<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

laugardagur, janúar 29, 2005

Ferðabókin á netinu! 

Nú hefur mér tekist að koma ferðabók "Ísfirðings" á sína eigin síðu. Slóðin er http://ferdabok.blogspot.com. Lesi nú hver sem vill.............................

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Verndun sögunnar, 2 tilraun. 

Það hefur stundum farið fyrir brjóstið á mér hversu lítill sómi sögu landhelgisvörslu er sýndur. Það sama gildir að miklu leyti um útgerðar- og fiskiskipasögu Íslendinga eftir að árabátaskeiðinu lauk. Á velflestum söfnum landið um kring má finna einn eða fleiri árabáta ásamt minjum tengdum þeim og þeirra tímabili. Til undantekninga má telja safnið að Görðum á Akranesi sem varðveitir kútter Sigurfara, og safnið að Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð þar sem varðveittir eru nokkrir bátar, þeirra stærstur mun vera mb. Skúli Hjartarson BA en hugur safnstjórnar stefnir þó allmiklu hærra og kem ég að því síðar. Þá hefur verið unnið þrekvirki við síldarminjasafnið á Siglufirði og ber þar hæst hús sem reist hefur verið yfir nokkra báta, þann stærsta 36 tonn. Þar innandyra hefur verið byggð síldarbryggja og liggja fleyin við hana sem á floti væru, lýsingin eru ljósastaurar á bryggjunni og siglingaljós bátanna, stemningin er líkust því sem á lognkyrru kvöldi væri og næstum má heyra öldugjálfrið við bryggjustólpana ásamt nuddi fríholtanna við skipssíðu.
Að þessum söfnum frátöldum er hreinlega stórt gat í safnasögunni frá árabátaöld til okkar daga. Enginn gömlu síðutogaranna, gullaldarskipanna sem lögðu grunninn að velsæld síðari ára, hefur verið varðveittur. Önnur kynslóð síðutogara, nýsköpunarskipin frá ´47 og árunum þar á eftir er einnig horfin með öllu. Þriðju kynslóðar skipunum, Gerpi, Narfa, Sigurði, Víkingi ofl. hefur verið breytt í nótaskip eftir að tími síðutogara leið undir lok. Síðasta tækifæri til að varðveita fyrstu kynslóðar togara rann okkur úr greipum fyrir tiltölulega fáum árum. Því skipi sem þar um ræðir var lagt á Kleppsvíkinni um ´63. Líklega um sumarið ´66 var það dregið vestur til Ísafjarðar þar sem það skyldi gegna hlutverki straumbrjóts fyrir dráttarbrautina. Skipinu skyldi sökkva til hliðar við brautina en ekki tókst betur til en svo að það rann aftur af marbakkanum og reisti stefni hátt til lofts en skuturinn var á kafi fram að brú. Þannig lá skipið árum saman sem lýti á innsiglingunni og aðkomunni til bæjarins, engum til gagns en mörgum til ama. Löngu síðar var skipinu lyft af botni, það dregið upp í fjöru og lagt í félagsskap tveggja breskra togara sem orðið höfðu landfastir við Djúp. (Annar þessarra "Breta" var síðar gerður upp, gerður út og varð undirstaða útgerðarfyrirtækisins Stálskipa í Hafnarfirði. Síðar þekkt undir nafninu Arnarnes SI, en Arnarnes við Ísafjörð var einmitt strandstaður þess, orsök þess að það komst í eigi Íslendinga.) Ég hafði tök á því að skoða togarann þarna í fjörunni og einnig tók ég þar um borð verklegan hluta reykköfunarnámskeiðs. Framskipið var einfaldlega heilt- lúkar á tveimur hæðum, keðjukjallari, forlestar. Yfirbygging var farin að láta á sjá, en þó öll á sínum stað og í réttu horfi. Allt tréverk utan á henni var úr úrvalseik og óskemmt að mestu. Í stýrishúsinu var geysistórt stýrishjól á bakvegg, greinilega staðið sitthvoru megin þess við stjórn. Auðséð hversvegna skipstjórarnir höfðu ætíð rórmenn. Eins og títt var um þessa gömlu gufutogara var göngubrú kringum sjálfa brúna og var hún enn á sínum stað, ryðguð en óskemmd. Reykháfurinn gríðarhár, enn með lit. Þar aftan við vélarreisnin, opin að ofan því gufuvélin var farin. Opinu hafði verið lokað með timbri sem allt var farið. Afturskipið allt bar þess merki að hafa legið á sjávarbotni en þó ekki svo illa farið að ekki mætti laga og snyrta. Skipið var í sjálfu sér safngripur þarna í fjörunni þó enginn hirti neitt um það. Að endingu fékk það svo upphaflegt hlutverk, var lagt meðfram dráttarbrautinni, fyllt af möl og grjóti. Yfirbygging og hvalbakur skorið af og hent. Þar hvílir nú þetta síðasta tækifæri okkar Íslendinga til að varðveita eintak af þeim flota sem kom okkur úr torfkofunum og undir mannsæmandi þak. Mig minnir að sé rýnt fast megi enn sjá hluta skipsins í garðinum.
Þá er komið að þætti varðskipanna. Gautur var rifinn, litli Óðinn einnig, Albert seldur úr landi (eins og Sæbjörg hin fyrsta). Vitaskipið Hermóður fórst og Árvakur þvældist í reyðileysi milli hafna hérlendis en hvarf að endingu úr landi. Maríu Júlíu var breytt í fiskibát og gerð út sem slík vestur á fjörðum fram á síðustu ár. Niðri við Ægisgarð liggur Þór í algerri niðurníðslu. Skipið sem gerði garðinn frægan í 12 mílna stríðinu mátti þola þá niðurlægingu að verða veitingastaður og fylleríisbúlla, að síðustu málað frá sjólínu til masturstoppa með gylltu bílalakki. Í ljósbroti sólar og sjávar hefur gullið með tímanum breyst í hlandgulan lit sem nú þekur þetta fyrrum stolt Íslendinga líkt og allir rónar bæjarins hafi migið yfir það. Enginn áhugi virðist vera fyrir varðveislu þessa skips sem þó geymir svo stóran hluta sjálfstæðisbaráttunnar hinnar síðari!
Einn ljós punktur er þó í þessu hyldýpi hirðuleysisins: María Júlía hefur verið gefin safninu að Hnjóti sem fyrr var nefnt og er óskandi að ráðmenn vakni af dvalanum og geri safninu kleift að koma skipinu aftur í sitt upprunalega horf- sem varðskip .

mánudagur, janúar 24, 2005

Að safna kröftum. 

Í gærkvöldi settist ég niður og skrifaði á klukkutíma einhvern lengsta pistil frá upphafi. Þegar ég ætlaði síðan að vista hann á síðunni hrundi kerfið og pistillinn týndist. Ég er að safna kröftum til að endurskrifa það sem ég man því oftast er það þannig að ég skrifa það sem mér dettur í hug þegar mér dettur það í hug! Síðan er það búið, andinn hverfur á braut og ég man jafnvel ekki nema það allra helsta úr skrifunum. Þannig er það í þetta sinn og nú er bara að rifja upp. Ég var nefnilega nokkuð ánægður með þennan horfna pistil og því áfall að tapa hugverkinu fyrir tilstilli heimsks búnaðar. Hefði allt verið handskrifað á blað væri það jú til enn. Ég sakna ritvélarinnar....................................... (því má við bæta að allajafna les ég ekki eigin skrif eftirá. Því má vel vera að einhver hugðarefni séu endurtekin jafnvel oftar en einu sinni. Það verður þá bara að hafa það.)

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Hnúta dagsins. 

Undanfarna daga hef ég heyrt Sigurð Helgason hjá Umferðarstofu klifa á því í innslögum útvarpsþátta að allt of mikið sé um það í umferðinni að menn passi ekki að halda nægilegu bili milli bíla. Nú síðast í dag var sagt að aðeins 6% ökumanna gættu þessa nægilega, og þ.a.l. væru 94% ökumanna nánast hangandi í afturenda næsta bíls. Eflaust er þetta rétt og byggt á hávísindalegri talningu framkvæmdri hér í þéttbýlinu. Man að minnsta kosti ekki eftir þessu sem vandamáli annarsstaðar enda kannski síst von í dreifbýlinu. Hitt er svo annað mál, og það hefur S.H. ekki nefnt svo ég hafi heyrt. Reyni ökumaður að mynda eðlilegt bil milli sín og næsta bíls fyrir framan er óðara kominn bíll af hliðarakrein í það bil. Reyni sami ekill aftur að draga úr hraða og mynda viðunandi bil gerist einfaldlega það sama aftur - bíll kemur aðvífandi og nýtir sér bilið til að komast aðeins framar í röðina. Þar sem aðeins ein akrein er og einn ekill reynir að halda bili má telja næsta víst að hann hafi röð bíla þétt á eftir sér, jafnvel flautandi og blikkandi ljósum, allt eftir því hversu bágborið andlegt ástand viðkomandi aftaníhengils er. Þegar minnst varir er svo tekin áhætta af framúrakstri, oft við aðstæður sem hreinlega bjóða upp á slys. Þetta ástand sér maður kannski best í slæmu skyggni að vetri á Hellisheiðinni, Reykjanessbrautinni og viðlíka stöðum en einnig að sumri, á sunnudagseftirmiðdögum þegar umferðarþungi til borgarinnar nær hámarki með tilheyrandi baráttu ofurökumanna fyrir viðunandi sess í bílalestinni og skal þá einskis látið ófreistað til að sýna öðrum hvernig á að keyra svo eftir sé tekið. Man reyndar eftir ungum mönnum á svörtum, litlum sportbíl sem allt ofan úr Norðurárdal (þar sem við vorum á suðurleið á okkar hægfara húsbíl) höfðu tínt aftur fyrir sig "silakeppi" með ærinni fyrirhöfn og oft glæfralegum sénsum. Svo löng var þó lestin að er við nálguðumst Borgarnes var sá litli svarti enn í augsýn þó marga bæri orðið í milli. Hluti lestarinnar áði í Borgarnesi en megnið hélt áfram suðurúr og undir Hafnarfjalli hurfu ökuhetjurnar sjónum. Það voru hins vegar ánægjulegir endurfundir þegar við, ásamt tugum annarra bíla ókum framhjá hetjunum rétt sunnan Akranessvegamóta þar sem þær sátu í bílnum í vegkantinum í félagsskap manna með blá blikkljós. Við gerðum eins og margir aðrir í lestinni er við ókum hjá: við veifuðum.........

laugardagur, janúar 15, 2005

Allt niður á við (eða þannig..) 

Eins og stundum hefur komið fram gerist okkar maður aðstoðarblaðberi um helgar. Stelpuskottið ber út í tvö hverfi laugardaga og sunnudaga, 260-270 blöð hvorn dag. Þetta tekur mislangan tíma eftir aukablöðum, veðri ofl. Ég hef oft hugsað mér að fá mér útvarp til að hafa í eyranu á röltinu og lét verða af því á dögunum. Fann þetta fína vasaútvarp í Júróprís, lítið stærra en eldspýtustokk og kostaði 750 kall án rafhlaða. Mátaði um síðustu helgi, stillti á FM 94,3 og hlustaði á íslenska tónlist, að sjálfsögðu. Nær samstundis var sú stöð lögð niður! Í morgun var ræs um fimmleytið og sem ég lagði land undir fót með blöðin stillti ég græjuna á rás 2. Það var ágætt að hafa hjalið í eyrunum, tilbreyting frá tónlistinni en talmálið fór inn um annað eyrað og út um hitt þar til þátturinn Samfélagið í nærmynd hófst kl.7. Þar var verið að endurflytja spjall um fuglaskoðun og talningu, og spjallað var við Ævar Petersen fuglafræðing. Það var akkúrat á því bili sem ég fór að hlusta. Ég hef engan áhuga fyrir fuglaskoðun eða talningu en mikið lifandis ósköp tókst Ævari vel að koma efninu frá sér þannig að það yrði virkilega áhugavert. Ævar talaði skýrt, með skarpri rödd, tafsaði aldrei eða endurtók heldur tjáði sig skýrt og klárt á þann hátt sem fær fólk ósjálfrátt til að hlusta, jafnvel þó það hafi ekki sérstakan áhuga á umræðuefninu. Einnig var spjallað við ljósmyndara sem sérhæfir sig í fuglamyndatökum, nafn hans man ég ekki. Sá skilaði sínu einnig með sóma og tókst að gera sínu áhugamáli góð skil. Ég fór að velta fyrir mér meðan Ævar talaði hvort ekki mætti nýta hans krafta til frekari þáttagerðar í útvarpi því röddin og tjáningaröryggið er nákvæmlega af því tagi sem fólk leitar eftir í útvarpi og fær fólk til að hlusta og slaka á í leiðinni. Maður hreinlega hvíldist á göngunni við að hlusta. Má eiginlega til með að kynna mér nánar þetta fuglaáhugamál.....................

mánudagur, janúar 10, 2005

Og þá tók steininn úr............ 

Ég var úti að aka í dag. Mætti 20-25 tonna hjólaskóflu sem augljóslega hafði verið að moka snjó einhversstaðar. Augljóslega, vegna þess að hún var með fulla skófluna af snjó sem sat kyrfilega fastur í kolryðgaðri malarskóflunni! Hvað halda menn svo að hafi rúmast af snjó til viðbótar í skóflunni þar sem þessi vél bar næst niður? Hversu mikið skyldi svo hafa verið tekið á tímann fyrir þetta tæki sem líklega var að moka snjó á 1/4 af mögulegum afköstum með snjóskóflu? Ofan í kaupið var svo tækið keðjulaust.
Ég veit ósköp vel af eigin reynslu hvernig keðjulaus hjólaskófla eða traktorsgrafa virkar í snjómokstri - nákvæmlega ekki neitt! Þessi skortur á útbúnaði snjómoksturstækja hér á svæðinu er svo himinhrópandi að manni nánast fallast hendur. Kannski vilja menn benda á slit á götum sem orsakast myndi af keðjunotkun ruðningstækja. Það er hins vegar í lágmarki noti menn möskvakeðjur án gadda því gaddakeðjur eyðileggja jú bæði götur og dekk auk þess sem þverbandakeðjur með göddum eru að hverfa af slíkum tækjum og notkun þeirra einskorðast nánast við stærri bíla í mjög erfiðu færi. Að horfa á keðjulaust snjóruðningstæki reyna að moka snjó með ómálaðri, jafnvel kolryðgaðri malarskóflu er bara grátlegt og ekkert annað,
Í minni sveit ( þetta hljómar vel!) er þetta ekki látið sjást. Þar reyna menn að búa sig eins vel og nokkur kostur er enda þýðingarlaust að bjóða sveitarfélögum, nú eða Vegagerðinni upp á annað en besta búnað. Ég vil ekki fullyrða en mig minnir að Vegagerðin hafi nú í nokkurn tíma ekki viljað tæki í vinnu við mokstur væru þau búin öðru en gaddalausum möskvakeðjum. Það væri gaman að vita hvort tækjaeigendur hér syðra hafi sérstaka snjómoksturstaxta fyrir þessi gagnslitlu vinnubrögð og hvort verkkaupar geri sér yfirhöfuð grein fyrir þeim vanbúnaði sem þeir eru að greiða fyrir og hversu lítið þeir eru að fá fyrir peningana miðað við það sem gerist á þeim stöðum úti á landi þar sem menn hafa metnað fyrir vinnubrögðunum.

laugardagur, janúar 08, 2005

Í dag er föstudagur..... 

Amk.skv. nýendurskoðuðu tímatali Gunnars Th. sem hann hefur sjálfur yfirfarið og leiðrétt. Það sem mér liggur á hjarta er - snjómokstur! Það er stórmerkilegt fyrirbæri þessi mokstur á götum hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég er hræddur um að félögum mínum vestur á fjörðum þættu vinnubrögðin oft einkennileg, vægast sagt.
Allar helstu strætisvagnaleiðir eru að sönnu mokaðar með vörubílum búnum snjótönn. Það er afar algengur máti þar sem mokstur þarf að ganga hratt og losna þarf við snjóinn alveg af akbrautinni með því að þeyta honum sem lengst í burt án þess að ruðningar myndist. Þetta er sú aðferð sem notuð er til að moka þjóðvegi og byggir á því að renna vegarkaflann sem oftast á meðan ofankoma er til að koma í veg fyrir snjósöfnun á vegi og jafnframt að koma því sem fellur sem lengst útfyrir veg því eins og allir vita auka ruðningar meðfram vegum á snjósöfnun þegar skefur af þeim inn á veginn. Hins vegar er algeng sjón hér syðra að sjá 20 tonna hjólaskóflu með snjótönn eða plóg skarka í íbúðagötum. Í þeim tilfellum er snjónum ýtt til hliðar upp á gangstétt þar sem hann harðnar í glerharða hrauka sem útiloka umferð um stéttarnar. Þar með færist umferð gangandi út á götuna sjálfa. Eftir dúk og disk kemur síðan smávél, oftast með lítinn plóg, og skefur ofan af stéttunum, ýtir snjónum að hluta til upp að limgerðum og girðingum og síðan að hluta til baka út á akbrautina. Þar með er kominn ruðningur til beggja handa við stéttarnar úr glerhörðum snjó sem húseigendur mega síðan glíma við með handskóflum, ætli þeir að nota innkeyrslur sínar og bílastæði. Að sjálfsögðu ná þessar litlu og léttu vélar alls ekki niður úr klakanum sem er skilinn eftir fyrir gangandi vegfarendur að glíma við þegar hlánar. Margar íbúðagötur eru svo hreint ekki mokaðar heldur látnar troðast niður, sem gerir þær nær ófærar þegar blotnar í og yfirborðið breytist í allt að 30cm. klakastump með ígröfnum hjólförum sitt á hvað.
Enn eitt grínið er síðan mokstur fyrirtækja á athafnasvæðum sínum. Þar eru jafnan fengnir verktakar í moksturinn og maður veit hreint ekki hvort á að hlæja eða gráta þegar horft er á traktorsgröfu moka plan með malarskóflu! Auk þess að vinna eins og teskeið eru skóflur þessarra véla kolryðgaðar innan þannig að við fyrstu sköfu fyllast þær af snjó sem síðan ferðast með vélinni víðsvegar um bæinn meðan gröfustjórinn stendur í þeirri trú að hann sé að afkasta einhverju og rukkar vinnu skv. því.
Mér þótti taka steininn úr þegar ég horfði á veghefil rífa upp klaka á Smárahvammsveginum um daginn. Vegurinn var nánast ófær vegna klakahryggja og því ekki vanþörf á að grípa til aðgerða. Á eftir heflinum fylgdi hins vegar dyggilega traktorsgrafa með snjótönn og hreinsaði röst annars vegar götunnar út fyrir brún. Það þætti einhversstaðar saga til næsta bæjar úti á landi væri eitt tæki látið vinna í kjölfar annars og þætti merki um litla stjórnun. Skyldi ekki hafa verið meiri þörf fyrir traktorsgröfuna annarsstaðar?
Það má vera að ráðamenn hér syðra telji ekki taka því að eiga sérbúnað til snjómoksturs á tæki sín. Það sama á þá líklega við um einstaka verktaka í vélaleigu. Snjórinn sé hreinlega svo sjaldséður hér í einhverju magni að ekki svari kostnaði að fjárfesta í snjóskóflum á tækin. Þegar ég gerði á sínum tíma út traktorsgröfu vestur á fjörðum kostaði slík skófla ríflega 300 þús. fullsmíðuð og máluð, komin á vélina. Þessi skófla tók u.þ.b. 3.5 rúmmetra, til samanburðar tók opnanleg malarskófla á sömu vél 1.6 rúmmtr. Hjólaskóflu með 4 rúmmtr. malarskóflu var talin hæfa 7 rúmmtr. snjóskófla og þýddi hreint ekki að bjóða tækin í vinnu án þessa búnaðar. Afar sjaldgæft var að senda önnur tæki til að opna vegi eftir snjóflóð en hjólaskóflu búna snjóskóflu. Þó blásarar væru almennt notaðir þegar þjóðvegir tepptust illa þýddi ekki að beita þeim á snjóflóð vegna grjóts sem einatt fylgdi spýjunum.
Vinnubrögð eins og þau sem maður sér tíðkuð hér syðra myndu eflaust vekja aðhlátur víða úti á landi þar sem menn eru meira og minna að moka snjó, hreinsa plön, götur og þjóðvegi allan veturinn. Eflaust má kenna reynslu- og þekkingarleysi um að hluta en einhvern veginn held ég samt að með smá útsjónarsemi mætti stórbæta bæði afköst og vinnubrögð við hreinsun gatna og athafnasvæða hér á höfuðborgarsvæðinu.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Alveg að koma 

Stubbur á morgun, föstudag!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?