<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

laugardagur, janúar 28, 2006

Frá 26.01´06 

Tengdadóttirin með Mola!


Klippt og skorið (eða vaðið á súðum)

Netið er tengt og orðið er laust. Stubban hóstar sem aldrei fyrr. Sú eldri, gelgjan, er litlu skárri en skárri þó. Konan er þokkaleg enda búin að ljúka sínu prógrammi, er auk þess hálfónæm fyrir umgangspestum sem leikskólakennari. Sjálfur hef ég undanfarin kvöld verið svo heitur að stubban segist brenna sig á höndunum við að gá en konan neitar að koma við mig, segir mér að hætta þessum vesaldómi og væli, sé ég veikur eigi ég að taka mér frí úr vinnu og útburði og liggja heima. Fyrst ég geti ekki tekið veikindafrí geti ég sjálfum mér um kennt. Skrifin, bæði þessi og þau næstu á undan munu nokkuð einkennast af þessum yfirhita.
Maður hefur alltaf eitthvað til að hlakka til. Ég hlakkaði gríðarlega til jólanna.Nú eru þau búin og næsta tilhlökkunarefni skollið á af fullum þunga - þorrinn! Með honum kemur nefnilega þorramaturinn, eitt það besta sem ég fæ í gogginn. Daginn fyrir bóndadaginn tók konan mig með í Nóatún og bauð mér að velja eitthvað af því sem hugurinn girntist. Þegar ég hafði safnað í körfuna fyrir eitthvað á ellefta þúsund tók konan í taumana og lagði mér fyrir að velja "best-of". Ég valdi því vænan skammt af súrsuðum hrútspungum, lundaböggum, slátri og svo einu sem ég hef einhverra hluta vegna aldrei smakkað. Og eftir neyslu þess spurði ég sjálfan mig: "Reyktur magáll, where have you been all my life? " Síðan var það að fyrr í þessarri viku greip mig óstjórnleg löngun í súrmat. Ég gat varla beðið þess að vinnu lyki svo ég kæmist í Bónus til að kaupa mér fötu. Ég get varla lýst vonbrigðunum þegar ég fann enga fötu í versluninni. Ég harkaði af mér og þeysti í Nóatún-Snælandi, höfuðból þoramatarins. Ég var gráti nær þegar þar var enga fötu að finna heldur. Að vísu var nóg af súrmat í lausu en ég vildi fá matinn liggjandi í súr. Ég hélt hnípinn heim á leið og þáði pítu fyllta arfa og öðrum grastegundum hjá konunni. Ég hef enn ekki haft þor til að gera aðra atrennu að fötunum.
Svo sem áður hefur verið kynnt varð fjölgun í fjölskyldunni. Ég lét undan áralangri löngun eftir að hafa forritað vantrúa konuna með mínum ómótstæðilega sannfæringarkrafti. Ég borgaði hundinn af fíflagangsreikningnum áðurútlistaða og ég heyrði brothljóðið í innistæðunni gegnum símann þegar ég hringdi í Sparisjóð Bolungavíkur á Suðureyri og bað Ingu að leggja áttatíu þúsund inná kortið mitt hér syðra. Hinn dýrmæti hundur er að sönnu hinn glæsilegasti eins og sjá má af myndum

en hefur þann leiða löst að leka! Ræktandinn hafði raunar kennt hvutta að pissa á dagblöð en það kemur æ oftar fyrir að hann hittir ekki á blöðin. Sér til málsbóta hefur hann þó að #2 gerir hann líka á blöð og tekst þar oftast betur upp, enda sjaldnar og hlutfallið hitti/hitti ekki því hagstæðara. (í þessu sambandi dettur mér í hug atvik, eigi svo gamalt, þar sem innfæddur Reykvíkingur spurði mig að því hvers vegna svo margir fávitar væru á landsbyggðinni. Ég gaf sama svar og vanalega, að hlutfall fífla af heildarfólksfjölda á landsbyggðinni væri það sama og hér syðra. Hins vegar væri það mér lokuð bók af hverju Reykvíkingar stilltu þeim alltaf upp fremst)
Hvolpurinn er fæddur 14.11´05 og er því vart nema hvítvoðungur enn. Veit enda ekkert betra en að kúra í fangi.

Við höfum orðið meira undrandi með hverjum deginum á sambúð kattarins við hvolpinn. Þar er um að ræða svona "vopnaðan frið". Kötturinn gerir sér vanalega far um að vera í nálægð við hvolpinn til að fylgjast með honum- vill sjá hann. Hvolpurinn á það svo til að renna í köttinn því rófa á hreyfingu er sérlega heillandi. Hann hefur sótt í að bíta köttinn í rófuna eða afturlappirnar og kisi svarar þá fyrir sig með því að löðrunga hvutta! Annað ekki! Kisi eltir hann aldrei, heldur liggur álengdar og fylgist með. Ef honum svo verður það á að sofna á verðinum er sá stutti kominn um leið.
Enn er margt ósagt enda liggur mér margt á hjarta. Ef ég lifi flensuna af skráset ég eflaust eitthvað af því.
Höff höff höff höööööffffffffff höff! (Teddi minn, ertu nokkuð að drepast þarna við tölvuna? Hún er svo hjartagóð,konan! )

Frá 24.01´06 

Ekki fyrir viðkvæma..

Netið hjá mér hrundi sl. miðvikudagsmorgun. Eða það held ég a.m.k., því að morgni miðikudags var ekkert net. Eftir ítrekaðar tilraunir af takmarkaðri kunnáttu um morguninn, kvöldið og að morgni fimmtudags hafði ég fundið út að vandræðin lágu ekki mín megin. Ég hringdi því í 800 7000 og lagði inn beiðni um viðgerð. Mér var sagt að þar sem liðið væri á daginn yrði trúlega ekkert að gert fyrr en daginn eftir. Dæturnar, báðar veikar heima, urðu gríðarlega ósáttar en ókei, ég yrði þá allavega kominn með net fyrir helgina. En föstudagurinn leið án þess að nokkuð gerðist og það var lítil gleði á heimilinu, ungviðið í útivistarbanni vegna flensu og ekkert net!
Í gær dag hringdi ég og ítrekaði beiðnina, þegar mér þótti líða á daginn án þess að ég yrði var við viðgerð. Í morgun þurfti ég að vera heima til hádegis með yngri dótturinni (sem hefur nú verið veik síðan föstudaginn 13 - nema hvað? ). Ítrekaði þá enn viðgerðarbeiðni og lét fylgja nokkur vandlega valin orð með í eyru "símsvarans" í þeirri von að tónninn myndi skila sér til viðgerðarliðsins. Klukkutíma síðar kom SMS: "Viðgerðarbeiðni Nr. (heimasímanúmer) er lokið. Kveðja, Síminn"
Ég reyndi. Ekkert samband. Ég yfirfór enn allar mínar uppsetningar og þær voru í lagi sem fyrr. Tíminn rann út og ég þurfti að mæta í vinnu. Strax uppúr kl. 13 hringdi ég enn í 800 7000 og lét nú fylgja mergjaða ræðu á kjarngóðri íslensku. Rúmum tíu mínútum síðar hringdi ungur maður í mig og kynnti sig sem viðgerðarmann hjá Símanum: "Það var þarna út af ADSL sambandi hjá þér. Þú varst með beiðni um tívíADSL, var það ekki?" Ég hváði. "Jú, það er hér á blaði hjá mér, Gunnar, er það ekki?"
Ég kannaðist nú við að hafa skráð mig fyrir einhverri breytingu á sambandi og búnaði hjá Símanum nokkru áður, en taldi það ekki vera á næstunni. "Jú, það var nefnilega búið að færa merkið yfir á nýja búnaðinn á miðvikudaginn var, sko"
Ég spurði hvers vegna í andskotanum ég hefði ekki verið látinn vita af því strax. "Ja, ég var sko að fá beiðnina inn núna" Ég spurði hvers vegna merkinu hefði verið breytt sl. miðvikudag fyrst hann hefði verið að fá breytingarbeiðni í hendurnar nú fyrst og hvort ætlunin hefði verið að hafa mig netlausan þar til einhverjum hentaði að hafa samband við mig og fá tíma til að fara inn heima og setja búnaðinn upp. Það var fátt um svör. Ég spurði enn hvort ekkert samband væri milli manna eða deilda hjá þeim og hvort þetta væru viðtekin vinnubrögð hjá þeim - að klippa strax á netsamband hjá þeim sem hefðu samþykkt að fá nýjan búnað hjá fyrirtækinu. Enn ekkert svar, aðeins eitthvað taut sem ekki skildist.
Eftir mikið makk og vesen tókst okkur að finna sameiginlegan tíma til að setja nýja búnaðinn upp heima fyrir. Ég lagði á. Það var ekki fyrr en eftirá sem ég uppgötvaði að ég hafði ekki áréttað við manninn að tengja netið strax aftur við gamla búnaðinn hjá sér. Ég mátti því hringja enn einu sinni til að fá netið virkt fram á föstudag.
Fyrir þessa stórkostlegu þjónustu borga ég kr.4990- á mánuði!
Þar inní er falin þjónusta líklega þroskahefts viðgerðarliðs, og er það þó kannski móðgun við þroskahefta sem ég er sannfærður um að gætu eflaust gert miklu betur. Að vera seldur undir vinnubrögð þessa hóps er hreint hroðalegt. Mig langaði reyndar mest til að segja þessu viðgerðarliði að koma beint heim til mín, hirða það ADSLdrasl sem þar væri að finna og stinga því öfugu upp í afturendann á sér.
Því miður gerði ég það ekki.
Andskotist til að skrifa komment eða í gestabók!
Bálreiður Ísfirðingur.

Frá 22.01´06 

Enn bilað.

Þessi færsla er í rauninni aðeins til að sýna lit. Netið er enn bilað og ég keypti mér hálftíma á bókasafninu til að færa þessar línur. Ég vil þakka þeim sem líta inn á síðuna og vona að þeir haldi því áfram því þeir þarna hjá Símneti hljóta að fara að vakna af dvalanum og laga hjá mér.
Moli er kominn heim. Níu vikna gamall silky-terrier hvolpur, afar fallegur en óskapleg vitlaus ennþá. Við höfðum aflað okkur leiðbeininga um hvernig skyldi kynna hvolpinn fyrir kettinum( sem er 4 1/2 árs geldfress) og var bent á að kynna köttinn fyrst fyrir hinum óæðri enda hvolpsins. Þegar kynnin fóru fram var mjög af báðum dregið vegna þreytu og því minni læti en við bjuggumst við. Við höfðum satt að segja búist við því að kötturinn myndi ráðast á þann litla og höfðum því allan vara á. Kisi hins vegar rétt hnusaði af afturenda hvolpsins, velti vöngum smástund og hélt svo áfram að sofa.
Þegar báðir voru vaknaðir, eftir tvo tíma eða svo, hófst ferlið aftur. Kötturinn horfði með vanþóknun á krílið á gólfinu, hvæsti ef hann kom of nálægt og gaf frá sér lágt gól. Hvolpkrílið hafði aftur á móti aldrei séð kött, var hrifinn af rófunni sem hreyfðist og beit í hana! Þegar kisi gólaði á hann og hvæsti urraði sá litli á móti. Kötturinn, fjórum sinnum stærri en hvolpurinn, sá sitt óvænna og forðaði sér í skjól. Hvolpurinn rak flóttann með lágu urri. Staðan er nú þannig að kisi er dauðhræddur við hvolpinn, nokkuð sem við höfðum alls ekki átt von á.
Hvolpinum hefur verið kennt að gera stykkin sín á dagblöð á gólfinu og það gerir hann svikalaust. Sem betur fer er blaðberinn ég birgur af aukablöðum því stykkin koma nokkuð ört, bæði nr. 1 og 2.
Hef tekið allnokkrar myndir og birti þær þegar netið lagast heima.
Voff voff!

Frá 19.01´06 

Bilað

Netið hjá mér er bilað. Skrifa þetta í lánsvél. Unnið að viðgerð.

Frá 16.01 ´06 
Tveir í einum.

Þegar ég fékk hugmyndina að þessum pistli fæddust í raun tvær hugmyndir í einu. Þegar mig vantaði titil fannst mér þessi því bestur. Þegar ég svo að endingu komst í verkið hafði ég gleymt fyrri hugmyndinni og verð því að hefja pistilinn á þeirri síðari.
Í tímans rás virðist eitthvað hafa orðið til sem kallað er "stelpugrín" Þetta stelpugrín birtist t.d. í sjónvarpsþáttunum "Stelpurnar" og ekki síst í
nýjasta áramótaskaupinu. Þegar ég horfi á þetta s.k. stelpugrín, kemur alltaf sama spurningin upp í hugann. Og hvernig sem ég velti þessu gríni fyrir mér finn ég ekki niðurstöðu. Spurningin er þessi: Hvers vegna virðist nær allt "stelpugrín" byggjast meira og minna á klám-og kynlífstengdum atriðum? Einhvern veginn minnir mig að kvenfólk hafi alltaf verið á móti klámi - a.m.k. svona í orði kveðnu. Ég er nokkuð viss um að ef karlkyns þáttagerðarmenn á borð við Spaugstofuhópinn dældu út þvílíku magni af kynlífstengdu efni í einum þætti sem mér finnst Stelpurnar gera færi bókstaflega allt kvennasamfélagið á annan endann af hneykslun.
Ætli það sé hluti af þessu s.k. stelpugríni að skandalísera? Ganga fram af fólki með klúru og groddalegu gríni sem slær fólk og stuðar, vegna þess að fólk á alla jafna ekki von á slíku frá konum?
Er ég kannski að misskilja þetta allt saman? Sé svo, gefið mér skilning. Þetta er mér nefnilega ofviða.


Hinn hlutinn hefur enn ekki rifjast upp fyrir mér. Það sem ég man er þó það, að efnið var alls óskylt ofanrituðu. Mig minnir að ég hafi ætlað að skrifa um þorramat. (það má vera skýringin á þessari fáránlegu línu sem allt í einu birtist eins og skrattinn úr sauðarleggnum í kommentinu á síðunni hans Leós). Það má líka vera að ég hafi ætlað að fjalla um það hversu indælt það er að geta hætt að vinna klukkan 16 á daginn í stað 18 þegar lítið eða ekkert er að gera - eins og í dag. Kannski ætlaði ég að velta fyrir mér þessu með hundinn.Við höfum nefnilega verið að gæla við þá hugmynd að fá okkur hund. Mér hefur sýnst kötturinn hálfleiður og er nokkuð viss um að hann þurfi félagsskap. Okkur konuna greinir á í nokkrum smáatriðum hvað þetta varðar en ég ber hag kattarins fyrst og fremst fyrir brjósti, og vil engan efa þar um. Okkur bauðst svona "kústur" eins og sonurinn kallar það. Silky-Terrier smáhundur sem varð til fyrir slysni ásamt þremur systkinum, við það að Terriersonur nálgaðist Terriermóður á afar óviðurkvæmilegan hátt, svo ekki sé fastar að orði komist. Mér er svo sem engin launung á því að eins og sumir eru Liverpoolmenn, aðrir Man.Utd. menn og enn aðrir Schumachermenn eða Alonsomenn (helvítis Renódrasl) þá hef ég alltaf verið svona frekar mikill hundamaður. Konan er aftur á móti kattakona, og kenni ég þar uppeldinu um, en hún ólst upp með kött á heimilinu og í miðri hennar mynd af hinu fullkomna heimili er alltaf - köttur!
Ég hef aldrei átt hund. Foreldrar mínir voru ekki gæludýrafólk, faðir minn hefði kannski getað hugsað sér hund en móðir mín var frekar smeyk við öll gæludýr. Ég hef ekki getað tengt þennan brest hennar við neitt, nema þá kannski norðlenskan uppruna hennar, en í tímans rás hef ég þó komist að því að gæludýr eru ekki síður algeng nyrðra en vestra.

Við höfum farið í kynningarheimsókn til "kústhundsins". Hann er nú að verða átta vikna gamall og því bráðlega afhendingarhæfur. Konan var afar hrifin og mér heyrðist múrinn vera að hrynja. Nú greini ég hins vegar bakslag og skilst að þar ráði mestu tillitssemi í garð kattarins. Þessi sami köttur hefur nú að mestu flutt lögheimili sitt til nágrannakonu okkar sem frá upphafi hefur alið hann með sínum eigin köttum svo hann hefur í raun átt tvö heimili. Kötturinn hefur komist upp með að sofa á daginn hjá grannkonunni, mæta til okkar síðari hluta dags í mat, og leggja sig að málsverði loknum í hjónarúminu. Þar hefur hann sofið fram eftir kvöldi en um það leyti sem við göngum til náða vill kisi vanalega út. Það hefur svo verið undir hælinn lagt hvort hann næst inn aftur fyrir nóttina, fari svo vekur hann heimilisfólk á bilinu 04-06 á morgnana og vill út. Náist hann ekki inn er næsta víst að hann hoppar inn um glugga grannkonunnar, afétur kettina hennar, sefur í bólinu þeirra og mætir svo á þröskuldinn okkar við fótaferð blaðberans, vill inn til að éta meira! Og þetta kallar konan vel upp alinn kött!
Fari sem horfir er ég hræddur um að samband mitt við konuna geti farið í hund og kött.
Ég er enn ekki viss um að það sé nákvæmlega þetta sem ég ætlaði að skrifa um. Sé svo ekki skrifa ég það um leið og rofar til.
Ég hef lokið við að éta piparkökuhúsið. Dæturnar fengu nammið en ég sjálft húsið án skrauts. Það var ekki sérlega bragðgott en mátti hafa með kaffi eftir að ég hafði blásið af því mesta rykið.
( skrifað kl. 21.25.) Það var örugglega þorramaturinn sem ég ætlaði að skrifa um. Fylgist með, fylgist með.

Frá 9. 01´06 

Breyting á lögregluumdæmum.

Þessi breyting og tilfærsla á lögregluembættum virðist hafa víðtæk og ófyrirséð áhrif. Í Fréttablaðinu í dag ( bls.4) er smáfrétt um að lögreglan í Vík hafi verið kölluð út vegna skemmu sem fauk á hús. Í sjálfu sér ekkert merkilegt en það vakti mína athygli, a.m.k., að skemman og húsið voru á sveitabænum Kolmúla við Reyðarfjörð. Mikið assgoti þarf löggan í Vík að túra langt! Alla leið úr Mýrdalnum austur á Reyðarfjörð! Við skulum rétt vona að þeir þarna álverssmíðakallarnir fari ekki að taka upp á því að slást á fylliríum eða gera af sér annan óskunda. Það gætu ansi margir verið dauðir áður en löggan kemur.
Hmmmm.........
Er að kljást við siglfirskan gírkassa úr Nissan Patrol jeppa. Kassinn var sendur til okkar SAVFS manna á vörubretti. Það hafa verið rólegheit í vinnu undanfarið, verkefnin heima fyrir eiginlega fleiri og stærri en þau í vinnunni. Ágætt að fá einhvern almennilegan bita í hendurnar.
(SAVFS = sérfræðingar að vestan fyrir sunnan)
Vesalings Gísli Hjartar! Hef þekkt hann allt frá skellinöðrualdrinum og aðeins að góðu einu. Frekar ólíklegar ásakanir, finnst mér. Byggi mína skoðun á eigin kynnum frekar en annarra sögum.

Frá 8. 01´06 

Meira um áhugamál.

Áhugamál fólks eru margvísleg. Félagi minn hefur til dæmis áhuga fyrir dráttarvélum. Ekki endilega öllum dráttarvélum, heldur gömlum vélum. Sumar tegundir eru þar ofar á blaði en aðrar. Ferguson er í sérstöku uppáhaldi. Einnig International, betur þekkt sem "Nalli"
Félagi minn á rætur í sveitinni. Djúpar rætur. Þó hann hafi lært til rafvirkja ásamt ýmsu öðru hefur bóndinn alltaf blundað í honum. Hefur enda sinnt bústörfum ýmisskonar á fjölskyldutengdu stórbúi sunnanlands. Þessi tengsl hafa með tímanum myndað allgóða þekkingu á landbúnaðarvélum og notkun þeirra.
Fyrir nokkrum árum bauðst þessum félaga mínum gamall Nalli norður í landi. Það var vél af gerð sem er hverfandi, þær eru alltof margar komnar á haugana, þessar gömlu vélar og aðrar eru á leið þangað. Það var því að ráði að koma vélinni suður og í geymslu þar til tími gæfist til að gera henni eitthvað til góða. Vélin kom svo með skipi. Sannarlega hrörleg og mátti muna sinn fífil fegurri. Náðist þó í gang og var ökufær. Hún var svo sett inn í hlöðu þar sem næstu árin mun ekki gefast tími til aðgerða. Gripnum er þó forðað frá skemmdum og má geta sér þess til að þegar endurbyggingu hennar verður lokið verði tegundin allsstaðar horfin úr notkun og aðeins safngripir eftir.
Fyrir nokkrum mánuðum bauðst svo önnur vél. Það var ´53 árgerð af Ferguson, eða frá þeim tíma sem Ferguson hafði ekki kynnst Massey en framleiddi undir eigin nafni eingöngu.


Þessi vél heitir því "Harry Ferguson" og er bensínknúin. Sárafáar vélar eru enn til af þeirri gerð, og flestar eru þær á einhvers konar söfnum. Þessi Ferguson hefur árum saman staðið inni í hlöðu, en var síðast í notkun sem hobbývél við sumarbústað. Hún hafði ekki verið gangsett í nokkur ár og lék nokkur vafi á því hvernig nýjum eiganda gengi að tjónka við hana.

Þar sem félaginn er nú búsettur erlendis og var aðeins staddur á landinu í jólafríi var gærdagurinn nýttur til að líta á vélina og kanna hvort samningar tækjust með henni og nýja eigandanum.
Við fórum í leiðangur að geymslustaðnum, langt úti í sveit, vopnaðir rafgeymum, starköplum,verkfærum,bensínbrúsa og öðru því sem að gagni mætti koma. Gripurinn reyndist hinn heillegasti og eftir stutta skoðun var lagt til atlögu. Skipt var um bensín á tanknum og rafmagnið yfirfarið. Þegar í ljós kom að rafgeymarnir voru frekar linir og því ekki hægt að starta í gang var brugðið á það ráð að draga vélina út í dagsbirtuna og reyna hvort betur gengi þar.
Ekki vildi vélin þýðast okkur og var því lagst í frekari yfirferð á vélbúnaði og við reyndum að tengja okkur við sálarlíf sveitaapparatsins gangtrega. Eftir allnokkrar vangaveltur var ákveðið að gefa bensín beint í æð og toga að nýju. Viti menn, það örlaði á skímu einhversstaðar innarlega í sálartetrinu og þessi rúmlega fimmtuga bensínvél fór í gang á einum strokki af fjórum með tilheyrandi hökti, hósti og reyk. Það leið þó ekki á löngu þar til hinir strokkarnir þrír voru tilbúnir í gleðskapinn og gengu til liðs af fullum styrk. Eftir smávægilega kippi var öldungurinn orðinn volgur og malaði eins og köttur.


Eigandinn klifraði upp í sætið og mjakaði vélinni af stað, varlega í fyrstu en nokkrum
augnablikum síðar voru vél og maður horfin nokkra áratugi aftur í tímann og þeystu í sameiningu upp og niður heimtröðina rétt eins og vélin væri að hefja vanalegan vinnudag. Það var auðséð að samningar höfðu náðst milli manns og vélar.

Eftir fleiri reynsluaksturshringi og vangaveltur var vélin sett á hús að nýju og gengið frá til lengri dvalar.

Það reyndist léttara en ráð var fyrir gert að vekja öldunginn til lífsins og þegar fram í sækir mun þessi dráttarvél eflaust verða einn af dýrgripum sögunnar um upphaf og þróun vélvæðingar í íslenskum landbúnaði.


» 2 hafa sagt sína skoðun

Frá 7.01 ´06 

Þrátt fyrir eigin hrakspár er ég enn á lífi og óbrotinn. Afleiðing föstudagsins var flensuskítur sem svo sem drepur engan en nógu djöfullegur samt.
Með þessu innslagi er ég "gestur" dagsins nr. 13.
Samtals er gestafjöldinn þá orðinn 2613.
Með þessum línum detta samhverfurnar út og þar sem ég set hér inn á morgun pistil um afrek dagsins í dag (sem eru allnokkur) dettur næst út pistillinn frá 15.12.´05 þar sem fjallað er um sjóferðina á JÓA. Drífið í að lesa áður en bölvaðir bjánarnir sem ráða ríkjum á -blog.central.is- stela pistlinum og glata eins og öðru því sem á undan er horfið.
Þátturinn hans Hemma Gunn í kvöld var góður. Það lét nærri að ég vaknaði í stólnum við að hlusta.(var svo syfjaður að ég lét duga að hlusta með augun lokuð)
Búinn að taka hinn hafnfirska bryggjurúnt kvöldsins.
ZZZZZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz.....................

Fimmtudagur 5. jan.´06 

Já, á morgun er föstudagur. Á morgun er líka þrettándinn. Og ef ég er ekki því vitlausari þá er næsti föstudagur sá þrettándi!
Hvur andskotinn!! Á maður nokkuð að fara á fætur þessa daga? Ég hef raunar slæma reynslu af föstudeginum þrettánda, hvort sem það er mýtunni að kenna eða eigin klaufaskap. Ég verð þó alltjénd að bera út blöðin. Það eru því allar líkur á því að þegar líður á morguninn verði ég annað hvort liggjandi afvelta fótbrotinn niðri í einhverjum kjallaratröppunum eða blátt áfram dauður . Veit annars nokkur hvernig hann spær fyrir morgundaginn?
Vagninn undir litlu-Berg er að komast á hjól. Það er líka eins gott því tíminn líður hratt. Man einhver eftir þeirri fullyrðingu minni frá því í haust að veturinn sé alla jafna tveimur mánuðum of stuttur? Já, er það ekki! Þessi vetur er nefnilega þegar orðinn tveimur of stuttur og áramótin eru rétt nýliðin!! Ég þori ekki að hugsa til vorsins, trúlega hef ég þá tapað einum mánuði til viðbótar. Ég ætlaði að vera búinn að fleyta litlu-Berg lestaðri gangstéttarhellum ekki síðar en um mánaðamót okt-nóv svo mæla mætti lóðlínuna á henni (lárétta línu) en tjónabíllinn tók allan þann tíma sem ég yfir höfuð nennti að vinna heimafyrir. Þessi seinagangur kemur svo í bakið á manni af tvöföldum þunga þegar líður á veturinn. Mig vantar þessa tvo mánuði og ég á enn eftir að sprauta helv. bílinn, ásamt því að taka bátavélina( sem sl. sumar var keypt úr Stykkishólmi til að nota í trilluna) inn í skúr og gangsetja hana til að vera nú alveg viss um að hún virki, svo ég sé ekki að hafa fyrir því að smíða nýjar undirstöður í bátinn fyrir ónýta vél.
Má einhver missa svona sirka þrjá vetrarmánuði? Í staðinn er í boði sigling um Kollafjörðinn með nesti og veiðistöng þegar sumrar.

mánudagur, janúar 16, 2006

Frá 31.12.´05. Flutt úr glatkistunni. 

Það er sprungið vatnsrör í útvegg og flæðir út á lóð! Það var ákaflega hentugt núna, mig vantaði svooooo mikið eitthvað að gera!
Af því að ég er í svo góðu skapi set ég hér inn pistil sem ég fann og fékk að láni.(með leyfi)
Eftirfarandi texti er fenginn að láni af síðu sem ég datt inná og merkt er Svanhvít Helga. Skildi eftir kvittun. Tekið úr dagbók einhvers sunnlendings.
21. nóvember 2004 - 09:16
12. Ágúst - Fluttum til Íslands að vinna. Settumst að fyrir austan. Ég er svo spenntur. Það er svo fallegt hérna, fjöllin eru dýrleg. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau líta út í vetur þegar það fer að snjóa. 14. Október - Ísland er fallegasta land í heimi. Laufin eru öll rauð og appelsínugul. Sáum hreindýr í dag. Þau eru svo falleg. Það er svo kyrrlátt hérna, algjör paradís. Ég ætla sko að búa hérna það sem eftir er. 11. Nóvember - Bráðum byrjar hreindýra veiðitímabilið. Ég get ekki ímyndað mér að einhver vilji drepa þessi fallegu dýr. Vona að það fari að snjóa. Ég elska þetta land. 15. Nóvember - Það snjóaði í nótt. Þegar ég vaknaði var allt hvítt. Þetta er eins og póstkort. Við fórum út og hreinsuðum snjóinn af tröppunum og mokuðum innkeyrsluna. Fórum í snjóbolta slag (ég vann). Þegar snjóruðningstækið ruddi götuna, þurftum við að moka aftur. Ég elska Ísland! 22. Nóvember - Meiri snjór í nótt. Snjóruðningstækið lék sama leikinn með innskeyrsluna okkar. Fínt að vera hérna. 15. Desember - Enn meiri snjór í nótt. Komst ekki út úr innkeyrslunni og í vinnuna. Það er fallegt hérna, en ég er orðinn ansi þreyttur á að moka snjó. Helvítis snjóruðningstæki. 22. Desember - Meira af þessu hvíta drasli féll í nótt. Ég er kominn með blöðrur í lófana og illt í bakið af öllu þessu moki. Ég held að gaurinn á snjóruðningstækinu bíði við hornið þar til ég er búinn að moka innkeyrsluna. Helvítis asninn.24. Desember - Gleðileg Jól, eða þannig! Enn meiri anskotans snjór. Ef ég næ í helvítis fíflið sem keyrir snjóruðningstækið, þá sver ég að ég drep helvítið. Af hverju salta þeir ekki helvítis göturnar hérna meira. 18. Janúar - Meiri hvítur skítur í nótt. Búinn að vera inni í þrjá daga. Bíllinn er fastur undir heilu fjalli af snjó sem fíflið á ruðningstækinu er búinn að ýta að innkeyrslunni okkar. Veðurfræðingurinn spáði 20 cm jafnföllnum snjó næstu nótt. Veistu hvað það eru margar skóflur?19. Janúar - Helvítis veðurfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. Við fengum 35 cm af skít í þetta skipti. Ef það heldur svona áfram þá bráðnar þetta drasl ekki fyrr en um mitt sumar. Snjóruðningstækið festi sig í götunni og helvítis fíflið kom og spurði hvort ég gæti lánað honum skóflu. Eftir að hafa sagt honum að ég væri búinn að brjóta sex í vetur við að moka í burtu snjónum sem hann ýtti jafnóðum inn í innkeyrsluna, munaði minnstu að ég bryti eina enn á hausnum á honum.4. Febrúar - Komst loksins út úr húsi í dag. Fór í búðina að versla og á leiðinni til baka hljóp hreindýr fyrir bílinn. Skemmdir upp á tugi þúsunda. Vildi að þessum kvikindum hefði verið útrýmt síðasta haust.3. Maí - Fór með bílinn á verkstæði í bænum. Ótrúlegt hvað þetta ryðgar af öllu þessu saltdrasli sem þeir strá á vegina. 19. Maí - Flutti til Spánar. Skil ekki að nokkur maður með viti skuli vilja búa á skítaskeri eins og Íslandi!

mánudagur, janúar 09, 2006

Frá 31.12.´05. Jeppi deyr. 

Jeppi deyr.

Það var komið að leiðarlokum hjá jeppa sonarins. Jeppinn hafði þjónað okkur dyggilega sl. 4 1/2 ár. Það er kannski ekki langur tími þannig séð, en miðað við að hann var nær ónýtur þegar hann var keyptur er það gott. Hann fékk strax mikla yfirhalningu sem þó kostaði frekar lítið af aurum en aðallega vinnu. Sú vinna hefur skilað sér í, sem fyrr segir, dyggilegri þjónustu allan tímann.
En nú var sem sagt komið að leiðarlokum, móðir náttúra hafði nagað hann afar illa og þegar lagður var saman kostnaður við nýtt pústkerfi, nýjar bremsur ásamt ýmsu smálegu sem úrskeiðis hafði farið frá síðustu skoðun var ljóst að um framhaldslíf yrði ekki að ræða. Þar að auki var tjónabíllinn í bílskúrnum farinn að þrengja að mér svo það varð að ráði að drengurinn keypti af okkur þann bíl á kostnaðarverði og ég slyppi þar með við að laga fyrir hann jeppann og losnaði við bílskúrsfóðrið í leiðinni. Jeppinn var því rúinn hljómflutningstækjum og fleiru því er að gagni mætti koma annarsstaðar. Síðan var honum ekið suður í Furu og ég elti á "nýja" bílnum drengsins, sem ók jeppanum sínum síðasta spölinn.

Í Furu voru númerin síðan tekin af. Mér skilst að þetta sé ekki fyrsti og örugglega ekki síðasti bíllinn sem kemur akandi og á númerum til eyðingar. Við hliðina stendur tjónabíllinn viðgerður en þó með ómálaðan framenda eins og sjá má.
Konan þurfti um jólin að útskýra fyrir kettinum hvers vegna hann fengi ekki lambalæri eins og hinir á heimilinu. Hann hafði gert ráð fyrir sjálfum sér við borðið en fékk síðan aðeins hversdagslega máltíð í skálina sína. Hann var miður sín og þurfti að fá áfallahjálp.

Það sem hér fer á eftir er bæði ókristilegt og ekki fyrir viðkvæma. Hæfir auk þess alls ekki hátíðinni sem í hönd fer en lýsir kannski skapsmunum skrifara:
Þessi helvítis andskotans fífl hjá -blog.central- hafa tekið út dagatalið! Þar sem ég hef verið frekar latur við að færa pistlana yfir á gömlu síðuna eru margir þeirra horfnir og ég kemst ekki í þá. Þessir bölvaðir aumingjar settu einhverja slóð upp í hægra hornið sem á að duga til að ná í eldri færslur en það er sama hvað ég reyni, ég næ ekki nema svona tveimur til þremur síðum aftur fyrir. Allt þar fyrir aftan er horfið. Hvers vegna menn þurfa að standa í svona kjaftæði er mér lokuð bók. Hvers vegna mátti ekki láta kerfið í friði í stað þess að vera sífellt að krukka í það og skilja svo eftir sig sviðna jörð? Ef ég kæmi höndunum utan um hálsinn á þessu liði þá myndi ég kreista- og það fast!
Ég bjargaði því sem bjargað varð og það má sem sagt finna á gömlu síðunni sem vísað er í hér til vinstri.
Að því sögðu þakka ég fyrir öll innlit á síðuna og öll þau álit og ábendingar sem ég hef fengið. Þeim mætti þó gjarnar fjölga, aldrei of mikið af því góða! Ég hef haldið úti síðunum tveimur nú vel á þriðja ár og held áfram meðan ég sé teljarann hreyfast (mér finnst raunar að þeir aumu hortittir sem um síðuna sjá gætu, ef þeir vildu gera eitthvert gagn í stað ógagns, lagfært teljarann þannig að eigið innlit teldi ekki heldur aðeins utanaðkomandi.)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?