<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

mánudagur, maí 29, 2006

Frá 28. 05 ´06 



Utan dagskrár.

Ég hef fyrir sið að ræða ekki vinnuna mína. Það er einfaldlega vegna þess að mér finnst starfið ekki eiga erindi hingað. Þó hafa komið fyrir undantekningar.
Ég man eftir að hafa fengið í hendurnar bíl sem svo mikið hafði verið reykt í að rúðurnar voru nær ógagnsæjar. Ég fékk mér bréf og hreinsiefni og hreinsaði hálfa-já, hálfa framrúðuna að innan, svo ég gæti séð til að aka bílnum inn og út úr húsi. Ég giska á að eigandinn hafi hreinsað hinn hlutann þegar hann fékk bílinn afhentan og sá muninn. Get þó ekki verið viss því þessi bíll hefur aldrei komið aftur. Kannski skammaðist eigandinn sín, kannski var hann móðgaður vegna þess að ég þreif bara hálfa rúðuna en ekki alla.
Hér er svo önnur undantekning. Þessar myndir eru innan úr bíl sem kostar á sjöttu milljón, og er glænýr. Þó ekki svo nýr að ekki hafi tekist að safna í hann vænum skammti af fötum,matarleifum og öðru drasli. Mér finnst hreint með ólíkindum af hversu miklu virðingarleysi menn umgangast verðmæti!

Mér fannst þó steininn taka úr þegar þetta valt út er smyrja skyldi læsingar og lamir:

Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn............. (Biblían)

Frá 26. 05 ´06 

H.´68

Já, það er 26. maí, eins og Leó benti réttilega á í kommentinu hér á undan. Vitiði annars hvaða dagur það er? Nei, ekki það? Fljót að gleyma, ha?
Tuttugasti og sjötti maí er H-dagur. Dagurinn sem við, árið 1968 skiptum um kant og færðum okkur yfir til hægri. Gengum úr vinstra bandalaginu við Breta, Íra, Indverja, Pakistana og aðra þarna austur frá og tókum upp sömu akstursstefnu og Kaninn vinur okkar. Þeim þarna á Vellinum fannst nefnilega fáránlegt að þurfa að skipta um akstursstefnu í vallarhliðinu, og andskotanum verra að þurfa að sætta sig við það. Svo Kaninn leit við í ráðuneytinu og spurði bírókratíið hvort það væri ekki til í að redda þessu smámáli, svona áður en bílaeign yrði almennari og velmegunin ykist um of. Þetta væri svo sem ekki nema nokkur hundruð umferðarmerki, einhverjir tugir umferðarljósa og nokkur hvít strik sem hvort eð væri þyrfti að mála árlega. Það væri því alveg passandi að svissa yfir þegar keðjuspændar göturnar (þeir höfðu ekki enn fundið upp nagladekkin) væru að koma undan snjó og klaka og kerfið þyrfti að fá sitt árlega viðhald.
Bírókratíið beit í blýantana, ráðherrar fengu sér viskísopa með generálunum og á fimmta glasi var ákveðið að skella sér í breytinguna. Sjálfsagt mál, auðvitað var það ekkert annað en kotungsháttur að horfa til Bretlands, fallandi heimsveldis, íhaldskurfa sem endilega þurftu að halda sig öfugu megin við alla Evrópu, sem hafði fyrir löngu séð ljósið og ók hægra megin. Íslendingar höfðu svo sem líka nær eingöngu flutt inn bíla með stýrið vinstra megin, sem engan veginn samræmdist vinstri umferðinni, þannig að bílaflotinn smellpassaði. Það þurfti aðeins að færa dyrnar á strætó yfir á hina hliðina, en það var staðbundið vandamál, úti á landi þar sem á þessum tíma bjó enn talsvert af fólki, voru engir strætóar.
Þeir réðu menn í aukavinnu til að grafa holur á gatnamótum, aðra til að hlaupa með ljósin og merkin. Málararnir mynduðu hersveitir og skiptu með sér vígvöllunum, gatnamótum og hringtorgum sem mála þurfti upp að nýju til samræmis við hina amerísku umferðarmenningu.
Frá miðnætti aðfararnótt hins 26. og til morguns var öll umferð stöðvuð í landinu. (gæti einhver séð slíkt fyrir sér nú?). Aðeins var leyfður neyðarakstur. Mig minnir svo að það hafi verið um kl. 06 sem fyrsti bíllinn ók yfir miðlínuna og markaði tímamótin. Til að gæta hófs í þjónkuninni var það ekki amerískur generáll heldur íslenskur embættismaður sem ók. Aðgerðin gekk svo stórslysalaust fyrir sig, því eins og oft áður lagðist þjóðarsálin á eitt um að gera sér breytinguna bærilega. Þarna mun í fyrsta sinn hafa komið fram hin margfræga "þjóðarsátt", þó svo menn hafi ekki áttað sig á alvöru hugtaksins fyrr en við launadeilu áraröðum síðar.
Ég fékk að gista hjá ömmu þessa nótt. Gat raunar lítið sofið vegna spennings, hafði fengið að hafa hjólið mitt með og hlakkaði óskaplega til að vakna snemma og fara út á hjólinu. Prófa að hjóla "vitlausu" megin og sjá bílana klessukeyra hvern annan, því við félagarnir sem höfðum fylgst með undirbúningi breytingarinnar og safnað -H- límmerkjum í gríð og erg, vorum sannfærðir um að þetta myndi aldrei ganga, umferðin yrði eitt allsherjar kaos (orð sem við þekktum frá Smart spæjara). En það klessti enginn. Sumir voru dálítið ruglaðir og þurftu leiðbeiningar en allt gekk þetta slysalaust
Ég var vaknaður eldsnemma og fór út með hjólið. Raunar þorði ég ekki öðru en að leiða það fyrsta spölinn. Þegar ég svo sá Viktor Guðbjörnsson á Ford Sedan ´50 koma akandi út Seljalandsveginn og beygja niður Bæjarbrekkuna eins og hann hefði aldrei gert annað, óx mér kjarkur og ég steig á hjólið. Tilfinningin sem fylgdi var ákaflega sérstök. Hún gleymdist svo í tímans rás en rifjaðist hressilega upp þegar ég settist inn í bílaleigubílinn á flugvellinum í Glasgow á dögunum. Ég var aftur orðinn ellefu ára á hjólinu mínu, algerlega í lausu lofti, allt sneri öfugt og ég varð hræddur!
Það lá beinast við að gera það sama og fyrir tæpum þrjátíu og átta árum. Horfa á hina og gera eins. Það lánaðist. A.m.k. sit ég óbrotinn hér við tölvuna. Núna.....

Frá 25. 05 ´06 

Uppstillingardagur og 5000+

Líklega hefur enginn vestra lesið pistilinn um "Pétur". Í öllu falli hafa engar athugasemdir komið þaðan. Þeir sem þekkja til ættu þó örugglega að kannast við manninn og þær hrakfarir hans sem eru tíundaðar í pistlinum, því engu var logið þó eitt og annað væri kannski svona "fínstillt". Ég hef verið að rifja upp í huganum fleiri svona brot, þau eru allnokkur en flest frekar stutt. Þeir voru margir, kynlegu kvistirnir sem maður komst í kynni við hjá "bænum".
Nú hefur teljarinn minn náð nýjum hæðum, er lagður af stað inn í sjötta þúsundið. Mér sýnist á öllu að bróðurpartinn af þessum heimsóknum eigi fjórir til fimm aðilar ásamt sjálfum mér. Ég hef einhvern tíma nefnt það hversu skrýtið mér þykir að eigin heimsókn skuli telja, en þetta er enn einn meinbugurinn á -blog.central.is- kerfinu, og voru þó nokkrir fyrir. En þó smiðir þessa kerfis hafi sannarlega ekki kunnað á vinkil og viðhaldið verið í flestum tilfellum til þess fallið að gera illt verra þá er þó til einn vitlausari. Það er ég sjálfur. Ég hef nefnilega skoðað allnokkur svona kerfi en ekki takist að læra á þau að gagni. Hef dundað við að setja upp síður í þeim án þess að ná viðunandi árangri. Það hefur sjálfsagt verið svona "beginner´s luck" sem olli því að mér tókst að ræsa þessa síðu og raða inn á hana.
Í dag er Uppstillingardagur. Mér var kennt fyrir margt löngu að rita "nöfn daga, mánaða, hátíða og námsgreina" með litlum staf, en Uppstillingardagur er ekki hátíðisdagur. Hann er misskilningur!
Í fullri alvöru, ég heyrði konu á sextugsaldri segja þetta á dögunum. Hún er jafnframt tveggja drengja móðir, drengirnir eru löngu orðnir fullorðnir menn. Báðir heita þeir einu stuttu nafni. Nafn annars þeirra fallbeygist á vanalegan hátt en tekur ekki -s- í eignarfalli. Ég hef margoft heyrt þessa konu nefna nafn sonarins í eignarfalli með -s- endingu! Nú á þessi sonur börn af báðum kynjum og eðlilega fá drengirnir -s- í föðurnafninu, xxxxxxson. En þegar dóttirin er farin að fá sama essið í sitt föðurnafn þá er hún auðvitað orðin xxxxxxsdóttir!!!!!
Ég þarf ekki að taka fram að þessarri konu bæði "langar" og "hlakkar" til!
Yngri sonurinn er svo heppinn að heita nafni sem fallbeygist ekki, er semsagt eins í öllum föllum, auk þess að vera barnlaus.
Mein gott!

Frá 20.05 ´06 

Langabrekka.

Mér datt enginn brúklegur texti í hug til að nota með þessarri mynd. Mig setti hljóðan yfir því andríki sem þarna lýsir sér.

Eftir að ég hafði sett myndina inn datt mér þó eitt í hug. Karl faðir minn er af kreppukynslóðinni svokölluðu, sem ólst upp við skort á bókstaflega öllu, og engu mátti henda. Hann geymdi því alla þá hluti sem komnir voru úr notkun, alltaf gat hugsast að síðari tíma not fyndust, nú eða þá að einhvern annan kynni að vanta slíkan hlut síðar meir. Hann hafði ennfremur fyrir sið að treysta engum umbúðamerkingum nema sínum eigin. Þannig mátti treysta því að á málningardós sem innihélt hvíta málningu og var greinilega merkt sem slík, hefði hann skilmerkilega skrifað "HVÍTT" með breiðu tússi. Þetta gilti um fleiri hluti, s.s. naglapakka og þvíumlíkt. Þó greinilega stæði á miða frá framleiðanda : " 2" galv. saumur" á slíkum pakka mátti treysta því að á honum stæðu einnig sömu upplýsingar, ritaðar með tússi eða penna.
Mér dettur helst í hug að þetta sé rótin að húsmerkingunni að ofan. Þótt einhver og einhver hafi einhverntíma og einhverntíma merkt þetta hús sem nr. 47 hefur síðari tíma eiganda kannski þótt nauðsynlegt að hnykkja á staðsetningunni með því að setja sína eigin merkingu á húsvegginn við hlið hinnar.
Hvað veit ég?............................................

Frá 09. 06 ´05 

Úr steypustöðinni.

"Eftir að hafa útilokað efnabruna, kjarnahvörf og eyðingu efnis og andefnis sem orkugjafa var ekki nema einn möguleiki eftir; þyngdarorka. Hugsanlegt var að þyngdarhrun gæti losað alla þessa orku því við það að stjarna hryndi saman í nifteindastjörnu eða svarthol gætu allt að 10% massa hennar breyst í segulorku og hreyfiorku. Því þyrfti annaðhvort 108 venjulegar stjörnur eða eina stóra stjörnu með allan þennan massa til að knýja dulstirnið.
Á sjöunda og áttunda áratugnum kom í ljós að geislunin frá útvarpsstjörnuþokum barst bæði frá strókunum og kjarna stjörnuþokanna sjálfra og einnig að strókarnir náðu alla leið inn að kjarnanum. Þar með var ljóst að ein og sama vélin hlaut að mynda strókana og geislunina, bæði fyrir útvarpsstjörnuþokurnar og dulstirnin. Fjölmargar hugmyndir höfðu komið fram um hver þessi vél gæti verið en fæstar þeirra uppfylltu þau skilyrði sem þegar voru þekkt um stærð og afl. Þegar sú staðreynd bættist við að strókarnir eru í flestum tilvikum beinir og oft gríðarlega langir var í raun ekki nema einn möguleiki eftir. Það eina sem gæti sent út þráðbeina stróka í milljónir ára væri nokkurskonar massamikið langlíft kasthjól (gyroscope) en eitt slíkt hafði verið nefnt til sögunnar sem hugsanlegur mótor. Það var risavaxið svarthol sem snerist á miklum hraða. "
Þennan texta fann ég á síðu með slóðina -http://verpill.hi.is/jonhafsteinn-.
Eftir svona lesningu er ég ákaflega glaður yfir að hafa bara lært bifvélavirkjun.

Frá 17. 05 ´06 

Hér til vinstri eru slóðir á tjónaútboð tryggingafélaganna, þar sem boðnar eru út bifreiðar sem félögin hafa leyst til sín eftir tjón. Ég skoða þessar síður alltaf öðru hverju og þannig var það um síðustu helgi. Við Áróran mín höfðum barist um tímann við tölvuskjáinn, hún á MSN og ég á einhverju randi um óravíddir netheima. Hún gaf mér smá séns og ég nýtti hann til að skoða útboðssíður.
Nú er það svo að Áróra sjálf nær aldri til æfingaaksturs í byrjun ágúst nk. Þar sem hún svo lá óþolinmóð á öxlinni á mér sagði ég henni að nú skyldum við finna hentugan bíl fyrir hana að æfa sig á, og sparneytinn sumar/bryggjubíl fyrir mig í leiðinni. Við buðum svo í sameiningu í nokkra bíla og Áróra, sem skoðaði tjónabíla af athygli, leit á útboðið sem nokkurs konar happdrætti. Það var svo ekki hugsað meira um þetta enda að mörgu öðru að huga.
Ég fylgdist svo á netinu með tilboðunum þegar þau voru opnuð í gærmorgun. Sá bíll sem okkur Áróru hafði litist einna best á var í ríflega tvöföldu "okkar verði" til að byrja með. Svo smálækkuðu tölurnar er leið á morguninn og menn hættu við boðin.Það var svo rétt fyrir hádegi í gær að hringt var frá Tryggingamiðstöðinni. Í símanum var maður sem tilkynnti mér að ég ætti hæsta boð í fyrrgreindan bíl. Í stað þess að draga boðið til baka ákvað ég að fara og líta á bílinn. Þegar ég svo hafði skoðað tjónið og séð fínu álfelgurnar og geislaspilarann, sett í gang og prófað gang- og gírverk, gekk ég inn á skrifstofuna og heyrði útundan mér sjálfan mig tilkynna umsjónarmanni að ég tæki þennan bíl. Það tók um það bil 15 mínútur að ganga frá pappírsvinnu og millifæra bankagreiðslu, síðan tók ég við lyklum og ók bílnum heim á leið. Það var strax ætlun mín að setja bílinn í geymslu í Grímsnesinu þar sem húsbíllinn hefur vetursetu en eftir að hafa skoðað gripinn betur heima við sá ég að einföld viðgerð á tjóninu tæki varla meira en einn laugardag. Ég ákvað því að eiga fáein orð við tryggingafélagið mitt, því ég vildi gjarnan, af hagkvæmnisástæðum halda bílnum í notkun en gat jafnframt ekki til þess hugsað að missa strumpastrætóinn minn þar sem hann hefur dráttarkrók og getur borið óhemju af drasli, sem er ótvíræður kostur. Hins vegar hafði ég ekki vilja til að greiða full iðgjöld af konubílnum, húsbílnum og að auki tveimur bílum sem ég ek eingöngu sjálfur. Þeir eru viðræðugóðir, piltarnir hjá tryggingafélaginu mínu, enda alldrjúgar upphæðir sem til þeirra renna úr okkar vasa árlega í iðgjaldaformi, og ég gekk nokkuð sáttur af þeim fundi.
Það hefur heldur harðnað á dalnum með bílastæði við húsið og strumpastrætó er eiginlega kominn út í horn.
Áróra er himinlifandi! Hennar helsta sport síðan í gærkvöldi er að láta bróður sinn (sem sjálfur á nú tjónabílinn sem síðast var keyptur) skutla sér og sækja hingað og þangað um allan Kópavog á "sínum bíl!!" Hún lítur sem sagt á þennan bíl sem sinn eigin! " Í dag er 16 maí, dagurinn sem ég fékk fyrsta bílinn minn" fullyrti hún í gærkvöldi. Okkur greinir nokkuð á um þetta smáatriði, því ég vil meina að þar sem ég átti hugmyndina, bauð, keypti, borgaði og ber allan rekstrarkostnað af bílnum hljóti ég að eiga hann. Hún er ekki sammála en bendir á að þar sem ég beri allan rekstrarkostnað af herberginu "hennar", ásamt ýmsum öðrum rekstrarkostnaði, þá sé fastmótuð hefð fyrir því að ég reki hennar eigur, án þess að slíkt myndi eignarrétt mér til handa. Hún er því vel á veg kominn, nú sólarhring síðar, að mynda þá hefð að nýi bíllinn sé kallaður "Árórubíll"
Það er samt þannig, að þessi einstaklega geðgóði og vandræðalausi unglingur borgar alla hluti í topp bara með brosinu einu. Hún er, og hefur alltaf verið einstök.
(Hún les þetta ekki)
Hvað get ég gert nema beygja mig, eins og venjulega

Frá 13.05 ´06 

Pétur.

Ég kalla hann Pétur, þó það sé alls ekki hans rétta nafn. Það er vegna þess að auk þess að vera kurteis og vel upp alinn er ég líka ákaflega tillitssamur.
Pétur þessi var það sem kallað er einföld sál. Ákaflega hjartahreinn, lagði aldrei illt til nokkurs manns og enginn lagði illt til hans.
Á þeim tíma sem hann var að alast upp hafði orðið “þroskaheftur” ekki verið fundið upp. Hann var því talinn, eins og áður segir, einföld sál og frekar seinþroska. Hann vissi þó sínu viti, var vel fær um að sjá um sig sjálfur, og þegar sem unglingur þótti hann snyrtimenni með afbrigðum.
Hann kom frá ágætu heimili. Átti vammlausa, vinnusama foreldra, þekkt reglufólk. Einnig nokkur systkini, þekkt að því sama. Heimilið var kannski ekki hlaðið veraldlegum gæðum en það var séð til allra þarfa.
Pétur okkar mun líklega hafa lokið almennu barnaprófi, þó veit ég það ekki með vissu. Síðan tóku við almenn verkamannastörf, m.a. hjá “bænum”. Hann tók bílpróf og þótti gætinn ökumaður. Með góðri aðstoð vina og vandamanna tókst honum að ljúka meiraprófi vörubifreiðarstjóra. Með þau réttindi uppá vasann var hann settur yfir Scaniavörubíl bæjarins, enda, eins og áður segir gætinn bílstjóri og snyrtilegur, allt að því smámunasamur, við hirðingu farartækja.
Eins og títt er um einfaldar sálir er mikilvægt að lífið og tilveran séu í föstum skorðum. Öll frávik frá vananum geta valdið gríðarlegu tilfinningaróti, og jafnvel orsakað stórskaða, óbætanlegt tjón. Við slík frávik, af hverju svo sem þau kunna að stafa, getur sá er málið varðar nánast misst alla yfirsýn yfir dagleg verkefni og tilveran endastungist svo gjörsamlega að einföldustu verk verði mönnum ofviða.
Okkar maður var, er sagan gerist, kominn eitthvað yfir tvítugt, þótti afar myndarlegur piltur í útliti, nánast fallegur en hafði aldrei verið við kvenmann kenndur, svo vitað væri. Sótti þó dansleiki og skemmti sér þar vel, þó án áfengis því hann var alger reglumaður á vín og tóbak. Það mun hafa verið á dansleik sem hann svo kynntist ástinni.
Við, sem unnum með honum hjá “bænum” höfðum af því spurnir strax daginn eftir að Pétur hefði sést með stúlku á dansleiknum. Ekki man ég lengur hvaðan hún var, en þeir sem fréttirnar báru þekktu hana ekki, höfðu aldrei séð hana áður. Þóttust þó geta greint að þar myndu líklegast fara andans jafningjar.
Vinur okkar fór svo fljótlega að sjást með stúlkuna upp á arminn á götum bæjarins, og það var greinilegt að töluverð alvara var í sambandinu. Hann var hamingjusamur, fór ekki leynt með það og við vinnufélagarnir glöddumst með honum.
Svo fór að bera á því sem glöggir menn höfðu óttast. Álagið við að hugsa bæði um kærustuna og vinnuna varð honum ofviða. Hann fór að lenda í óhöppum á bílnum.
Eitt verkefni bílsins var að aka mold og öðrum jarðvegi yfir ruslahauga bæjarins, sem þá voru á opnu svæði í uppfyllingu við Sundahöfn. Það þurfti gætni til að bakka fulllestuðum vörubíl fram á gljúpan bakka og losa hlassið svo vel færi. Pétur hafði leyst þetta með stakri prýði en nú brást honum bogalistin. Í ljúfum draumi um stúlkuna sína bakkaði hann of langt og bakkinn brast. Án þess að vakna af draumnum skipti Pétur í lágadrifið og fyrsta gír áfram og tók á! Á augabragði mölbrotnaði drifið í klettþungum bílnum, því honum hafði láðst að lyfta pallinum og losa hlassið af.
Viðgerðarmenn bæjarins fundu bíl í varahluti og það var skipt um drifið. Nokkrir dagar liðu. Einn morgun bar svo við að Scanian var straumlaus, vildi ekki starta í gang. Þannig hagaði til að áhaldahús bæjarins var steinsteypt, vinkillaga bygging sem einnig hýsti áhaldahús Rafveitu Ísafjarðar og Eyrarhrepps (nú Orkubús Vestfjarða). Andspænis innhorni vinkilsins var tækjastæði bæjarins og þar stóð vörubíllinn. Menn brugðu á það ráð að ýta í gang. Það var í sjálfu sér vandalaus aðgerð, væri varúðar gætt, því leiðin lá inn að vinklinum. Þeir stilltu upp stóra bæjartraktornum aftan við bílinn, munduðu ámoksturstækin við pallinn og Pétur settist undir stýri. Hann skyldi svo sýna traktorsstjóranum með bendingu þegar Scanian færi í gang. Aðgerðin hófst.
Scanian var treg. Traktorinn bætti í og hraðinn jókst. Þegar bíllinn var ekki kominn í gang en okkar manni fannst styttast í húsið gaf hann bendingu. Enn þann dag í dag greinir menn á um hvort Pétur var, þarna um morguninn, enn í draumalandinu í faðmi stúlkunnar sinnar eða bara máttlaus í hendinni því traktorsstjórinn misskildi bendinguna, skipti upp og gaf í botn! Meðan Pétur stirðnaði á máttlausum bremsupetalanum æddi Scanian áfram, beint aftan á glænýjan Vauxhall fólksbíl rafveituverkstjórans og rak hann á húsvegginn. Með öskrandi mótor bókstaflega þjappaði traktorsstjórinn fólksbílnum saman milli steinveggjarins og stálstuðara vörubílsins og breytti honum í gerónýta járnahrúgu á augabragði. Það var fyrst er traktorinn fór að spóla sem stjórnandi hans gerði sér grein fyrir að ekki var allt með felldu!
Pétur þurfti aðstoð við að komast út úr vörubílnum, hægri fótur hans var máttlaus eftir átökin við bremsupetala sem ekki hafði komið að neinu gagni án hjálparátaks frá vél sem ekki vildi í gang. Hann var lengi að skilja hvað hafði gerst, neitaði hreinlega að trúa því. Öll tilveran var hrunin og brotin lágu á jörðinni innan um brakið úr fólksbílnum nýja. Menn fundu til með honum, enginn lagði illt til hans. Menn sáu hvernig honum leið.
Vörubíllinn hafði sloppið þokkalega frá óhappinu, skrámaður stuðari, dældað bretti og brotið framljós. Þetta var fljótlagað og Pétur var kominn af stað aftur litlu síðar. Dagarnir liðu stórtíðindalausir og tilhugalífið átti hug hans allan. Það kom að því að enn skyldi ekið jarðvegi yfir haugana. Þar sem bæjarbíllinn var jafnan einn þeirra bíla sem notaður var til verksins var hlassi mokað á pallinn og ekillinn draumlyndi lagði af stað úr gryfjunum áleiðis að þessu sérísfirska landmótunarverkefni við Sundahöfnina. Þegar hann svo bakkaði fram fyllinguna lentu afturhjól bílsins á mjúku undirlagi og hann vildi ekki lengra. Minnugur fyrra atviks ákvað Pétur að losa hlassið af bílpallinum á staðnum, áður en reynt yrði að aka úr festunni. Hann lyfti pallinum og hlassið rann af og myndaði bing á jörðinni, myndarlega hrúgu sem þó náði að nokkru leyti upp á pallendann og olli því að pallurinn vildi ekki síga aftur. Þar sem hugur bílstjórans var glapinn af öðrum og mýkri hlutum gerðist það sama aftur. Í fljótfærni sem svo lítt var honum eiginleg, tók hann þá ákvörðun að bakka og reyna þannig að slétta úr hlassinu með því að ýta því út með pallendanum. Þannig hagaði til að bíllinn var búinn s.k. veltisturtum, þ.e. sturta mátti á þrjá mismunandi vegu með því að færa splitti í festingum. Þessu fylgdi einnig að vökvatjakkur sá sem var undir miðjum palli og lyfti honum, lá laus að neðan í stórum bolla í bílgrindinni. Það sem næst gerðist, gerðist hratt. Um leið og Pétur bakkaði bílnum inn í malarbinginn með pallinn uppi myndaðist mikil þvingun við neðri enda hans. Pallurinn reis upp á endann og tjakkurinn sviptist úr sæti sínu. Vökvaslöngur hans slitnuðu með miklum olíugusugangi sem m.a. sprautaðist yfir bílhúsið. Í fáti rykkti Pétur bílnum áfram. En þar sem allmikil möl hafði einnig runnið framundir pallendann þegar sturtað var, rykktist pallurinn upp úr festingum sínum og splittin kubbuðust í sundur. Við höggið dróst lóðréttur pallurinn eilítið fram á við, nóg til þess að vita í hvaða átt hann ætti að falla! Með brauki og bramli hrundi hann niður á bílgrindina, tjakkurinn lagðist saman einhversstaðar undir hrúgunni og inni í olíuböðuðu stýrishúsinu sat bílstjórinn, lamaður af skelfingu yfir eigin framistöðu!
Viðgerðarmennirnir mættu með kranabíl á staðinn og hífðu pallinn af bílnum yfir á annan. Bílnum sjálfum var svo ekið á berstrípaðri grindinni að áhaldahúsinu til viðgerðar. Það fóru að renna tvær grímur á yfirmennina. Menn áttuðu sig þó á að þessa dæmalausu óheppni bílstjórans mætti rekja til tilhugalífsins, og vildu gjarnan bíða þar til þær kröppu öldur lægði, því maðurinn var jú annars góður starfsmaður.
Þeim tókst að koma pallinum á aftur og laga tjakkinn. Það leið því ekki á löngu þar til bíllinn var kominn í fulla notkun aftur. Okkar maður var hins vegar hálf miður sín nokkuð á eftir.
Dagarnir liðu. Eitt af stærri verkefnum bæjarins þetta sumar var bygging nýrrar íbúðagötu í hlíðinni ofan bæjarins. Þar sem gatan var beint framhald Urðarvegarins sem hafði endað við Hraunprýði var framhaldið látið heita sama nafni. Innarlega við Seljalandsveg var fyrir lítil en brött brekka upp á tún þar ofar og skyldi hinn nýi Urðarvegur ná inn að henni og tengjast þar Seljalandsveginum. Ein af vinnuvélum bæjarins var hjólagrafa af gerðinni Bröyt X2. Þessar vélar voru sérstakar að mörgu leyti. Þær höfðu t.d. ekki drif, gátu ekki ekið sjálfar. Aftari hjólin voru hefðbundin vörubílahjól, þau fremri hins vegar gríðarmiklar járntromlur, alsettar ásoðnum járnspyrnum. Þetta voru gríðarlega vinsælar vélar ,enda liprar og afkastamiklar, einhverjar þeirra munu enn í notkun í sveitum. Þessi annmarki með drifið var leystur með því að vega þær áfram á skóflunni, en ætti flutningurinn að vera lengri en nokkrir metrar var málið leyst með vörubíl. Var þá komið fyrir,í sérstökum festingum, lóðréttum stálpinna á miðjum pallinum. Grafan hafði gat í miðjum skóflubotninum og með því að leggja skófluna á pinnann, snúa stálhjólunum fram og lyfta þeim með því þvinga gröfugálgann niður á pallinn mátti draga gröfuna langa vegalengd á gúmmíhjólunum. Vegna þeirrar stöðu sem sameinað æki þannig myndaði gengu þessar gröfur oft undir nafninu “graðhestar”.
Það var eitt af verkefnum Péturs sem vörubílstjóra bæjarins að flytja graðhestinn milli staða. Nú skyldi flytja hann upp á Urðarveg, til afreka þar. Það var gengið frá vélinni á bílinn á hefðbundinn hátt. Ekki man ég lengur hvaðan var ekið en leiðin lá inn Seljalandsveg og upp þá litlu brekku sem áður er nefnd. Þessi leið hafði verið farin vandalaust fram að því en þar sem Pétur var, eins og áður er lýst, ekki í sínu besta formi, þá gleymdi hann sér.
Leiðin lá í krappri hægri beygju, en á vinstri hönd, neðan við Seljalandsveginn var hár og brattur kantur sem lá alla leið niður að bakgörðum húsaraðarinnar við Miðtún. Þar sem Pétur kom akandi með “graðhestinn” í eftirdragi hugsaði hann fyrst og fremst um að ná beygjunni á bílnum en gleymdi algerlega gröfunni aftaní! Hann ók fram á blákantinn fyrir beygjuna en eðli málsins samkvæmt fór vinstra hjól gröfunnar miklu utar. Það fór því beint niður fyrir kantinn, niður í hallann og grafan, sem í þessarri stöðu þoldi ekki mikinn halla, fór beina leið á hliðina! Hún dróst svo með bílnum nokkra metra áður en hún stöðvaðist nánast á hvolfi ofan í skurði við bakgarð hússins neðan við. Þar sem gröfuskóflan var svo skorðuð á tittinum á palli vörubílsins, snerist svo upp á bílinn að þó framhjól hans hvíldu enn á götunni gat lágvaxinn maður gengið undir hægra afturhjól hans. Þegar rauðleitur þrýstivökvinn lak svo af vökvaforðabúri gröfunnar leit svæðið út eins og vettvangur fjöldamorðs!
Það þyngdist brúnin á forráðamönnum bæjarins.
Með öflugum kranabíl tókst að ná gröfunni upp og lagfæra hana. Bíllinn bar hins vegar ekki sitt barr, hann vildi illa standa í alla fætur eftir ævintýrið. Bílstjórinn var dasaður á sálinni. Báðir voru þó dubbaðir upp og voru komnir á götuna litlu síðar.
Landróver var í auglýsingum oft kallaður “fjölhæfasta farartækið á landi”. Víst er um það að hann var vinsæll hjá verktökum og bændum. Þar mun stóra afturhurðin hafa ráðið miklu, það var auðvelt að troða bæði rollum og verkfærakistum inn í afturhlutann. Hann átti því auðvelt val, nýi bæjartæknifræðingurinn hjá Ísafjarðarkaupstað. Nýr, hvítur Landróver með grind á þaki og varahjóli þar á. Auk þess á 750/16 trölladekkjum, yfirburðatæki og stolt eiganda síns. Honum mátti treysta fyrir viðkvæmum mælitækjum og búnaði, enda keyptur með slíkt í huga. Það var mikið að gera hjá bæjartæknifræðingnum þetta sumar og þar réð mestu áðurnefnd nýbygging Urðarvegarins. Það hafði verið byggð ein bráðabirgðaakrein eftir hlíðinni meðan unnið var við lagnir í sjálft vegstæðið, sem var nokkru lægra en yfirborð akvegarins. Vörubílar komu svo með sand, möl, brunnhringi, keilur og rör eftir þörfum. Kannski hefði fyrri reynsla átt að kenna bæjartæknifræðingnum að leggja nýja Landróvernum spottakorn frá veginum. Það var nefnilega von á Pétri með malarhlass á nýviðgerðri Scaniunni. En kannski þurfti hann að hafa hann svona nálægt vegna flutninga á mælitækjum.
Pétri var líka vorkunn. Í næstu ferð á undan hafði enginn Landróver staðið við kantinn. Hvers vegna skyldi hann vera þar nú? Pétur ók varlega eftir vegtroðningnum. Hann hugsaði um að fara gætilega og hann hugsaði um kærustuna. Þar með var rými þrotið fyrir fleiri hugsanir. Hann sá því ekki nýja, hvíta Landróverinn með grindina og varadekkið á þakinu þótt hann æki framhjá honum. Hann ók svo sem eina bíllengd fram fyrir, stöðvaði, lagði á stýrið og bakkaði.
Brothljóðið vakti hann. Inn í draumalandið læddist þessi óþægilega skynjun, að eitthvað hefði farið úrskeiðis. Og þar sem reynslan kennir jafnvel tornæmustu sálum alltaf eitthvað, var hans fyrsta hugsun að losna við hlassið. Hann lyfti því pallinum og hálfkaffærði stórskemmdan Landróverinn í grófri möl og grjóti!
Í skelfingunni reyndi hann svo að aka áfram. Með pallinn uppi, hálffastann í Landróverflakinu og afturhjólin á kafi í möl gat svo sem ekki margt annað gerst: drifið fór aftur með háum hvelli!
Þeir klöppuðu honum á bakið og kvödd´ann, topparnir hjá bænum. Menn höfðu misst þolinmæðina. Sumarið var orðið tími endalausra hremminga og mál var að linnti. Við sáum á bak þessum ágæta dreng, sem tilhugalífið hafði fangað svo illilega að það hafði rænt hann allri þeirri hugsun og skynsemi sem honum hafði þó naumt verið skömmtuð.
Hann var ráðinn hjá lítilli rækjuverksmiðju, sem átti vörubíl. Líka Scaniu en einu númeri minni. Eitt hans fyrsta verk á Scaniunni var að aka möl í plan fyrir rækjuverksmiðjuna. Hann kom í malargryfjurnar og fór í röð bíla sem biðu eftir ámokstri. Honum var umhugað að standa sig í nýju starfi, en unnustan var einnig ofarlega í huga. Líklega þó efst. Hann átti eitthvað vantalað við mann í bíl framar í röðinni og klifraði út úr Scaniunni. Hann gekk svo rólega áfram, því hann var rólegur að eðlisfari. Scanian kom líka rólega á eftir honum, lötrandi í lausagangi en ekki í handbremsu, henni hafði hann gleymt. Hann heyrði þegar trjóna hennar skall á palli næsta bíls fyrir framan og grill, vatnskassi, frambretti og ljós lögðust saman. Hann sá gufumökkinn, frostlagarpollinn og glerbrotin en að öðru leyti starfaði hugurinn ekki..................
Endir.

Frá 11.05 ´06 

Stutt færsla!

Ég hafði í huganum sett saman pistil, byggðan á sönnum atburðum um mann í tilhugalífi. Ég er hins vegar að fara með höfðingjann í skoðun á morgun og þangað fer hann ekki nema vel tilhafður. Ég hafði uppi hávær mótmæli gegn því að hann færi yfirhöfuð í skoðun, enda er það að mínu mati hrein móðgun við þennan aldna bíl að senda hann í eitthvert skoðunarferli eins og hvern annan réttan og sléttan fjölskyldubíl! Mér hefði fundist eðlilegra að forsvarsmenn Aðalskoðunar kæmu heim til mín og afhentu mér skoðunarmiðann persónulega. Mótmæli mín, eða tilmæli voru hins vegar að engu höfð. Klukkan 16 á morgun, þegar vinnu lýkur, má ég hendast með hægfara drekann gegnum umferðarhnútana suður í Aðalskoðun í Hafnarf. og skal vera mættur þar kl. 16.30. Það er eins gott að þeir fari ekki að setja eitthvað út á vagninn, hann hefur nefnilega miklu meiri karakter en allir skoðunarmenn Aðalskoðunar samanlagt.
Nú er ég búinn að hlaða um borð öllum dýnum og sessum sem þar eiga að vera, ásamt blöðum, bókum, kortum og öðru því sem fjarlægt var fyrir veturinn. Búinn að smyrja í koppa en á eftir að bóna mælaborðið. Fer í það núna...........

Frá 08. 05´06 

(mynd fengin að láni af -sudureyri.is- )


Ég skrapp í Perluna í gær til að líta á kynninguna"Perlan Vestfirðir". Þar var, í bás Bolungavíkur, uppsett vefmyndavél úr Víkinni og hreyfingar Bolvíkinga sýndar á stórum skjá. Þar var rjómablíða eins og hér syðra, en þegar myndavélin renndi yfir hafnarsvæðið sást að smábátabryggjan va nær tóm - það voru flestir smábátar á sjó. Þetta rifjaði upp þann sannleik, sem dvölin hér syðra er farin að slæva, að í sjávarplássi úti á landi skiptast dagar ekki í virka og helgar, heldur í róðrardaga og brælur. Og viðri til róðra, þá er róið! Eitt sinn gerði Eggert Skúlason stutta sjónvarpsmynd um líf trillukarla í þáttaröð sem hét "Lífið um borð". Þar fór hann í róður á Rán SH, með Gunnari Leví Haraldssyni í Stykkishólmi. Hann spurði Gunnar hvort að, í ljósi þeirra stífu róðra sem hann stundaði, hvort ekki væri lítið um fjölskyldulíf. Gunnar, hægur að vanda, svaraði einfaldlega: "Það koma brælur á milli"
Þeir eru hættir að koma til Suðureyrar, farfuglarnir. Ekki þessir fleygu og fiðruðu, heldur hinir, sem lögðu vatn undir kjöl á hverju vori og sóttu til sjávarplássanna þar sem mest var fiskivonin. Það reið á að nýta sóknardagana sem best, fiska sem mest hvern dag þeirra fáu sem dagakerfisbátarnir máttu róa. Undir það síðasta munu þessir dagar hafa verið 23 á ári, muni ég rétt, og hver þeirra því afar dýrmætur. Þessir "farfuglar" voru þorpunum líka dýrmætir, þeir fluttu verðmæti á land og keyptu þjónustu í staðinn. Sumir þeirra fastheldnustu réru ár eftir ár frá sömu slóðum, og naustuðu jafnvel báta sína þar, þó þeir sjálfir byggju á öðru landshorni. Svo var dagakerfið fellt niður og allir settir undir kvóta. Þar með hvarf hvatningin til að fiska sem mest á sem stystum tíma. Einhverjir halda þó tryggð við "sína" staði úti á landi og stunda sumarróðrana þaðan áfram en neistinn er ekki sá sami. Það skiptir ekki lengur máli þó illa aflist einn daginn, jafnvel þann næsta líka, kvótinn eyðist ekki! Nái þessir karlar ekki kvótanum sínum yfir sumarið er restin einfaldlega leigð þegar kemur fram í ágúst. Afkastamiklir hraðfiskibátar sjá þá um að svipta upp því sem eftir verður til loka kvótaársins.
En lífið á Suðureyri er ekki samt eftir að dagakerfið hvarf....

þriðjudagur, maí 16, 2006

Frá 06. 05 ´06 

06.05.2006 08:27:58 [Ísfirðingur]

Sorrí, Stína!


Líklega er ég hrjáður af heilaskemmd eftir Skotlandstúrinn! Ja, nema það séu eftirköst frá íslenska þjóðvegakerfinu, sem ég þurfti virkilega að takast á við daginn eftir að glímunni við það skoska lauk.
Eftir öll þau 999 verkefni sem biðu heima var það þúsundasta að sækja húsbílinn og mæta með hann til skoðunar nú í morgun, á árlegum skoðunardegi Félags húsbílaeigenda. Verkefni nr. 999 var hins vegar að ganga frá kaupunum á nýju trilluvélinni, sem nú er komin til landsins og beið á lagernum hjá Vélasölunni. Það tókst, augnabliki eftir að ég rétt náði að ganga frá skilum og afhendingu bílsins sem ég sótti vestur á Ísafjörð á miðvikudag.
Með lafandi tungu þaut ég svo upp í Biskupstungur í gærkvöldi til að sækja húsbílinn. Með í för var stubban, yfirspennt að komast um borð í bílinn og hefja þar með ferðasumarið formlega.
Þegar ég gekk inn í geymsluskemmuna og leit bílinn í fyrsta sinn í rúmlega hálft ár, rann upp fyrir mér ljós. Í öllum erlinum sem á undan var genginn hafði eitt orð dottið út úr minnisbankanum - "númeraplötur!" Ég var kominn upp í Tungur til að sækja bílinn og aka honum heim, og síðan til skoðunar morguninn eftir, en ég hafði algerlega gleymt að taka númerin út! Ég horfði á bílinn með svarta plastramma þar sem númerin áttu að vera. Eina ljósið í myrkrinu var að ég gat þó ekið honum út úr húsinu, út á plan og var þar með ekki lengur seldur undir bóndann til að hleypa mér út. Ég setti í gang, vandræðalaust eftir vetrardvölina, og ók þessa 50 metra út á plan. Lagði og drap á!
Í sjálfu sér gat ég ekki annað gert en að kveikja á þeirri lífsskoðun minni, að maður eigi aldrei að horfa til baka, nema til að draga af því lærdóm. Af þessu gat ég engan lærdóm dregið, orðið "númeraplötur" hafði einfaldlega aldrei komið upp í hugann í ferlinu. Það var því ekki hægt að segja að um gleymsku væri að ræða!
Við ókum því til baka niður á Selfoss og fengum okkur samloku í kvöldmat.
Ég ætla að gera aðra tilraun á mánudagskvöld. Nú á laugardagsmorgni get ég lítið annað gert en að fara suður í Hafnarfjörð og reyna að fá keypta húsbílaskoðun með þeim afslætti sem í boði er í tilefni dagsins.
Endalaust fífl..........

Frá 23. 04 ´06 

Nostalgía? Kannski........

Eins og sjá má "ef myndin prentast vel" er hún tekin í endaðan júní ´94. Þetta er uppi á há- Skálavíkurheiði vestan Bolungavíkur, rétt við vegamótin upp að radarstöðinni á Bolafjalli. Þetta er því sannkallaður "Jeppi á fjalli". Það snjóaði dálítið þennan vetur, þó sýnu mest í lok hans, en eins og ég hef áður nefnt féll mannskaðasnjóflóð þann 5. apríl það vor á skíðasvæðið á Seljalandsdal og niður í Tungudal. Þetta er gríðarleg fönn sem sést best á samanburðinum við upphækkaðan jeppann.


Konan stillti sér upp ásamt syninum, sem þarna var nýorðinn ellefu ára, og eldri dótturinni sem þarna var raunar bara “dóttirin”. Sú yngri var aðeins fjarlæg hugmynd á þessum tíma.


Ég hafði einsett mér að aka vélsleða á snjó alla mánuði ársins ´94. Það tókst ekki alveg, því í september var einn skafl sem tengdi fannir Breiðadals- og Botnsheiða við þjóðveginn nær rofinn í grjóturð, og þar með var “sambandið” farið. Þessi mynd er tekin að kvöldi 6. júlí og útsýnið er af Engidalsbrúnum út yfir Skutulsfjörðinn og þorpið Eyri sem þar stendur.
.

Kvöldsólin roðar fannirnar, sem á myndinni virðast óendanlegar. Þær voru hins vegar endasleppari en myndin gefur til kynna, það var afar stutt í grjóturðirnar beggja vegna. Hið eina sem er óendanlegt á myndinni er fegurðin og kyrrðin.


Ferðalangur hvílir lúin bein? Nei, ekki aldeilis. Þó vélsleðaakstur geti verið ákaflega erfiður líkamlega tekur enginn eftir slíku við svona aðstæður. Klukkan var 23 að kvöldi en veðrið var slíkt að ekki kom til greina að vera í galla. Aðeins vinnuskyrtan með uppbrettar ermar og hjálmurinn. Það sér yfir til Önundarfjarðar, til Korpudals næst á myndinni. Myndin var tekin með tímastillingu og vélinni var stillt upp á stein. Það tók allnokkurn tíma að fá réttan punkt en tókst að lokum.


Þetta er hreint eins og gerst hefði í gær.......

Frá 21.04. '06 

Á Gelti

Ég nefndi myndir frá Galtarvita. Þær koma hér.

Á þeirri fyrstu má sjá síðustu vitaverði Galtarvita, þau Sunnlendingana og hjónin Guðmund og Kolbrúnu. Þau bjuggu þarna með þremur börnum um tveggja ára skeið, allt þar til staðan var lögð niður en fluttust þá til Hafnarfjarðar. Svo fast toguðu þó Vestfirðirnir í þau að eftir u.þ.b. ár voru þau komin aftur og búin að kaupa sér hús á Ísafirði. Þar bjuggu þau allt til aldamóta en fluttust þá í Vogana þar sem Guðmundur starfar sem rafverktaki. Öndvegisfólk sem stóð vel fyrir sínu, höfðingjar heim að sækja. Lengra til hægri á myndinni eru byggingaverktaki (í fjólubláum galla) og steypustöðvarstjóri (í bláum galla), samferðamenn í þessarri sleðaferð. Maðurinn sem er næstur myndavélinni man ég ekki hver var.

Það var eitt og annað gert til dægrastyttingar að Galtarvita. Eitt af því var að renna sér niður brekkurnar á gúmmíbát. Krakkarnir þóttust hafa himin höndum tekið þegar gúmmítuðran var bundin aftan í vélsleða og þeyst af stað!

Húsakynni við Galtarvita voru flest orðin léleg enda lítið viðhald fengið árum saman. Hafði enda lengi staðið til að leggja starfið, og þar með fasta búsetu niður. Brjóstmyndin mun vera eftir Martinus Simson, danskan þúsundþjalasmið, ljósmyndara og skógræktarfrömuð sem bjó í áraraðir á Ísafirði. Styttur og brjóstmyndir eftir hann prýða m.a. lystigarðinn á Ísafirði ásamt s.k. Simsonsgarði í Tunguskógi, en þar átti Simson sumarhús sem hann nefndi Kornustaði. Garðurinn skemmdist illa í mannskaðasnjóflóðinu á Seljalandsdal/Tungudal þann 5/4 ´94, en húsið sjálft hafði þá verið rifið fyrir alllöngu og á grunni þess reist minnismerki um Simson. Þar hefur nú allt verið lagfært að nýju eftir föngum. Brjóstmyndin að Galtarvita mun hafa verið sett upp í viðverutíð Óskars Aðalsteins rithöfundar og vitavarðar.

Myndin hér að neðan var mjög gölluð á filmunni. Siglfirðingurinn fingrafimi, Leó Reynir Ólason tók hana til kostanna í Photoshop forriti og útkoman er ótrúleg! Þarna getur að líta tvær kynslóðir vita. Á þaki þess gamla mótar fyrir festingum lampahússins sem flutt var á þann nýja. Sá gamli mun hafa verið reistur á öðrum áratug síðustu aldar, en sá yngri og stærri er byggður 1959, eins og sjá má. Ljósbúnaðurinn er þó öllu eldri því á gríðarstórum kopartannkransi sem snýr ljóskúplinum er áletrunin: "Constructeur Barbier & Benard 1897 Paris"


Á síðustu myndinni má sjá útsýni úr ljóshúsi vitans til norðausturs. Fjallið er Öskubakur, við sunnanverða Skálavík sem nefnd er í pistli hér neðar. Vorið var í nánd og öðru hverju mátti heyra og sjá klakastykki falla úr klettunum og alla leið niður til sjávar. Í forgrunni eru fjárhús vitavarðar.

Ógleymanleg ferð, ógleymanlegt veður, ógleymanlegt fólk.............

Frá 20.04 ´06 

HRGRINÁS (Hringrás)

Ódýrt vinnuafl - eða bara óhæft?

Mér svona datt það í hug hvort við værum nokkuð komin í ógöngur með allt "erlenda vinnuaflið" sem við höfum flutt inn til að taka toppinn af þenslunni. Þegar Íslendingar fást ekki lengur í störf sem þarf að manna, annaðhvort vegna lélegra launa eða hreinlega mannfæðar, þá þarf að brúa bilið með útlendingum, sem oftar en ekki eru ófærir um að tjá sig á öðru tungumáli en sínu eigin. Það tungumál er svo alloft eitthvað sem Íslendingum er ekki tamt og því verða tjáskiptin stundum hálfundarleg.
Ég veit ekki hvort endurvinnslufyrirtækið Hringrás hefur marga erlenda verkamenn í sinni þjónustu, eða hvort starfsmenn sem sjá um að merkja gáma fyrirtækisins eru kannski íslenskir, en með afar slæm tök á eigin tungu. Mér fannst allavega athyglisverð þessi auglýsing fyrirtækisinsá einum af eigin ruslagámum. Kannski hefur enginn ráðandi maður hjá Hringrás séð þennan gám, kannski eru verkstjórarnir ekki með augun á verkunum og kannski eru bara svona miklir húmoristar starfandi hjá fyrirtækinu.
Mér finnst samt enginn húmor fólginn í að auglýsa eigin heimsku.
Gleðilegt sumar!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?