<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

sunnudagur, apríl 16, 2006

Frá 12. 04 ´06 (áður 260406) 
Með sigurbros á vör!

(vinsaml. afsakið að þetta forheimska forrit leyfir mér ekki að raða myndunum í rétta röð)


Vitiði hvað þetta er ?
Jájá, ókei, þetta er vél.
Raunar vél í gangi!
En þetta er ekki hvaða vél sem er. Þetta er Bayerische Motoren Werke, stolt Þjóðverja, smíðuð úr þýsku sverða- og byssustáli. Eftir harðvítugan barning við fastar spíssadælur, lekar olíulagnir, leka sjódælu, kolóþétta ventla og ónýtan startara ásamt ýmsu fleiru hafðist hún í gang. Eins og fram hefur komið keypti ég þessa vél í Stykkishólmi í fyrrahaust. Það eina sem seljandi vissi um hana var það að hún væri í fullkomnu lagi!
Það sem ég komst fyrst að þegar ég ætlaði að sinna því "formsatriði" að setja í gang áður en ég legði í vinnu við að smíða festingar í bátinn fyrir hana, var að það var nánast ekkert í lagi. Það getur sannarlega verið varasamt að treysta orðum manna sem maður þekkir ekkert.
Eftir mikla vinnu og yfirlegu hafðist þó að koma apparatinu í gang. Á myndinni má sjá vatnsgusur aftur úr púströrinu auk hluta reykjarmekkjarins sem fyllti skúrinn hjá mér svo ekki varð líft inni. Eftir að hafa gengið vel á annan tíma var vélin þó að mestu hætt að reykja og malaði eins og köttur.
Eftir að ég hafði auglýst hana nokkrum sinnum án viðbragða hringdi loks maður sem spurði nokkurra einfaldra spurninga og sagði svo einfaldlega: "ég kaupi þessa vél"
Hann kom svo nokkrum dögum síðar og tók vél og fylgihluti. Ekki til að nota í bát heldur til að snúa einhverskonar tromlu. Ég fékk engar nánari skýringar og fannst eins og ég væri að grafa upp iðnaðarleyndarmál, svo loðin voru svörin. Enda kom mér væntanleg notkun svo sem ekkert við. Fannst þó dálítið merkilegt að kaupandinn var í raun miklu hrifnari af skrúfunni og öxlinum sem fylgdu en vélinni sjálfri. Taldi skrúfuna mesta kostagrip og úr henni mætti eflaust útbúa öflugustu "hræru" landsins. "Svona hræru á enginn á Íslandi" sagði hann hrifinn og handlék apparatið. Ekki fékk ég að vita hvað skyldi hræra.
Kaupandinn, maður á miðjum aldri, sem sannarlega virtist hafa séð allar hliðar lífsins, greiddi vélina og flutti hana burt til síns heima, í einu gróðurhúsahverfi Suðurlandsundirlendisins.
Það má , sé vel þefað, enn finna afgaslyktina af þeirri þýsku í bílskúrnum.


Hér er svo síðasta mynd af "Project litla-Berg" fyrir niðurrif.
Á neðri myndinni má sjá bifvélavirkja í hlutverki skipasmiðs, að gera klárt fyrir 30cm borðhækkun. Til grundvallar breytingunum er lagt útlit trillu í Hafnarfirði sem hin eina sanna litla-Berg rissaði inná með aðstoð Paint-forritsins.

Hér má nokkuð glöggva sig á hugmyndinni að litlu-Berg. Samskonar bátur, en borðhækkaður og yfirbyggður.

Er þetta ekki orðið ágætt í dag?

Frá 12. 04 ´06 

Utan-inn.

Ég var að heyra það í kvöldfréttunum að fjöldi Íslendinga væri á leið utan um páskana. Þetta "að fara utan" hefur lengi velkst fyrir mér. "Að utan" þýðir nefnilega í eðli sínu "inn". Ég get alveg skilið að menn " komi að utan", en að þeir sömu snúi svo við á þröskuldinum og "fari utan" er eitthvað sem ég get ekki sætt mig við.
Einu sinni var fréttaskýringaþáttur í útvarpinu sem hét einfaldlega "Utan úr heimi" Ætli stjórnendur hafi þurft að fara reglulega "utan" til að ná í efni eða ætli það hafi bara borist að utan?
Ég man eftir að hafa fyrir margt löngu lesið knattspyrnusögu Alberts heitins Guðmundssonar, ritaða af Jónasi frá Hriflu. Í bókinni fjallaði Jónas um knattspyrnusögu Alberts frá upphafi og til loka atvinnumennsku. Jónas kveður svo Albert, þar sem hann er kominn heim til Íslands og hefur hafið störf sem innflytjandi og heildsali. Jónas talar í formála um "útfararsögu" Alberts, sem er auðsjáanlega afar vont mál. "Útferðarsaga" væri jafnvel enn verra, og þar sem glöggir menn hafa áttað sig á annmörkum þessara tveggja orða hefur orðið til skrípi eins og "utanfararsaga", sem í raun þýðir andhverfu sína!
Þess er skemmst að minnast að málskrúðsmenn töldu ekki fullnægjandi að hafa "um tvo (eða fleiri) kosti að velja" og settu saman orðskrípið "valkosti", svo menn þyrftu ekki að velja milli kosta heldur hefðu þá frekar nokkra valkosti.
Ef ég hefði áhuga á að skipta um húsnæði mætti ég búast við að til mín kæmi fólk sem byði "makaskipti" Ég efa ekki að makaskipti geti verið mjög skemmtileg fyrir þá sem þannig eru sinnaðir en hvernig hægt er að bjóða húsnæði í "makaskiptum" fyrir annað er algerlega ofvaxið mínum skilningi. Ég er svo heppinn að eiga afar frambærilegan maka (raunar er kannski réttara að tala um afnotarétt, ég er ekki kvæntur) og hef ekki nokkurn áhuga á að skipta þeim maka út fyrir íbúð, eða láta mína íbúð með makanum og fá svo annan í staðinn, sem ég þekki kannski ekki neitt. Ég er nefnilega orðinn svo íhaldssamur með aldrinum að ég get ekki hugsað mér að fara að kynnast nýjum maka með öllu því tvívirka forritunarferli sem slíku hlýtur að fylgja.
Einu sinni söng maður um önd. Það var, nánar tiltekið, villiönd og maðurinn söng í orðastað andarinnar: "Í vor kom ég sunnan....(rétt munað? ) "Sunnan" er þarna notað í sömu merkingu og "utan"
Þetta var áður en þeir fundu upp fuglaflensuna. Þeir höfðu hins vegar fundið upp haglabyssuna............

Frá 06. 04 ´06 


Sterkasti maður í heimi!


(myndin er tekin áður en ég fór að nota gleraugu að staðaldri)

Stubban mín hefur stundum sagt að pabbi hennar hljóti að vera sterkasti pabbi í heimi. Auðvitað samsinni ég þeirri skoðun, lít enda gjarnan svo á að mér sé ekkert ómögulegt, bara ef reynt sé nógu lengi og af nógu mikilli elju þá gangi allir hlutir eftir. Það hefur oft reynst mér ágætlega að lempa hlutina í farið, en stundum hefur þurft að hleypa í herðarnar og taka á honum stóra sínum. Og þá getur verið gott að vera sterkasti pabbi í heimi.
Sl. föstudag þurfti ég að færa bátavagninn, sem smíðaður var undir litlu-Berg til í innkeyrslunni. Vagninn er klettþungur, ef ætti að lyfta honum en að lyfta framenda hans er tiltölulega auðvelt. Sá böggull fylgir þó skammrifi að það er aðeins auðvelt upp í vissa hæð, þar sem vagninn er á tveimur samsíða öxlum aftantil. Meðan hann liggur á beislinu og hvílir á fremri hjólásnum er hann alls ekki þungur, en um leið og beislinu hefur verið lyft upp í lárétta stöðu og aftari öxullinn tekur við burði snöggþyngist átakið og þarf að taka verulega á til að lyfta uppfyrir lárétt, ef þess þarf.
Ég þurfti að færa bátavagninn fram úr innkeyrslunni, snúa honum inni á grasbletti og setja inn aftur. Það gekk ágætlega að draga hann fram en snúningurinn var erfiðari. Þegar ég hafði snúið vagninum og ætlaði að lyfta beislinu aftur gleymdi ég mér, reif fast í og lyfti fullhratt. Við lárétta stöðu snöggstoppaði lyftan og ég fann að eitthvað gaf eftir. Ég sleppti beislinu. Vissi svo sem ekki hvað var að en var aumur í skrokknum og gat hreinlega ekki lyft aftur. Sló því bandi á beislið og dró vagninn þannig auðveldlega á sinn stað. Velti því fyrir mér í leiðinni hvers vegna ég hefði ekki notað bandið strax.
Kvöldið leið, upp rann laugardagsmorgunn með blaðaútburði. Mé fannst ég vera eitthvað asnalegur án þess að geta beinlínis sett fingur á neitt. Kenndi skónum um, og e-u fleiru. Seinni hluti morgunsins allt fram til kl. 14 fór í snúninga með félagann af Lokastígnum. Eftir það lágu fyrir dálitlar járnsmíðar, sem þurfti að sinna utan við skúrinn vegna plássleysis. Ég flutti því vinnuborðið og suðuvélarnar út í frostið og norpaði þar næstu tvo tímana. Þegar ég gafst upp, hætti verki og flúði undan næðingnum inn í hlýjuna var ég orðinn svo gegnkaldur að mér fannst mikið mega vera ef ég fengi ekki flensu uppúr þessum æfingum öllum. Skolaði af mér skítinn, skipti um föt og lagðist upp í sófa.
Eftir að hafa hvílt lúin bein dágóða stund vildi ég standa upp. Sveiflaði fótunum út á gólf- og þá gerðist það! Það var ekki eins og rekinn væri hnífur aftan í vinstra lærið - það var miklu líkara gömlum, ryðguðum garðgaffli. Löppin gaf sig og ég hrundi í gólfið með verkjum sem ég hef aldrei áður kynnst. Mér tókst að standa upp og staulast inn í rúm, þar sem ég steinlá gersamlega viðþolslaus. Konan átti Íbúfen frá gamalli tíð og krafðist þess að ég tæki það en ég neitaði, er enda bölvanlega við öll lyf.
Ég hélt út þónokkurn tíma án Íbúfensins. Tókst m.a.s. að dotta dálitla stund. Þegar ég hins vegar vaknaði aftur fann ég fyrir fyrstu einkennum flensunnar, hita og hálsbólgu auk beinverkja, sem raunar var ekki á bætandi.
Þegar þetta er skrifað er ég enn heimavið. Eftir að hafa liðið vítiskvalir er ég farinn að geta staulast áfram, lærvöðvinn er heldur að lagast. (þökk sé Íbúfeni konunnar? ). Ég hef orðið að sofa í sömu stellingu, hef aðeins getað legið á bakinu með beinan fót. Það orsakar svo stöðuga bakverki sem ég á eftir að vinna bug á. Flensan er þrálát og miklar hitasveiflur fylgja henni. Þetta er önnur flensan á þessu ári, sú fyrri tók eina fimm daga.
Ég vissi svo sem alveg að það væri léttara að nota band til að færa vagninn, en ég treysti á kraftana. Konan var líka margbúin að biðja mig að fara í kuldagallann við vinnuna útivið, en ég tímdi ekki að óhreinka hann.
Kannski bara heimskasti maður í heimi?

Frá 02. 04 ´06 

Ég legg ekki meir´á ykkur....

Í gærmorgun sótti ég félaga minn á flugvöllinn. Hann var að koma að vestan til að erinda eitt og annað hér syðra, og hafði leigt sér íbúð sem Hjartavernd hefur yfir að ráða. Eitt af erindunum var nefnilega hjartatékk eftir stóra aðgerð ´03. Hann hefur raunar verið eins og gormur síðan en þessi tékk eru árviss samt.
Ég spurði hann hvert skyldi aka, hvar Hjartavernd ætti þessa íbúð. "Við Lokastíg" var svarið. Hann skildi ekkert í hvers vegna ég varð hálfmáttlaus af hlátri. Ég reyndi að útlista fyrir honum húmorinn sem ég sæi í því að Hjartavernd byggi hjartasjúklingum athvarf við Lokastíg, sem samkvæmt nafninu hlyti að vera síðasti viðkomustaður hjartasjúklinga í lífinu. Honum var ekkert sérlega skemmt, enda á maður eðlilega ekki að grínast með jafnalvarleg mál. Líklega hefði ég sleppt því ef þessi félagi minn hefði ekki náð slíkum bata sem raun ber vitni.
Hann gat þó skemmt sér með mér þegar við komum að Landsspítalanum og sáum eitthvert skýrasta dæmið um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem ég þekki. Þar hefur verið komið fyrir búnaði til að losna á skjótan og þægilegan hátt við sjúklinga sem enga eiga að eða hafa ekki efni á þokkalegri jarðarför að þessu lífi loknu. Og eins og ég hafði skemmt mér yfir íbúðinni við Lokastíg, þá höfðum við þarna fyrir framan okkur hinn eina sanna Lokastíg.

Eins og alþjóð veit leit Mick Jagger á Ísfirðinga hér um árið. Það er gott að heimsækja Ísafjörð og Jagger hefur eflaust ekki legið á þeim sannindum við félaga sína. Keith Richards greip tækifærið þegar tími gafst og kíkti á Ísfirðinga. Þessi mynd er fengin að láni af -bb.is- og sýnir Richards þegar hann leit inn á Langa Manga í gær. Með honum á myndinni er Thelma, blm. Bæjarins besta á Ísafirði.

Frá 31.03 ´06 

Ég er greindarskertur!

...eða það held ég að hljóti að vera. Ég hef undanfarið verið að reyna að hjálpa stelpuskottinu mínu með stærðfræði en komist að því að ég man ekki einföldustu formúlurnar, eins og flatarmál trapisu, nema leggjast í stífa upprifjun. Um leið velti ég því fyrir mér hvort ég hafi yfirhöfuð einhvern tíma náð að læra þessar formúlur almennilega. Ég var nefnilega aldrei neitt stærðfræðiséní, hvað þá þegar kom að eðlis- og efnafræði!
Þó man ég eftir einum vetri þar sem mér gekk vel að læra stærðfræðina. Það var jafnframt síðasti vetur minnar skólagöngu, en henni lauk með námi í Iðnskólanum á Ísafirði. Ég ætla að fara nánar í það og bæta við þennan pistil undir kvöldið, þar sem nú er að koma vinnutími. Þegar ég sest við lyklaborðið hrúgast nefnilega upp meira efni í hausnum en svo að ég komi því öllu frá mér á þeim örfáu mínútum sem ég hef til umráða í tölvunni í morgunsárið. Þangað til, haben sí das rúligheit, eins og Helgi Björnsson orðaði það svo snilldarlega.
Kl.17.56.
Nú er að mínu viti komið þetta "undir kvöldið". Og til að fyrirbyggja misskilning þá var þeð ekki Helgi Björnsson, sem stundum er ranglega nefndur söngvari, sem lét frá sér fara ofangreind fleyg orð, heldur nafni hans Helgi Björnsson fv. bifreiðaskoðunarmaður á Ísafirði, nú hjá Umferðarstofu. Gegnheill húmoristi, Helgi, og fleiri slíkir frasar fleygir eftir hann.
Það sem aðallega olli betri árangri stærðfræðináms míns hinn síðasta vetur skólagöngunnar olli einnig auknum stærðfræðiáhuga fleiri ungra manna. Kennarinn! Það var semsé kona skólastjórans sem kenndi stærðfræðina, stórmyndarleg kona, verklega vaxin og vöðvastælt, enda mikil útivistarkona. Reykti pípu og ók um á Rússajeppa. Heljarins kvenmaður, eiginlega allt of verkleg og öflug fyrir hinn heimspekilega þenkjandi skólastjóra okkar, rólyndismann sem okkur fannst að hlyti að vera undirokaður af þessari Caterpillarkonu. Þau voru bæði af hinni s.k. ´68 kynslóð eins og svo margir þeirra kennara sem komu og fóru á þessum árum.
En þessi kona, sem við guttarnir litum á sem nokkurs konar gyðju í gúmmístígvélum með Royal-Briar pípu í munnvikinu var nefnilega, auk þess að vera nánast eins og ein af hópnum, skrambi góður kennari. Henni tókst á einni önn að troða meiri stærðfræði í jafnvel þá tornæmustu, en öðrum hafði tekist alla skólagönguna fram að því. Þennan vetur var ég hreinlega farinn að efast um að ég væri jafn vitlaus og fram að því hafði verið haldið fram, enda raunverulega farinn að hafa gaman af stærðfræði - sem almennt var hættumerki, sá sem hafði gaman af skólagöngu var einfaldlega "öðruvísi".
Að öðru: Í ljósi þess að flest félög sem vilja að tekið sé mark á þeim úti í heimi hafa hnýtt "Group" aftan í nafn sitt hef ég lagt til á mínum vinnustað að tekið verði upp nafnið "Toppur Group", og við því ekki lengur bifvélavirkjar heldur "starfsmenn á farartækjasviði" Þessi tillaga hefur mælst ákaflega vel fyrir og er undirbúningsvinna nú í fullum gangi. Sú vinna felst aðallega í því að hanna könnur, glös og öskubakka með nýja nafninu og að breyta nótuhausum, nafnspjöldum og öðru því prentuðu máli sem þurfa þykir.
Að enn öðru: Sl. miðvikudagskvöld sat ég tónleika Karlakórsins Stefnis, í Langholtskirkju. Fór þangað með konunni í boði "Topps Group", sem hafði áskotnast nokkrir miðar. Þarna var fríður hópur manna í mörgæsabúningum sem gerðu hróp að viðstöddum við góðar undirtektir. Í söngvarahópnum voru m.a. tveir synir stjórnandans og hafa báðir verið í námi hjá þekktum íslenskum baritonsöngvara. Sá yngri söng tvísöng með tenór, sá eldri söng einsöng í tveimur lögum. Þó eldri væri, var hann vart af unglingsaldri. En röddin maður, þvílík rödd! Guttinn, sem slettist fram úr hópnum og tók sér stöðu á gólfinu rétt aftan við míkrófónsúlu með handaslætti og bægslagangi sem sést svo vel hjá unglingum sem fela óstyrk með ýktum kæruleysishreyfingum, þurfti svo sannarlega ekki að fela eitt eða neitt. Guðlaugur Atlason heitir hann, leggið það á minnið! Hann söng með kórnum lagið "Á leið til Mandalay" þannig að maður fékk gæsahúð!
Ef þið eruð snögg þá er Karlakórinn Stefnir með tónleika í Hlégarði í kvöld kl. 20. Ef þið náið ekki eða hafið ekki tök á að fara af öðrum ástæðum, þá álítið þennan dag ónýtan og strikið hann út..............

Frá 23.03 ´06 

Ugla sat...


Það ætlar að ganga hálfilla að fá keypta nýja vél í litlu-Berg. Eftir athuganir hafði ég helst augastað á YANMAR sem nú er ekki lengur seld af Merkúr hf. heldur einhverju apparati sem heitir Marás og mér skilst að sé angi af sameiningu Merkúr og Steypustöðvarinnar undir nafninu MEST. YANMAR var á besta verðinu auk þess að vera þrautreynd vél og traust. Samskiptin við þann sölumann sem ég talaði við hafa hins vegar verið þannig að ég hringi í hann, hann er upptekinn og lofar að hringja daginn eftir. Síðan líða nokkrir dagar þar til hann hringir, ekki með neitt í höndunum heldur til að láta mig vita að hann sé sko ekki búinn að gleyma mér. Hann hefur fengið allar umbeðnar upplýsingar frá mér en ekkert gerist annað en það að síðast þegar hann hringdi til að láta mig vita að hann hefði ekki gleymt mér sagðist hann einnig vera að bíða eftir upplýsingum frá (skips)skrúfuframleiðanda erlendis.
Kommon! Það er rætt um fjórtán hestafla vél í fimmkommafimm metra langan bát,með skrúfu sem ég ætla að nota áfram. Hversu mikil vísindi þarf til að leysa jafn einfaldan hlut? Hversu mikið vesen verður að fá varahluti í þessa vél fyrst áhuginn á að selja vélina sjálfa er ekki meiri?
Síðdegis í gær var þolinmæðin þrotin. Ég hringdi í Vélasöluna hf., gamalkunnugt fyrirtæki sem vestanmenn þekkja vel og oftast að góðu einu. Í tengslum við Vélasöluna er rekið vélaverkstæði í eigu og undir stjórn Ísfirðinga sem ég er kunnugur að góðu einu. Vélasalan býður vél að öllu leyti sambærilega við YANMAR vélina en heldur dýrari. Ég talaði þar við Stefán sölumann og spurði hann að því hvort, m.t.t. þess að allar stærðir væru þekktar, bæði á bát og skrúfu, um einhver illleysanleg vísindi væri að ræða. Hann hló bara! Bað mig að hringja núna með morgninum, þá skyldi hann hafa tilbúnar þær upplýsingar sem þyrfti. Ég hafði raunar áður rætt lítilllega við einhvern sölumann Vélasölunnar og þá sagt honum verðið á YANMAR vélinni. Honum þótti þá líklegt að þeir gætu, með smá tilhliðrun, nálgast hana í verði.
Ég er dálítið spenntur að vita hvað kemur út úr næsta símtali.
Viðbót skrifuð kl. 18.15.
Ég hringdi í þennan Stefán, sölumann Vélasölunnar um hálfellefuleytið í morgun. Hann sagðist reyndar ekki hafa haft tíma til að fara yfir þetta vélarmál en bað mig um símanúmer og sagðist hafa samband um leið og hann hefði reiknað út hlutfallið sem ég þyrfti að hafa í gírnum við vélina miðað við skrúfuna á bátnum. Ég átti svosem á öllu von eftir allt sem á undan var gengið en viti menn! Eftir tuttugu mínútur hringdi hann aftur og nú með allt á hreinu. Búinn að finna hlutfall sem hentaði, sagði að ég gæti raunar þurft að láta minnka skrúfuna örlítið en þó skyldi ég prófa bátinn með nýju vélinni fyrst og sjá svo til. Það tæki mánuð að fá vélina til landsins og ef ég væri tilbúinn með innborgun sem staðfestingu yrði vélin pöntuð strax.
Hálftíma síðar hafði hann fengið sína innborgun.
Maðurinn frá Marási hefur enn ekki hringt "á morgun". Þetta "á morgun" var raunar á þriðjudaginn sl. Ég hálfvorkenni þeim sem eiga þessar ágætu YANMAR vélar en eru seldir undir þessa slöku þjónustu.
Ég þarf ekki lengur að "uglasat-a" hvaða vél ég nota.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?