<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Byggingarlist.(eða skortur á henni?) 

Stundum ber ég út blöð. (ég reyndar hygg að það hafi komið fram áður) Þetta "stundum" hefur reyndar undanfarið þróast í "alloft" því að eftir að ég uppgötvaði hversu holla hreyfingu er að hafa með þessarri iðju höfum við stórastelpan tekið að okkur sífellt fleiri afleysingaútburði og í seinni tíð er ég farinn að leyfa dótturinni ( sem þó er aðalblaðberinn og nýtur launanna beint í vasann) að sofa áfram. Fer einn og sjálfur með blöðin. Á virkum dögum höfum við eitt hverfi sem tekur u.þ.b. klukkutíma, kannski rúmlega séu auglýsingapésar aukalega. Um helgar höfum við hinsvegar fast tvö hverfi og tökum oftar en ekki það þriðja í afleysingu. Þá getur útburðurinn tekið allt frá 3 1/2 tíma upp í 5 í verstu veðrum og færð. Þá þarf að byrja snemma, jafnvel uppúr kl. 4, eigi blaðið að berast lesendum á skikkanlegum tíma. Við leggjum metnað í það að skila okkar vinnu vel. Það er skiljanlega ákaflega bagalegt þegar fólk gleymir að hafa útiljós kveikt, eða trassar að laga biluð ljós, að ekki sé talað um þá sem luku ekki við lóðaframkvæmdir sl. haust svo blaðberinn þarf að klöngrast yfir moldarbingi og helluhrúgur, jafnvel ganga á plönkum og flekum eins og dæmi eru um. Íbúarnir sjálfir virðast gera sér slíkt að góðu og því þá ekki blaðberinn? Það er hins vegar allt annað sen ég hef velt fyrir mér undanfarið. Í flestum eldri tví- eða fleirbýlishúsum í "hverfunum okkar" eru inngangar á jarðhæð og stigahús innbyggð. Á þessu virðist hafa orðið breyting einhversstaðar á sjöunda áratugnum því mér finnst áberandi hversu mörg yngri tvíbýlishús hafa sérinngang efri hæðar utan á húsinu. Þetta gildir einnig að stórum hluta um tveggja hæða einbýlishús, sem þá hafa aðalinnganginn á efri hæð. Þau hús hafa oftast bílskúr eða aukaíbúð á neðri hæð og þvottahús/geymslu með sérútgangi. Mörg þessarra húsa eru sérlega erfið í útburði vegna hálku og snjóa á tröppunum og eðlilega eru eigendurnir varla búnir að moka tröppur kl. 5 að morgni. Blaðberinn þarf því oft að feta ótroðna slóð upp og niður háar tröppur, flughálar og fullar af snjó. Spyrji maður svo íbúana hvort þeir séy ekki smeykir í tröppunum er svarið oftast á einn veg: "við notum bara dyrnar niðri" Auðvitað er það sjálfsögð lausn en-EN HELVÍTIS LÚGAN ER UPPI!!! Nú átta ég mig ekki alveg á því hvað arkitektar þessarra húsa hafa verið að hugsa. Kannski lærðu þeir allir í útlöndum þar sem aldrei snjóar. Eða voru bara of blindir til að sjá hversu miklu betra er að hafa stigann uppi á efri hæðina innan veggja í stað utan og þurfa ekki að moka tröppur eða eiga á hættu að renna á bakhlutanum frá útidyrum sínum og alla leið niður á jafnsléttu. Hvers vegna í ósköpunum var ekki hugsað fyrir þessu. Og hvers vegna geta eigendur einbýlishúsa með himinháar tröppur upp á efri hæð (að inngangi sem svo kannski er bara notaður til spari) ekki einfaldlega sett bréfalúgur á inngang neðri hæðar þar sem hann er til staðar og þeim (eigendum) þykir svo gott að nota viðri illa? Mér finnst þessi byggingar"list" hreinlega ekki eiga við á Íslandi. 'Eg vil líka nefna það að víða hefur verið byggt yfir svalir til að þær geti nýst til fulls bæði sumar og vetur. Samt er fjöldi blokka þar sem hver íbúð hefur sérinngang af opnum svölum eða svalagöngum. Þar þarf fólk fyrst að ganga inn af götunni í stigahús, síðan upp stiga innanhúss upp á sína hæð, fara þaðan út í kuldann og frostið út á svalaganginn og að sinni íbúð. Finnst einhverjum þetta hægt?

mánudagur, febrúar 21, 2005

Enn á faraldsfæti. 

Ísafjörður heimsóttur um helgina. Sama vestfirska veðurblíðan og vanalega. Stórafmæli í fjölskyldunni, kaffi og kökur. Vinir og kunningjar heimsóttir eftir því sem tíminn leyfði. Sömuleiðis heiti potturinn í sundlauginni. Skrýtið að heiti potturinn sem við lágum í við sumarbústað að Svignaskarði helgina áður var mun stærri en sá sem ætlaður er sundlaugargestum á Ísafirði. Enda var pottinum hrófað upp sem tilraun til að svara kalli tímans um bættar aðstæður. Kannski hefði átt að bjóða hlutaðeigandi ráðamönnum til Seyðisfjarðar til að sýna þeim hvernig pottamálin voru leyst þar. Nú, eða til Siglufjarðar þar sem heiti potturinn var einfaldlega steyptur upp utandyra nokkra metra utan við vegg sundlaugarinnar (sem er jú innilaug), skjólgirðing byggð við og hellulagt á milli. Potturinn sá er svo stór að hann getur hæglega rúmað heilan bæjarstjórnarfund og áheyrendur. En jæja, það var þó settur upp pottur á Ísó og vilji menn meira rými eða fleiri og stærri potta má alltaf skella sér til nærliggjandi byggðarlaga sem nær öll bjóða uppá betri sundaðstöðu en Ísafjörður. Á sunnudagsmorgninum í birtingu ók ég út í Hnífsdal og að gömlu sorpbrennslunni á Skarfaskeri. Óvíða er betra útsýni yfir Djúpið og til Jökulfjarða. Þar leyfði ég mér smá heimþrá eitt augnablik. Ég sá eftir trillunum, öllum ferðunum til fiskjar út með Óshlíð,skoðunarferðum norður í Jökulfirði, yfir að Snæfjallaströnd og inn með eyjum. Svo lokaði maður aftur. Ákveðinn í að muna aðeins sæludagana. Ekki hina, þegar góða veðrið virtist eingöngu bundið við vinnudaga og frídagarnir mettaðir rigningu og kuldagjóstri. Heilu sumrin þegar ungur maður að hefja lífsbaráttuna hafði ekki efni á að taka sumarfrí og báturinn vaggaði sumarlangt við bryggju því loks þegar augnabliks hlé varð á vinnu viðraði ekki til sjóferða. Þegar heimþráin grípur mann hér syðra nægir yfirleitt að klípa sig aðeins í handlegginn og minna sjálfan sig aðeins á þessar staðreyndir. Samt er alltaf jafngott að koma heim........................

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Fallinn! 

Ég verð að viðurkenna það! Ég er fallinn. Ég hélt það yrði auðvelt að hætta þegar maður flytti suður og skipti um umhverfi en það var bara fyrst. Ég fann svo sem ekki stórvægileg einkenni lengi vel en svo kemur fiðringurinn og verður smám saman verri þar til hann er orðinn að verk - slæmum verk. Við þeim verk duga engin lyf. Ég hef nú um nokkurn tíma hugleitt að láta undan, hef svo sem haft freistinguna fyrir augunum og það tekur ekki nema eitt símtal að falla. Eftir að ég hætti var ég kannski, eins og áður segir, einkennalaus í sirka tvö ár. Þá rak ég augun í "hana" vestur á Reykhólum og neistinn kviknaði á ný. Ég hafði svo sem haldið að stússið kringum húsbílssmíðina og allt ferðaflandrið myndi duga manni. En svo er ekki. Hreint ekki. Þessi ástríða er búin að fylgja mér svo lengi sem ég man. Og ég man nokkuð langt aftur. Þetta hefur aldrei látið mann í friði enda hreinlega í blóðinu. Enda er ég fæddur á sjómannadegi. Fleyturnar hafa verið margar og mismunandi gegnum árin. Misstórar, mishraðfara, misgóðar. Allar hafa samt veitt óendanlega ánægju hvort sem dólað hefur verið um Pollinn heima eða lagt á Djúpið og Jökulfirðina. Allt frá ´78 hafði mig langað í Færeying. Mér fannst það toppurinn, Færeyingur með lengra húsinu. En ´78 var ég bara 21, að byrja starfsævina, reyndar enn í námi. Svo kom fjölskyldan, svo húsið. Fleyturnar voru aðeins litlar og ómerkilegar trétrillur sem sumar vart héngu saman. Árin liðu og kvótakerfið kom. Trillur urðu skyndilega milljónavirði, daginn eftir aðeins smáauravirði þegar þeir sem keyptu voru búnir að hirða og flytja kvótann og sátu uppi með heimildarlausan bát. Þá hófst veislan. Hægt að velja um báta á botnverði. Og skyndilega var Færeyingurinn ekki lengur draumsýn heldur innan seilingar. Ég tók stökkið. Keypti bátinn sem mig hafði ekki einu sinni dreymt um - STÆRRI gerðina, 4.3 tonn. Að vísu með styttra húsinu en þeir voru jú aðeins framleiddir þannig. Og að vísu var fleytan vélarlaus og fátt eitt heilt nema ber skrokkurinn. Samt var þetta Færeyingur, óneitanlega. Björninn var unninn! Ég eyddi tveimur árum í endurbygginguna. Ekkert var látið ósnert. Í apríl ´99 var orðið sjóklárt. Hann flaut! Vélin, sem kvótagreifi nokkur hafði gefið mér, malaði eins og köttur. Tvöfalt stærri en áður hafði verið. Fallegra fley hefur aldrei flotið og stoltari eigandi hefur aldrei staðið við stýrið í jómfrúrsiglingu. Að vísu skyggði örlítið á gleðina að konan hafði ákveðið hreppaflutninga á hausti komanda og skyldi suður. Það var því óvíst hversu lengi eigandinn fengi notið ávaxta erfiðisins. Hver hefur gaman af trillu fyrir sunnan sem átt hefur slíka við Djúp? Um haustið var skipinu pakkað inn í plast og segl. Vistað á geymslusvæði vestra um óákveðinn tíma. Og við fluttum suður. Vorið ´01 var hnípið, innpakkað fley sett um borð í Foss og flutt suður. Landað í Reykjavík, dregið á vagninum (sem hafði verið hvílan) suður í Hafnarfjörð. Umbúðirnar fjarlægðar og skverað enn á ný. Sjósett með hálfum huga. Annaðhvort hafði jú verið, að láta nýendurbyggðan bát grotna niður vestra eða taka hann suður og reyna að gera eitthvað. Þetta "eitthvað" þýddi notkun eða sölu. Það fór nákvæmlega eins og mig hafði grunað. Ég sigldi út fyrir stóru dokkina og sneri við. Reyndi aftur nokkrum dögum seinna. Allt á sama veg. Þetta var BARA leiðinlegt. Eftir að dokkinni sleppti var nefnilega ekkert fyrir stafni. Nema Grænland, jú. Bara opið haf, engin Snæfjallaströnd, enginn Bjarnarnúpur, engir Jökulfirðir og engin Grænahlíð. Bara sjór og aftur sjór. Ég batt bátinn við bryggju. Horfði á hann lengi og sá það sem ég vissi fyrir. Engin fleyta á floti stóð honum á sporði. Hann var einfaldlega fallegasti Færeyingur í heimi. Og það var hvergi í honum skrúfa, hvergi lófastór blettur sem ég hafði ekki farið höndum um og snurfusað. Hann var algerlega mín eign. En nú varð hann að fara. Það var auglýst eftir bát í blöðunum og ég hringdi. Klukkutíma síðar voru kaupin gerð. Kaupandinn sá bátinn og fór ekki fyrr en málið var frágengið. Ætlaði ekki að missa af þessum. Ég hélt heim og reyndi að sannfæra sjálfan mig um að ég hefði gert rétt. Ég ákvað að eiga ekki bát meðan ég byggi fyrir sunnan. Sannfæringin dugði tvö ár. Þá sá ég trillu vestur á Reykhólum. Uppi á landi, vélarvana, liggjandi í grasinu, hnípin, engum til gagns eða gleði. Og ég fékk fiðring. Hafði enn ekki náð áttum ári seinna þegar ég rakst á gamla vinkonu í Stykkishólmi. Pínulítil, frambyggð plasttrilla. Lá í fjöru og safnaði skít. Vélin farin, gluggarnir líka en sálin var enn til staðar. Ég vissi það því ég hafði nefnilega átt hana sjálfur mörgum árum áður. Þarna var hún komin. Það var þarna sem ég féll. Ég grennslaðist fyrir og var sagt að líklega væri hún föl. Nú hef ég barist við sannfæringuna í hálft annað ár og ákvað að tapa með sæmd. Ég hringdi vestur í Hólm í gærkvöldi og ýtti málinu úr vör..................

mánudagur, febrúar 14, 2005

Við heimkomu eftir "afslöppun" 

Þá er lokið helgi í sumarbústað. Þetta var í þriðja sinn sem við leigjum þennan sama bústað og líklega það síðsta. Af þessum þremur skiptum höfum við nú nefnilega í tvö fengið sem nágranna hóp unglinga sem gista í næsta bústað við hliðina. Sá bústaður er í eigu Eflingar og virðist tilvalinn til partíhalds. A.m.k. sýnist okkur það. Aðeins eru nokkrir metrar milli húsanna og þegar hópur unglinga á fylliríi liggur öskrandi og æpandi í heita pottinum allt fram til kl. 06 að morgni sér hver maður að nágrönnunum verður ekki svefnsamt. Það er öfugsnúið að maður skuli fara í sumarbústað yfir helgi til að slappa af en komi þreyttari heim, alls ósofinn. Dæturnar sváfu eins og steinar en við gamlingjarnir vöktum og hlustuðum á garg, graðhestarokk og píkuskræki fram til morguns. Við heimkomuna kvað konan uppúr með það að nú væri fullreynt, að héðan í frá yrði aðeins notaður okkar eigin sumarbústaður á hjólum, þ.e. húsbíllinn. Það er enda hreinn óþarfi að leggja í kostnað við að láta eyðileggja fyrir sér heila helgi. Okkur reiknaðist svo til að fyrir "afslöppunina" og "félagsskapinn" hefðum við greitt c.a. kr. 17.000, í leigu, matföng, bensín og göngin.
Okkur sýnist einna helst að þeir sem nýta sér helgarleigu sumarhúsa yfir veturinn séu aðallega að hugsa um partíhald og fyllirí. Við urðum nefnilega vör við mikinn gleðskap í flestum þeirra húsa sem fólk gisti í þessa helgi. Kannski er það bara hálfgerð nesjamennska að ætla í bústað yfir helgi að vetri til að slappa af - Kannski er þetta skemmtanahald bara orðin viðtekin venja. Sé svo er það áreiðanlega rétt hjá konunni að nú hafi lokatilraunin verið gerð- og mistekist.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Á faraldsfæti. 

Er ekki minn á leið í sumarbústað? Viðra konuna og stelpuskottin, liggja í heita pottinum og slaka á. Fer að Svignaskarði og kíki kannski í sund í Borgarnesi. Í Borgarnesi býr nefnilega svo margt skemmtilegt fólk. Hirði samt ekkert um að "tíunda" það frekar. Svo væri ekki úr vegi að kíkja á bílasöluna þarna uppfrá, þar má nefnilega oft finna ágætis húsbílaefni (og einnig húsbíla sem lifað hafa blómaskeiðið). Hef undanfarið verið að velta fyrir mér einu og öðru og alveg víst að eitthvað af því kemst á þrykk. Ljósastaurinn lifir enn. Yfir og út.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Verði ljós! 

Kannski var ég full fljótur á mér að hnýta í Orkuveituna. Kannski komu þeir bara í gær og löguðu helv. staurinn. Allavega hefur hann lýst síðan í gærkvöldi. Guð láti gott á vita...........

mánudagur, febrúar 07, 2005

Biluð bilanaþjónusta? 

Fyrir alllöngu- alltoflöngu, finnst mér, bilaði ljósastaurinn framan við húsið okkar. Aðeins lifir á honum endrum og sinnum og hann virðist síst láta ljós sitt skína yfir svörtustu nóttina sem þó er hvað nauðsynlegast. Nú nýverið sá ég í fréttum að listamaður nokkur hafði varpað fram þeirri hugmynd að í tengslum við einhverja komandi listahátíð verði slökkt á götuljósum höfuðborgarsvæðisins í nokkra klukkutíma(hafi ég skilið rétt) svo fólk fengi betur notið himinsins og stjarnanna. Þessarri hugmynd hafi síðan verið hafnað á þeirri forsendu að götulýsingin væri öryggistæki með margvíslegt hlutverk, þ.á.m. að draga úr líkum á "myrkraverkum", þ.e. þjófnuðum í skjóli myrkurs. Eitthvað virðist þetta hlutverk léttvægara hér hjá okkur í götunni því nú hef ég hringt þrisvar með viku millibili í bilanatilkynningar Orkuveitunnar án árangurs. Enn hefur ekkert gerst og staurinn heldur uppteknum hætti, að lýsa aðeins endrum og sinnum. Eins og einhverntíma hefur verið minnst á berum við táningurinn út blöð um helgar. Sendibílstjórinn sem ekur til okkar blöðunum lætur bunkann á ákveðinn stað sem er í svartamyrkri ef staurinn lýsir ekki. Þegar við svo vöknum á laugardags- og sunnudagsmorgnum kl. 04.30 verðum við að galla okkur og fara út til að gá hvort blöðin séu komin því án götuljóssins sést ekki bunkinn við staurinn. Ég hef reynt að útskýra þetta fyrir þeim sem svara í bilanasímann en án árangurs. Nú er ég að hugleiða að hringja daglega framvegis þar til eitthvað gerist. Ég hef líka hugleitt að taka ljósið sjálfur af staurnum og fara með það til OR í viðgerð. Kannski væri það bara best. Eða kannski bara tala beint við Alfreð.............

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Afsakaðu, Ægir! 

Í orðaflaumnum um daginn tókst mér að gleyma einu því varðskipi sem síst skyldi. Gamla Ægi, fyrsta "stóra" varðskipinu, ef svo má segja. Ægir var í raun fyrsta varðskipið sem kallast gat því nafni en áður hafði alla jafna verið talað um varðbáta. Skipið var smíðað 1929 í Danmörku. (nema hvað?) Fimmhundruðtonna skrokkur með gamla, þrautreynda skútulaginu og þar með einnig með sama byggingarlagi og þeir síðutogarar af "fyrstu kynslóð" sem ég nefndi um daginn. Skipið þjónaði vel á fjórða áratug en var selt til niðurrifs árið ´68.
Það voru hrapalleg mistök að láta höggva Ægi upp og víst er að margir voru því mótfallnir. Skammsýnin fékk að ráða og því fór sem fór. Sagan endurtekur sig eins og svo oft en glötuð tækifæri koma ekki aftur, það er víst. Ægir hvarf og er aðeins til á myndum og í minningunni en Þór safnar ryði og fuglaskít við hafnargarðinn með nafninu sem ætti að minna menn á mistökin-Ægisgarð. Það væri sómi að því að gera Þór að því safni sem svo sannarlega tilefni er til og vonandi að menn vakni hið fyrsta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?