<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

þriðjudagur, mars 21, 2006

Frá 19. 03. ´06 

Dulræna.


Hafdís Lilja skrifar komment ("komment" er glatað orð, "athugasemd" er skárra en er samt eitthvað ankannalegt - segjum bara komment) á línurnar sem ég skrifaði til að hvetja fólk til að skrifa komment. Ég ætlaðist alls ekki til að fá komment á þær línur enda eru þær ekki pistill. Ég vildi að sjálfsögðu fá komment á þrjá síðustu pistla þar á undan, en takk samt. Allt er betr´en Eggert, eins og amma sagði.
Kommentið hennar Hafdísar Lilju hefst á tölunni 3819. Þetta vakti spurningar. Fyrst hélt ég að þetta væri síðasti hluti kennitölu hennar. Ég áttaði mig ekki hvað ég ætti að gera með þennan hluta kennitölu hennar. Svo tók ég eftir því að tvisvar sinnum nítján gera þrjátíu og átta! Humm! Tveir ganga ekki upp í nítján en sé þrjátíu og átta deilt í tvennt er útkoman nítján! Það er semsé hægt að deila í þrjátíu og átta með tveimur en ekki fjórum! Spúký.
3819 gat líka verið símanúmer á Ísafirði áður en símkerfið varð svo yfirmáta átómatískt að svæðisnúmerin hurfu og allir landshlutar fengu þrjár aukatölur framan við númerið sitt. Mér datt í hug að athuga hver á Ísafirði hefði símanúmer 3819 (að slepptu 456 fyrir framan). Það reyndist vera Ragnheiður Baldursdóttir stöðvarstjóri. Stöðvarstjóri hvar? Jú, stöðvarstjóri Pósts og síma (a.m.k. meðan batteríið hét það). Málið gerðist dularfyllra. Hvað var Hafdís Lilja að reyna að segja mér. Ég rifjaði upp. Ragnheiður er gift Kristjáni Sigmundssyni vélstjóra hjá Orkubúinu (sé það enn til). Kristján er frá Látrum, Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Ragnheiður er frá Vatnsfirði í Djúpi, samliggjandi Mjóafirði! Aha aha! Ég þekki bæði Ragnheiði og Stjána á Látrum og gat ekki ímyndað mér hvað Hafdís Lilja vildi segja mér um þau.
Svo datt ég niður á lausn. Ragga er dóttir séra Baldurs Vilhelmssonar, andlegs leiðtoga inn-Djúpsmanna árum saman, fyrrum prófasts í Vatnsfirði, og síðan hennar Hafdísar heitir "Andleg ruslafata"! Það lá því í augum uppi að tengingin hlaut að vera andlegs eðlis. Ég hlakkaði ofboðslega til að fara að sofa því ég var viss um að allt það leynda myndi opinberast mér í draumi.
Svo fattaði ég að Hafdís Lilja var bara að tilgreina gestanúmer sitt á síðunni!
Takk fyrir kommentin og haldið áfram á sömu braut. Annars verð ég hreinlega að fara að skrifa þau sjálfur undir hinum ýmsu dulnefnum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þau munu líta út.
Hvernig líst ykkur annars á bátinn minn? Ég átti hálft í hvoru von á fleiri athugasemdum við vitleysisganginn. Hlutirnir hafa ekki alltaf litið gæfulega út í upphafi en við spyrjum að leikslokum.....

Frá 18. 03. ´06 

Ég heiti því...

að skrifa ekki einn staf í viðbót fyrr en ég hef fengið fleiri en eitt komment á síðustu þrjá pistla..................og hananú!

Frá 17. 03. ´06 

Ég er ósýnilegur!

Þá hef ég fengið vissu fyrir því að ég er - eða get verið- ósýnilegur. Ég upplifði þetta í kvöld. Fór bryggjurúntinn í Hafnarfjörð að vanda en af því mig hefur svo lengi langað í brúnan ís, svona súkkulaðiís, þið vitið, á Snæland videó við Lækinn þá lét ég eftir mér að renna þangað fyrst. Hugðist svo njóta þess að horfa yfir trilluflotann og sleikja ís í leiðinni. Inni á Snæland vídeó voru þrjár hræður og þrjár afgreiðsludömur. Ég stillti mér upp við borðið og beið. Einn kúnninn fór að skoða myndir á leigunni, annar fékk afgreiðslu og um leið hvarf ein afgreiðsludaman. Sá sem síðastur var þeirra þriggja var þá næstur. "Hamborgara með beikoni" , hljóðaði pöntunin. "Augnablik,ég þarf að skera beikon" var svar dömunnar. Ég beið áfram. Afgreiðsludama birtist, gekk hratt framhjá og hvarf við hinn enda borðsins. Tíminn leið. Önnur birtist með plasthanska, greinilega afar upptekin. Sú með beikonið sýslaði eitthvað við steikargræjurnar. Sú með hanskana hvarf aftur. Ég beið enn. Líka kúnninn sem beið eftir hamborgaranum. Það var þó allavega verið að afgreiða hann. Þegar ein daman birtist enn og hvarf á ný var mér nóg boðið. Það var hreinlega eins og ég stæði alls ekki við borðið. Eða þá að ég sæist ekki! Það læddist að mér illur grunur. Gat verið að ég væri ósýnilegur? Hvað væri þá til ráða? Dömurnar virtust ekki sjá mig. Ég gafst upp og hypjaði mig út íslaus. Enginn afgreiðir kúnna sem sést ekki!
Fór á bryggjuna en stoppaði stutt. Trillurnar voru þarna enn, spegluðust í logninu og skini ljósamastranna. Mig langaði í ís.
Lagði af stað heimleiðis með hálfum huga. Skyldi ég líka vera ósýnilegur í Kópavogi? Á Reykjavíkurveginum datt mér í hug að athuga með Snæland vídeó sem þar er. Renndi upp að búðinni og fór inn. Nokkrir kúnnar að skoða myndir, aðrir sátu við borð en enginn var við afgreiðsluborðið. Ég stillti mér upp en það vantaði afgreiðsludömur. Ég bankaði laust í borðið og um leið kom inn í búðina austurlensk kona og tók sér stöðu stutt frá mér. Afgreiðsludama birtist og sigldi fulla ferð að þeirri austurlensku sem hóf að panta eitthvað á bjöguðu máli. Ég fann hvernig óttinn læddist að mér. Afgreiðsludaman virtist ekki sjá mig. Að baki mér heyrði ég tvær kvenraddir. Tvær konur komu inn og ræddu ísmál. Þær stilltu sér upp hinu megin við mig. Samstundis birtist afgreiðsludama eins og sprottin upp úr gólfinu fyrir framan þær. "Hvað má bjóða ykkur"
Ég fann skelfinguna hríslast um mig. Mér voru allar bjargir bannaðar. Ég gat ekki með nokkru móti fengið brúnan ís. Fólkið sá mig hreinlega ekki! Ég læddist út úr búðinni og lagði af stað heimleiðis. Mitt síðasta hálmstrá var að einhvers staðar á bæjarmörkum hyrfu álögin og ég yrði aftur sýnilegur. Ég varð að prófa áður en ég kæmi heim. Hvaða gagn væri annars að því að koma heim ósýnilegur? Hvað myndi hundurinn gera? Eða kötturinn? Eða þá konan og börnin?
Ég mundi eftir gjafabréfinu góða, sem ég fékk í jólagjöf frá syninum og tengdadóttur. Þið munið, þessu uppá tíu stk. ísa í brauði, miðstærð með lúxusdýfu, í Rebba í Hamraborg. Stoppaði þar og læddist með hálfum huga að borðinu. Þar var Regína að afgreiða, brosti sínu blíðasta og bauð gott kvöld. Vá maður! Regína sá mig strax. Það gat bara þýtt tvennt: Annaðhvort var ég orðinn sýnilegur aftur eða Regína gat séð ósýnilegt fólk. Ég taldi það fyrra líklegra. Bað um eitt stykki jólagjöf og fékk.- Bara svona hviss!bang! Eini gallinn var að Rebbi selur bara hvítan ís og bleikan. Ekki brúnan.
Ég fór heim þokkalega glaður með að vera aftur orðinn sýnilegur. Konan skammaði mig fyrir að koma heim með ís, bara fyrir mig. Það færði mér heim sanninn um að hún sá mig líka. Allavega sá hún ísinn......

Frá 15. 03.´06 

Er´ekkj´allir í stuði?

Má til með að benda á stórskemmtilega umræðu sem nú fer fram á gestabók Félags húsbílaeigenda, husbill.is. Vil líka benda þeim á, er kynnu að efast , að þarna skrifar fullorðið fólk sem er eða á að vera með fulla fimm. Ég vil ekki sverja af mér allan skyldleika við skrif í bókina en ég hef heldur aldrei fallið undir ofangreinda skilgreiningu. Ég hef stundum kannski gengið fulllangt í að hleypa viðkvæmu fólki upp og fengið á baukinn fyrir vikið.
En þetta er bara svo helvíti gaman!

Frá 08.03 ´06 

Heimilisverkfræði.


Á gamalli videóspólu á ég þáttaröð sem heitir "Verstöðin Ísland". Í fjórða þætti og síðasta er fjallað m.a. um togarann Breka frá Vestmannaeyjum sem er í myndinni á leið í breytingar til Póllands. Til að undirbúa breytingarnar komu pólskir starfsmenn skipasmiðjunnar til Eyja og framkvæmdu nauðsynlegar mælingar á skipinu.

Þetta fannst mér flott!

Auðvitað þarf að mæla í bak og fyrir áður en ráðist er í stórframkvæmdir á borð við endurbyggingu skipa. Mér fannst því gefa auga leið að litla-Berg þyrfti að undirgangast slíkar mælingar áður en hafist yrði handa við umbyltinguna. Auðvitað var þar allt smærra í sniðum en vísindin að baki hlutu þó að vera þau sömu.
Því var vagninn nýsmíðaði dreginn út að Kópavogshöfn og bátsflakinu komið fyrir á honum.

(Mynd)

Litla-Berg lyftir nöfnu sinni upp svo vagninn komist undir.
Það gerðum við Stubban með köðlum og stroffum ásamt víratalíu og keðjulásum.

(Mynd)

"Áhöfnin" togar í.
Eftir að vinnu lauk í gær, föstudag, fékk ég Manga vinnufélaga minn til að aðstoða mig við að sjósetja. Það er raunar nær ófrávíkjanleg regla að maður eigi að geta gert alla hluti sjálfur, og það sem maður ekki geti gert þannig eigi maður að láta ósnert. (ein meginlífsregla G.Th.)
Í þessu tilfelli varð að gera undantekningu þar sem hvorki vildi ég missa bíl, vagn né skip á haf út ef illa færi. Magnús féllst því á að rétta fíflinu hjálparhönd svo framarlega sem enginn fengi að vita af því og hann sæist hvergi á mynd.
Til að vísindalegar niðustöður mælinga yrðu sem næst óhrekjanlegar var litla-Berg lestuð gangstéttarhellum aftan til, sem næst jafnþyngd væntanlegrar vélar, rafgeymis o.fl. tilheyrandi búnaðar. Eftir að allt hafði svo verið tryggt með köðlum og keðjum var rennt á flot.

(Mynd)
Skip meðal skipa.

Áhöfnin, einn maður, klifraði um borð í hlutverki skipstjóra, stýrimanns, vélameistara og tæknimanns. Málbandið var dregið upp, réttskeiðar lagðar á fyrirfram ákveðna staði og allar niðurstöðutölur skráðar í minni tæknimanns.

(Mynd)

"Tækninefnd" að störfum. Við skoðun myndarinnar birtist "tækninefnd" í fyrsta sinn með óyggjandi hætti sú sára staðreynd sem blasir við ofan á höfðinu!

Það kom í ljós að þegar “áhöfnin” fór fram í stefni til að leika kellinguna í Titanicmyndinni kom bæði skrúfa og stýri bátsins úr sjó, þrátt fyrir áðurnefnda jafnþyngd vélar úr steinsteypu. Magnús, (sem er, vegna útlitslegra einkenna stundum nefndur “maðurinn með stefnuljósið á hausnum”) náði því miður aðeins mynd af skrúfunni, því myndavélin varð rafmagnslaus áður en lifandi eftirmynd Kate Winslet náðist á mynd. Ekki náðist heldur mynd af nokkrum nærstöddum mönnum sem hreinlega láku niður af hlátri yfir fíflinu á flakinu í flæðarmálinu.

(Mynd)
Skrúfu og stýri lyft með "Winslet-aðferðinni"

Að æfingum loknum var litla-Berg tekin í vagninn aftur og á land. Síðar um kvöldið var hún dregin heim á Lyngbrekkuna og komið fyrir í innkeyrslunni, nágrönnum til gleði, yndisauka og upprifjunar á árunum tveimur meðan húsbíllinn var í smíðum.

Frá 06. 03. ´06 

Aftan frá!

(Það skal skýrt tekið fram að titillinn á ekkert skylt við girðingarstaurinn sem áður er nefndur)
Ég les blöðin. Kannski ekki eins og gert er ráð fyrir að þau séu lesin heldur í öfuga átt. Ég byrja á forsíðunni, les síðan baksíðuna, sé þar eitthvert lesmál og vinn mig síðan inn eftir blaðinu aftan frá.
Í morgun leit ég í DV. Las eins og lýst er að ofan. Náði inn á opnuna með bls.36/37. Þar fangaði athyglina grein sem ég las yfir a.m.k. tvisvar. Náði mér í penna og merkti nokkur orð og setningar sem mér fannst skoðunarverðar.
Ég komst aldrei innar í blaðið.
Ég ætla ekki að gerast ritdómari. Bendi aðeins á að DV hefur margopinberað þann vilja og þá stefnu, að blaðið skuli taka alvarlega. Því birti ég þessa dæmalausu grein hér, öðrum til fróðleiks og skemmtunar. Ég hef merkt nokkur atriði, önnur lét ég ósnert og meti nú hver fyrir sig.
-------------------------------------------------------------------------------------
SAGA HINNA REKIN Í LOST
Í LÍFSHÁSKA Í KVÖLD ER REKIN SAGA FÓLKSINS SEM VAR Í AFTURENDA FLUGVÉLARINNAR. AFTURENDINN LENTI Á ÖÐRUM STAÐ OG VAR FJÖLDI FÓLKS SEM AÐ LIFÐI ÞAÐ AF. HINS VEGAR ERU ÖRFÁ EFTIR.

Sjöundi þáttur annarar seríu af þáttaröðinni Lífsháski, fer í loftið í kvöld. Hann er sýndur á RÚV. klukkan 22.25 eins og vanalega. Þáttaröð númer tvö byrjaði á æsispennandi hátt. Þar höfðu Jack og félagar náð að opna hlerann skuggalega og voru að fara síga ofan í hann. Ýmislegt kom í ljós þegar ofan í hleran var komið. Hins vegar vöknuðu helmingi fleiri spurningar heldur en þeir einu sem var svarað, hvað var ofan í hleranum? Í undanförnum þáttum hefur ekki verið mikið að gerast og spennan hefur dottið aðeins niður. Þetta gerðist líka í fyrstu seríu. Í byrjun hennar var maður var við alls kyns óhljóð og riskingar inni í frumskóginum. Maður beið stöðugt eftir því að þættirnir breyttust í Jurassic Park fjögur en ekkert varð af því.
Nú fer hins vegar spennan aðeins að aukast aftur því í þessum þætti er fjallað um hina 48 dagana á eyjunni. Sem sagt hvernig eyddi hinn helmingur áhafnarinnar dögum sínum og af hverju er þau aðeins örfá eftir? Hvað kom fyrir? Hvar eru allir? Tók þá einhver? Þetta eru allt spurningar sem að vakna og nú á það eftir að koma í ljós hversu mikið forvitni áhorfenda verður svalað.
Það hefur aldrei neinu verið tilsparað þegar kemur að Lost þáttunum. Til dæmis þá kostaði fyrsti þáttinn, sem var prufuþáttur, 12 milljónir dala. Það er mun meira en almennt gerist með slíka þætti. Lloyd Brown sem var formaður skemmtiráðs hjá ABC sjónvarpsstöðinni gaf grænt ljós á fjármagnið og gerð þáttarins. Hann var rekinn fyrir vikið. Lost varð svo einn vinsælasti þáttur sjónvarpsstöðvarinnar frá upphafi.
DV, mánud. 6.3.´06. bls. 36-7

Frá 02.03. ´06 

Tvö líf.

(Stubban og Dínó)

Mér hefur alltaf fundist þessi mynd alveg sérstök. Hún sýnir nefnilega tvö líf, tvö andlit. Annað í mótun, á uppleið og úr því skín heibrigði, áhyggjuleysi og endalaus gleði yfir tilverunni. Í hinu má lesa lífsreynslu liðinna ára, lífsleiðin nálgast endimörk , ærsl og kæti æskunnar langt að baki og hann umber atlot barnsins með stóiskri ró. Þó ólmast sé í kringum hann liggur hann sem fastast, leiðir hjá sér hávaðann og hamaganginn. Teygir sig öðru hvoru í dallinn sinn eða vatnsskálina en lætur þess á milli sólina verma sig í grasinu. Líklega er hugurinn einhversstaðar langt í burtu, kannski hjá hvolpunum sem hann sjálfur eignaðist áður fyrr. Hann lét hvorki barnið né myndasmiðinn raska ró sinni. Stuttu eftir að myndin var tekin var hann allur.
Stubban á myndinni er nú á ellefta ári og dafnar sem aldrei fyrr.

Sl fimmtudagskvöld sóttum við konan harmonikutónleika í Salnum í Kópavogi.
Ég hef alltaf haft afar gaman af harmonikuleik. Hef áður nefnt þá virðingu sem ég ber fyrir öllum þeim sem geta spilað á hljóðfæri, og sú virðing er ekki bundin færni. Mér þykir jafn gaman að hlusta á barn sem er að stíga fyrstu skrefin í hljóðfæraleik eins og þá snillinga sem þarna komu fram og skemmtu. Það er hreint með ólíkindum hvað hægt er að ná mikilli færni á magaorgel. Þarna léku tveir meistarar, Svíi og Norðmaður, sá síðarnefndi fv. heimsmeistari í nikkuleik. Hreint magnað.
Við konan brugðum okkur smástund af bæ í gærkvöldi. Hún í heimsókn til kunningja, ég að vanda á bryggjuna í Hafnarfirði. Við komum heim á sama tíma og þegar við gengum að húsinu heyrðum við spilað á píanóið. Við læddumst inn og reyndum að láta fara lítið fyrir okkur. Stoppuðum í stiganum og hlustuðum. Það var opið fram á gang og við píanóið sat drengurinn, sem aldrei hefur fengið tilsögn í píanóleik, og spilaði hnökralaust þekkt lag. Hjá honum stóð eldri dóttirin og söng.
Alltof, alltof sjaldgæft, a.m.k. svo við heyrum, en gerist þó.
Standandi þarna í stiganum fannst okkur eins og við hefðum áorkað einhverju, tekist eitthvað. Fengið staðfestingu á að eitthvað hlytum við að hafa gert rétt.
Þegar ég kom heim úr vinnu sl. föstudag stóð stubban innan við dyrnar með fiðlu. Um leið og ég kom inn byrjaði hún að spila einfalt lag, hægt og bítandi vann hún sig gegnum lagið án teljandi feila og brosti út að eyrum þegar síðasti tónninn dó út. "Var´ett´ekki flott? " Auðvitað fékk hún sitt hrós. Hún var að snerta á fiðlu í fyrsta sinn, hjá henni var skólasystir sem er í Suzukinámi og hafði kennt stubbu nokkur grunnatriði eftir skóla þennan dag. Sagan endurtók sig þegar mamman kom heim úr vinnu. Stubban hefur gutlað á píanóið með tilsögn bróður síns og systur, þær bekkjarsystur höfðu komið saman eftir skólann til að prófa að spila saman. Stubban varð hins vegar hugfangin af fiðlunni og síðan hefur ekkert annað komist að í hennar huga.

(Pampers- fyrir þur og hamingjusöm börn)

Ég hef nokkrum sinnum birt myndir af misheppnuðum eða ranglega stafsettum auglýsingum, s.s. á bónstöðinni þar sem stendur "Djúhreinsun" og bílnum með áletruninni" ´--með lífsstíðarábyrgð" Gaman væri að vita hvað Íslensk-ameríska verslunarfélagið borgaði auglýsingastofu fyrir þessi vinnubrögð!

Frá 28. 02. ´06 

Ein stutt, ein löng.


Af siðferðisástæðum og vegna þess að ég er kurteis, vel upp alinn og því alls ekki orðljótur hefur undirtitillinn: "Tekinn í rxxxgatið (með girðingarstaur)" verið fjarlægður.
Saga 1.
Til að gera langa sögu stutta þá keypti ég bát vestur á Reykhólum. Mun hafa minnst á það nokkrum orðum áður. Báturinn var með 30 ára gamla vél sem var í óvissu ástandi. Ég sótti vélina sérstaklega, ásamt annarri í varahluti, flutti hana suður í bílskúrinn í Kópavogi og hlutaði sundur. Eftir að hafa kannað ástand vélahlutanna og varahluti ákvað ég að eyða ekki frekari vinnu í þessa vél og fleygði henni ásamt öllu tilheyrandi.
Saga 2.
Kunningi hringdi til mín. Sagðist vita um vél uppi í Stykkishólmi sem væri til sölu. Um ástand vissi hann ekki en gaf mér símanúmer. Ég hringdi og fyrir svörum varð maður sem sagði það rétt að hann væri að selja vél. Hann vissi það eitt um ástand hennar að hún væri í lagi. Annað ekki. Mér skildist að þriðji aðili ætti gripinn en sá væri einhversstaðar utan seilingar og erfitt að ná í hann. Ég spurði manninn hvort öruggt væri að vélin væri í lagi. Hann sagði henni hafa verið skipt út fyrir stærri vél, og hafa verið í lagi þegar hún var tekin úr. Þetta væri BMW dísilvél, sérbyggð fyrir trillur. Með vélinni fylgdi eitt og annað, skrúfubúnaður, sjópústkerfi, vélarpúðar og óhrjálegt mælaborð. Ásett verð var 30þúsundkall. Svo sem enginn peningur þannig, mér fannst takandi séns á kaupunum því maður hefur svo sem áður hent stærri upphæð í vitleysu. Ég gerði mér ferð í Hólminn til að líta á vélina. Hún virtist (og var raunar) allmiklu yngri en ég hafði ætlað. Aðspurður enn kvað maðurinn hana í fínu lagi. Kaupin voru gerð og ég flutti vélina suður í sömu ferð. Gekk frá henni undir plasti utan við bílskúrinn minn og þar hefur hún verið meðan bátavagninn var í smíðum. Nú á dögunum var svo komið að því að setja vélina í bátinn. Ég ákvað, svona sem formsatriði að taka vélina inn í skúr, tengja við hana nauðsynlegan búnað og gangsetja. Langaði að heyra í henni hljóðið og fullvissa mig um að allt virkaði. Að lokinni vinnu sl. föstudag tók ég með mér stórt hleðslutæki heim í skúr. Á laugardagsmorgni var allt tilbúið fyrir stóru stundina. Eftir morgunkaffið skyldi reyna gangsetningu. Ég tengdi rafmagn, skrúfaði frá kælivatni, setti á mig heyrnarhlífar og skaut!
Það gerðist ekkert. Rafmagnið blossaði á startaranum en vélin hreyfðist varla. Það rauk úr öllum raflögnum og öll mín reynsla og þekking sagði strax sömu söguna: startarinn var bilaður. Ég tók startarann frá vélinni og hlutaði hann sundur. Það var augljóst að sá bátur sem hafði haft þessa vél um borð með þessum startara hafði ekki farið langt frá bryggju. Svo bilaður var hann og slitinn. Það fóru að renna á mig tvær grímur. Sem betur fór var opið í Bílanausti og þangað sótti ég varahluti. Rétt uppúr hádegi hafði ég lokið viðgerð á startaranum og setti hann í. Skaut aftur. Nú snérist vélin þó, en ekkert lífsmark var með henni. Ég yfirfór allt en ekkert dugði. Hún vildi ekki lifna við. Ég fann út að olíukerfið vann ekki, þ.e. hluti þess. Ég taldi þar um að ræða fasta rafmagnsspólu fyrir "ádrepara" og reyndi að glöggva mig á þeim hlutum. Þar sem engar teikningar voru til hafði ég fundið varahlutalista á netinu og reyndi að styðjast við hann. Eftir að hafa opnað stóran hluta vélarinnar og skoðað var ég engu nær, nema að því leyti að ég tók eftir að allt virtist hafa verið opnað áður og því ljóst að eitthvað hafði þurft áður að eiga við þessa hluti. Það læddist að mér illur grunur. Hafði mannhelvítið aðeins vantað aura fyrir brennivíni og gripið til þess ráðs að selja það sem hann sá næst sér? Hafði vélin verið ónýt og maðurinn beinlínis logið að mér? Það væri þá svo sem ekki í fyrsta skipti sem það gerðist.

Ég lá yfir vélinni fram eftir laugardagskvöldi án árangurs. Setti saman að nýju. Þegar ég skreið undir feld að kvöldi hafði ég slitið því stjórnmálasambandi við hana sem ég hafði myndað meðan hún beið undir plastinu. Sunnudaginn notaði ég til að skreppa á bryggjur á Suðurnesjum, og leit ekki einu sinni inn um skúrdyrnar. Þegar leið að kvöldi var ég eiginlega ákveðinn í að eiga ekki meira við þessa vél. Hún var auk alls eiginlega fullþung í bátinn, atriði sem ég hafði þó ætlað að horfa fram hjá væri hún í lagi. Að kljást við tvo annmarka fannst mér hins vegar of mikið, að leggja fé í viðgerðir á vél sem hentaði ekkert sérlega vel í bátinn fannst mér ekki skynsamlegt. Ég ákvað að athuga með kaup á glænýrri vél.
Í gærmorgun hóf ég athuganir á vélamarkaðnum. Þrjár hentugar vélar fundust, sú dýrasta kostaði vel yfir hálfa milljón en sú ódýrasta var tæpum hundrað þúsundum ódýrari, jafnframt því að vera það merki sem ég treysti best. Þar með var það orðið ljóst að ég slyppi ekki með minna en ríflega fjögurhundruðþúsund í nýja vél, en í ljósi þess að ég er að verða fimmtugur og má gera ráð fyrir að með góðri hirðu og umönnun geti ný vél dugað mér tuttugu sumur fannst mér upphæðin ásættanleg. Það sem ég sætti mig þó ekki við var að geta ekki fundið út hvað það var sem hamlaði vélinni í skúrnum. Allan sunnudaginn og allan mánudaginn malaði kvörnin undir niðri, ég heyrði brakið í heilanum í bakgrunninn. Það var svo við kvöldverðarborðið í gærkvöldi sem ljósið kviknaði, ég stökk á fætur og hljóp út í skúr. Tók verkfærin og hlutaði sundur vélina að nýju. Ástæðan lá beint fyrir augunum. Háþrýstidælubúnaður olíunnar vann ekki því hann var fastur! Þegar ég hafði loks öðlast smáskilning á virkni búnaðarins (sem er allnokkuð frábrugðinn því sem algengast er) lá lausnin í augum uppi.
Nú liggur fyrir að tala við menn sem eru sérhæfðir í viðgerðum á slíkum búnaði. Þeir munu væntanlega geta sagt mér hvort eitthvað er hægt að gera í málunum eða hvort þessi 240 kg. þunga BMW vél er best hæf sem akkerisfesta í einhverri víkinni.
Þeim sem lásu til enda þakka ég þolinmæðina.
Fyrir þá sem nenna að lesa meira bætist eftirfarandi við kl. 12.38: Í morgun hafði ég samband við sérfræðing í því olíukerfi sem vélin er búin. Hann taldi lítil vandkvæði á því að laga það sem fast væri, sagði raunar algengt að þetta vandamál kæmi upp eftir langa stöðu.
Það var betri hlutinn.
Ég hafði einnig samband við þá sem í gær buðu besta verðið á nýrri vél. Vildi fá staðfestingu á að rétt væri með farið. Og eins og mig grunaði var svo ekki. Við það samtal hækkaði vélin um tæpan fimmtíuþúsundkall!
Það var verri hlutinn.
Mér fannst eins og einhver snéri girðingarstaurnum svo kvistarnir meiddu..........................

Frá 25.02. ´06 

Af fólki.

Á dögunum vantaði mig bretti á bátakerruna sem er nú nær fullsmíðuð. Ég fór í stóra blikksmiðju hér í Kópavogi og bar mig upp við mann sem þar stóð við vinnu. Hann klippti og beygði fyrir mig ágætt efni eftir máli og rétti mér. Þegar ég spurði hvar ég ætti að borga svaraði hann: "Ég notaði afganga í þetta, hafðu þetta bara og gangi þér vel". Ég þakkaði fyrir mig með handabandi og gekk út.
Ég þurfti að láta smíða bíllykla í síðustu viku. Til þess fór ég í Lása/Neyðarþjónustuna að Laugavegi, í Hekluhúsinu. Meðan afgreiðslumaðurinn brá sér bakvið með lykilinn skoðaði ég úrval lyklakippa og fleiri smáhluta sem í búðinni voru. Þar fann ég nokuð sem ég hafði leitað alllengi að, lyklakippu með litlu málbandi. Kippan kostaði 300 kr og ég náði mér í tvær. Þegar maðurinn kom aftur að borðinu með lykilinn lagði ég kippurnar á borðið. "Ertu frá XXXX?" spurði maðurinn og nefndi fyrirtækið sem ég starfa hjá. Ég játaði, enda samfestingurinn minn kyrfilega merktur því. "Heyrðu, taktu þetta bara. Þið kóduðuð fyrir mig lykil í haust og tókuð ekkert fyrir. Ég rukka ekkert fyrir þetta" Ég þakkaði fyrir mig og kvaddi.
Í gærkvöldi átti ég erindi á bensínstöð Esso við Stórahjalla. Þar inni stóð við borð maður um sextugt, stórvaxinn, vinnuklæddur og frekar illa til fara. Hann hélt á kaffiglasi úr pappa og fletti blaði. Um líkt leyti og ég lauk mínu erindi kom inn maður sem greinilega var að sækja þann vinnuklædda. Maðurinn hafði lagt bílnum sínum við hlið míns og við gengum allir út á sama tíma. Ég gekk að mínum bíl og sá vinnuklæddi, með hálffullt kaffimálið í hendi, að farþegahlið hins. Við framhurð bílsins fleygði hann málinu í götuna. Málið lenti á botninum svo kaffið gusaðist upp í loftið, að hluta á hann sjálfan og horn bílsins, en meginhlutinn á bílinn minn, á bílstjórahliðina upp á þak. Ég verð að viðurkenna að ég var gjörsamlega kjaftstopp. Ég kom ekki upp orði af öllum þeim flaumi sem ég var samstundis tilbúinn með. Orðið "fyrirmynd" kom upp í hugann, þar á eftir spurningin um hvort þessi maður ætti ef til vil konu og börn og hvernig væri,eða hefði verið útlits þar sem þau gengju um. Það liðu nokkrar sekúndur þar til ég áttaði mig á að ég stóð alltaf í sömu sporunum og horfði á manninn í bílnum, sem var þó að aka í burtu. Hann virtist ekki átta sig á neinu en ég sá að bílstjórinn horfði á móti og sagði eitthvað við þann vinnuklædda. Um leið og bíllinn hvarf á braut hvarf líka þessi ofsareiði sem ég hafði fundið til og eftir var aðeins vorkunn með manninum sem ekki kunni lágmarksumgengni innan um fólk.

Frá 19.02. ´06 

Lofið þreyttum að sofa!

(mynd af kisa liggjandi á þröskuldi þvottahússins)

Þetta er svo sem ekki verri titill en hver annar fyrir þessa mynd. Þegar um er að ræða fullorðið fress sem hefur orðið fyrir innrás á einkaheimili sitt af hvolpkvikindi sem aldrei er stundlegur friður fyrir verður einfaldlega að finna einhvern þann stað þar sem friðurinn er öruggur og tryggður. Kisi veit sem er að hvolpinum er ekki hleypt fram á stigapallinn eða niður í stigann. Það er því nokkuð öruggt skjól í þvottahúsinu, auk þess sem þar er hiti í gólfinu. Þar er því tilvalið að hvíla lúin bein og njóta þess að geta eitt augnablik gleymt hvolpinum sem endasendist í kringum hann við matarskálina eða þegar gerð er tilraun til að leggja sig í körfunni inni á baði. En þegar maður (köttur) er orðinn mjög þreyttur, mjög saddur og er að auki of þungur getur hent að leiðin verði of erfið og maður (köttur) nái hreinlega ekki alla leið áður en svefninn og þreytan yfirbugar líkamann.

Frá 17.02. ´06 

.....og áfram.

Ástæðan fyrir þessum hnökra á ritræpunni er sú að ég hef ekki fyrr en nú gefið mér tíma til að flytja efnið af síðunni yfir á gömlu síðuna þar sem það er aðgengilegt í heild. Þetta er nokkuð sem verður að gera á nokkurra pistla fresti því að (runa af óprenthæfum fúkyrðum) vesalingarnir hjá -blog-central.is- hafa svipt okkur aðgangi að eldri færslum og reyna svo með aumu yfirklóri að benda á leið til að ná þeim til baka eftir einhverju öngstræti sem reynist í öllum tilfellum blindgata.
Ég varð var við að siglfirska ljónið hefur bætt við tengilinn á síðuna mína sem hingað til hefur verið merktur "Ísfirðingur". Þar stendur nú "Ísfirðingurinn Gunnar Th. Hvannberg". Þetta er að sönnu mun glæsilegra, enda er tilkoma Hvannbergsnafnsins ljós öllum þeim gífurlega fjölda sem daglega heimsækir síðuna mína. Þetta tökunafn sem ég hef sæmt sjálfan mig til minningar um og í virðingarskyni við norðlenskan uppruna minn hefur þó gefið mér tilefni til að velta vöngum yfir uppruna mínum í móðurætt. Móðir mín var fædd í Ólafsfirði, faðir hennar og afi minn var fæddur að Ingvörum í Svarfaðardal en amma mín var fædd að bænum Kambsnesi, hvers tóftabrot má finna á samnefndu nesi milli Álftafjarðar og Seyðisfjarðar vestra.
Mér þykir því eðlilegt og sjálfsagt að bæta enn við nafnið. Ég hef alloft orðið var við að hjá Bretum, þá sérstaklega efri stéttum, er algengt að menn beri tvö ættarnöfn, tengd saman með bandstriki. Má í því sambandi nefna leikkonuna góðkunnu Courtney Thorne-Smith sem raunar gerir út frá Bandaríkjunum en hinn breski uppruni leynir sér ekki í nafninu. Því tel ég mér rétt og skylt að kenna mig að hluta við Kambsnesið, þó með þeirri breytingu að vegna hljóðfræðinnar felli ég út essið í miðju. Skrifa því nafnið Gunnar Th. Kambnes-Hvannberg. Ég legg það í hendur ljónsins hvort það vill enn breyta tenglinum en áskil mér rétt til að taka mér ný nöfn eða fella út eftir því sem húmorinn leyfir hverju sinni.
Í þessu sambandi þykir mér rétt að nefna að ég á einnig föðurætt. Nokkuð er uppruni hennar á reiki, enda er almennt talið óöruggt að rekja ættir sínar í föðurætt. Í ættinni kemur fyrir nafnið "Budenhoff" Ein föðursystir mín taldi þetta nafn örugga heimild fyrir því að ættin lægi til Þýskalands og tengdist þar greifaætt nokkurri, sem öllum öðrum en henni var ókunn. Alla ævi taldi hún sig vissa í sinni sök og hún mun hafa dáið í þeirri trú að vænn arfur frá þýsku greifunum væri rétt handan hornsins. Hið rétta í málinu mun þó vera að rétt um aldamótin 1800 flutti frá Búðum á Snæfellsnesi til Hnífsdals maður að nafni Jóakim. Til eigin virðingarauka mun hann hafa sett saman þetta nafn, sem að sönnu er allgott en sýnir líka að sjaldan fellur eggið langt frá hænunni og þessi hneigð mín til að kenna mig við upprunasveitir forfeðra minna er síður en svo mín uppfinning.
Það má vel vera að ég bæti við þennan pistil þegar tækifæri gefst.
Viðbót #1.
Á dögunum stóð ég úti fyrir vinnustaðnum. Þá ók inn í götuna skammt frá mér ung dama á gömlum bíl. Mér sýndist daman vart eldri en svona sautján ára, semsagt enn á uppeldisaldri. Hún þurfti að taka vinkilbeygju inn í götuna og réði varla við það því í annarri hendi hafði hún samloku sem hún beit í í beygjunni. Þegar hún hafði rétt bílinn af hægði hún ferðina niður undir gönguhraða, opnaði bílstjóradyrnar og fleygði því sem enn var óétið af samlokunni ásamt umbúðum, á götuna. Skellti hurðinni, gaf í og var horfin með það sama inn eftir götunni. Eftir lá veisla fyrir krumma sem alltaf situr á nálægum ljósastaur, vongóður um mola frá nálægu bakaríi. Hann vildi að vísu ekki plastumbúðirnar, sem vindurinn tók með sér og feykti inn eftir götunni, í humátt á eftir bílstjóranum snyrtilega og vel upp alda.
Viðbót #2.
Ég hef, sem betur fer, ekki oft á ævinni skipt um vinnu. A.m.k. ekki miðað við marga aðra. Mér þykir frekar erfitt að skipta um starf eða vinnustað og tel það mikinn kost að vera vel kunnugur sínu og sínum í vinnu. Í þau skipti sem ég hef þurft að skipta um starf hefur mér jafnan fundist ég þurfa langan tíma til að "læra" á hvern nýjan vinnustað, jafnvel svo mánuðum skiptir.
Þegar að því kom að flytja að vestan og suður árið ´99, hafði ég lítið hugleitt hvar leita skyldi að vinnu syðra, eða hvernig þeir hlutir myndu æxlast yfirleitt. Það fór svo að verkstæði hér syðra hafði samband að fyrra bragði, og þegar ég hafði metið ýmsa þætti varðandi vinnuna og vinnustaðinn ákvað ég að ráða mig þar. Þyngst á metunum var nálægð við heimilið. ( heimilið hefur raunar fluzt örlítið fjær en ekki þó svo teljandi sé) Þar næst taldist nálægð við skóla dætranna og vinnustað konunnar, sem aðeins var í nokkurra skrefa fjarlægð frá heimilinu. Að síðustu voru þau laun sem í boði voru svo miklu hærri en greidd voru vestra fyrir sama starf að hreint ótrúlegt var.
Öðru hvoru hefur það svo gerst að haft er samband utan úr bæ og mér boðið starf, á einhvern hátt tengt því sem ég er í. Fyrst var það annað verkstæði á sama svæði, svo ég sá ekki ástæðu til að hlaupa til og skipta um vinnu eingöngu til að skipta. Síðan var það stórt fyrirtæki í skoðunarþjónustu sem bauð mér starf. Sá böggull fylgdi skammrifi að starfið var í Hafnarfirði. Þar með var fyrsta forsendan brostin og engin ástæða til að færa sig til vinnustaðar svo langt að heiman. Við búum nefnilega við þann ótvíræða kost að þurfa ekki að aka neina umferðargötu á leið í vinnu eða skóla. Leiðin liggur upp á Álfhólsveginn, eftir honum niður með Engihjalla, yfir ljósin á Nýbýlavegi og niður í Smiðjuhverfið. Á þeirri leið er skólinn dætranna og vinnustaður konunnar. Endastöðin er svo minn vinnustaður.
Nú í vikunni var enn hringt. Í þetta sinn frá stóru, rótgrónu bílaumboði með mikla umsetningu. Erindið - hvort ég hefði áhuga á starfi við mat á uppítökubílum og umsjón með viðgerðum á þeim. Fyrirtækið er til húsa alllangt frá heimilinu og um þungar umferðarleiðir að fara á milli. Menn á staðnum fóru fram á að ég kæmi til viðtals við þá, helst sem fyrst. Ég bað um sólarhring til að velta vöngum.
Að þeim sólarhring liðnum gat ég ekki séð að neitt hefði breyst frá því síðast. Allar sömu forsendur eru til staðar. Matið var tiltölulega auðvelt. Ég ákvað að halda enn um sinn tryggð við þann stað sem ég hef starfað á síðan suður kom, enda svo sem ekki haft undan miklu að kvarta. Ég hef fyrir nokkru ákveðið að þegar tími kemur til að hætta störfum þar muni ég jafnframt hætta störfum í faginu sem ég lærði til og snúa mér að einhverju öðru.
Kannski bara keyra strætó?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?