Links
Archives
- 08/01/2003 - 09/01/2003
- 09/01/2003 - 10/01/2003
- 10/01/2003 - 11/01/2003
- 11/01/2003 - 12/01/2003
- 12/01/2003 - 01/01/2004
- 01/01/2004 - 02/01/2004
- 02/01/2004 - 03/01/2004
- 03/01/2004 - 04/01/2004
- 04/01/2004 - 05/01/2004
- 05/01/2004 - 06/01/2004
- 06/01/2004 - 07/01/2004
- 07/01/2004 - 08/01/2004
- 08/01/2004 - 09/01/2004
- 09/01/2004 - 10/01/2004
- 10/01/2004 - 11/01/2004
- 11/01/2004 - 12/01/2004
- 12/01/2004 - 01/01/2005
- 01/01/2005 - 02/01/2005
- 02/01/2005 - 03/01/2005
- 03/01/2005 - 04/01/2005
- 05/01/2005 - 06/01/2005
- 07/01/2005 - 08/01/2005
- 10/01/2005 - 11/01/2005
- 12/01/2005 - 01/01/2006
- 01/01/2006 - 02/01/2006
- 02/01/2006 - 03/01/2006
- 03/01/2006 - 04/01/2006
- 04/01/2006 - 05/01/2006
- 05/01/2006 - 06/01/2006
- 06/01/2006 - 07/01/2006
- 09/01/2006 - 10/01/2006
- 10/01/2006 - 11/01/2006
- 12/01/2006 - 01/01/2007
- 05/01/2013 - 06/01/2013
.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!
sunnudagur, október 31, 2004
Stubban og snjóflóðið.
Eins og áður sagði átti stubban afmæli 27. okt. sl. Hún er fædd ´95 , semsagt daginn eftir Flateyrarflóðið. Við hvert afmæli kemur þessi staðreynd upp í hugann. Við tölum ekki alltaf um það og sé það gert er það í fáum orðum. Þetta voru hræðilegir haustdagar og kannski ekki á annarra færi en upplifðu að skilja hörmungarnar og afleiðingar þeirra til fulls. Ekki síst vegna þess að enginn hafði enn náð fullkomlega áttum frá snjóflóðinu í Súðavík í janúar sama ár. Fólk var raunverulega ennþá hálflamað eftir þann atburð og engan óraði fyrir því að jafnvel enn verri atburðir dyndu yfir að hausti. Súðavíkurflóðið tók 14 mannslíf en flóðið á Flateyri 20. Einn grundvallarmunur var á flóðunum: Súðavíkurflóðið varð í upphafi óveðurs sem stóð dögum saman og gerði leitar- og björgunarstarf gífurlega erfitt þar sem nær óstætt veður var á svæðinu allan tímann sem leit stóð að fólki. Á Flateyri kom flóðið í lok illviðris og má segja að veðri hafi farið að slota fljótlega eftir að flóðið féll. Óveðrið sem olli Súðavíkurflóðinu hófst á sunnudagskvöldi, flóðið féll rétt fyrir fótaferðartíma á mánudagsmorgninum og veðrið náði hámarki á miðvikudagskvöld. Á Flateyri hafði verið leiðindaveður frá helgi sem náði hámarki aðfaranótt fimmtudags 26. okt og mun flóðið hafa fallið þá síðla nætur. Þannig hamlaði illviðri síður björgunarstörfum þar en í Súðavík. Nógir voru erfiðleikarnir samt, rafmagnsleysi, samgöngur lágu niðri milli staða og allar götur innanbæjar ófærar. Í báðum tilfellum var sjóleiðin sú eina sem fær var og var þó illfær í janúarveðrinu. Enginn nema sá sem reyndi, getur ímyndað sér álagið á íbúa og björgunarmenn þessa vetrardaga. Ég man mörg illviðri á Vestfjörðum, kannski fleiri en ég vil muna. Lengi var talað um "togaraveðrið", þ.e. veðrið sem gerði í febrúarbyrjun ´68, þegar skipin þrjú fórust í Djúpinu, sem eitt versta veður í manna minnum. Ég man eftir því veðri. Víst var það slæmt en veðurhæðin á miðvikudagskvöldinu eftir snjóflóðið í Súðavík var slík að verra gerist vart vestra. Hvað eftir annað hélt ég að þakið væri að fara af húsinu okkar á Ísafirði, því ég hef aldrei heyrt önnur eins hljóð í þaki eins og í þetta skipti. Það hvein ekki, það heyrðust hreinlega högg í verstu hviðunum. Bylmingshögg. Maður hreinlega fann húsið nötra og sá fyrir sér rokið undir þakskegginu rífa upp brúnirnar og svipta upp þekjunni. Þrisvar sinnum fór ég upp á háaloft um kvöldið til að reyna að átta mig á hvort eitthvað væri að gefa sig. Sem betur fór hélt allt og þegar loks slotaði lofaði maður forsjónina fyrir að halda húsinu óskemmdu. Þetta er í fyrsta (og vonandi eina) skiptið sem ég hef orðið alvarlega hræddur við veður. Ekki kannski vegna sjálfs mín, heldur konunnar og barnanna. Það hefði verið óskemmtilegt að standa frammi fyrir því að horfa upp í bylinn úr þaklausu húsi í óstæðu veðri. Þessi hvellur stóð u.þ.b. hálfan annan tíma og ég vona satt að segja að ég eigi aldrei eftir að upplifa annað eins. (og eins og svo oft áður er miklu meira ósagt en sagt................)
fimmtudagur, október 28, 2004
Hvort líður tíminn - eða flýgur?
Stubban mín átti afmæli í gær, 26 okt. Níu ár eru kannski ekki hár aldur en engu að síður nokkuð merkur áfangi. Nú hefur hún nefnilega átt heima árinu lengur sunnan heiða en fyrir vestan- bjó fyrstu fjögur árin á Ísafirði en hefur nú búið fimm ár hér syðra. Maður spyr sig hvort á eimhverju stigi hætti einstaklingur að teljast til fæðingarstaðar síns og hvort máli skipti hversu ungur einstaklingur sé sem flytur af fæðingarstað sínum. Er sá sem fæðist á Ísafirði en flytur burt innan eins árs Ísfirðingur eður ei? Skiptir máli hvaðan foreldrar eru runnir? Reykvískir foreldrar sem dvelja stundarsakir á Ísfirði og fjölga sér þar, eignast þeir Ísfirðing eða Reykvíking? Einhverra hluta vegna skiptir það mig máli að stubban sé Ísfirðingur, þótt hún hafi orðið að lúta duttlungum foreldranna og flytja burt aðeins fjögurra ára. Hún heldur enda góðu sambandi við sitt fólk vestra og á ennþá vinkonur þar sem hún spjallar við öðru hvoru í síma og hittir síðan með nokkru millibili. Hún er sjálf á þeirri skoðun að hún verði alltaf Ísfirðingur og er ákveðin í að rækta samböndin.
þriðjudagur, október 26, 2004
Nissan-þjófnaðir.
Holskefla bílþjófnaða undanfarið,þar sem Nissan bílar virðast njóta mestra "vinsælda" hefur vakið mikla athygli. Leit að þjófnum/þjófunum hefur enn engan árangur borið þegar þetta er skrifað, en bíleigendum verið bent á ýmis ráð til að forðast þjófnað og til að gera þjófum erfiðara fyrir. Sl. sunnudag var skrifari ræstur út til aðstoðar Nissan eiganda sem hafði lent í því að bíllinn hans stoppaði í Ölfusinu og vildi hvergi. Eigandinn fékk far með ókunnum ökumanni til byggða en svo illa vildi til að bíllykillinn týndist og fannst ekki þrátt fyrir leit. Skrifari vopnaðist verkfæratösku með nauðsynlegum innbrotsverkfærum og svo var haldið af stað. Var skrifari ferjaður á staðinn af þriðja aðila sem málið var skylt. Þegar á staðinn kom var strax gengið til verks og tók u.þ.b. 10 mínútur að fjarlægja svissinn úr bilaða Nissanbílnum, opna stýrislás og starta síðan bílnum með skrúfjárni. Hann fór strax í gang og bilunin sem hafði stöðvað hann fyrr virtist á bak og burt. Ákveðið var að skrifari æki bílnum til Selfoss og fylgdi hinn á eftir. Á Selfossi var ákveðið að bílnum skyldi reynsluekið um nærliggjandi sveitir, skrifari ók en hinn ekillinn fór með sem farþegi og leiðsögumaður. Var ekið vítt og breitt án þess að nokkur bilun kæmi fram. Það var ekki fyrr en komið var til Selfoss aftur sem skrifara og farþega varð ljóst hvílik heppni það var að hafa ekki lent í umferðareftirliti lögreglunnar á leiðinni. Hvorugur hefur neitt sérstakt útlit hins löghlýðna borgara, og þarna, íklæddir vinnufötum eflaust mun líkari innbrotsþjófum. Með verkfærakistu milli sætanna, svissbotninn hangandi í vírunum, stýrislásinn horfinn, skrúfjárnið standandi upp úr öskubakkanum og hvorugan skráðan eiganda bílsins hefði eflaust orðið afar erfitt og tímafrekt að útskýra sakleysi sitt og göfugan tilgang samverjans fyrir lögreglunni, sem var jú á höttunum eftir Nissan- þjófum! (hin óútskýrða bilun sem stöðvaði bílinn í Ölfusinu hefur aftur á móti verið skrifuð á "eitthvað óhreint" sem þar mun vera á ferli enda hafði bifreiðin stöðvast skammt frá kirkjugarðinum að Kotströnd)
sunnudagur, október 24, 2004
Hvaða fjall er þetta eiginlega?
Eitt þvælist fyrir mér: þegar ég horfi út um gluggana á austurhlið verkstæðisins blasa Esjan,Skálafellið, Úlfarsfellið og fleiri þúfur við. Við vinstri öxl Skálafellsins (frá mér séð) er skarð og í gegnum það sér á annað fjall í fjarska. Margoft hef ég velt því fyrir mér hvaða fjall þetta sé. Það lítur út eins og toppurinn á Skjaldbreið, en samt......... Ég hef reynt að beita vísindalegum aðferðum eins og að leggja reglustiku á kort og meta stefnuna. Það gengur illa því það er erfitt að staðsetja eitt hús á korti sem spannar bæði Skemmuveginn og Skjaldbreið. Í haustsólinni undanfarna daga hefur þessi spurning verið sérlega áleitin og í gær henti ég öllum vísindum fyrir borð og ók upp að Kópavogskirkju. Þaðan leit fjallið allt öðruvísi út. Ég ók Álfhólsveginn og reyndi allsstaðar að kíkja og viti menn: á einum stað hvarf fjallið alveg. Eftir smástund birtist það aftur og nú öðruvísi í útliti! Eftir vangaveltur hef ég nú komist að niðurstöðu. Fjallið hlýtur að vera Botnssúlur. Rökin? Jú, Botnssúlur hafa tvo toppa og auk þess eru þær örlitlu norðar en Skjaldbreiður og því líklegri til að ná sjónlínunni. Skjaldbreiður hefur aðeins einn topp og sitthvoru megin hans er ekkert í sjónlínu. Bæði fjöllin eru ámóta há, rúml. 1000 mtr. Þetta eru semsagt Botnssúlur. Pottþétt. Botnssúlur. ....held ég alveg örugglega, eða hvað? jú, örugglega,nema.......
fimmtudagur, október 21, 2004
Hvað er að ?
Þetta með kennarardeiluna er orðið dálítið undarlegt mál. Nú hefur slitnað uppúr viðræðum og næsti fundur boðaður eftir tvær vikur. Það þýðir að verkfallið sem nú er orðið fimm vikur kemur allavega til með að standa í sjö. Sjö tapaðar vikur af skólaári er ómögulegt að vinna upp og engin leið að sjá annað en að heil önn sé ónýt. Þar við bætist allt það rótleysi sem verkfallið og aðgerða- og verkefnaleysi barna og unglinga veldur til langframa. Ég hef heyrt af einum foreldrum sem tóku þann kost þegar unglingurinn (dama) á heimilinu var farinn að snúa sólarhringnum við, að láta undan þrýstingi og kaupa hund. Þetta breytti öllu fyrir unglinginn sem fékk skyndilega heilmikið um að hugsa auk ábyrgðar að bera. Þegar síðast fréttist voru farnar ekki færri en þrjár gönguferðir á dag með seppann auk alls annars. Annars staðar hafa unglingar leitað til skyld- og vinafólks úti á landi. Þannig hefur það verið hjá okkur, yngri daman fór vestur á Ísafjörð í heimsókn til vinkonu sem endurgeldur nú heimsóknina og kemur fljúgandi að vestan til okkar á morgun. Það er líka þannig að eins og hverjum endi fylgir nýtt upphaf þá fylgja hverri breytingu ný tækifæri. Vinkonan að vestan á afa og ömmu sem búa á sveitabæ á suðurlandi sem aftur gefur mér tækifæri til að renna austur fyrir fjall með vinkonurnar í heimsókn og þvælast örlítið í leiðinni. (ekki sakar að afinn og amman eru nýbakaðir húsbílseigendur)
föstudagur, október 15, 2004
Er ekkert réttlæti til?
Það gat nú rétt verið! Síðasta ferð sumarsins á ferðabílnum var farin um síðustu helgi í sannkölluðu skítaveðri eins og áður sagði. Nú, þegar bíllinn er kominn inn í hús er spáð einhverju besta veðri sem komið hefur í langan tíma um helgina. Að vísu á að blása þokkalega á sunnudeginum en þó í björtu og sæmilega hlýju. Auðvitað! Hvað hefur maður til saka unnið? Ég var búinn að birgja mig upp af efni til að smíða (stálgrindar)hús í garðinn fyrir reiðhjólin,sláttuvélina o.þ.h. og hugsaði gott til glóðarinnar að nota enn eina rigningarhelgina til að vinna inni en nú er allt í uppnámi. Verð nú sennilega að standa við fyrirheitin enda búinn að njóta ágætis friðar í sumar fyrir allan fíflaganginn og senn kemur að skuildadögunum: að ég verði nú að snúa mér að einhverju því sem konan hefur beðið eftir að gert yrði heima fyrir. Mér líst samt ekki fullkomlega á að mála loftið á baðherberginu(sem er farið að líta út eins og á eyðibýli) og ætla að kíkja í Byko á morgun og athuga hvort ekki eru til einhverjar þokkalegar loftaplötur sem þola baðherbergisraka og þarf ekki að mála.
fimmtudagur, október 14, 2004
Sumarlok.
Þá er sumrinu formlega lokið. Ferðabíllinn var tekinn á hús í gærkvöldi og þar með sýnt að fleiri verða gistinæturnar ekki í ár. Að baki eru ríflega 8.000 km. og nánast hver spotti á norðurlandi vestra fullkannaður en um það svæði hafa verið farnar fjórar ferðir í sumar. Auk þeirra ferðir til Ísafjarðar, um suðurland og um Borgarfjörð og Mýrar. Síðasta ferðin var svo farin sl. helgi upp á Snæfellsnes. Farið að heiman rétt fyrir hád. á laugardegi og ekið um Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Skítaveður sem bara versnaði er á leið og eftir hálfs annars tíma legu í heita pottinum í Ólafsvík var hreinlega komið spænurok. Það var þrekraun að aka inn ströndina og í Grundarfirði var sama veðrið. Við stubba höfðum því ekkert þar að gera en héldum áfram inn í Stykkishólm. Komum þangað rétt fyrir myrkur, áðum á lokuðu tjaldsvæðinu og notuðum bensínrafstöð til að framleiða okkar eigin raforku og örbylgjuofn til að hita kvöldmatinn, kjúklingabuff og forsoðnar kartöflur. Sjónvarpsfréttir, Gísli Marteinn og hálf bíómynd áður en farið var í háttinn. Vaknað á sunnudagsmorgni í öllu skaplegara veðri og beint í laugina. Buslað í tvo tíma. Fluttum bílinn niður á bryggju og elduðum okkur súpu í hádegismat.Lögðum af stað pakksödd og ókum í skaplegu veðri suður. Komum við hjá héraðsskólanum að Laugagerði á Mýrum sem nú er aflagður sem slíkur og heitir í dag hótel Eldborg. Þar er sundlaug sem við eigum eftir að prófa. Höfðum daginn áður rennt heim að Lýsuhóli á sunnanverðu nesinu þar sem er annar aflagður heraðsskóli með sundlaug sem við munum reyna að komast í næsta sumar. Okkur telst til að við höfum prófað 33 laugar víðsvegar um landið og stefnum á að ljúka Reykjavíkursvæðinu og suðurnesjunum í vetur. Þar með munu bætast 10-12 laugar í safnið sem alls telur 129 laugar, margar hverjar erfiðar heim að sækja, s.s. Reykjafjörð nyrðri (á Ströndum) og Grímsey.
Nú er ferðabíllinn hins vegar kominn í hvíld og verður þar til vors. Páskarnir eru snemma næst, eða síðari hluta marsmánaðar og upp úr því má fara að hugsa til hreyfings.
Nú er ferðabíllinn hins vegar kominn í hvíld og verður þar til vors. Páskarnir eru snemma næst, eða síðari hluta marsmánaðar og upp úr því má fara að hugsa til hreyfings.
föstudagur, október 08, 2004
Fækkar í hópnum
Þá ætti Jón Þór að vera kominn til Danaveldis - og þar með fækkaði um einn á Íslandi! Tímabundið þó, vonandi. Helgin lítur ekki vel út svona veðurlega séð, eins og þeir segja í fótboltanum. Hef þó ákveðið að ferðaáætluninni verði á engan hátt breytt. Snæfellsnes skal það vera, þó svo að veðrið verði líklega betra á suðurlandinu og austur með á laugardeginum. Á sunnudegi er spáð rigningu um allt land svo það breytir engu hvar maður er staddur þá. Aðalatriðið er að finna sér góða sundlaug með heitum pottum og slaka á í bleyti. Það er nóg af góðum laugum á Snæfellsnesi. Við stubban óskum sjálfum okkur góðrar ferðar í fyrramálið.
miðvikudagur, október 06, 2004
Líður að hausti
Þá hefur Félag húsbílaeigenda farið sína siðustu hópferð þetta árið. Fannst ég mega til með að fara tvær síðustu ferðirnar en þá vildi svo til að enginn sá sér fært að fara með þannig að okkar maður ferðaðist einn (eins og svo oft áður). Síðasta ferðin var að félagsheimiliu Þjórsárveri og að vanda lögðu þeir hörðustu af stað strax á föstudeginum. Ísfirðingurinn dólaði hins vegar af stað um hádegi á laugardegi og ók framhjá. Það var reyndar með ráðum gert því ætlunin var að kíkja í sundlaugina á Hellu. Það reyndist vel búinn staður með ágæta laug, tvo heita potta og setlaug. Að auki var þar búnaður sem ég hef ekki áður séð: stór digitalskjár sem blasti við sundlaugargestum og sýndi til skiptis hitastig laugar, setlaugar auk klukkunnar. Þá voru allar merkingar við laug og potta til fyrirmyndar. Eyddi um hálfum öðrum tíma í bleyti en eftir það var ísbúðin heimsótt. Þvældist um nágrennið um stund en tók svo stefnuna á húsbílastóðið og kom þangað um sexleytið. Eftir að hafa lagt bílnum og tengst rafmagni var dregið fyrir glugga enda farið að rökkva. Strekkingsvindur var og ekki sérlega aðlaðandi útiveður. Nennti ekki að hafa til kvöldmat heldur lét duga jógúrt og brauð. Þegar dimmt var orðið var hlaupið út og rafmagnsofninn sóttur í lestina ásamt útikertastjökunum og kertum í þá. Stakk stjökunum niður í skjóli framan við bílinn og kveikti á kertunum uppá von og óvon. Hoppaði aftur inn í bíl og lokaði. Opnaði ekki aftur fyrr en á sunndagsmorgun. Eyddi kvöldinu í hlýjunni við góða tónlist og afslöppun. Fór göngutúr um svæðið á sunnudagsmorgninum og fékk fulla vissu fyrir því sem ég hafði áður haldið: u.þ.b. einn af hverjum fimm bílum var ómerktur- ekkert númer, ekkert félagsmerki, jafnvel ekkert félagsskírteini í rúðunni. Sýnist þessar merkingar vera á fallanda fæti og ekkert vera sagt við því. Eyddi tímanum til hádegis í leti inni í bíl og eldaði kjúklingabita í hádeginu. Eftir frágang var rafmagnið aftengt og gert ferðaklárt. Kvaddi um eittleytið og hélt austurúr og upp Skeið að Flúðum. Þar var lagst í laugina, fína aðstöðu með tveimur heitum pottum, öðrum stórum. Lá í bleyti hátt í tvo tíma en hélt síðan í hávaðaroki um Brúarhlöð að Gullfossi. Eftir stutta dvöl þar var snúið til baka og ekið niður Tungur að vegamótunum við Syðri Reyki. Þaðan yfir að Torfastöðum og niður Biskupstungnabraut með smá viðkomu í Laugarási. Áfram niður í Þrastaskóg og upp að virkjunum. Upp í Grafning að Nesjavöllum og Hengilinn heim. Þangað var komið um sjöleytið á sunnudagskvöld.