti ógrynni verkfæra sem ekki voru fyrirsjáanleg not fyrir í framtíðinni. Vildi dreifa þeim meðal vina og kunningja. Ég var svo heppinn að teljast einn þeirra. Mætti á staðinn, gramsaði og er allnokkrum gæðaverkfærum ríkari á eftir.
Á meðan ég fór yfir verkfærin rak ég augun í bókakassa á bílskúrsgólfinu. Spurði og fékk þau svör að í kössunum væru bækur sem safnast hefðu að þeim hjónum gegnum árin en ekki væri rúm fyrir í litlu þjónustuíbúðinni í Sunnuhlíð. Ég bað um leyfi til að yfirfara kassana.
Að endingu var það minnihluti bókanna sem verður færður bókasafninu í Kópavogi. Vænan meirihluta bar ég heim til mín og kom fyrir í nýju bókahillunum á háaloftinu. Þær hillur eru raunar þegar að verða of litlar, svigna undan sívaxandi bókafjöldanum. Það dró heldur ekki úr þegar ég tók upp á því að halda til haga öllum ferða- og kynningarbæklingum sem við höfum nælt okkur í á ferðum innanlands. Bæklingarnir eru flokkaðir í möppur eftir landshlutum, og eftir hverja ferð á húsbílnum fjölgar í möppunum...
Ég greip á dögunum bók úr safni gömlu hjónanna. "Klárir í bátana- Torfi á Þorsteini RE 21" var titillinn. Ég kannaðist vel við bókina, hef líklega blaðað í henni á árum áður. Í henni er m.a minnst á afa minn, skipstjóra á Ísafirði, og farið um hann góðum orðum. Bókin hefur nú legið ósnert nokkra daga vegna "hissmisstarakeppninnar" en var tekin fram í gærkvöldi og ég lauk lestri hennar undir leik Úkraínu og Sviss, sem verður að teljast einhver alleiðinlegasti fótboltaleikur keppninnar það sem af er.
Endurnýjuð kynni af Torfa Halldórssyni skipstjóra, sem upphaflega átti að heita Halldór og vera Torfason, siglingaferli hans og samferðamönnum réttlættu tímasóunina.

Frá 23. 06 ´06 

Skipulagt öfundarferli.


Skipulagt öfundarferli.

Kona sem taldi sumarið komið þann 21. og standa enn þann 22., öfundar fólk sem er skipulagt. Ég er skipulagður. Þ.a.l. hlýt ég að vera öfundaður. Það er ljótt að öfunda fólk. Það er hins vegar skratti góð tilfinning að vera öfundaður.
Í mínu skipulagi felst heimild til að endurskoða og breyta skipulaginu hvenær sem hentar. Og það geri ég. Ekkert skipulag er svo gott að ekki megi breyta því. Sjáiði bara PrinsPólóið. Eins, óbreytt í mörg ár og enginn kvartaði. Samt breyttu þeir því.
Ég hafði ákveðið, m.t.t. þess að um síðustu helgi eyðilagði veðurspáin fyrir mér ferðalag, að horfa til komandi helgar. Nú hef ég ákveðið að gera breytingu á þeirri fyrirætlan og skipulagt eftirfarandi.
Á föstudag (sem er víst í dag): Kl. 16: Rjúka eftir vinnu vestur í Ánanaust og kaupa sveigjutengi aftan á nýju trilluvélina. Kl. 19. Horfa á fótbolta. Kl. 21. Fara á bryggjuna í Hafnarfirði og láta Mola hreyfa sig.
Á laugardag. Byrja morguninn á bryggjurölti með Mola. Síðan vinna við þakið á húsbílnum. Fótbolti /torfærukeppni í Mosfellsbæ. - Tímataka í Formúlunni.- Fótbolti. Vinna við húsbílinn. (ef árekstar verða í áætluninni verður skipulaginu breytt).
Á sunnudag. Bryggjan, bíllinn, fótbolti, Formúla, fótbolti. Ef aukatími finnst skipulegg ég hann jafnóðum.
Kannski vill konan mín líka gera eitthvað..........

Frá 22. 06 ´06 

Litur.


Litur.

Sting inn nokkrum orðum til að sýna lit. Datt í´ða fyrir nokkrum dögum og gengur illa að ná fyrri staðfestu. Um sl. helgi tók ég eftir bletti í toppklæðningu á húsdrekanum og við athugun kom í ljós öldrunarskemmd öðru megin í þakinu, svo þegar klæðningin var tekin niður sá til sólar (eða regns, eftir atvikum) upp í gegnum þakið. Sá litli tími sem ég er með sjálfum mér utan vinnu hefur farið í viðgerð, en það þarf að framkvæma samskonar viðgerð beggja megin á þakinu, það er farið að votta fyrir skemmdum "að vestanverðu" líka. (bíllinn stendur þannig í innkeyrslunni, að sama hliðin er ávallt í vestur). Vonast til að geta lokið við viðgerð fyrir helgi eða ekki síðar en á laugardagsmorgni, og geti síðan farið eitthvert út fyrir bæinn í stutta útilegu.
Á gestabók Fél. húsbílaeigenda fer nú fram athyglisvert spjall í tilefniþess að ég henti þar inn textanum um ófrið á tjaldsvæðum. Þar virðast nokkrar sálir taka innihaldið beint til sín og skrifa athugasemdir í þeim dúr. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem mér tekst að blása lífi í gestabókina, en það getur verið bráðnauðsynlegt öðru hverju að henda inn einhverju sem vekur til umhugsunar, til að halda dampi í bókinni.
(Þýðing á setningu nr.2: sonurinn tók SÝN til að geta horft á "Hissmissdarakeppnina" eins og Bjaddni Fel. bar orðið fram. Ég hafði staðið staðfastur á móti því að taka hana sjálfur, vegna tímastuldarins, en gat ekki bannað honum. Afleiðingin er svo nákvæmlega sú sem ég átti von á. Ég má einfaldlega ekki missa af neinum þeim leik sem er sýndur utan vinnutíma, og á meðan liggja önnur verk nánast niðri)

Frá 17. 06 ´06 Ferðasaga.


Í gær var ég lagður af stað norður í land í þeim skilningi að ég var að hlaupa niður stigann út í húsbíl með myndavélina í höndunum. Allt var orðið tilbúið, matur í kæli og föt í skápum. Ferðinni var heitið til Siglufjarðar og m.a. ætlaði ég mér að labba út að Evangerverksmiðjunni, eða rústum hennar. Ég hafði fylgst með verðurspá fyrir Norðurlandið undanfarna daga, og eins fyrir Suður-og Suðausturlandið, því ég ætlaði að hafa ferð í Meðallandið sem varaáætlun. Þegar ég leit á tölvuna í síðasta sinn rétt fyrir brottför var komin rigningarspá fyrir bæði svæðin!! Eftir erfiða íhugun tók ég þá ákvörðun að labba ekki út að Evanger-rústunum í rigningu. Þar sem enn meiri rigningu var spáð fyrir Meðallandið var varaáætlunin blásin af líka. Vefmyndavélin siglfirska sýndi ausandi rigningu á staðnum.Þegar ég svo leit á myndavélina í Siglufirði seint í gærkvöldi voru komnir sólarglampar og allt að þorna upp. Þá var hins vegar orðið of seint að leggja af stað. Ég ætlaði að sjá til til morguns og skoða þá Meðallandið. Í morgun var þar, s.k.v. veðuryfirliti, rigning. Í Siglufirði virðist þessa stundina vera besta veður, sólarglampar og hægviðri. Ég sit og naga mig í handarbökin fyrir hað hafa ekki sinnt ráðum gömlu, skosku konunnar sem sagði við okkur: "Never listen to the forecast! " Húsbíllinn stendur því enn úti í innkeyrslu með kælinn í gangi. Ég ætla að sjá til um næstu helgi, en eftir hana liggur leiðin til Danaveldis og því síðustu forvöð að ferðast innanlands um hríð.
Við Moli skruppum á bryggjuna í morgun, báðir nýbaðaðir og fínir og hann með teygju í hárinu eins og Leó!

Í Hafnarfirði voru þeir að gera Narfa SU kláran til heimferðar eftir að hafa breytt honum úr línubát í strætisvagn. Narfi SU er til vinstri á myndinni, til hægri er nýsmíðuð Auður Vésteins GK.

Narfi tekur "handbremsubeygju" á bógskrúfunni í Hafnarfjarðarhöfn:

Síðan náðum við Moli okkur í spjall við nokkra trillukalla.

Frá 15. 06 ´06 

Éveiteggi....

Mér dettur eiginlega ekki í hug að ætla neinum að vera svona vitlaus. Mér finnst líklegt að annaðhvort hafi síðasti stafurinn dottið af eða einhver sem væntanlega hefur náð yfir meðaltalseinkunn í íslensku á samræmdum prófum hefur, auk íslenskukunnáttunnar, haft þokkalegan húmor. Myndin er tekin út um framglugga Árórubíls á umferðarljósum, en eins og allir vita er harðbannað að tala í farsíma í akstri án viðeigandi búnaðar, en engin lög banna manni að taka myndir með þeim. (raunar ekki heldur að mála sig undir stýri á ferð, bursta tennur, borða samloku og drekka með, skipta um geisladisk og ótalmargt fleira)

Ekkert fleira.

Frá 12. 06. ´06 


Holmen.


Nú um helgina sannaðist hið Fordkveðna, að ekki verður kálinu forðað, þó í Hólminn sé komið. Ég settist niður við tölvuna í gærkvöldi, reiður maður og skilningsvana en komst ekkert áfram fyrir utanaðkomandi truflunum. Eys úr skálunum við fyrsta tækifæri.
1. tækifæri.
Við komum í Hólminn upp úr hádegi á laugardag. Undir kvöld fór að fjölga á tjaldsvæðinu og meðal þeirra sem þangað komu voru tvenn hjón, á að giska ríflega sextugt fólk. Þau komu á sitthvorum glæsijeppanum, önnur á nýlegum Landcruiser, hin á álíka nýjum Rexton. Bæði höfðu stór og glæsileg hjólhýsi í eftirdragi. Þau komus ér fyrir rétt framan við húsbílinn okkar Stubbu. Síðan voru markísurnar dregnar út, dúkar breiddir á jörðina, garðhúsgögnin sett upp og síðan grillin. Það virtist fullkomna myndina, að um leið og kveikt var upp í grillunum voru fyrstu bjórarnir opnaðir. Þeir urðu svo fleiri og fleiri og fleiri. Frekari lýsingar eru óþarfar. Þegar leið á kvöldið voru bæði þessi hjón bókstaflega komin á rassgatið, svo notað sé skiljanlegt orðalag. Annarsstaðar á tjaldsvæðinu hafði hópur fullorðins fólks á fínum húsbílum komið saman og raðað upp bílunum í ferning. Þar var mikið sungið og spilað á harmoniku, veifað bjór og hlegið hátt og oft. Sá hópur hætti opinberum gleðskap nánast á slaginu kl. 22 og dró sig inn í bílana. Þá fyrst hófst skemmtunin hjá hjónunum "okkar". Ekki veit ég hvort nikkarinn var sá sami og hjá hinum hópnum, hafi svo verið hefur hann ekki aðeins fengið sér í tána, heldur líka í fingurnar. Við allar feilnótur nikkunnar bættist svo "söngur" hins kófdrukkna fólks, sem virtist hvergi skemmta sér betur en blindfullt á tjaldsvæði innan um barnafólk sem reyndi að hvílast, sumt hvert eftir langan og erfiðan ferðadag.
Hvað í ósköpunum kemur fólki á sjötugsaldri til að mæta með græjurnar sínar á næsta vinsæla tjaldsvæði og halda þar fylliríispartý? Skyldi þessu fólki aldrei detta í hug að aðrir í kringum það séu að reyna að ná hvíld fyrir næsta ferðadag? Svo er talað um unglingavandamál. Þarna hafði Stubban mín uppalendur gærdagsins fyrir augunum, fólkið sem kannski ól upp þá -sem betur fer tiltölulega fáu- rótlausu unglinga sem í dag skemma fyrir jafnöldrum sínum með slæmri umgengni og almennu hirðu- og virðingarleysi hvar sem þeir fara
Um ellefuleytið (23) virtist mér einhver fara og hasta á fólkið. Í það minnsta færðist partýið inn í annað hjólhýsið og hélt þar áfram á fullu. Hjólhýsi eru ekki hljóðeinangruð og spilið og "söngurinn" glumdi yfir tjaldsvæðið talsvert fram yfir miðnætti. Þetta er ekki versta dæmið sem ég kann af svona hegðun, en það er eitt sem ég hef oft velt vöngum yfir. Þeir sem sjá um og reka tjaldsvæði víðsvegar um land ganga yfirleitt rösklega fram í að rukka fyrir stæðin og þá aðstöðu sem í boði er. Ég hef hins vegar hvergi séð þessa sömu aðila ganga fram í því að skapa hinum borgandi gestum sínum svefnfrið með því að sjá til þess að drykkjulæti séu ekki höfð í frammi langt fram eftir nóttu. Rekstraraðilar tjaldsvæðanna hafa flestir hangandi uppi umgengnisreglur sem gestum er ætlað að fylgja, en virðast svo sjálfir ekkert gera í augljósum brotum á þessum reglum.
Ég veit ekki hvernig öðrum fór þetta kvöld. Við Stubban vorum svo heppin að vera nægilega úrvinda til að geta sofnað á skikkanlegum tíma, þrátt fyrir "gleðskapinn". Við tókum hins vegar eftir að þegar við vorum að tygja okkur til brottfarar uppúr hádegi á sunnudag var enn enga hreyfingu að sjá við glæsihjólhýsin tvö.

Frá 09. 06 ´06 

Samþjöppun í nafni hagræðingar.


Samþjöppun í nafni hagræðingar.

Þessi pistill er skrifaður sem komment við pistilinn "Guðmundartúnið" á síðu Leós, sem finna má hér neðst til vinstri.
Hefur nokkur nokkuð við það að athuga?
Neeeei, líklega ekki.

(pistillinn sjálfur) :


Gunnar skrifaði:
Fyrst enginn hefur neina skoðun ætla ég að viðra mína. Það er nefnilega svo helvíti leiðinlegt þegar maður hefur lagt vinnu í ágætan pistil og svo hefur enginn skoðun á honum. Það er svona dálítið eins og áhugaleysi, finnst manni, og algerlega á skjön við heimsóknafjölda á viðk. síðu. Ég ímynda mér að ef einhver ætlaði að yrkja tún á þennan hátt í dag myndi framkvæmdin tafarlaust verða sett í umhverfismat. Slíkt mat þyrfti viðkomandi að greiða úr eigin vasa. Þar með skyldi fylgja umsögn búnaðarráðunautar um ræktunarmöguleika svæðisins, tegund jarðvegs og ýtarleg skýrsla um þann gróður er fyrir sé, ástand hans, tegund og nýtingarmöguleika. Þá þyrfti umsögn verkfræðistofu um möguleg hlunnindi á blettinum, vatnsréttindi, námuréttindi ef málmar kynnu að vera á svæðinu, olíu sem leynst gæti í jörð og eignarhald eða meðferð hluta/ efnis sem kynni að falla á landið úr lofti. Eignarhald á landinu þyrfti að vera fest á löggiltan skjalapappír í fimmriti og þinglýst af beggja hálfu og helst votta líka. Að þessu fengnu þyrfti að fá girðingaflokk \"að sunnan\" til að \"hanna og sjá um uppsetningu girðingarmannvirkja á landinu\". Þegar sá flokkur hefði lokið störfum mætti síðan fá fagmenn úr heimabyggð til að setja hlið á girðinguna á hentugum stað. Að ætla sér að flytja grjót úr túninu á höndum þætti nú til dags hrein og skýr merki um andleg vanheilindi viðkomandi. Slíkt yrði sett í hendur vélaverktaka sem nýtti \"minigröfur\" og smávagna á gúmmíbeltum til verksins. Þegar öll framkvæmdin væri svo að baki mætti kannski fóðra svo sem þrjár kindur á heyfengnum af blettinum. Vestur á Ísafirði var -og er- tún, rétt ofan við fyrrum hús foreldra minna. Þetta tún er alþekkt undir nafninu \"Andréstún\". Ekki Andrésartún, heldur Andréstún. Ég nenni ekki að tíunda stafsetningar- eða málfræðireglur í því sambandi, enda myndi slíkt engu breyta um nafnið. Túnið lá að heimili Andrésar og fjölskyldu hans, Hlíðarenda við Urðarveg. Ég er handviss um að túnið var þarna löngu á undan Andrési, sem nú er kominn undir græna torfu annarsstaðar, og túnið verður þarna um ókomna tíð því það hefur ekki verið \"skilgreint sem byggingarland\". Andréstúnið stendur ekki í jafnmiklum halla og hið siglfirska Guðmundartún, enda sló Andrés megnið af því með ævagamalli DEUTZ dráttarvél, þýskri eðalsmíð sem aldrei kom út undir bert loft nema um sláttinn. og þá ævinlega nýmáluð. Sömuleiðis Chevrolet ´47 vörubíllinn sem Andrés notaði til að flytja hey af öðrum túnum heim í hlöðuna við Urðarveginn. Þessir tveir gullmolar mörkuðu ákveðna árstíð í huga okkar krakkanna, sem tók við strax að lokinni árstíð litlu, svarthvítu lambanna sem fylltu Andréstúnið á vorin. Andrés sjálfur var sömuleiðis gull af manni, þó ekki hefði hann sömu ytri hirðu á sjálfum sér eins og á vélunum sínum. Hann var heldur ekki allra, hann Andrés. Sérlundaður með eindæmum, kvæntist aldrei en bjó með foreldrum og skyldmennum í því stóra húsi Hlíðarenda. Þessir menn eru að hverfa, eða eru þegar horfnir. Ég veit ekki um neinn sem býr á þann sama hátt og þessir gömlu innbæjarbændur gerðu. Menn sem unnu í frystihúsinu og stunduðu sinn búskap á túnbleðli kringum íbúðarhúsið. Eftir á að hyggja á orðið \"frístundabændur\" alls ekki við um þessa menn því þessi búskapur var fullt starf jafnvel þó fullum vinnudegi væri skilað í annari vinnu. Þetta var hreint enginn leikaraskapur, heldur hörkuvinna, ætluð til að drýgja litlar tekjur og oft að framfleyta stóru heimili. Sumir þeirra manna sem stunduðu búskap meðfram fullri vinnu á Ísafirði voru bændur sem flutst höfðu norðan af Hornströndum eða úr Jökulfjörðum, flotið á mölina með straumi unga fólksins sem sótti í þéttbýlið til launavinnu, á togara, í fiskvinnu eða jafnvel suður í \"Bretavinnuna\". Fluttu jafnvel hálfnauðugir af jörðum sínum, sem ekki var lengur hægt að yrkja vegna skorts á vinnuafli. Þessir menn reyndu eftir föngum að halda í upprunann, voru kannski ekki tilbúnir til að gefa allan búskap upp á bátinn þó jarðirnar væru yfirgefnar. Þeir eru horfnir, hinn siglfirski Guðmundur og hinn ísfirski Andrés Jónsson. Sömuleiðis Kitti Gauj (pabbi Adda Kitta Gauj), Pétur á Grænagarði, Tungubræður, Hjörtur í Fagrahvammi og allir hinir. Þeirra tími var gærdagurinn. Og eins og við vitum kemur gærdagurinn aldrei aftur........

Frá 07.´06 ´06 

Öfugt eður ei?

"Öfugi" báturinn á myndinni minnir allnokkuð á Gunnar á Hlíðarenda. Eins og allir vita sneri Gunnar öfugt á hestinum þegar hann reið frá Hlíðarenda í síðasta sinn. Því eins og kannski færri vita, var Gunnar alls ekki drepinn í bardaga, heldur flúði hann af bæ og komst í skip til útlanda. Allt annað er seinni tíma skáldskapur og þeirri öndvegiskonu Hallgerði hefur um langa hríð verið gert alrangt til. Menn hafa hneigst til að leggja trúnað á þessa kunnu útgáfu sögunnar um Gunnar, en eftir að Hafliði Magnússon á Bíldudal samdi og kynnti leikritið "Sabína, eyjan fagra" sem LL á Íafirði setti síðar upp, er hið sanna morgunljóst. Hin alkunnu orð Njálu: ".........og Gunnar sneri aftur." hafa nefnilega verið rangtúlkuð illilega á þann veg að Gunnar hafi snúið til baka er hann hugðist flýja, og þannig kosið að mæta örlögum sínum. Þetta er auðvitað alrangt eins og Hafliði benti á, hið rétta er að Gunnar, þjakaður af heimþrá og eftirsjá, sneri öfugt á hestinum er hann reið burt í hinsta sinn. Þannig gat hann betur horft til bæja og notið útsýnis yfir landið sem honum var svo kært.
Þannig má líta á bátinn á myndinni. Kannski hefur eigandinn snúið yfirbyggingunni einungis til að sjá heimahagana er haldið var á miðin. Kannski átti hann -eða á- fallega konu sem stóð eftir á kantinum og veifaði. Ólíkt hefur þá verið þægilegra að standa rétt við öll stjórntæki og geta samt veifað bless á útleiðinni. Að sama skapi má þá ætla að honum hafi verið tamt að horfa til hafs á heimleiðinni, kannski til að varast brotsjói sem á eftir kæmu, kannski til að fylgjast með aflabrögðum hinna sem enn voru að veiðum, hafi svo verið. Þannig hefur hann getað fylgst með því hvort hann væri að yfirgefa vænlega veiðislóð eður ei.(neðri mynd fengin að láni af -skipasaga.is-. Guðmundur Júní ÍS, áður Júpíter)
Gömlu síðutogararnir, þá á ég við elstu kynslóð gufutogara eins og þann sem myndin er af, höfðu gríðarstórt stýrishjól aftast í brúnni. Þá stóð skipstjórinn alla jafna ekki við stýrið heldur s.k. rórmaður. Þar sem stýrið var án hjálparátaks gat þurft tvo menn til að halda hjólinu í slæmum veðrum, þegar öldur vildu skella á stýrisblaðinu flötu. Í verstu veðrum varð hreinlega að binda stýrið fast. Rórmaður gat í góðu leiði staðið við hlið stýrishjólsins, en þyrfti að nota báðar hendur á stýrið varð hann að snúa baki í siglda stefnu. Þá var það sem skipstjórinn gaf sínar skipanir, " í stjór", eða " í bak", eftir því sem við átti. Allt aftan úr öldum og fram á fyrri hluta þeirrar síðustu þýddi nefnilega "stjór" og "bak" gagnstætt við það sem nú er. Enda hefur þróuninni fleygt fram og menn löngu búnir að finna upp einfaldari stýrisbúnað. Það er einnig löngu uppfundið að það er farsælla að sami maður stýri og horfi fram á við. Þannig sparast tími sem áður fór í skipanagjöf/skilning á skipun/framkvæmd skipunar, og rórmaður er löngu farinn niður á dekk í aðgerð til hinna hásetanna.
Sú tillaga hefur komið fram að ég slái tvær flugur í einu höggi og sigli trillunni til Skotlands. Tillagan er góð sem slík en ætti að framkvæma hana þyrfti ég líklega að huga að starfslokum allmiklu fyrr en fyrirhugað er, því fleyið verður nokkuð hægfara. Ég vil þó ekki útiloka að siglt verði hringinn um landið (þ.e. Ísland), en í það færu þó líklega tvö sumur. Ég gef mér að þó Ísland sé ekki það sama og Skotland þá sé sjórinn umhverfis löndin ákaflega svipaður, þannig að þó magnið verði minna ættu gæðin að vera þau sömu.
Haeneblaha....

Frá 06. 06 ´06 

Ammali, ammali!


Ammali, ammali!

Lengi framan af ævinni stóð ég í þeirri meiningu að það að vera hálffimmtugur hlyti að þýða að viðkomandi væri 25 ára. Samkvæmt þeirri sömu kenningu (sem ég hef raunar gleymt rökstuðningnum við) nálgast ég nú hálftírætt hröðum skrefum. Rétt fyrir nýliðnar kosningar mátti heyra í útvarpsauglýsingu eins Reykjavíkurframboðsins "Það er gott að eldast í Reykjavík" , eða eitthvað þvílíkt. Sá vinnufélagi sem næst mér stóð eitt sinn er auglýsingin heyrðist, hreytti út úr sér: "Hvernig í ósköpunum á að vera gott að eldast? Hver vill verða gamall?"
Þá áttaði ég mig á hversu mikið ég hlakka til að verða gamall. Ekki kannski svona hundgamall eins og tíræður, heldur nógu gamall til að geta hætt að vinna. Mikið andskoti hlakka ég til. Ég á þá ósk heitasta að mér lánist að halda heilsu til að fullnýta efri árin eins og mig langar til.
Mig langar að ferðast. Ekki endilega til sólarlanda, heldur um Evrópu, þá helst þann hluta sem stendur okkur Íslendingum næst. Ég hef nefnilega aldrei fundið fyrir löngun til að kanna þá heimshluta sem fjærst okkur liggja. Mér finnst einhvern veginn tilhugsunin um gerólíka menningarheima svo yfirþyrmandi að ég sé ekki tilgang í að eyða tíma í skoðun á því sem ég kem aldrei til með að skilja hvort eð er.
Ég hef aðeins tvisvar komið til útlanda. Fyrst til Danmerkur árið ´98 og síðan til Skotlands um daginn. Í lok þessa mánaðar erum við svo á förum til Danmerkur aftur. Mér fannst ákaflega gaman að koma til Danmerkur, en ég get með sanni sagt að ég hafi kolfallið fyrir Skotlandi. Mig langar til Noregs, og stefni á að komast þangað fyrr en seinna. Svo aftur til Skotlands. Og svo aftur, og aftur og aftur....
Ég vonast til að geta notað trilluna mína sem mest. Til þess er ég að endurbyggja hana, og þess vegna keypti ég nýja vél. Sú vél verður kannski ekki ný lengur þegar kemur að því að ég setjist í helgan stein, en ég verð þó vonandi byrjaður að nota bátinn áður en þeim áfanga er náð. Húsbíllinn minn verður þá einnig löngu kominn undir græna torfu (eða í köggul) en þeir munu jafnlíklega verða fleiri eftir þennan.
En svo er það hitt. Ég hef aldrei komið á Melrakkasléttu. Aldrei til Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar eða neitt annað um svæðið frá Bakkafirði að Tjörnesi. Nú um komandi verslunarmannahelgi langar mig að bæta úr þessu. Gallinn er að konan hefur engan áhuga á þessu svæði, og ég veit ekki hvort Stubban mín kemur með. Ef svo verður ekki, fer ég líklega einn á húsbílnum. Það er kannski ekki það skemmtilegasta, en því fylgir þó visst frelsi. Svo er aldrei að vita nema einhver önnur áhöfn á öðrum bíl vilji slást í för.
Ég fékk engan afmælispakka. Ekki einn! Þetta er fyrsta afmælið mitt frá upphafi sem ég fæ engan pakka. Í sárabætur gaf konan mér ís um kvöldið. Hún hefur heitið mér stórum pakka að ári. Það sem hún hins vegar veit ekki er að á næsta afmælisdegi verð ég víðs fjarri. Ég verð semsé "að heiman". Tek ekki við neinum pökkum, en gef kannski upp staðsetningu skv. GPS í lok dagsins, ef ég verð á annað borð í símasambandi.
Þeim sem hafa áhuga á að leggjast í rannsóknir skal bent á að bera saman myndina af bátnum og mynd af Húsavík sem finna má í perlunum hans Mats, til vinstri á síðunni merktar "Jónas Gunnlaugsson, myndasíða". Miðað við það má ætla að báturinn sigli í suður, eða suðaustur. Það er hins vegar ekki málið. Eigandi þessa finnsksmíðaða fiskibáts hefur verið hugmyndaríkur með afbrigðum. Þessar fleytur komu afturbyggðar, en eigandinn hefur viljað frambyggðan bát án þess að þurfa að skipta fleyinu út fyrir annan. Hann hefur því snúið yfirbyggingunni við. Báturinn, þ.e. neðri hluti hans siglir til hægri, meðan efri hlutinn færist afturábak miðað við upphaflegan tilgang.
Er þetta ekki stórmerkilegt???

Frá 02.06 ´06 Spurning dagsins.


Hefur virkilega enginn skoðun á spurningunni?

Spurning dagsins:
Í hvaða átt siglir þessi bátur?

Ég skal ekki fortaka að enn gæti áhrifa efnisins sem orðað er í síðustu færslu. Svo getur líka verið að eitthvað annað hafi þau áhrif að ég sé óvanalega skilningsvana þessa dagana. Veiteggi.....

Þegar skóla lýkur hjá dömunum hefst skólinn hans. 10 vikna hlýðniskóli, einu sinni í viku. Nú skal honum kennt að haga sér eins og sannur herra. Sitja, liggja, ganga við hæl og annað það sem nauðsynlegt er að kunna, auk umgengni við aðra hunda. Fyrsti tíminn var honum erfiður. Hann hefur á sinni sexoghálfsmánaðarævi byggt upp gríðarlegt stolt og sjálfsálit. Það er erfitt að vera ekki lengur miðpunktur athyglinnar þegar komið er inn í 7-8 hunda hóp. Mega ekki gelta, urra eða bíta. Mega ekki toga í tauminn, mega bara hreint ekki neitt.Nema að gegna. Og það er leiðinlegt að gegna.
Hann er vanafastur, þó ungur sé í vikum talið. Hann er vanur að vakna þegar ég fer í blaðburð á morgnana rétt fyrir kl. sex. Fer út á svalir og pissar á blaðið sitt. Síðan inn aftur og leggur sig þar til ég kem til baka. Um helgar fer hann stundum með ef veður er gott. Nú er ég hættur að bera út en sé ég ekki vaknaður á vanalegum tíma er hann byrjaður að krafsa í búrið ekki seinna en korteri yfir sex. Við höfum fengið okkur létta morgungöngu svona til að koma hreyfingu á blóðið, eftir að blaðburði lauk og ég sé ekki að þar verði nein breyting á.
Hann vill svo gallharður fá sitt kvöldlabb uppúr kl. 21.30 og ekkert múður. Annars sest hann niður við útidyrnar og gólar. Einn til tvo göngutúra fær hann svo að deginum, þegar dömurnar eru heima. Hann er einstaklega duglegur og harður af sér. Góður Snati!
Í dag hófst síðasta árið á minni ævi sem hefst á fjórum. Að því liðnu hefjast næstu tíu á tölunni fimm. Og eftir fyrsta fimm-árið sigli ég inn í nýjan tug. Hmmm....

Frá 31. 05 ´06 


Bad stuff!

Ég get ekki þvertekið fyrir að síðasti pistill hafi verið skrifaður undir slæmum áhrifum. Umgengni við hættuleg efni hefur gjarnan skaðleg áhrif á heilastarfsemina og þegar menn hafa unnið lengi með viðlíka efni og hér á myndinni er nefnt er engin furða þó eitt og annað vilji skolast til. Ég hafði einmitt þurft að meðhöndla þetta efni og get ekki svarið fyrir að eitthvað hafi ekki síast gegnum húðina.
Ef lesandinn hefur betri skynjun en myndasmiðurinn er textinn auðskilinn. Til upplýsingar fyrir hina, þá stendur þarna "Use only LSD oil "

Frá 30. 05 ´06 

Sterkari-veikari.Sterkari/veikari.

Við Schicklgruber korpórall verðum seint taldir skoðanabræður. Til þess þykir mér margar hugmyndir hans full róttækar og þó tók steininn úr þegar hann hóf að hrinda þeim í framkvæmd, með þeim skelfilegu afleiðingum sem heimurinn þekkir.
Um eitt erum við þó sammála. Hinir sterkustu munu lifa. Hinir veikari munu deyja út. Korpórállinn tók sér svo vald til að ákveða hverjir væru veikir og hverjir ekki, hverjir ættu að – og mættu að ósekju- deyja út. Hann setti síðan saman sveitir sem skyldu vera hjálplegar þeim sem deyja mættu út, til að flýta fyrir hreinsuninni.

Mér finnst eins og fleirum- raunar flestum- að hann hafi stigið fullfast á bensínið. Í hans tilfelli raunar gasið.

Ég læt mér nægja sagnorð. Málið snýst um sterkar og veikar sagnir. Auðvitað á ekkert að vera til sem heitir ”veikar sagnir”. Mér var á sínum tíma kennt að sagnorð sem hefðu endinguna ” –aði, -ði, -di og –ti væru veikar sagnir. Og mér vitanlega hafa þær enn ekki læknast.

Nú er mál að linni. Grunnurinn að byltingunni var raunar lagður á skólaárunum, en smám saman hefur hlaðist ofan á hann. Nú skulu allar sagnir verða sterkar. Eftirfarandi skulu menn athuga, og athuga vel:

Sá sem áður brosti, hann braus.
Sá sem spólaði, hann spaul.
Sá sem orgaði, hann arg.
Sá sem skjótaði, hann skaut. (hmmm, virðist kunnuglegt, var kannski komið áður....)
Sá sem gólaði, hann gaul
Sá sem skrifaði, hann skreif
Sá sem mokaði, hann mauk. (sá sem makaði, raunar líka, hér verða menn að skilja meiningu af samhengi)
Sá sem ritaði, hann reit. (raunar var sú tilaga áður komin fram og í nokkra notkun)
(sá sem kúkaði, hann að sjálfsögðu kauk)
Sá sem hjólaði, hann hjaul.
Sá sem borðaði, hann.. (hér vantar sterku myndina og er lýst eftir tillögum að henni)
o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv.........

Auðvitað munu hinar sterkari lifa. Það sagði Schicklgruber korpórall að minnsta kosti.

Ég kýs að trúa því .
Ég hefi talað........

This page is powered by Blogger. Isn't yours?