<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

fimmtudagur, desember 30, 2004

Um áramót. 

Hér ætti að sjálfsögðu að koma áramótahugvekja(hugdetta). Ég ætla hins vegar að hlífa sjálfum mér og öðrum við slíku. Ég sé að um síðustu áramót hef ég verið að skrifa um Grímsey og að pistillinn er í mörgum hlutum. Svo er tækninni fyrir að þakka að nú get ég skrifað slíkar langlokur allar í einu því heimasíðan hefur verið mikið endurbætt þó það sjáist ekki á endanlegri birtingu pistlanna. Uppsetningin sem ég skrifa í er hins vegar allt önnur og betri og þó mig minni að ég hafi á sínum tíma haft horn í síðu endurbótanna tók það aðeins stuttan tíma að læra á nýtt kerfi. Kannski er það einmitt það sem alltaf er að há manni í daglega lífinu- að berjast móti nýjungum og þumbast við að tileinka sér þær. Það er hins vegar erfitt að dæma nýjungar nema kynna sér þær og aðeins með því að kynnast hlutunum og prófa þá getur maður dæmt um hvort breytt hafi verið til hins betra eða verra.
Það er hins vegar margt sem maður breytir ekki. Eitt af því er nettengingin. Ég þráast enn við og held mig við gamla módemið þótt öll fjölskyldan suði stöðugt um ADSL. Rökin mín eru einfaldlega þau að með ADSL verði ég að hafa pottþétta vírusvörn, eldvegg ogallthvaðeina. Tölvan er jú tengd við netið þegar kveikt er á henni og verður því stöðugt fyrir árásum utan frá. Og þessar varnir kosta jú stórfé auk greiðslunnar fyrir sítenginguna. Gamla módemið mitt hefur hins vegar einn stóran kost: ég kemst upp með að hafa ENGA virka vírusvörn í tölvunni, einfaldlega vegna þess að vírusarnir eru orðnir svo flóknir og viðamiklir að þeir hreinlega hlaða sig ekki gegnum módem á þeim tíma sem maður er tengdur! (þetta er allavega mín skilgreining). Eina hættan sem maður þarf að forðast er þessi venjulega, að opna ekki póst með viðhengi sem maður þekkir ekki. Með þetta hef ég sloppið hingað til og þegar ég á dögunum fékk lánað forrit til að yfirfara vélina fannst enginn vírus. Aftur á móti fannst heilmikið af allskonar drasli sem hafði hlaðið sig inn, aðallega auglýsingar ýmisskonar, og var því öllu eytt. Ég sit því hróðugur áfram við mína módemtengdu vél og kæri mig kollóttan þó ég þurfi að bíða einhver augnablik eftir að einstaka síður hlaði sig. Enda eru síðurnar misvel gerðar og misþungar. Berið bara saman síður húsbílafélaganna tveggja, husbill.is og husbilar.is. Sú síðarnefnda er öll mun þyngri og seinni. Ég veit ekki hvers vegna en þetta er munurinn sem ég finn á minni vél og segir mér að munurinn hljóti að liggja í smíði eða vistun síðanna tveggja. Fyrst sú fyrri er eldfljót að hlaða sig gegnum módemið ætti hin að geta verið það líka. Sjáið bara, það er sko allt í lagi að vera bara með módem........... Gleðileg áramót öll sömul!

sunnudagur, desember 26, 2004

Losnar um málbeinið. 

Þar kom að því að maður mætti mæla að nýju! Var svo alsæll með jólagjafirnar að helst líktist því að minn væri aftur orðinn tíu ára. Fékk hvorki meira né minna en þrjár miklar bækur. Tel þar fyrst bókina "Íslendingar", mynda-og viðtalsbók Unnar Jökulsdóttur og Sigurgeirs Sigurjónssonar ljósmyndara. Þar bregður fyrir meðal annarra kunnuglegum andlitum að vestan, bæði fjölskyldunni frá Dröngum á Ströndum og feðgunum Pétri og Þorbirni á Ósi í Arnarfirði. Sá bær er á leiðinni út í Hokinsdal. Hef minnst á þann stað áður í pistli. Önnur bók var "Saga bílsins á 'Islandi 1904-2004", eftir Sigurð Hreiðar. Hún kom frá vinnuveitandanum sem var svo rausnarlegur að láta kíló af konfekti fylgja bókinni. Það gengur ört á konfektið en lesturinn er rétt að hefjast. Þriðja ritið er svo "Sjómannaalmanak/skipaskrá 2005". Þetta er ómissandi rit fyrir skipa-og bátaáhugamanninn (og fyrrum trilluútgerðarmann). Skipaskráin er jafnframt hluti af staðalbúnaði ferðabílsins að sumri og nær jafnmikið notuð og kort og ferðabækur. Átti fyrir bók frá ´98 sem var löngu úrelt. Þar sem ég hef jafnan frábeðið mér skáldverk í jólagjöf en í staðinn óskað mér heimildar-,Íslands-eða ferðahandbóka hverskonar eru þetta afar kærkomnar jólagjafir. Lái mér hver sem vill þó maður gleðjist eins og litlu börnin. (að ógleymdu konfektinu) Þá hefur jólamatur konunnar sjaldan bragðast betur og öll ytri umgjörð jólanna sem er í hennar höndum er eins og best gerist.

laugardagur, desember 25, 2004

Á bara ekki.......... 

.....eitt einasta orð yfir öllum jólagjöfunum og get þvi ekki skrifað neitt!

fimmtudagur, desember 23, 2004

Betra seint en aldrei! 

Átti alltaf eftir að skrifa niðurlag pistilsins frá 15.11 um húskaupin. Það kemur sem sagt hér og nú. Þegar kaupin höfðu verið gerð tók við tími vangaveltna því ég hafði satt að segja ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera við kofann. Eitt var þó nokkuð öruggt: efri hæðin væri ónýt eins og hún legði sig. Ég fór því í hjáverkum að rissa upp nýtt útlit á húsinu byggt á þeirri hugmynd að rífa efri hæðina af og byggja nýja og stærri en láta þá neðri halda sér að mestu. Naut við þetta aðstoðar góðra manna og útkoman varð myndarleg bygging á pappírnum, þar sem nýr hluti var u.þ.b. 2/3 af heildinni. Með þetta í höndunum sótti ég um byggingarleyfi sem var auðfengið enda húsið (á teikningunni) hið laglegasta, féll vel að umhverfinu og var vel innan byggingarreits. Þar með taldi ég mig hafa í höndunum hina þokkalegustu söluvöru því það var allljóst að efnahagur okkar konunnar leyfði ekki svo stóra framkvæmd að sinni, við myndum einfaldlega ekki hafa efni á að byggja, eiga og reka svo stóra eign. Því var bara að bíða og sjá til hvort ekki myndi einhver fá augastað á kofanum. Í millitíðinni dundaði ég í frítímanum við að rífa út milliveggi og þiljur innan af útveggjum. Það var einmitt við þá iðju sem mér datt í hug að hafa opið hús einn laugardag eða svo og leyfa þeim sem vildu að sjá með eigin augum hvernig forsköluð hús gætu litið út undir múrhúðinni. Útveggir hússins voru að sönnu ónýtir, en að þeir væru svo ónýtir sem raunin var, hafði engan grunað. Húsið bókstaflega stóð á forskalningunni! Allt burðarvirki veggjanna var kássufúið og kolsvart, illa lyktandi timbrið mátti mylja milli fingranna. Upprunalega útveggjaklæðningin, c.a. einogkvarttommu borðklæðning, var svo ónýt að í hólfunum milli grindarbitanna mátti rífa hana í stykkjum frá forskalningunni inn á við svo múrinn stóð einn eftir. Þakið var, eins og áður sagði, s.k. skúrþak með frekar litlum halla og bárujárnið fyrir margt löngu farið að leka. Þar sem loftið inni var rétt af en ekki klætt undir sperrur hafði myndast vísir að háalofti sem þó var engan veginn nothæft til geymslu vegna þrengsla. Þangað hafði því enginn átt erindi árum saman og því hafði eina loftrásin á þessu "rými", þ.e. loftsgatið, verið byrgt og háaloftið því óloftræst rakabæli. Sperrurnar voru fáar, enda 0,8- 1,0 mtr. á milli þeirra. Stærð þeirra var 5x5 tommur en þar sem endar þeirra lágu á útveggjunum voru þær höggnar til hálfs og burðarendinn því ekki nema helmingur bitans! Þegar svo, eðli málsins samkvæmt, sperrurnar fóru að blotna vegna ónýts bárujárns og skortur á loftræstingu olli því að þær náðu ekki að þorna, kássufúnuðu þær. Síðan bættust snjóþyngsli vetrarins við þyngd þaksins sjálfs og sperrurnar tóku að klofna frá þynningunni í endunum og langt inn í bitann. Þar með rýrnaði burðurinn enn frekar, þakið seig sem aftur raskaði bárujárninu enn frekar og lekastöðunum fjölgaði ört. Svona hafði sigið á ógæfuhliðina árum saman án þess að neitt væri að gert og að endingu gafst eigandinn sem sagt upp og flutti út. Það var hreint með ólíkindum hvernig raki og skortur á loftræstingu höfðu lagst á eitt og nagað niður þetta gamla hús, þar sem grunnur að eyðileggingunni hafði verið lagður á þeim tíma þegar skammsýnir menn töldu múrhúðun timburhúsa vera einu "varanlegu" aðgerðina gegn dragsúgi sem jafnan var í gömlum, óeinangruðum bárujárnshúsum, en áttuðu sig ekki á því að í rauninni var það þessi sami dragsúgur sem hélt húsveggjunum þurrum. Auk þess þótti "fínna" að búa í steinhúsi og var þá talið nóg að hafa útlit steinhúss þó efnið væri raunverulega timbur. Mér fannst þessi vitneskja og þetta hörmungarútlit veggjanna og þaksins vera nægileg ástæða til að sýna fólki sem íhugaði kaup á forsköluðu húsi hvað það gæti raunverulega verið að kaupa. Við nánari íhugun hætti ég við, vegna allra þeirra sem þegar áttu slík hús, vildi hreinlega ekki að fólkið sæi hversu gerónýtar eignir þess gætu verið og áleit því mögulega verr farið en heima setið. Hugmyndin var því aldrei framkvæmd og fljótlega hringdi í mig ungur maður, lærður smiður sem vildi koma sér upp þaki. Það varð að samkomulagi að hann keypti húsið og byggingarleyfið. Þetta hrörlega hús hefur nú breyst, er eitt þeirra húsa sem setja svip á efri bæinn á Ísafirði, stórglæsilegt einbýlishús í alla staði. Þó endanlegt útlit þess sé gerólíkt rissinu sem við gerðum forðum er þó eitt óbreytt: neðri hæðin,steinsteypt, ber uppi nýja húsið af sama styrk og sama æðruleysi og hún bar það gamla áður. Fötin eru breytt, dýrindis viðarklæðning hylur gömlu steinveggina en inni fyrir lifir sál gamals húss sem féll á kné fyrir skammsýni manna en fékk að endingu þá uppreisn sem hún átti skilið.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Afar slæm stefna. 

Heyrði haft eftir borgarstjóranum nýja í fréttum að ekki væri spurning um hvort innanlandsflug flyttist til Keflavíkur heldur aðeins hvenær. Þetta þótti mér vera slæm frétt og benda til þess eins að borgarstýruna skorti algerlega skilning á innanlandssamgöngum yfirleitt sem og því að Reykjavík er engin einkaeign Reykvíkinga heldur höfuðborg landsins alls. Þar er stjórnsýslan staðsett, þar eru allar helstu heilbrigðisstofnanir og þar er þungamiðja framhaldsmenntunar. Þar er þungamiðja verslunar og þjónustu og svo mætti áfram telja. Þau eru því mörg og margvísleg erindin sem landsbyggðarfólk á til borgarinnar og nokkuð öruggt að segja að meirihluti þeirra sem um flugvöllinn í Reykjavík fara séu landsbyggðarmenn í skammtímaerindum suður. Þá eru ótaldir íbúar höfuðborgarsvæðisins sem einhver erindi eiga út á land, þó telja megi að þeir séu allnokkru færri en hinir. Það kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir sem landsbyggðarmanni nýfluttum suður að hér skuli búa ótölulegur fjöldi fólks sem aldrei hefur upp í Fokkerflugvél komið. Þeir eru væntanlega fáir úti á landi sem aldrei hafa kynnst þessu samgöngutæki sem yfir vetrarmánuðina er þó það sem helst er að treysta á þegar veður gerast válynd og nota verður hverja stund milli stríða til að skjótast milli staða úti á landi og höfuðborgarinnar. Þá er fallvalt að treysta á blikkfákinn enda farhraðinn ólíkt meiri í lofti en á jörðu niðri og öruggara að fljúga en aka þegar reynslan sýnir að veður á Íslandi getur sveiflast frá blíðu til fárviðris á korteri. Stundum verða sveiflurnar þó svo snöggar að jafnvel hraði flugsins má ekki við sjá og vélar á leið til áfangastaða úti á landi verða að gefast upp, hætta við lendingu og snúa frá. Þá er fátt til ráða annað en snúa suður aftur og bíða betra færis. Stundum verður að bíða næsta dags, stundum jafnvel næstu daga en alloft gerist það þó að veður lægir þegar líður á daginn og gefst þá annað tækifæri til flugs. Í þessu ljósi má spyrja sig hversu oft á dag farþegar í innanlandsflugi verði tilbúnir til að leggja á sig ferðalag suður til Keflavíkur til að fljúga út á land, eigandi á hættu að lenda í Keflavík aftur eftir misheppnað flug. Ég held meira að segja að þeir sem fyrstir verði til að gefast upp á slíku verði Reykvíkingar þeir sem einhverra hluta vegna eiga erindi út á land. Þeir næstu til að gefast upp verða síðan þeir landsbyggðarmenn sem næstir SV. horninu búa og munu kjósa áhættuna af vetrarferðalagi á bíl suður fremur en eiga á hættu að verða veðurtepptir í Keflavík þegar erindum til höfuðborgarinnar hefur verið sinnt. Þá eru eftir þeir sem fjærst búa og eiga allt sitt undir fluginu og verða því að fljúga til og frá Keflavík hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það má líka gefa sér að þegar að þeim kemur verði innanlandsflug orðið óarðbært vegna minnkandi farþegafjölda og verði því aflagt. Þar með erum við komin aftur til þess tíma þegar rúturnar tengdu byggðalögin og lengri vetrarferðalög á rútum tóku oft nokkra daga þar sem sæta þurfti lagi vegna veðurs og ófærðar. Sá tími kemur reyndar aldrei að fullu aftur, til þess hafa bæði vegir og bílar breyst til mikils batnaðar. Það eina sem ekki hefur breyst og breytist væntanlega seint er íslenska vetrarveðráttan með öllum sínum sveiflum og ófyrirsjáanleika.....

þriðjudagur, desember 14, 2004

Er ekki hættur... 

Bara mikið að gera, lítill tími og lítill friður. Haf biðlund..........

laugardagur, desember 04, 2004

21.12.04 

Það fer hver að verða síðastur að njóta skammdegisins. Vetrarsólstöður eru jú 21. des. nk. og eftir það lengist dagurinn jafnt og þétt og vetrarnóttin lætur smám saman undan síga þar til hún hverfur með öllu. Ótalinn er sá fjöldi sem skammdegismyrkrið angrar, reyndar er skammdegisþunglyndi löngu orðið viðurkennt sem sjúkdómur og hætt að flokkast sem "leti" eða "sinnuleysi". Er sem betur fer svo lánsamur að þekkja slíkt aðeins af afspurn en einhvern veginn er það samt svo að maður er kannski ekki alveg jafn brattur til verka dimmasta tímann, þá sérstaklega ef verkin þurfa að vinnast utandyra. Það getur stundum pirrað mann eilítið að hefja og enda vinnudaginn í myrkri, enda birtutíminn ekki nema ca. 5 klst. þegar stystur er. Þar sem stelpuskottið okkar ber út blöð um helgar og fer aldrei ein í þær ferðir, hefur pabbinn haft ágætt tækifæri til að virða fyrir sér muninn á birtunni (eða myrkrinu) í dumbungi og rigningu eða í björtu veðri, frosti og snjóhulu. Alla jafna er maður svo sem ekkert að velta sér upp úr slíku en tekur því sem að höndum ber. Þegar blaðberinn þarf svo að klöngrast upp og niður tröppur, bak við hús eða á aðra torfarna staði, svo ekki sé minnst á uppgrafnar lóðir, fer ekki hjá því að hann taki eftir þeim gríðarlega birtumun sem þessar veðurandstæður skapa. Klukkan fimm að morgni getur mætt blaðberanum allt frá myrkri svo þykku að hann sér ekki fram fyrir nefbroddinn á sér að tunglsljósi, stjörnubirtu og snjóföli sem skapar þvílíkar aðstæður að hann hálft í hvoru óskar sér að dagsbirtan hinkri aðeins svo lengur megi njóta himinfegurðarinnar. Það er nákvæmlega þetta sem getur gert skammdegið svo heillandi - andstæðurnar. Að sumri nýtur jú birtu, en að sönnu aðeins birtu. Stundum finnst manni vanta húmið, enda þótt björtu næturnar teljist innihalda vissa rómantík þá býr nú rómantíkin öllu frekar í rökkrinu. Kertaljós njóta sín vart öðruvísi en í rökkri, og alþekkt er jú tengingin milli rómantíkur og kertaljósa. Ágústmánuður, þegar aðeins er farið að rökkva hánóttina, er uppáhaldstími margra sem þykir nóg komið af birtu. Allur álpappírinn sem límdur er fyrir svefnherbergisglugga íbúða segir sína sögu um hug viðkomandi til bjartra nátta.
Að síðustu eitt: það var toppurinn á tilverunni fyrir vestan þegar saman fór myrkur,frost, nægur snjór, stjörnubirta og fullt tungl. Á slíkum kvöldum var vélsleðinn tekinn úr skúrnum og þeyst fram á heiðar. Þegar út fyrir bæinn kom var húddinu lyft, ljósinu kippt úr sambandi og ekið um fannbreiðuna við tunglsljósið eitt og þessar stórkostlegu, kynngimögnuðu skuggamyndir og - myndanir sem aldrei sáust nema við slíkar kjöraðstæður. Því miður voru þessar stundir alltof fáar...............

This page is powered by Blogger. Isn't yours?