<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Eftir hlé... 

Jú,langa ferðin var farin. Úr borginni á þriðjudegi norður um heiðar, um Þverárfjall til Sauðárkróks og áð að Hólum. Daginn eftir til Akureyrar með góðu stoppi í Ólafsfirði þar sem Lóló frænka var heimsótt og farið í sundlaugina. Áð við höfnina á Akureyri í dýrlegu veðri. Á fimmtudeginum var ekið rakleiðis að Mývatni. Þar dvöldum við megnið af deginum, bæði við Skútustaði og í Dimmuborgum. Undir kvöld var síðan ekið til Vopnafjarðar og áð þar. Föstudagurinn var sólríkur og eftir heimsókn í sundlaugina í Selárdal og til Jóa að Svínabökkum lögðum við á Hellisheiði eystri. Einhver lýsti Hellisheiðinni sem beint upp og beint niður en leiðin er svo sannarlega ekki bein. Allar okkar vestfirsku vegkræklur blikna í samanburðinum og ég hélt á tímabili að beygjurnar og hlykkirnir á veginum væru óteljandi. Hæðin er 655 m.y.s. sem er æði hátt enda útsýni til beggja átta hreint ógleymanlegt. Það tók góða klukkustund að aka Hellisheiðina á okkar hægfara ferðabíl en enginn sá eftir þeim tíma, svo falleg og sérstök var leiðin. Jökulsárhlíðin er einnig afar sérstök og við tókum okkur ferðahlé við nýju Jökulsárbrúna. Á Egilsstöðum var þokusuddi, en mannmargt svo við stefndum til meiri rólegheita og lögðum á Fjarðarheiðina áleiðis til Seyðisfjarðar. Þar fórum við í sund að kvöldi og náttuðum síðan. Laugardagsmorguninn á Héraði lofaði heldur betra veðri svo við héldum yfir til Fellabæjar og áleiðis inn með Lagarfljóti. Skoðuðum kirkjuna að Valþjófsstað og einnig Skriðuklaustur. Kíktum niður í Atlavík og ókum síðan aftur til Egilsstaða. Þar var farið að rigna svo við ákváðum að halda niður til Neskaupstaðar og nátta þar. Hellirigndi mestalla leiðina niðureftir en þurrt á Norðfirði. Eyddum sunnudeginum þar við heimsóknir og upprifjun á "gömlu dögunum" þegar við bjuggum hálft annað ár á staðnum. Á mánudagsmorgninum var svo Neskaupstaður kvaddur og haldið að stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Eftir góða stund þar var áfram haldið og til Fáskrúðsfjarðar. Veðrið eins og best var á kosið, glampandi sól og hiti. Stoppuðum góða stund á staðnum en héldum svo til Stöðvarfjarðar. Áfram til Breiðdalsvíkur og komum þangað síðla dags. Eyddum kvöldinu í göngutúra um þorpið og gistum þar. Að morgni var bjart en strekkingsvindur.Við lögðum af stað vel fyrir hádegi og ókum suður með ströndinni. Inn Berufjörðinn var betra veður og í fjarðarbotninum var einmunablíða. Stoppuðum þar góða stund en héldum því næst að Teigarhorni og skoðuðum fallegt steinasafn. Dvöldum stutta stund á Djúpavogi og þar endaði eiginlegt ferðalag. Afgangurinn af leiðinni suður var ekinn í striklotu og komið til Rvk. síðla kvölds á þriðjudegi. Sumarfríið stytt og mætt í vinnu á miðv.dagsmorgni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?