<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

föstudagur, febrúar 17, 2006

Frá 13.02 ´06 

Fávitasnepill!

Á bls. 14 í hinu æruverðuga DV dagsins má lesa stórfrétt um leikfangabíla sem eru til sölu á bensínstöðvum Esso og eru merktir íslenskum mannanöfnum, td. eru líkön af flutningabílum merkt "Magnús" og "Guðmundur" á hliðunum. Blaðið veltir upp þeirri spurningu hvers vegna ekki séu fáanlegir bílar með kvennöfnum, af því "Stelpum langar líka í bíla" eins og segir í myndtexta.
Ég hef háður bent á að líklega hafi hvorki Fréttablaðið né DV prófarkalesara á sínum snærum. Það sem er þó sýnu verra er að hvorugt blaðið virðist hafa á að skipa blaðamönnum með minnsta snefil af íslenskukunnáttu. Þótt þetta mál og rithalta lið vilji stöðugt halda því fram að þetta sé aðeins eðlileg málþróun - að tala og rita vitlaust- þá hefur einfaldlega engum ritreglum verið breytt ennþá. Allt sem þessu fólki var kennt í barnaskóla er enn í fullu gildi. Það er hreinlega rangt mál skv. gildandi reglum að segja og skrifa " mér vantar, mér langar, stelpum langar, strákum vantar" o.s.frv.
Í einu þeirra húsa sem ég ber út blöð í á hverjum morgni ríkir sérkennileg birta. Þar virðist alltaf loga ljós í einhverju miðrými og skíman berst inn í eldhúsið sem snýr að útidyratröppunum. Í eldhúsglugganum er nokkuð af smámunum og meðal þeirra eru tvær vel hyrndar kýr úr tré, ca. 15 cm háar. Það er drjúgur spölur frá götu heim að húsinu og í baklýsingunni minnir skuggamynd kúnna í glugganum á flest annað en kýr. Þessi gluggaskreyting virkar ákaflega demónísk og mér verður alltaf hugsað til myrkrahöfðingjans þegar ég nálgast húsið í myrkrinu því ekki er annað að sjá en hann standi tvíefldur í daufri skímu gluggans og bíði þess að hremma aumar blaðberasálir, gefist til þess tækifæri.
En svo eru þetta bara beljur........

Frá 11.02.06 

Ný náma.


Nú þegar ég er rétt að ljúka við 4327 síður með alls 69.228 skipamyndum er ég að glugga í skýrslur RNS. Þetta er á köflum ákaflega fróðlegt lesefni.

Þann 1. september 2005 var XXXXXXXXXX (nafn skips og númer) að togveiðum í Víkurál. Veður: NA 18-20 m/s.
Skipverji var að fara aftur eftir þilfarinu með svokallaðan aumingja þegar hann féll með þeim afleiðingum að hann slasaðist á hægri hendi.
Málið hefur ekki verið tekið fyrir.


Þó það sé að sönnu ljótt að velta sér upp úr óförum fólks þá mátti ég til að stinga inn þessu gullkorni af síðu Rannsóknarnefndar sjóslysa. Þarna hefur sjómanninum greinilega orðið hált á því að hjálpa einhverjum aumingja sem hefur eflaust verið tekinn í áhöfn vegna fjölskyldutengsla eða viðlíka klíku. (ég geri sjálfkrafa ráð fyrir að það hafi verið sjómaðurinn sem meiddist en ekki auminginn)

Frá 10.02 ´06 

Einn!

Það sem af er þessum degi hefur einn lesandi mætt á síðuna. Það er ég sjálfur. Skemmtilegt.
Heilastarfsemi strumpastrætó er komin í samt lag. Ekki hefur borið á höfnunareinkennum þrátt fyrir að heilinn komi ofan af Skaga. Mér fannst hann raunar óeðlilega léttur, en veit ekki hvort samband er þar á milli.
Kötturinn hefur nú áttað sig á að þótt hundurinn sé að vísu hundur, og því eðlilegt að hræðast hann, þá er hann samt afar lítill hundur! Kötturinn virðist skynja að hvolpurinn getur ekki meitt hann og er farinn að haga sér samkvæmt því - er farinn að sitja um hvolpinn, elta hann og reyna að koma á hann höggi með loppunum. Ekki hefur verið farið í harðar aðgerðir gegn þessu háttalagi kisa en víst er að taki hann upp á því að meiða hvolpinn er mér að mæta! Það verður, þegar allt kemur til alls, að líta til þess að hvolpurinn kostaði skildinginn en kötturinn er verðlaus og stendur því höllum fæti gagnvart praktíkinni.
Ég lýsi hér með eftir öryggishjálmi og -vesti fyrir hvolpinn.

Frá 09.02 ´06 


Með hraða eldflaugarinnar..



Þessi vel brúklega kona varð 45 þann 7. sl, eða í fyrradag. Með sæmilegu viðhaldi og hirðu hefur tekist að halda henni nokkuð þokkalegri, og að mínu áliti hefur henni bara farið fram með aldrinum.
Um viðrinið við hlið hennar er best að hafa sem fæst orð, enda er eina ástæðan fyrir veru þess á myndinni að ég hef ekki náð nægum tökum á fótósjoppi. En þetta var semsagt hennar dagur.
Til að sýna henni hug minn og höfðingsskap gaf ég henni hundinn minn í afmælisgjöf.
(það var þá þegar orðið sýnt að hvorugt þeirra mátti hvort eð var af hinu sjá)
Ég óska sjálfum mér til hamingju.

Frá 07.02.´06 

Heiladauði (eða hvernig eins dauði er annars brauð)


Strumpastrætó sveik eiganda sinn í síðustu viku. Hann fór að hósta og skyrpa, og mér varð hugsað til svipaðra augnablika réttum tíu dögum eftir að ég keypti hann fyrir 2 1/2 ári. Þau einkenni leiddu til algerrar stöðvunar og eftir allnokkra bilanaleit komst ég að því að farartækið nýkeypta væri heiladautt - þ.e. rafeindaheilinn sem stjórnar gangi vélarinnar var ónýtur. Eftir mikla leit fannst loks einn brúklegur heili á partasölu suður í Hafnarfirði og var sá verðlagður eftir eftirspurn.
Nú í síðustu viku gerðu svo sömu einkennin vart við sig. Mér varð hugsað með hryllingi til þess að standa frammi fyrir nýrri heilabilun, með tilheyrandi kostnaði. Ég þurfti svo sem ekki að hugsa lengi því daginn eftir steinstoppaði strumpastrætó og vildi ekki í gang. Ég fékk hann fluttan heim í innkeyrslu og eftir lauslega yfirferð var niðurstaðan sú sem ég óttaðist: heilastarfsemi hafði stöðvast.
Ég ákvað að hinkra yfir helgina og sjá hvort eitthvað yrði auglýst í blöðum af brúklegum bílum. Það var ekki. Þá ákvað ég að rannska útboðssíður tryggingafélaganna (hér til vinstri) og athuga hvort ekki mætti finna brúklegan tjónabíl sem nýtast mætti sem vinnubíll. Þar reyndist vera einn álitlegur og ég gerði tilboð sem mér fannst líklegt til að duga. Í gærdag fór ég síðan að athuga símleiðis hvort ekki reyndist nothæfur strumpaheili finnanlegur á partasölum. Byrjaði að leita hjá Vöku. Þeir voru kátir þar! Jújú, ekkert mál, einn bíll úti í porti en sá galli á að ég þyrfti að koma sjálfur og taka heilann úr því þá skorti mannskap. Ókei, ég sagðist taka mér frí sennipartinn og mæta með verkfærin. Sem ég gerði. Þegar þeir Vökumenn höfðu lóðsað mig gegnum ruslahauginn að viðkomandi bílhræi kom í ljós að þeir höfðu einfaldlega haft á röngu að standa - bíllinn sá var mun eldri en minn og ekki með neinn heila, heldur allt annan búnað! Ferðin og fríið var því til einskis tekið! Ég hélt heimleiðis með skottið milli lappanna. Konan sá að minn var fúll, hellti uppá og gaf köku. Ég settist við símann og hringdi samkv. símaskrá í allar bílapartasölur á suðvesturhorninu. Viti menn, einn salinn taldi sig þekkja mann á Akranesi sem ætti svona bíl með ágætan heila en annað ónýtt. bað mig hringja í morgun og skyldi þá hafa allar upplýsingar tiltækar.
Í morgun lokaði vikulegt útboð tjónabíla hjá tryggingafélögunum. Fljótlega uppúr kl. 8 fór ég að kíkja í verkstæðistölvuna og athuga hverju fram yndi. Kl. rúmlega 9 birtist á síðu viðkomandi félags varðandi bílinn sem ég hafði gert boð í og átti von um að fá : "VARA SETT Í EINKASÖLU EFTIR AÐ ÚTBOÐI LAUK". Engar nánari skýringar! Bara tekinn af útboði án skýringa. Þar fór það.
Að áliðnum degi náði ég sambandi við Skagamanninn. Hann vildi hafa tuttuguogfimmþúsundkall fyrir heilann. Ég var ekki í aðstöðu til að segja annað en já. Á morgun mun ég því verða þeirri upphæð fátækari, em strumpastrætó mun gangast undir brain-transplant, og vonandi verður langt, mjööööög langt þar til þessi heili gefur sig. Að öðrum kosti er hætt við að ég missi þolinmæðina og strumpastrætóinn verði færður til moldar- heilalaus.

Frá 06.02 ´06 

Tengt framhjá!

Eins og þeir allra gleggstu munu sjá er kominn tengill hér vinstra megin með slóð til Raufarhafnar. Sé dregið hægt yfir má einnig lesa að þangað hafi ég aldrei komið.Sem er laukrétt.
Ástæðan fyrir slóðinni er aðeins ein. Ég rakst á mynd af þessum ágæta manni þegar ég var á síðurápi í morgun.

Sá sem þarna blasir við vélinni, lítt rakaður að vanda, heitir Sturla Halldórsson. Hann er hreinræktaður Ísfirðingur, vélvirki og fv. starfsmaður í vélsm. Þór hf. þar í bæ. Í Þór vorum við Stulli samstarfsmenn um árabil, og á tímabili voru milli okkar annarskonar (fjölskyldu)bönd sem óþarfi er að tíunda. Stulli var og er öndvegisdrengur, einn af þessum jafnlyndismönnum sem fátt fær haggað. Eldklár vélvirki, ráðagóður og hjálpsamur við þá er til hans leituðu. Við endalok Vélsm. Þórs hf. flutti hann með fjölskyldu sína suður til R.víkur og stuttu síðar til Raufarhafnar þar sem hann tók við umsjón með viðhaldi SR verksmiðjanna. Ég hitti hann augnablik á sjávarútvegssýningunni sl. haust og þá sagðist hann hafa tekið við rekstri vélaverkstæðis á Þórshöfn, byggi á Raufarhöfn og æki á milli daglega. Ég verð að játa að ég var nærri búinn að missa út úr mér " Ég kem bara í gallann", en varð á síðustu stundu hugsað til fjölskyldunnar og þess að kannski væri hún ekki tilbúin til að flytja til Þórshafnar. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um að ég gæti búið þar eins og annars staðar þar sem hægt er að hafa nóg fyrir stafni, sinna áhugamálum og vinna með góðum félögum.
Í öllu falli kann Stulli vel við sig þarna á NA horninu, og ég efa ekki að það er líka að hluta vegna þess að fólkið kann vel við hann. Stulli er fæddur ´55 og er því nýorðinn fimmtugur.

Frá 04.02 ´06 

Ættir Ísfirðings.


Það reyndist ekki erfitt að koma sér upp skyldmennum á Siglufirði. Að vísu eru þau allflest fjarskyldari en á Ólafsfirði, en miðað við höfðatölu ættu þau að vera fleiri á Sigló.
Með hjálp Íslendingabókar og Þjóðskrár hef ég komist að því að það er nokkuð sama hvar á Sigló ég ber niður, ég virðist vera skyldur þeim öllum í 5 - 7 lið. Þetta þykir mér bera nokkurn vott um frjósemi ættfeðra minna og -mæðra, og er stoltur af!
Mér þykir því allmjög við hæfi að bæta við nafn mitt, kenna mig við fæðingarsveit móður minnar og auðkenna mig hér eftir sem Gunnar Hvannberg. (Mér hafði raunar dottið í hug að hafa það "Hvanndal", en þótti það liggja of fast utan í Ædolraulara nokkrum frá Ólafsfirði og hætti því við)
Ég hef áður nefnt að hið alþekkta "Th." stendur aðeins fyrir Theodór, en ekki Thorsteinsson, Thomsen eða annað ámóta virðulegt. Theodór er hins vegar nafn harðduglegs afa míns, Svarfdælingsins sem settist síðar að í Ólafsfirði og byggði þar hús sem enn stendur. Með viðbótinni "Hvannberg" kenni ég mig svo við Hvanndalabjargið, eitt hæsta standberg úr sjó á Íslandi og er ekki leitt að sækja þangað nafn.
Mig rámar í að hafa heyrt nefnda skóverslun kennda við Hvannbergsbræður, en það eru ekki mínir bræður, enda er ég eini sonur foreldra minna svo vitað sé. Ég kannast því ekki við skyldleika við þá bræður nær en í 5 - 7 lið.
Hér rita ég því undir sem Siglfirðingur, Ólafsfirðingur, Ísfirðingur eða Hnífsdælingur eftir því sem við á hverju sinni.
Gunnar Th. Hvannberg.
(það skal að síðustu tekið fram, hafi vaknað minnsti grunur um annað, að þessi pistill er að sjálfsögðu og að vanda ritaður án áhrifa frá vímugjöfum hverskonar)
(hér skal enn við bæta að ég hef nú smíðað tenglahóp undir nafninu "Heima er best". Hann er að finna hér til vinstri, ásamt öðrum.)

Frá 03.02 ´06 

Vér Ólafsfirðingar!

Við höfum sýnt samtakamátt okkar, fært út kvíarnar og gengið í bræðralag við næstu sveit. Einhver tuttuguogeitthvað prósent voru á annarri skoðun, en það væri svo sem illt ef allir væru alltaf á sömu skoðun, ekki satt?
Ég hef sett hér litla mynd af hluta skyldfólksins á Ólafsfirði, vænsta fólki sem við lítum til þegar við erum á Norðurlandinu. Með á myndinni er stubban ásamt afastelpu þeirra Lólóar og Kidda.

....og síðan aðra þar sem Stubban leitar upprunans í sandinum fyrir botni Ólafsfjarðar.

Ég óska sjálfum mér og öllum hinum til hamingju með sameininguna. Nú stefni ég að því að koma mér upp skyldmennum á Sigló.
Afsakið flumbrugang vegna tímaskorts.

Frá 31. 01 ´06 

Alltaf skrefi á eftir?

Afhverju leitaði ég ekki strax til Kananslands eftir lækningu? Mátti segja mér að þar fyndist snögg redding! Just 24hrs! Hver hefur tíma til að bíða?

(Mynd fylgdi af amerískri auglýsingu á kvefmeðali)

Or your money back, takið eftir!
Áróra og Moli fóru út í gönguferð áðan. Moli fékk nýtt beisli í stað hálsólarinnar sem við höfðum reynt að láta á hann. Hálsinn á honum er svo veigalítill að við álitum betra að fá beisli. Gönguferðin tókst afar vel. Hún fór þannig fram að Áróra gekk en Moli kúrði í fangi, dauðhræddur við þetta "óþekkta" svarta undirlag.
Annars virðist okkur hundurinn hafa tekið þann ósið eftir kettinum að sofa allan daginn. Það er hreint með ólíkindum hvað þeta stýri getur verið þróttlítið og brothætt, enn síðan ráðið yfir gífurlegum hraða og snerpu þess á milli, sérstaklega þegar málið snýst um að stela sokkum, nærfötum og öðru því sem unglingum er tamt að henda á gólfið hjá sér. Hundurinn var fljótur að finna þetta gósenland ruslsins, unglingaherbergið.
Nú styttist í gest nr. 3000. Þokkalegur árangur, sé litið til þess að ég set slóðina að síðunni afar sjaldan með þegar ég "kommenta" annarsstaðar, og kynni hana raunar ekki neitt. Vinnufélagarnir vita ekki af henni og nánasta fjölskyldan veit að ég er alltaf að skrifa eitthvað en þekkir ekki slóðina. Best þannig.

Frá 28.01. ´06 

Eigin reglur sveigðar.

Ég hef reynt að halda mig frá því að skrifa um vinnuna og fagið almennt. Tel það ekki heppilegt því ég er ekki "fagnörd", og eins og títt er um bifvélavirkja sem læra fagið upphaflega af áhuga á bílum og farartækjum en ná svo að eldast í því þá er áhuginn á starfinu nú allsráðandi fremur en á einstökum verkefnum eða farartækjum. M.ö.o, maður hugsar fyrst og fremst um vinnuna sjálfa og að skila henni sæmilega.
Þó koma augnablik þar sem svo gjörsamlega gengur fram af viðgerðarmanninum að hann vill helst leggja árar í bát og verkefnið til hliðar sem vonlaust tilfelli. Þau koma helst þegar hann stendur frammi fyrir endalausu skeytingarleysi, hirðuleysi, áhugaleysi og algeru virðingarleysi fyrir verðmætum- jafnvel verðmætum annarra, sem menn hafa tekið að sér að annast.
Í vikunni fengum við sendan fólksbíl af góðri japanskri gerð. Hann var óökufær vegna hemlabilunar og kom því með björgunarbíl. Ég fékk verkið í hendur og gekk frá bílnum á lyftu. Viðgerðarbeiðnin hljóðaði uppá bremsuviðgerð og almenna yfirferð ökutækis. Með bílnum fylgdi svo lýsing, sem var á þann veg að eigandinn væri ungur maður, nýlega kominn með próf. Honum hefði ekki gengið sem skyldi að greiða afborganir og því ætti að selja bílinn.
Ég leit yfir gögnin sem fylgdu viðgerðarbeiðninni og þar mátti lesa að fyrsti skráningardagur bílsins hefði verið fyrri hluta árs ´02. Síðan hefðu orðið eigendaskipti og skráður eigandi væri lánastofnun hér syðra en umráðamaður væri piltur fæddur á miðju ári ´87. Hann hefur því líklega fengið bílpróf á svipuðum tíma árið ´04 og þá bílinn um leið. Í þjónustubók bílsins mátti sjá að fram til þess tíma hafði hann fengið reglubundna þjónustu og eftirlit hjá umboðsaðila. Eftir rúma 45 þús, km. hafði engin þjónusta verið skráð en teljari bílsins sýndi rúma 72 þús.km.
Við skoðun á hemlunum kom í ljós að þar var bókstaflega allt ónýtt. Bílnum virtist alloft hafa verið ekið á miklum hraða og síðan miklum hemlakrafti beitt til að stöðva á stuttum kafla. (Þetta minnti óneitanlega á allmarga ökumenn sem ég hef séð þeysa af stað á ljósum, t.d. á Miklubrautinni, aka eins og þeir eigi lífið að leysa að næstu ljósum og nauðhemla þar, aðeins til að ná lengri biðtíma í stað þess að samhæfa hraðann ljósunum og aka brautina skrykkjalaust á grænu eins langt og hægt væri). Á einhverjum tímapunkti hafði svo slitflötur eins hemlaklossa í afturhjóli eyðst upp svo stálbak klossans hafði komist í snertingu við bremsudiskinn – m.ö.o. járn í járn, eins og sagt er. Þetta orsakar án undantekninga gríðarlegt ískur og skruðninga sem virtist þó hafa farið fram hjá ökumanninum unga, eða hann einfaldlega leitt hjá sér hávaðann og hækkað í hiphopinu/rappinu! Hinar sýnilegu afleiðingar virðast heldur ekki hafa vakið hann. Þessi snerting járnklossa við hemladisk á miklum snúningi veldur því að báðir hlutir tætast upp í sjóðheitt járnsvarf sem í saltpækli gatnanna breytist samstundis í ryðskóf. Bíllinn var orðinn ryðbrúnn að aftan, allt upp á þak og afturrúðan var hulin brúnni ryðslikju. Felgan á þessu hjóli, lagleg álfelga, var hreinlega ónýt, svo illa hafði logheitt járnsvarfið brennt sig inn í yfirborð hennar. Það sem endanlega hafði svo orðið til að enda för var að þegar bæði klossaleifarnar og diskurinn höfðu þynnst undir lágmark höfðu festingar gefið sig og klossinn dottið úr. Við það hafði hemladælan gengið sundur, vökvinn lekið af og bíllinn orðið bremsulaus. Þá loks hafði eklinum hætt að lítast á blikuna.
Þetta ferli, frá því slitflöturinn eyddist og járn snerti járn, þar til hemlarnir gáfu sig af vökvaleka hefur líklega tekið ca. 250 – 500 km. eftir aðstæðum. Ekki verður í sjálfu sér vart við það þegar klossinn dettur úr, í einu ástigi “virka” hemlarnir ( með ískri og hávaða), í því næsta sígur petalinn í gólf og aftir þrjú til fjögur ástig er öll bremsuvirkni horfin. Það er því aðeins tilviljun sem ræður því hvort viðkomandi ekill er staddur á fáfarinni hliðargötu eða á miðri Miklubrautinni í umferðarþunga.
Það kostaði drjúgan skilding að lagfæra bremsurnar. Þá var komið að “almennu yfirferðinni”, Skv. þjónustubók hafði engin smurning farið fram sl. 27 þús. km. Hvort sem það var rétt eður ei var olían á vélinni hreinlega svört eins og tjara. Allar síur voru ónýtar, þurrkublöð ónýt, rúðusprautur tómar. Engu virtist hafa verið sinnt nema hljómflutningi, en andvirði nokkurra smurninga mátti finna í geisladiskasafni því sem dreift var um allan bíl. Á 4 – 5 stöðum mátti finna skemmdir á ytra byrði, dældir, rispur og skrámur. Ekkert bón var á bílnum, og raunar bar hann með sér að hafa ekki verið bónaður alllengi. Að lokinni yfirferð og viðgerð renndi ég einn prufuhring á bílnum og varð svo sem ekki hissa þegar ég sá loga aðvörunarljós fyrir tóman bensíntank!
Ég hef stundum heyrt það sjónarmið fólks að unglingar, nýkomnir með bílpróf, eigi strax að fá í hendur góðan, nýlegan bíl. Slíkt efli ábyrgðartilfinningu og virðingu fyrir verðmætum. Hef líka heyrt hitt alloft, að nýbakaðir bílstjórar eigi aðeins að fá í hendur ódýrari bíla til að æfa sig á. Þegar þeir hafi sýnt að þeir geti yfirhöfuð hugsað um bíl sé í lagi að hjálpa þeim til kaupa á dýrari, nýlegum. Ég læt vera hér að taka slíka afstöðu. Hitt er augljóst að þessi ungi maður hafði ekkert lært um virðingu né verðmætamat. Jafnvel þó honum hafi verið falið dýrt ökutæki sem í raun var eign annars, þ.e. lánastofnunar.
Já, stundum gengur bara einfaldlega fram af manni..........
Í morgun var Stubban hitalaus, þann fyrsta í rúmar tvær vikur. Hóstinn er mikið að lagast. Ég held nú uppi báðum merkjunum...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?