<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

fimmtudagur, maí 26, 2005

Frá 22. maí 

Enn einn fallegur dagur

Sólskin og blíða. Hitinn var að vísu bara rétt ein gráða þegar útburðurinn reis úr rekkju um kl. 04. í morgun. (er kannski réttara að segja útberi? eða tilberi? kannski blaðberi? já blaðberi er gott orð, nota það.) Tveir piltar brösuðu með eitthvað stórt á milli sín, kannski einhvers konar tjald, eða gúmmíbát, frá húsvegg, gegnum garð og að bílnum sínum. Kannski var þetta þeirra eign, kannski ekki. Í öllu falli hafa fréttirnar í blöðunum sem maður ber út kennt manni að vera ekki að skipta sér af. Bílnúmerið er samt til á miða hjá mér ef einhver við Álfhólsveg 73 saknar einhvers.(og ef sá hinn sami skyldi ekki lesa síðuna mína, getur hann sjálfum sér um kennt) Mætti ekki moggaberanum í morgun, enda mogginn borinn út á laugardagseftirmiðdegi. Hvílíkur munur að ber út blöð alla daga en sofa samt út á sunnudagsmorgnum.
Seinni tímatakan byrjar rétt fyrir átta. Þangað til skrepp ég einn hring á bryggjuna í Hafnarfirði. Bestu kveðjur í sveitina! (og til Danmerkur, audda!)

Frá 21.maí. 

Aftur heima.

Ísfirðingurinn er kominn til baka úr einhverri erfiðustu ferð sem hann hefur farið. Lögðum upp í gær um fimmleytið, pabbinn og stubban. Á Kjalarnesinu skall á okkur nær óstætt veður sem hélst alla leið að Reykhólum. Var þó sýnu verst á kaflanum frá norðanverðri Bröttubrekku að Búðardal. Þar vorum við á köflum í hættu vegna hliðarroks. Komum að Reykhólum um tíuleytið að kvöldi. Þá var hitinn að nálgast núllið, hafði reyndar verið frost bæði á Bröttubrekku og Svínadal. Hávaðarok en sú stutta ákvað samt að fara í hjóltúr. Hjólaði nákvæmlega tvo metra, gafst þá upp fyrir rokinu og ákvað að húfan væri hlýlegra höfuðfat en hjólahjálmurinn. Gengum til skipanna og litum á trilluna sem var tilgangur ferðarinnar. Urðum nær úti á bakaleiðinni til bíls. Rokið hvein svo í toppgrindinni að vart var samtalsfært í bílnum. Færðum hann því í skjól við varaflstöðina og náttuðum þar. Kyntum bílinn með gasinu og náðum að halda þokkalegum yl þrátt fyrir frost og hávaðarok úti. Í morgun fórum við aðra skoðunarferð að bátnum og mynduðum hann í bak og fyrir. Bátinn einan, frá öllum hliðum, stubbu og bátinn, pabba og bátinn o.s.frv. Hringdum því næst með hálfum huga í eigandann. Hann reyndist vænsti maður, tilbúinn að semja og hálftíma síðar vorum við orðnir bátseigendur fyrir ásættanlegt verð. Það var nánast alhvít jörð þegar himinsæl feðgin yfirgáfu Reykhóla, hafandi kvatt að sinni fleytuna sem ég hef lofað konunni að verði sú síðasta - þessa muni ég eiga þar til yfir lýkur (!?). Hádegismatur í Borgarnesi kl. 15.30 og síðan heim. Konan var ekkert sérstaklega glöð.........

Frá 20.maí 

Glímt við þjóðveginn.

.....og enn verður lagt upp í ferð. Að þessu sinni er áfangastaðurinn Reykhólar. Hvers vegna? Nú, auðvitað að skoða bát. Var ég ekki búinn að segja það?
Ókei, ókei, ég veit svo sem að ekki deila allir þessu áhugamáli. En hvað með það? Þetta er elsta áhugamálið og það sem ég hreinlega verð að sinna. Og þar sem ég er byrjaður að vinna í því að fá bát, þá verð ég að ljúka málinu. Halda dampi. Maður kíkir kringum sig í einhver ár, stingur út það sem eigulegt er og liggur hingað og þangað. Les auglýsingar, skoðar myndir. En gerir svo sem ekkert í málinu annað en að safna upplýsingum í sarpinn. Síðan þegar skriðan fer af stað fellur allt annað í skuggann og maður sinnir þessu einu, þar til sú niðurstaða er fengin sem maður sættir sig við.
Stubbuskottið ætlar með. Hún sleppir enda ekki ferð, ef býðst. Svo Ísfirðingurinn rennir úr hlaði einhverntíma fyrir kvöldmat, innkaupin gerð í Borgarnessbónusi að vanda. Hver nennir að hanga í biðröð hér syðra á föstudgseftirmiðdegi? Næturstaðurinn verður svo valinn á leiðinni eftir hentugleikum. Ætli við náum ekki fyrri tímatökunni í Formúlunni einhvers staðar í Dalasýslunni

Frá 19.maí. 

Ég var að spekúlera:

Konan sem fær ekki að ættleiða barn frá Kína vegna þess að hún er yfir kjörþyngd - ætli það þýði ekki bara á mannamáli að hún sé of feit? Sennilega telur Dómsmálaráðuneytið það bara vinarbragð að benda henni á það, þar sem enginn annar virðist gera það. Allavega lítur ráðuneytið á þunga konunnar sem vandamál sem þurfi að taka á. Og bendir í mestu vinsemd á það. En, eins og dæmigerður Íslendingur, fer konan að rífast og skammast í stað þess að viðurkenna vandamálið og taka á því. Hún er reyndar einnig talin of gömul, sem mér finnst þó hin mesta svívirða þar sem hún er yngri en ég, sem þetta skrifa!
Mig vantar eiginlega nafnið á þessari konu, svo ég geti boðið henni með í blaðaútburð á morgnana. Er sannfærður um að við það gæti hún náð af sér þeim kílóum sem hið há ráðuneyti telur hana þurfa að missa til að geta ættleitt barn!

Frá 18.maí. 

Íhugun dagsins.

Hvort ætli sé nú betra, að drífa í hlutum sem mann langar að framkvæma eða geyma til betri tíma? Þegar mann langar að afla upplýsinga um eitthvað, skyldi vera betra að ganga í það strax eða er kannski skemmtilegra að treina sér hlutina til að eiga þá inni?
Það er spurning.
Í u.þ.b. þrjú ár hefur mig langað til að spyrjast fyrir um trillu sem liggur úti á túni vestur á Reykhólum. Vitandi að fyrirspurn um slíkt getur valdið því að hluturinn verði skyndilega gulls ígildi (sbr. ættargripinn í Grindavík) þá hef ég frekar viljað eiga þessa fyrirspurn inni og lifa í voninni um að eiga möguleika á gripnum. Hafði ákveðna slóð að fara eftir, en að öðru leyti var allt í óvissu um eiganda bátsins. Í ljósi þess að nú býðst mér bátur, annarar gerðar, uppi í Stykkishólmi, lét ég undan sjálfum mér og hringdi eftir þessari slóð í gærkvöldi. Þessi óljósa hugmynd sem ég hafði leiddi beint til eiganda bátsins á Reykhólum. Og það sem meira er, hann vill jafnvel selja, m.as. á skikkanlegu verði. Þetta setur mig í nokkurn vanda. Ég gerði ekki ráð fyrir því að lenda í pressu. Nú liggur leiðin upp í Hólm strax eftir vinnu á föstudag til að líta á bátinn þar, en hann hef ég aldrei séð og átta mig ekki á honum eftir lýsingum í síma. Þaðan verð ég að öllum líkindum að fara á laugardagsmorgninum upp á Reykhóla og gera lokaúttekt á þeim bát. Eftir það er hægt að ákveða. Það má með nokkurri vissu telja að í helgarlok geti ég talist bátseigandi. Innst inni langar mig í þann á Reykhólum, hef enda haft hann í huga sl. þrjú ár. Hins vegar get ég ekki, samviskunnar vegna,stokkið á hann nema skoða þann í Hólminum. Hver veit svo sem nema hann henti enn betur? Ekki ég......................

Frá 17. maí. 

Enn í túninu heima.

Þá er Ísfirðingurinn kominn heim aftur og norðurferðinni lokið. Við höfum greinilega lítið fylgst með fréttum undanfarið því við komum af fjöllum þegar við blöstu borgarísjakar inni á Húnaflóa. Í bíltúr út á Svalbarðseyri á sunnudagskvöld sá ég eitthvað sem líktist stóru skipi úti á firði. Sá svo í fréttum í dag að einnig þar var borgarísjaki á ferð. Kannski Grænlendingar séu að senda okkur hluta af Grænlandsjökli svona í vináttuskyni.
Maður verður alltaf jafn hissa, jafnvel hræddur, þegar maður ekur áleiðis til höfuðborgarsvæðisins í helgarlok. Það er hreint ótrúlegt að sjá sénsana sem ökumenn taka í framúrakstri, jafnvel bara fyrir eitt til tvö sæti í bílaröðinni. Þar sem okkar hægfara ferðadreki má skv.umferðarlögum ekki aka hraðar en 80 km./klst. er talsvert um að kappaksturshetjum þjóðveganna þyki við þvælast fyrir. Ennfremur veitist okkur erfitt að halda umferðarhraða upp langar brekkur og vill því myndast röð fyrir aftan, sé blindhæð framundan. Á heimleiðinni upp Heggstaðanesið austanvert dró heldur úr hraða okkar, enda hallinn drjúgur. Við vorum einbíla þennan kafla en ég sá í speglinum að lítill grár fólksbíll nálgaðist á miklum hraða. Útsýni framundan var þokkalegt, enginn bíll á móti svo ég gaf stefnuljós til vinstri. Bíllinn renndi framhjá og ég uppskar þetta fína fokkmerki frá ökumanninum. Ég er enn að velta fyrir mér fyrir hvað! En......svona er lífið og .þeir eru víða fávitarnir.
Ferðasagan verður að sjálfsögðu skráð í ferðabókina á næstunni.

Frá 14.maí. 

"Enginn sagt sína skoðun"

Það er líka ósköp eðlilegt í ljósi þess að slóðin á þessa síðu hefur aðeins tvisvar verið gefin upp annarsstaðar.Ég veit aðeins um einn lesanda, enda sýnir gestafjöldinn svo ekki verður um villst að óviðkomandi aðilar eru ekkert að reka hér inn nefið.M.a.s. konan og börnin vita ekkert um slóðina á þessa síðu, sem þó hefur verið haldið úti í bráðum tvö ár. Sá eini sem les segir mér sína skoðun umbúðalaust augliti til auglitis þegar við hittumst. (þ.a.l. fæ ég væntanlega viðbrögð við þessu). Ég náði u.þ.b. 3ja tíma svefni í nótt. Synir nágrannahjónanna ,sem eru í útlöndum, héldu partý í nótt með tilheyrandi hávaða og fylleríislátum svo ekki varð svefnsamt í nágrenninu. Fór í blaðaútburð kl.04 og er þegar þetta er skrifað að gera klárt fyrir Akureyrarferðina. Þeir sem mæta Ísfirðingnum í dag eru vinsamlegast beðnir að vara sig á syfjuðum ökumanni
Nú hafa allar hugdettur á þessari síðu, utan þær nýjustu, verið fluttar yfir á þá gömlu. Slóðin á hana er hér vinstra megin. (en þetta veit lesandinn minn auðvitað,enda hefur hann lesið þetta allt fyrir löngu)

Frá 13. maí. 

Í morgunsárið (hvers vegna "sárið"?)

Mikið obbosslega var gróðurlyktin góð í morgun. Þó sólina vantaði var samt 8 - 9 stiga hiti, andvari og einstaka regndropi datt hér og þar. Tré eru farin að laufgast og trjáilminn leggur fyrir vitin þegar göturnar eru gengnar svo snemma að hvorki bílar né bílstjórar eru vaknaðir og aðeins hljóð frá stöku strætó yfirgnæfir fuglasönginn augnablik, svo er hann farinn og fuglarnir fá orðið að nýju.
Konan er núorðið farin að koma með í útburðinn nánast á hverjum morgni. Það finnst mér ágætt því það flýtir fyrir og auk þess er ágætt að vita af einhverjum nálægt ef maður skyldi steypast á hausinn í einhverju girðingarfluginu. Er reyndar enn að jafna mig eftir það síðasta og þoli ekki mjög hraða yfirferð, verð aumur í löppinni fram eftir degi.
Í Fréttablaðinu er í dag er auglýst trilla, mjög áþekk því sem ég hef verið að leita að. Mér sýnist myndin vera tekin einhversstaðar úti á landi, er þó ekki viss. Þessi er hins vegar miklu dýrari en ég hafði hugsað mér, svo ég held bara áfram að hugsa mér..........

miðvikudagur, maí 18, 2005

Já, akkúrat............... 

Sá frétt um trilluna sem sökk út af Siglunesi. Þegar að var komið flaut hún á stefninu svo mögulegt var að koma í hana bandi og draga að bryggju. Mennirnir sluppu vel, sem betur fór. Fór í framhaldi að velta fyrir mér byggingarlaginu á trillunum og hvernig það þróaðist. Þessi bátur var úr plasti, frambyggður. Á mörgum þannig byggðum bátum er neyðarútgangur á hvalbaknum framan við stýrishúsið. Hann er venjulega gluggi í leiðinni og því alla jafna þynnri og veikbygðari en sjálfur skrokkurinn. Á bátum sem lent hafa í viðlíka hremmingum hefur það gerst að eftir að byrðingurinn hefur fyllst af sjó og flýtur einungis á stefninu, springur neyðarútgangurinn vegna þrýstings loftsins sem safnast hefur fyrir fremst í bátnum. Þar með flæðir loftið út. stefnið missir flotkraftinn og báturinn steinsekkur. Þetta gerðist sem betur fór ekki í þessu tilfelli og því náðist báturinn að bryggju þar sem hægt var að hífa hann á land.
Á tímabili var talsvert smíðað hérlendis, og einnig fluttur inn talsverður fjöldi plastbáta sem voru afturbyggðir og opnir alla leið fram úr. Þessir bátar voru ætlaðir til netaveiða, s.s.grásleppuveiða. Einhverjir þeirra voru einnig á handfærum. Grundvallarmunur er á þessum tveimur veiðiaðferðum, þar sem grásleppunet eru lögð á grunnsævi en handfæri stunduð á mun dýpra vatni. Handfæraveiðarnar kröfðust því lengri siglingar og mátti gera ráð fyrir veðrabreytingum meðan á veiðum eða siglingu stóð. Það voru nokkur brögð að því að þessir framopnu bátar vildu "stinga sér" í báruna, taka inn óbrotinn sjó framyfir og jafnvel fyllast. Nokkrir eigendur minnkuðu hættuna á þessu með því að setja bakka , þ.e. upphækkun eða öldubrjót framan á bátana. Þeir innfluttu bátar sem ég þekki til höfðu neyðarútgang aftan á stýrishúsinu, aftur úr bátnum.
Það er einnig dálítið merkilegt að skoða þróunina í smábátum landsmanna frá áraskipatímanum. Þegar farið var að setja vélar í árabáta, var vélin alltaf sett í aftasta hluta þess rýmis þar sem burður bátsins var mestur. Þetta rýrði fiskirýmið minna en að setja vélina í miðjuna. Vél og gír höfðu ákveðna lengd, og reynt var að hafa skrúfuöxulinn sem stystan. Yfir vélina kom svo kassi með loki til hlífðar. Stýrissveifin náði fram að kassa svo sá sem stýrði hafði einnig umsjón með vélinni. Með stækkandi bátum stækkuðu vélarnar og farið var að láta vélarkassann ná út í aðra síðuna, jafnvel báðar. Hagræði þótti að því fyrrnefnda, því þannig mátti ganga óheft aftur fyrir kassann. Hið síðarnefnda gaf aftur á móti meira pláss í kassanum sjálfum, þannig að þar mátti geyma varahluti, olíur og annað sem vélinni tilheyrði. Síðar hvarf lokið af kassanum en í staðinn kom kappi, bogadregin upphækkun með opnun bæði að ofan og aftan, þannig að menn gátu smokrað sér inn í kassann og notið ylsins frá vélinni. Eftir sem áður þurfti stjórnandinn að standa úti, því menn urðu jú að hafa augun hjá sér, ekki mátti líta af öldunum né kennileitum sem siglt var eftir.
Það er dálítið merkilegt að næsta skref virðist hafa verið þilfar. Bátar virðast hafa verið orðnir allt að tíu tonnum, dekkaðir og komnir með lúkar frammí með kojum eða setbekkjum, áður en menn fóru að nýta hitann frá vélinni fyrir "rórmanninn" með því að setja skýli með gluggum ofan á vélarhúsið. Stýrishús voru fyrir löngu komin á alla þá kúttera sem fengið höfðu vélar, en virðast hafa komið seinna á trillurnar. Kannski hafa menn haft ótrú á gluggum úr gleri og talið að slíkt skapaði aðeins slysahættu, slæmt útsýni og hættu á að sjóir brytu gluggana og ættu þar með greiða leið að vélinni. Fyrstu bátavélarnar voru jú bensín- eða steinolíuvélar, með rafkertum og kveikju, og þoldu því alls ekki að fá yfir sig sjógusu. Í öllu falli virðast bæði lúkar og þilfar hafa komið á undan stýrishúsinu.
Væntanlega hefur mönnum fljótlega orðið ljóst það óhagræði sem fólst í því að hafa vistarverur á tveimur stöðum í litlum bát- fremst og aftast. Einfaldast hefði jú verið að slá þessu tvennu saman og flytja stýrishúsið framá.Minnka síðan vélarkassann aftur og auka þannig vinnurými bátsins. Það sem kom í veg fyrir að slíkt væri gerlegt var aðallega tvennt: fyrirferð gömlu vélanna var slík að útilokað var að koma þeim fyrir í kassa á stærri bátunum og að auki þörfnuðust þær stöðugrar umhirðu og eftirlits. Flestar stærri trillur höfðu orðið sérstaka "mótorista", menn sem höfðu setið námskeið í meðferð véla og þóttu fyrir vikið skipa virðingarsess sem næst gekk bátsformanninum sjálfum.
Það var svo ekki fyrr en löngu síðar sem vélarnar voru orðnar svo fyrirferðarlitlar og gangöruggar að hægt var að hafa þær "einar og eftirlitslausar" heilan róður. Langflestir smábátar urðu frambyggðir, lúkar og stýrishús sambyggt, og þegar plastbátaöldin hélt innreið sína með "Færeyingunum" svokölluðu, árið 1977, má segja að frambyggingin hafi orðið allsráðandi. Þeir fáu af gömlu, afturbyggðu trébátunum sem enn eru til þykja nú safngripir.

Góðan daginn! 

Dagurinn byrjar fallega - svona hefur fyrsti dagur veraldarinnar líklega litið út. Þeir komu ekki með blöðin fyrr en klukkan fimm, eins og í gær. Það er slæmt þegar maður býst við þeim klukkan fjögur, og þarf svo að hanga við gluggann og bíða. Komst af stað kl. fimm, en þegar kom að því að ræsa engilinn dóttur mína, klukkutíma síðar, var hún lasin. Tók samt með mér eitt hverfi en var því næst send heim aftur í háttinn. Lauk verkinu einn, eins og svo oft áður. Lánaði konunni í næsta húsi síðan blaðakörfuna, en hún er fjáröflunarútburði fyrir íþróttafélag. Þegar ég kom heim var konan vöknuð og búin að hita kaffi (blessunin) Raikkonen er á ráspól. Held samt það gagni honum ekki frekar en áður, því líklega bilar og hann verður að hætta. Ég held að Alonso taki þetta. Er einhver fótbolti í dag? Vonandi ekki, því þá verður lítið úr verki og helgarverkin sem bíða þola vart meiri bið. Næsta helgi fer í ferðalög.

Auðvitað! 

Við vorum að koma úr skoðun, við ísfirðingarnir. Þ.e. sá stærri var skoðaður á árlegum húsbíladegi hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði. Sá minni labbaði milli bíla, spjallaði og kíkti á hjá hinum. Við mættum rétt fyrir átta. Af gömlum vana var sá minni hálfkvíðinn, sá stærri var hinsvegar hnarrreistur, vitandi það að hann hafði vissa yfirburði á svæðinu. Hann hafði sálina fram yfir nýju, fallegu, verksmiðjuframleiddu bílana. Hann hafði það fram yfir marga af gömlu bílunum sem líka hafa sál, að hann var vel hirtur,hreinn og þrifalegur og í fullkomnu lagi. Síðan voru þarna nokkrir jafningjar. Við finnum alltaf sterkstu straumana í þá átt - þar sem handverkið er metið og virt enda umgengist sem slíkt. Hann rann gegnum skoðunina. Allur kvíði eigandans var ástæðulaus.Enda meira krónískur frá fátæktarárunum þegar maður ók um á druslum og eyddi svo og svo löngum tíma á hverju ári við að berja þær gegnum skoðun. Vagninn fékk meira að segja þann vitnisburð að vera "í fullkomnu lagi, óvenju góður af svo gömlum bíl" Við gáfum okkur tíma á eftir til að drekka kaffi með þeim sem áttu eftur að láta skoða. Nutum ánægjunnar yfir að vera búnir, og klárir í sumarslaginn. Þegar við dóluðum heim á leið var geislaspilarinn þaninn til hins ýtrasta og "Dísir vorsins" hljómuðu langt út fyrir bílinn. Þeir sem lentu við hlið okkar á ljósum, litu við.......

þriðjudagur, maí 17, 2005

Loksins,loksins! 

Þá er Ísfirðingurinn kominn í hlaðið. Svei mér þá, ég er ekki frá því að hann hafi boðið mig velkominn þegar ég kom að sækja hann í gærkvöldi. Allavega fannst mér það. Það liggja nefnilega alveg sérstakir þræðir milli okkar. Hann er mitt hugarfóstur, hönnun og handverk, allt í senn. Hann kostaði mig andvökur, endalausar vangaveltur, áhyggjur af einföldustu úrlausnum og talsvert af aurum. Og samt er hann aðeins gamlingi sem lifað hefur tímana tvenna og er nú líklega á sínu síðasta skeiði. Það fylgir því sérstök tilfinning þegar ég loka hann inni að hausti, vitandi að við sjáumst ekki svo mánuðum skiptir og ég get aðeins treyst á að veðurguðirnir fari vel með þetta óupphitaða gamla refabú sem geymir ævintýri liðinna sumra, innbundin í stál og við.
Það er ennfremur sérstök tilfinning að sækja hann að vori. Labba hringinn, athuga dekkin, rafgeymana, klæðninguna. Setja síðan í gang, aka út um dyrnar og finna öldunginn vakna og lifna. Ég er viss um að sé það rétt að gamlir bílar hafi sál, þá hlakkar hann jafnmikið og ég til komandi sumars. Veit enda sem er, að hann fær sína andlitslyftingu, málað í bletti, lagfæringar hér og þar, þvott og sápu. Fær að sjá nýja staði, hvíla sig á nýjum tjaldsvæðum, aka nýja vegi. Veit líka upp á hár hvernig verður ekið, hvaða brekka er farin í hvaða gír, á hvaða hraða er ekið upp eða niður. Veit hvaða dynti hann má leyfa sér, stökkin út til vinstri á rússibönum í malbikinu, framendalyftingarnar á mishæðum, 30 gráðu hallann í rokhviðum. Hann veit þetta vegna þess að það ekur honum enginn annar en ég. Aldrei. Aðrir ökumenn myndu ekki skilja hann og hann tæki aldrei annan ökumann í sátt. Hann þekkir þetta allt, kann þetta allt. Ég veit hvað hann getur og getur ekki. Hann tók klukkutíma í Hellisheiði eystri. Hálftíma upp og hálftíma niður. Þannig er það bara. Hann er ekki eldsnöggur milli staða, en reynslan hefur sýnt okkur að það skiptir engu máli.
Og nú er hann semsagt kominn heim aftur og bíður úti í innkeyrslu eftir sínum þvotti og standsetningu. Skoðunardagurinn er á laugardaginn. Hann verður örugglega fyrstur að dyrunum. Fær væntanlega fulla skoðun. Annað væri bara sárt. Síðan aftur heim í innkeyrslu í hvíld og íhugun. Þar mun hann standa næstu viku og horfa til norðurs, til Esjunnar ,Akrafjalls og Skarðsheiðar. Í norður, þangað sem fyrstu ferð er heitið um hvítasunnuna. Fyrsta ferðin í fyrra var farin til Akureyrar. Fyrsta ferð þessa árs verður einnig þangað.

föstudagur, maí 13, 2005

......og það varð maí, hinn fyrsti dagur! 

"Í dag er fyrsti maí um land allt" ,eins og verkalýðsforinginn forðum orðaði það svo snilldarlega í ræðu. Það er aftur undarlegt þetta "land allt". Nú um helgina hef ég fylgst með veðurmyndavélum austan lands og vestan vegna ferðalaga hluta fjölskyldunnar. Þeim hluta hennar sem fór úlpulaus í ferðalag austur á firði til að spila á balli brá illilega þegar þangað kom í gær. Í stað sólar og 12 stiga hita syðra fékk spilarinn -1 gráðu og snjó. Með kuldadofna fingur og glamrandi tennur var barist gegn veðri frá Egilsstöðum niður á firði. Eftir næturdvöl eystra var síðan barist til baka í keðjufæri upp á Hérað og flogið suður í sólina, til þess eins að hafa hálftíma viðdvöl á flugvellinum áður en stigið skyldi upp í vél og flogið aftur í kuldann og snjóinn, nú til Ísafjarðar, hvaðan aka á til Bolungavíkur til áframhaldandi spilamennsku á 1sta maí hátíð. Að vestan skal síðan fljúga aftur suður undir kvöldið, ef veður leyfir. Það skiptir semsagt algerlega í tvö horn hvað veðrið varðar þessa helgina. Á suðvesturhorninu er brakandi blíða þó heldur hafi reyndar kólnað en í öllum öðrum landshlutum er frost og víðast hvar hvít jörð, sumstaðar vel það. Og svo er maður að fara að sækja ferðabílinn í vetrargeymsluna. Til hvers? Til að ferðast upp í Hvalfjörð, eða kannski til Selfossar (eins og Dóra Takefusa hefði sagt)?
Sá hluti fjölskyldunnar sem ekki er að spila eystra stundar moldvörpustarfsemi utan við húsið og hyggur á stórframkvæmdir á lóðinni með jarðvegsskiptum og hellulögn. Gengur þar maður undir manns hönd, nema kannski gelgjan, sem ekki óhreinkar sig á þess háttar erfiðisvinnu. Hún veitir hins vegar móralskan stuðning sem alls ekki má vanmeta. Eins og allir mega vita er líkamleg vinna ekki fyrir fínar dömur

Skot í fótinn. 

Hann gerði illilega i bólið sitt, mannhelvítið sem setti hlera fyrir opið í girðingunni hjá sér. Leiðin hefur verið nýtt til styttingar milli lóða enda ómögulegt að hlaupa stöðugt hringinn í kringum öll hús. Stundum myndast rás í lóðirnar, stundum ekki. Þessi, allavega sá sig knúinn til að loka leiðinni. En við sjáum við honum. Nú hefur okkar maður lagt nógu mikið af til að geta tekið sprettinn og hreinlega svifið yfir girðinguna og yfir í næsta garð. Þar með má búast við að rásirnar verði fljótlega tvær, því Moggaberinn notar sömu leiðina. Skyldi nú lóðareigandinn hækka girðinguna? Þá fyrst er þetta orðin alvöru keppni.

Stórframkvæmdir 

Fullur elju og atorku lagði okkar maður til atlögu við garðinn og innkeyrsluna. Nú skyldi skipta um jarðveg, steypa og helluleggja, breikka bílastæði (til að mæta aukinni bílaeign heimilisins) og laga stétt heim að húsi. Sumardagurinn fyrsti var lagður undir, svo og föstudagurinn eftir vinnu. Þar með var það búið! Við tók flensa og viðlíka aumingjaskapur svo ekkert hefur unnist síðan. Nú, miðvikudag, er útlit fyrir batnandi heilsu og standa vonir til að hægt verði að halda framkvæmdum áfram í kvöld. Afráðið að sækja ferðabílinn miðvikudagskvöldið fyrir uppstigningardag sem er jú akkúrat vika. Það er því allnokkur pressa á okkur konunni að ljúka sem mestu áður en ferðadrekinn fer að þrengja að okkur.

Svartfugl 

Alveg eru þeir einstakir, þessir lognkyrru vormorgnar. Þegar blaðberinn kemur út í morgunloftið um fimmleytið mætir honum fuglasöngur, hreint loft og - dagsbirta. Loksins hefur dagurinn náð þeirri lengd að maður er hættur að koma út í nóttina. Nú mætir dagurinn manni og eins og veðrið hefur verið undanfarið er hver morgun eins og maður gæti ímyndað sér að sá fyrsti í sögu heimsins hafi verið. Manni finnst hreinlega stundum að maður eigi allan heiminn og sé þar einn. Um helgar er einstaka nátthrafn á heimleið í leigubíl en á virkum morgni finnur maður hreinlega hvernig bærinn sefur og síðan hvernig hann vaknar smám saman meðan skrefunum fjölgar og blaðakarfan léttist. Undanfarið hefur í morgunsárið mátt greina þunga dynki utan af Faxaflóa. Þar eru á ferðinni árrisulir svartfuglaveiðimenn sem nýta þessa góðviðrisdaga til skotveiða. Betra veður til þess fæst varla, sléttur sjór og logn eða hægur andvari. Maður er ekki frá því að kenni smá nostalgíu þegar hvellirnir heyrast og minnist stunda vestur við Djúp þegar gaf í svartfugl. Þetta var tími sem beðið var með óþreyju, bæði vegna þess herramannsmatar sem svartfuglinn er og einnig spennunnar við veiðiskapinn. Það var mitt hlutskipti að standa við stýrið og stjórna bátnum, aðrir skutu enda flestir hæfari til þess en ég. Í Ófærunni utarlega í Staðarhlíð í Jökulfjörðum settist svartfuglinn upp á vorin. Ófæran var oft krökk af fugli og eins var alla jafna mikið af fugli á sundi neðan hamarsins. Þarna var góður veiðistaður og mörg máltíðin tekin á góðri stund. Ég þekki ekkert til þess hvernig veiðiskapnum er háttað hér syðra en geri ráð fyrir, staðháttanna vegna, að fuglinn sé tiltölulega strjáll hér á flóanum og það sé helst við straumrastir þar sem æti er, sem fuglinn hópast. Að veiða svartfugl af trillu er sérstök tegund veiðiskapar og kannski enn eitt af því sem maður saknar hvað mest að vestan. Hver veit nema maður eigi eftir að komast aftur í slíkt, jafnvel á eigin bát. Það má allavega hugga sig við að þessi tegund veiðiskapar virðist alltaf halda sínu og er ekki á undanhaldi. Árferðið ræður að vísu miklu um árangurinn en spennan dregur menn alltaf til veiða að vori og síðan má oft ná þokkalegri veiði að hausti eftir að varpi er lokið og veiðar eru leyfðar á ný. Veiðitímabilið stendur í raun frá 10 september til 10 maí en að hausti hverfur fuglinn á haf út um leið og kólna tekur og veður gerast rysjótt. Hann kemur síðan upp undir landið er tekur að vora og veiðiloturnar eru því í raun tvær, að vori og að hausti. Það er ekki laust við að maður fái vatn í munninn við tilhugsunina um nýjan svartfugl í matinn...........

Gleðilegt sumar! 

..............og takk fyrir veturinn

Fleiri linkar inn á áhugamálin. 

Ég má til að bæta við einum "link" inn á "'Ýmsir tenglar". Það er síða sem ég datt inn á þegar ég var að skoða alla þá tengla sem eru til hægri á síðu Bæjarins besta, sem er vestfirskt fréttablað. Slóðin er http://www.bb.is og sé smellt á einhverja frétt birtast allir tenglarnir og það sem ég datt inn á er tengill út úr síðu Félags Árnesinga. Þetta eru myndirnar hans Mats Wibe Lund af þéttbýlisstöðum landsins, svo og ýmsum merkum sögustöðum og náttúruperlum. Venjulega eru myndirnar hans Mats yfirstimplaðar en svo er ekki hér. Njótið vel!

Meira um myndavélar. 

Þvílíkt þarfaþing sem þessar veðurmyndavélar eru! Maður verður hreinlega "húkkt" á að fylgjast með þeim. Síðan í gærkvöldi hef ég horft á heiðarnar norðanlands vora upp og Öxnadalsheiðina, sem var alhvít fyrir helgi, verða marauða hraðar en auga á festi. Þetta er almennilegt! Svona á þetta að vera. Að vísu verður umhverfið rennblautt í nokkurn tíma en ef breytingin um helgina er ávísun á vorið, mun fljótlega þorna upp. Þeir sem ætla að ferðast um komandi helgi, og fagna sumarbyrjun munu hinsvegar fljótlega komast að því að tjaldsvæðin (þ.e.a.s. þau fáu sem eru farin að taka á móti gestum) eru ekki farin að bera bíla ennþá. Það er hætt við að einhversstaðar verði djúp hjólför í sverðinum ætli menn sér inn á flatir með bílana. Hinsvegar eru bílastæðin við tjaldsvæðin yfirleitt ágæt og mun öruggara að halda sig bara á þeim. Ísfirðingurinn, með sín þrjúkommaeitthvaðtonn mun standa traustum fótum á malargólfi gamla loðdýrabúsins næstu tvær vikurnar. Ný stefna hefur verið tekin á uppstigningardag.
Ég ætla að "linka" beint á veðurmyndavélarnar í "Ýmsir tenglar". Þannig þarf ekki að fikra sig eftir Vegagerðarsíðunni, bara smella beint á myndavélarnar

Endurskoðuð áætlun. 

Ég var að skoða veðurmyndavélar á heiðum norðanlands. Fyrir réttu ári, eða 22 apríl, vorum við Stubba á leið norður í land á húsbílnum, fyrstu ferð sumarsins. Heiðar voru snjólausar, og einu skaflarnirsem við sáum voru flákar inn á Lágheiðinni, vegurinn var hins vegar marauður og að mestu leyti þurr. Munurinn á því sem þá var og því sem við sjáum nú á veðurmyndavélunum er gríðarlegur. Það nægir til að sannfæra okkur um að tími ferðabílsins sé alls ekki kominn. Því hefur verið ákveðið að hann fái að hvíla enn um sinn. Ætlunin var að miða við sumardaginn fyrsta og sækja bílinn að kvöldi síðasta vetrardags en af því verður sem sagt ekki. Konan hefur ákveðið að þess í stað verði tíminn notaður í lóðarframkvæmdir. Fjölgun bíla á heimilinu, þó tímabundin sé, fylgir óhjákvæmilega þörf fyrir stærra bílastæði. Auk þess hefur lengi staðið til að skipta út nokkru af grasi fyrir steypu og gefa þar með fólksbílum fjölskyldunnar aukið rými, nokkuð sem hefur sárlega vantað þegar ferðaferlíkið er komið út í vorið. Við erum viðbúin rigningu og roki við lóðavinnuna en erum ekki tilbúin að fara að ferðast í sliku veðri. Þar sem ekkert útlit er fyrir sumar á næstunni verður húsbílaflóra þjóðveganna ekki auðguð að sinni.

Stillt upp við vegg! 

Ég er í slæmri aðstöðu. Ágætur kunningi hringdi og kallaði mig til. Hann hafði ákveðið að kaupa ferðabíl og prófa þennan ferðamáta, sem ég og fleiri hafa dásamað svo fyrir þeim hjónum. Nú átti ég að leggja blessun mína yfir vagninn. Lýsingarnar í símanum gáfu ekki tilefni til bjartsýni því þó þessum góða kunningja sé margt vel gefið eru bílar ekki hans sterkasta hlið. Þrjátíu, já þrjátíu ára gamall amerískur sendibíll, innréttaður fyrir margt löngu, hafði marga fjöruna sopið á langri æfi en skyldi þó enn teljast þrjúhundruðþúsundkróna virði.
Ég að hann blessaðan að ákveða ekkert fyrr en ég hefði séð bílinn. Taldi nokkra von um að úr mætti bæta og koma í veg fyrir stórslys. Við komum okkur saman um tíma til að líta á gripinn. Þegar þar að kom og ég mætti á staðinn voru þar þegar fyrir eigandinn og væntanlegur kaupandi. "Jæja vinur! hérna er bíllinn og ég er búinn að ákveða að kaupa hann" voru fyrstu orðin sem ég heyrði. Ég sá að hér yrði engu breytt. Þegar var búið að ákveða kaupin og mitt hlutverk var eiginlega ekki annað en að leggja blessun mína þar yfir! Það var erfitt verk því ökutækið var, eins og mig hafði grunað, hreinlega ónýtt. Í einu orði sagt ónýtt! Þeim hafði talast svo til að seljandinn léti skoða bílinn fyrir afhendingu en auðvitað hafði skoðunarstöðin gert fjöldan allan af athugasemdum. Innréttingarnar voru jú brúklegar en ekki líklegar til að vinna nein fegurðarverðlaun. Svo allral sanngirni sé gætt verður að segjast að bíllinn var öllu skárri að innan en utan.
Nú er mín eina von fólgin í því að seljandinn verði svo lengi að lagfæra allar athugasemdirnar að væntanlegur kaupandi gefist upp á biðinni. Að öðrum kosti er ákaflega hætt við að þessi fyrsti húsbíll kunningja míns verði einnig sá síðasti.

Vinnu "eftirlit"? 

Það er dálítið merkilegt fyrirbæri, Vinnueftirlitið. Nú er það svo, að þegar allt er hverfult og gömul ríkisbatterí eru einkavædd hvert af öðru, veit ég ekki hvort Vinnueftirlit ríkisins er enn til sem slíkt eða hvort aðrir hafa þar tekið við líkt og í skipa- og bifreiðaskoðunum. Engu að síður er það Vinnueftirlit ríkisins sem mér er hugstætt.
Fyrir margt löngu starfaði ég á bílaverkstæði austur á fjörðum. Þar innandyra var meðal annars gömul Stenhöj bílalyfta, s.k. tveggja pósta lyfta. Þessi lyfta hafði bilað nokkru áður en ég hóf störf og verið lagfærð með því að smíðuð voru í hana stykki sem talin voru ill- eða ófáanleg erlendis frá. Þessir heimasmíðuðu hlutir voru einhverjir þýðingarmestu hlutir lyftunnar og voru renndir á staðnum með vitund Vinnueftirlitsins. Þannig var lyftan talin í fullkomnu lagi eftir viðgerð. Stuttu eftir að ég hóf störf á verkstæðinu var tekinn á lyfturna lítill pallbíll með farg á pallinum. Þar sem svo misjafn þungi var milli enda reyndi mikið á lyftuna og þegar slaka skyldi bílnum niður eftir viðgerð sat lyftan föst. Mikið var rólað og ruggað en ekkert gerðist fyrr en ég sótti stiga, klifraði upp á pall bílsins og fleygði farginu, sandpokum, niður á gólf. Þar með minnkaði spennan og lyftan losnaði. Næsti bíll á lyftuna var meðalstór fólksbíll og gekk vinna við hann vandræðalaust, leitað var að sliti í undirvagni og mikið var hrist og skekið. Verkinu lauk og ég færði mig undan lyftunni að þeim stólpa hennar þar sem stjórnrofinn var. Um leið og ýtt var á “niður” skall helmingur lyfturnnar í gólfið með hvelli ásamt bílnum sem á henni var. Bíllinn lenti á hliðinni í gólfinu, valt með skelli yfir á stólpann sem ég stóð við og staðnæmdist þannig, ónýtur með öllu. Það munaði aðeins hársbreidd að ég yrði undir bílnum, svo snöggt og óvænt var fallið.
Vinnueftirlitið, þá staðsett á Egilsstöðum, sendi menn á staðinn til að rannsaka lyftuna og aðstæður. Út úr þeirri rannsókn kom – ekkert. Niðurstöður voru aldrei kynntar, enda voru eftirlitsmenn að rannsaka eigin sök, þ.e. Vinnueftirlitið hafði samþykkt viðgerðina fyrrum, viðgerðina sem reyndist framkvæmd úr svo lélegu efni að í raun voru hinir smíðuðu hlutir ónýtir áður en lyftan féll og síðustu hífingarnar fór hún aðeins á öryggisbúnaðinum. Hann var ekki ætlaður til annars en að slaka niður ef burðarbúnaðurinn gæfi sig í hífingu og þoldi því ekki hífingu með bíl – hvað þá fleiri en eina. Aukinheldur hafði lyftan verið rangt sett saman eftir fyrrnefnda viðgerð þannig að ekki varð vart við þegar hífibúnaður gaf sig og öryggisbúnaðurinn tók við.
Þetta löngu liðna (en ekki gleymda) óhapp hefur rifjast upp öðru hvoru undanfarin ár. Tilefnið er bifreiðaverkstæði sem ég þekki til á. Þar eru nokkrar lyftur innandyra, nokkuð frábrugðnar þeirri austfirsku, þar sem þær hífa með keðjum, en þó í grundvallaratriðum eins. Ein þessara lyfta er greinilega biluð og vegna slits þarf ákveðnar tilfæringar svo að hún hífi. Þessa lyftu hafa skoðunarmenn vinnuvéla nú metið í lagi þrisvar sinnum, þ.e. skoðunarárin 2000,2002 og 2004. Búnaðurinn er skoðaður á tveggja ára fresti en mér er ókunnugt um framkvæmd fyrir árið 2000. Ég veit að eftirlitsmönnum hefur verið bent á þessa bilun í lyftunni og jafnframt á það að menn séu smeykir við hana, en talað fyrir daufum eyrum. Lyftan fær af einhverjum ástæðum sína skoðun og viðurkenningu. Líklega er það svo sjaldgæft að slíkar lyftur falli með bíl á að menn hreinlega telja það útilokað. Hættan sé því engin. Reynslan hefur hinsvegar sýnt mér, og þeim sem unnu með mér á austfirska verkstæðinu forðum, að varasamt er að treysta á öryggisbúnað, sem menn hafa ekki tök á að prófa, hvað þá áhuga.

Eru konur verri ökumenn en karlar ? 

Bakþankar. (?) 

Ég er að fá bakþanka vegna ákvörðunarinnar um að sækja ferðabílinn að kvöldi síðasta vetrardags nk.Mér lízt (tók einhver eftir að ég skrifaði það með zetu?) þannig á að enn sé drjúgt eftir af vetri - alltof drjúgt. Nú hef ég borið út blöð á hverjum morgni í tvær vikur og þennan tíma hefur ýmist verið rigningarhraglandi eða éljagangur með frosti. Nánast aldrei almennilegt veður! Mér sýnist því sumarið enn eiga heldur langt í land. Mér þykir vænna um ferðabílinn minn (og budduna) en svo að ég vilji láta hann standa úti í innkeyrslu klakabrynjaðan eða undir snjólagi - að ekki sé talað um gjöldin sem þarf að borga af honum, séu númerin á, jafnvel þó hann sé ekki í notkun. Bifreiðagjald uppá 52.600 kr. á ári gerir jú kr.4.383- pr.mánuð og fyrir þá aura má ýmislegt gera. Að hugsa sér að það skuli hafa verið sveitungi minn, Jón Baldvin þáverandi fjármálaráðherra sem kom þessu fjandans gjaldi á! Ég hlakka til þess dags sem bíllinn verður 25 ára og þessi þjófnaður fellur niður. Sem betur fer er ekki langt í það. En semsagt, mér lízt (sko,aftur!) ekki á blikuna - bara alls ekki........

Fundur. 

Sat foreldrafund í skóla dætranna í gærkvöldi. Þar voru mættir forvarnafulltrúi frá Samhjálp ásamt forvarnafulltrúa hjá lögreglunni í Kópavogi. Umfjöllunarefnið var forvarnaátak sem í gangi var meðal nemenda og foreldrum kynnt efni og innihald svo þeir gætu síðan rætt málin við börnin heima fyrir. Kynntir voru áhættuþættir s.s. rangur félagsskapur, þá oft samskipti við eldri unglinga sem sjálfir eru komnir í vandræði, kvöldútivist (eða jafnvel næturráp), foreldralaus partý, ásamt fleiru í þessum dúr. Það var hinsvegar dálítið merkilegt að hvergi í fyrirlestrunum var að finna orð um bakland unglinganna heima fyrir. Hvergi var nefndur sá áhættuþáttur sem er neysla foreldranna sjálfra, af hverju tagi sem er. Nú hlýtur að segja sig sjálft að unglingur sem hefur alist upp við reykingar beggja foreldra hlýtur að telja reykingar nokkuð sjálfsagðan hlut. Ennfremur mætti telja að unglingur sem elst upp við áfengisnotkun foreldra, jafnvel um hverja helgi, hlýtur að mynda lífsmunstur litað þessum lifnaðarvenjum. Með tilliti til þess að börn líta gjarna til foreldranna sem fyrirmynda (a.m.k. framanaf), má þá ekki ætla að ofantaldir unglingar séu í langtum meiri áhættu hvað varðar vímuefnanotkun þegar og ef slíkar freistingar gera vart við sig á jafn viðkvæmum aldri og unglingsárin eru.
Það var jafnframt annar þáttur sem ég var að hugsa um þegar ég sat og hlustaði á fyrirlestrana. Það var genetíski þátturinn! Að hversu miklu leyti er alkóhólismi arfgengur? Nú eru þekkt fjölmörg dæmi um fjölskyldur þar sem sjúkdómurinn hefur hreinlega flust áfram frá foreldri til barna – jafnvel svo að flest eða öll börn viðkomandi foreldris hafa átt við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða. Ég veit ekki til að nein könnun hafi verið gerð á þessu og sé svo, hefur sú könnun í öllu falli ekki verið í umræðunni. Unglingar sem hljóta alkóhólisma í arf frá foreldri mega eðlilega ekki komast í snertingu við neina vímugjafa – aldrei á lífsleiðinni. En hver myndi geta fylgst með slíku? Má ekki ganga út frá því sem gefnu að um leið og slíkur unglingur drekkur eða dópar í fyrsta skipti sé brautin mörkuð og vandamálið orðið varanlegt?

Einhvernveginn hefur mér alltaf fundist að unglingur sem fellur fyrir víni eða dópi og lendir strax eða fljótlega í ofnotkun og meðfylgjandi vandamálum, lendi einfaldlega í slíku vegna þess að karakterinn sé gallaður í upphafi. Nú er það svo að stærstur hópur unglinga bragðar áfengi einhvern tíma á skólaárunum án þess að úr verði vandamál. Vegna öflugs forvarnastarfs í skólum ætti flestum að vera ljós skaðsemi áfengis og lyfja. Þeir sem ánetjast engu að síður hljóta að gera það vegna eigin veikleika. Það lætur enginn undan þrýstingi félaganna nema vilja sjálfur. Sá sem sannarlega vill ekki, gerir ekki. Mér finnst einnig líklegt að þessi áhættuþáttur, “félagarnir”, sé ofmetinn vegna þess að unglingar velja sér jú félaga – þú velur ekki “slæman” félagsskap ef þér líkar ekki sá félagsskapur. Ef unglingur hefur ekki áhuga fyrir vímuefnum velur hann sér ekki félaga sem nota slíkt, eða hafa áhuga fyrir því. Unglingurinn sem er veikgeðja og áhrifagjarn leitar hinsvegar leiða til að upphefja sjálfan sig og sækir því gjarnan í þann félagsskap sem hann telur “töff”
Við hljótum að líta svo á að almennt meðal unglinga séu svo og svo mörg prósent sem einfaldlega eru fyrirfram “ónýt”. Reynslan hefur sýnt okkur þetta. Einstaklingar sem hafa enga stjórn á áfengis – eða vímuefnaneyslu, eigin fjármálum, þátttökuá vinnumarkaði og öðru því sem þarf til að komast af og skila sínu í viðurkenndu samfélagi. Einstaklingar sem þrátt fyrir allar forvarnir og önnur félagsleg úrræði, aðstoð, meðferðir og endurhæfingar verða alltaf undir - baggi á samfélaginu

Endir bílakauparauna. 

Auðvitað var sá í Keflavík seldur! Við hverju mátti ekki búast? Við konan biðum til hádegis sl. laugardag, því sala notaðra bíla hjá I.H. skyldi opna kl. 12. Ríflega tíu mínutum eftir opnun hringdum við til að boða komu okkar og kaupa bílinn sem þar var. En við fengum ekkert samband. Símsvarinn var ennþá á og útilokað að ná sambandi símleiðis. Við ákváðum að fara niðureftir en meðan konan bjó sig leit ég enn einu sinni yfir söluskrárnar hjá -bilasolur.is-. Viti menn! Var ekki kominn þar á skrá bíll sem ekki hafði verið þar deginum áður. Ekinn 15.þús.km., nýskráður 06.2004 og því aðeins níu mánaða gamall. Sjálfskiptur, fjórhjóladrifinn konubíll í toppklassa. Við ákváðum að líta á þennan grip áður en við færum til I.H. Bíllinn var til staðar hjá Nýju bílahöllinni og er skemmst frá að segja að um leið og við settumst inn í hann fundum við að þetta var rétti bíllinn. Innan níutíu mínútna vorum við orðnir eigendur að okkar fyrsta sjálfskipta bíl og konan í skýjunum. Hvers virði er ekki ánægð kona?

Skrítin tík,þessi pólitík. 

Það er þetta með fréttastjórann hjá útvarpinu - þennan sem starfaði í einn dag!
Þetta mál allt finnst mér afar furðulegt og raunar hafa fleiri spurningar vaknað með hverju svari sem fengist hefur. Fyrir það fyrsta, hvers vegna í ósköpunum sótti maðurinn um starfið, vitandi að hann hefði tæplega þá reynslu sem til þyrfti. Var það vegna ofmats á eigin verðleikum eða var hann handviss, í gegnum einhver óútskýrð pólitísk tengsl, að hann ætti starfið víst?. Sé annað eða bæði rétt, hvarflaði ekki að honum að ráðning hans myndi vekja hörð viðbrögð þeirra sem starfa skyldi með? Að framkomnum viðbrögðum starfsmanna fréttastofu RUV eftir að ljóst varð að þessi maður fengi starfið, hvarflaði þá heldur ekki að honum að draga sig strax til baka áðun er fárið yrði jafn algert og það varð, eða treysti hann alfarið á þá sem veittu honum það skjól sem hann var ráðinn í, þ.e. menntamálaráðherra, aðstoðarmann forsætisráðherra, formann útvarpsráðs og útvarpsstjóra? Þegar blessaður maðurinn síðan mætti til vinnu á fyrsta degi og hélt fund með starfsfólki fréttastofu, datt honum þá ekki í hug að ummælin um " að gera vel við þá sem starfa vildu með honum" (og þá væntanlega gera síður við þá sem voru á móti en myndu samt ekki segja upp störfum!) auk þess að nefna það að hann hefði þegar svipast um eftir nýju fólki "úti í bæ" myndu aðeins virka sem olía á eld og gera illt verra? Og að síðustu, hvernig í ósköpunum datt manninum í hug í útvarpsviðtali í hádaginu að byrja á að ljúga? Hann mátti vita það að þegar fréttamaðurinn (Ingimar) spurði hvort hann hefði átt fund með formanni útvarpsráðs, að fréttamaðurinn vissi þegar um fundinn. En nei, fréttastjórinn nýráðni kaus að neita. Sem auðvitað leiddi af sér fleiri lygar og flækjur svo aumingja maðurinn var orðinn að aðhlátursefni í lok viðtals. Hversu augljóst dæmi um dómgreindarskort! Þegar nýbakaði fréttastjórinn kaus loks í lok dags að gefa út yfirlýsingu, hafna starfinu og kalla umrætt viðtal "lævísa tilraun til að koma sér í vandræði", þá hafði hann þegar gleymt því, viljandi eður ei, að þau vandræði hafði hann alfarið kallað yfir sig sjálfur í upphafi viðtals - með því að ætla að ljúga að fréttamanni sem þegar vissi betur. Hafi maður einhvern tíma dæmt sig sjálfur þá var það þarna.

Bílakauparaunir (og sá vandi að hafa konuna með í ráðum þegar keyptur er konubíll) 

Það hefur lengi staðið til að endurnýja fjölskyldubílinn. Nýr skyldi uppfylla sömu skilyrði og sá eldri, þ.e. fjórhjóladrif, 5 dyr, vera sparneytinn svo sem framast væri kostur, vera auðveldur í umgengni og léttur í viðhaldi. Þá skyldi hann einnig vera af tegund sem auðveld væri í endursölu.Við höfðum augastað á (1) ákveðinni tegund smájeppa sem við í aðra röndina töldum þó jafnvel of eyðslufrekan. Annar smájeppi,(2) kom einnig til greina, öllu líklegri en sá böggull fylgdi skammrifi að erfitt var að finna þá árgerð sem við töldum okkur hafa efni á, bílarnir virtust hreinlega ekki vera til sölu. Enn ein gerð,(3) kom til greina, lítill fjórhjóladrifin innkaupakarfa knúin saumavél, og mátti jafnvel telja þann bíl líkastan þeim sem leysa skyldi af hólmi. Við fórum á stúfana fyrir páska og fundum fljótlega ágætan bíl af þeirri gerð sem fyrst var talin. Hann var á fínu verði,leit vel út en var fullmikið ekinn. Konan var ekki fyllilega sannfærð og þar sem við höfðum ekki prófað gerð (2) slógum við málinu á frest. Á þriðjudegi eftir páska var komið í ljós að rétt eintak af gerð (2) var hreint ekki finnanlegt. Konan ákvað að stökkva á bíl (1). Hann hafði þá selst nokkrum augnablikum fyrr. Konan fór í fýlu. Við settumst við tölvuna að kvöldi og lögðum upp með gerð (3) fyrir augum. Fundum fljótlega á netinu nokkur eiguleg eintök. Þá var það liturinn. “Svartan” ,sagði konan. “Útilokað” sagði bóndinn. Fundum hvítan, lítið ekinn. Daginn eftir var hann seldur. Fundum silfurgráan. Hann reyndist ekki tiltækur, einhverra hluta vegna. Fundum gulan á Aðalbílasölunni. Hann reyndist kominn til Keflavíkur. “Ókei”, sagði bóndinn.”svartan þá!” Nei, hann var kominn á Selfoss. Nú voru góð ráð dýr. Ég vissi að Ingvar Helgason átti til einn himinbláan, konan afsagði litinn en var til í að prófa bílinn. Hvorugt okkar hafði nefnilega ekið umræddri tegund. Við mættum til Ingvars rétt fyrir lokun í dag og fengum lykla. Bíllinn reyndist réttra fimmtán mánaða gamall, ekinn 18 þús.km. Okkur líkaði hann vel, reyndar svo vel að konan varð allt í einu sátt við litinn, sölumaðurinn bauð okkur aukaafslátt og við ákváðum að mæta við opnun á morgun og kaupa bílinn. Kvöddum og héldum heim, harla sátt. Konan bað um að fá að skoða mynd af bílnum á netinu, ég fletti upp bílasölu I.H. og viti menn!: á ekki I.H. annan samskonar bíl í Keflavík, silfurgráan, sjálfskiptan og ekinn aðeins sjö þúsund. Örlítið dýrari, en ekki svo að máli skipti. “ Þennan vil ég”, segir konan og þar við situr. Nú er beðið opnunar á morgun til að vita hvort sá bíll er enn óseldur..............................
»

Við sama heygarðshornið! (já mig langar í trillu aftur) 

Á venjulegri en óreglulegri yfirreið um Suðurnesin í gær datt mér í hug að leita að eigulegri trillu sem líklega væri til sölu. Undanfarið hef ég leitað með báðum augum eftir að hafa svipast lengi um með öðru. (lýsti þessu að hluta í pistli á gömlu síðunni). Yfirreiðin hófst í Grindavík þar sem mér datt í hug að kíkja bak við nokkur fiskvinnsluhús. Viti menn, lá ekki ein plasttrilla á hliðinni bak við eina verkunina. Gamall nótabátur, óbreyttur með öllu. Nákvæmlega það sem ég hef verið að leita að. Með loftkældri Lister dísilvél, gír og skiptiskrúfu. Meira að segja upprunalegi vélarkassinn úr trefjaplasti. Þessir bátar eru norsk völundarsmíð, bæði að efni og skrokklagi. Ástandið á þessum var hins vegar ömurlegt. Hann lá sem fyrr segir á hliðinni í moldarflagi, fullur af óhreinindum, olíu, ryði og rusli allskonar. Gat var á öðrum bógnum og skrokkurinn víða hruflaður.Ekki kannski eigulegur gripur en miðað við vandræðin við að komast yfir svona bát mátti auðveldlega sætta sig við ástandið. Mér leist þannig á að eigandinn, væri hann yfirhöfuð til, hlyti að vilja losna við gripinn fyrir rétt verð. Utan við fiskverkunina var maður að störfum. Ég sveif á hann og spurði. Jú, hann vissi deili á eigandanum og gaf mér nafnið. Ég ákvað að kýla málið áfram, hringdi strax í 118 og var þar með kominn með símanúmer. Eigandinn reyndist ofar moldu, en ekki viðlátinn. Skilaboð voru lögð inn og ég fékk mér bíltúr út í Garðskaga. Í bakaleiðinni hringdi síminn. Það var eigandinn. Jú, hann kannaðist við bátinn. En að selja, það var svo allt önnur Ella. Þetta væri nefnilega nokkurskonar ættargripur.Hefði fylgt nótaskipi í eigu fjölskyldunnar á sínum tíma og eftir síldveiðarnar þjónað við landareign hennar umflotna vatni uppi á Mýrum. Mér þótti meðferðin á fleytunni ekki í samræmi við þann virðingarsess sem hún virtist njóta innan fjölskyldunnar en stillti mig um að hafa orð á því. Eigandinn sagðist lengi hafa ætlað að taka bátinn í gegn en ekkert orðið úr framkvæmdum enn. Hann bað mig að hringja að ári ef ástandið væri óbreytt, þá skyldi hann íhuga málið. Með það kvöddumst við, annar svekktur yfir málalokum, hinn væntanlega fullur elju og góðra ætlana sem ef að líkum lætur hefur varað í u.þ.b. 10 mínútur. Nú er bara að bíða eitt ár enn.........

miðvikudagur, maí 11, 2005

Tóm hamingja! 

Mikið déskoti var hann lukkulegur, gamli togaraskipstjórinn sem ég hitti í Hafnarfirði að morgni föstudagsins langa. Hann sat um borð í trillunni sinni, sem hann keypti frá Keflavík í vetur. Trillan sat hins vegar í vagni uppi á bryggju og bæði biðu kunningja sem skyldi aðstoða við sjósetningu. Kapteinninn (sem við nánari skoðun reyndist alls ekki svo gamall) var svona hamingjusamur vegna þess að hann var kominn á plastbát, laus við gömlu,síleku trétrilluna sína. Einnig vegna þess að nýi plastbáturinn var undir skráningarstærð- 6 mtr.- og þar með var hann laus við allt reglugerðar, kröfu og skoðunarfargan Siglingastofnunnar og núverandi einkarekinna skoðunarstofa. Engin skipagjöld, engar rukkanir vegna talstöðvarleyfis/skoðunar, bolskoðunar, búnaðarskoðunar, rafkerfisskoðunar,trygginga osfrv. Það var aðeins í hans höndum að halda fleyinu sjófæru. Öll skip yfir sex metrunum skulu nefnilega skráð, tryggð og skoðuð, og þar dugir ekkert elsku mamma! Kröfur þær sem gerðar eru til opinna skemmtibáta yfir 6 mtr. eru nefnilega nánast þær sömu og gerðar eru til atvinnutækja á fiskveiðum.
Ég fylgdist með sjósetningunni og sá ánægju nýs eiganda sem fylgdi því að finna bátinn í fyrsta skipti fljóta undir sér, finna fyrstu viðtökur vélarinnar og því að finna fleyið lifna og leggjast á skrið í fyrsta skipti sem gír var tengdur og vélinni gefið inn. Hann varð ekki fyrir neinum vonbrigðum, allt var eins og best varð á kosið.
Á páskadagsmorgni hitti ég annan mann á bryggju í Hafnarfirði. Ég sá hann koma utan af firði, báturinn augljóslega nýr plastbátur og nokkuð af fólki um borð. Ég rölti niður á bryggju og tók á móti endanum. Dáðist að bátnum, sem var innflutt snilldarfleyta, rúmgóð og fallega byggð. Sá bara nafn, ekkert skráningarnúmer og spurði eigandann um stærð. Hann var fljótur til svars: "undir sex metrum. Það er ekki hægt að hafa þetta helvítis reglugerðarbatterí stöðugt á hælunum!) Eigandinn reyndist við nánara spjall vera gamall útgerðarmaður og sjóhundur. Semsagt, annar til, kunnugur reglugerðarfarganinu sem hann lagði mikið upp úr því að vera laus undan. Báðir kusu báta undir skráningarstærð. Báðir hefðu þó frekar viljað vera með nokkru stærra leikfang en töldu það ómögulegt, vegna stífra reglugerða, stöðugra krafna og kostnaðar. Einhverntíma hleraði ég að í Noregi væru skemmtibátar, 6 - 8 mtr. skráningarskyldir en ekki -skoðunar. Það væri í valdi eiganda að halda bátnum skv. reglum en skoðanir færu fram með stikkprufum. Því væru menn ekki að borga árleg skoðunargjöld af þessu og hinu um borð. Það væri semsagt hægt að fara af stað að vori eftir eigin yfirferð (eða verkstæðis, ef menn vildu) en þyrfti ekki að panta og kaupa rándýra skoðun sem í hvert skipti leiddi í ljós svo og svo mörg aðfinnsluatriði, oft eftir geðþótta þess sem skoðaði. Þetta virðist vera eitt af því fáa sem Íslendingar hafa ekki étið upp eftir Norðurlandabúum en mætti eflaust athuga. Skyldi eftir allt saman vera að samningurinn um EES næði ekki yfir þetta? Sam norrænar reglur um skemmtibáta, 6-8 mtr.?

Handverk. 

Leit inn hjá kunningja í gær. Þar er í smíðum ferðabíll, svona "alletiders", eins og strætóarnir frá Norðurlöndum sem hingað komu sl. sumar og dvöldu í Laugardalnum. Smíðisgripurinn er að grunni til 28 ára gamall Volvo langferðabíll, c.a. 35 farþega og þegar hæfilega hefur verið fækkað sætum fæst heilt svefnherbergi fyrir 4-6 aftast, hreinlætisaðstaða og eldhúsinnrétting sem byggð er í vinkil. Að auki eru sæti við borð fyrir alls sex manns. Þá er ótalinn 3ja sæta sófi sem breyta má í svefnsófa ef þörf krefur. Það var gaman að skoða þennan bíl. Þótt vagninn hafi kannski lifað sitt fegursta og innréttingarnar kannski ekki völundarsmíð stendur hugverkið fyrir sínu. Þegar hugmyndafluginu er gefinn laus taumurinn eru takmörkin nær engin. Það var dagsljóst að þarna var ekki ætt af stað óhugsað. Nýtingin á rýminu eins og það er hugsað, samkomu- og gistirými fyrir stórfjölskylduna, er alveg "brilljant" eins og Vala Matt hefði sagt. Mér láðist reyndar að spyrja hvort nafn gamla bílsins myndi prýða þann nýja en fari svo verður það borið með reisn - Glæsikerran

þriðjudagur, maí 10, 2005

Svört vinna - nýtt fyrirbrigði? 

Á dögunum skaut aftur upp kollinum umræða um svarta atvinnustarfsemi í framhaldi af rassíu skattrannsóknarstjóra á veitingahúsum borgarinnar. Umræða um svarta atvinnustarfsemi hefur aðallega miðast við þann geira og síðan byggingariðnaðinn, þá tengd innflutningi á erlendu vinnuafli. Þessi innflutningur vinnuafls hefur einmitt verið talsvert í umræðunni eftir að Ísl.gerðust aðilar að Schengen-samkomulaginu og fjöldi erlendra verkamanna tók að streyma hingað til lands sem ferðamenn eða á öðrum enn hæpnari forsendum. Það virðist einatt vera þannig að forsvarsmenn fyrirtækja sem þetta stunda leggja sig fram um að teygja lög og reglur eins og framast er hægt og ef eitthvað lætur undan má jú alltaf skipta um kennitölu fyrirtækis og vísa ábyrgð þannig aftur fyrir sig.
Þessi tegund atvinnustarfsemi er hins vegar langt því frá bundin við þessar tvær atvinnugreinar og er alls ekki nýlegt fyrirbæri. Ég rifjaði upp á dögunum námsárin þegar maður rétt hékk á horriminni og lapti dauðann úr skel. Þetta voru árin kringum ´80 og ég var nýfluttur suður. Fékk vinnu á ónefndu bílaverkstæði sem sérhæfði sig í sjáldgæfri bílategund. Launin skyldu ákveðin þegar gemlingurinn hefði sýnt hvað í honum byggi. Eftir u.þ.b. tvær vikur var ég, græninginn, kallaður á teppið og látinn vita að í ljósi góðrar frammistöðu fengi ég tímakaup sem reyndar var óvenju gott miðað við það sem þá gekk og gerðist. Að auki var ég upplýstur um að sakir hagræðis væri best að ég færi ekkert á launaskrá fyrr en um næstu áramót. Þar til skyldi ég aðeins lesa og samþykkja launaseðilinn, síðan yrði hann rifinn. Ég yrði gjaldalaus og fengi launin beint í vasann. Þetta fannst mér harla gott enda kom sér vel að fá því meira í umslagið sem nam sköttum og skyldum. Mánuðir liðu og áramótin komu. Mér var tilkynnt að nú yrði ég settur á launaskrá en það yrði jú öllum fyrir bestu að aðeins yrði gefin upp dagvinnan en yfirvinna, sem raunar var talsverð, yrði borguð á sama hátt og áður, sér launaseðill fyrir hana sem yrði lesinn,samþykktur og síðan rifinn. Þetta fyrirkomulag entist meðan ég starfaði fyrir þetta fyrirtæki og mun hafa verið algengt hér syðra þó ekki þekktist það í minni sveit. Lauslega ágiskað mun það alls hafa verið tæplega þriðji hluti heildarlauna sem þarna var gefinn upp til skatts- og allir voru glaðir með fyrirkomulagið
»

This page is powered by Blogger. Isn't yours?