<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Skósmiður á Fíat. 

Ég hef fylgst með Formúlunni. Amk.reynt það. Sl. tvö sumur hafa miðast við Formúlukeppnir að mestu. Ekkert hefur verið hægt að ákveða nema athuga fyrst hvort nokkuð truflaði helgistundina meðan á keppni stæði. Í hittifyrra var ríkjandi einstefna í mótunum. Fyrstur var skósmiðurinn á rauða Fíatinum og síðan hjörðin á eftir, nánast skipulagslaust. Í fyrra var öllu meiri keppni milli manna og fleiri ökumenn en oft áður áttu raunhæfan möguleika á titli lengi framan af sumri. Í lokin seig þó skósmiðurinn framúr enda oft drjúgur á endasprettinum. Í ár stefnir í endurtekið efni frá 2002. Fíatinn fyrstur og síðan mega hinir berjast um næstbesta sætið og niðurúr. Ég ákvað að gefa Formúlunni séns í þrjár keppnir og sjá svo til. Nú er fjórum keppnum lokið og skósmiðurinn hefur unnið allar nokkuð örugglega. Semsagt: nú er Formúlan í heild sinni fallin niður um nokkur sæti hjá mér og ekki verður sérstöku púðri eytt í hana í sumar. Það má svosem góna ef ekkert skárra er í boði eða rigning úti en úrslitin eru ráðin, tel ég og það er ekki sérlega merkilegt að eyða sumri í að sjá hver verður næstbestur eða þaðan af neðar. Ég var að vona að Benz myndi sýna takta komandi keppnum en enn sem komið er hefur hann aðeins floppað. Er að hugsa um að skipta um áhugamál og horfa á golfkeppnir í sumar. Þær hljóta allavega að vera meira spennandi.............(eða segðu skákin, maður-).

mánudagur, apríl 26, 2004

frh........... 

Þar sem komið var undir kvöld var grillinu kippt úr geymslunni og grillaður kvöldmatur fyrir einn og hálfan. Eftir mat var litið í heimsókn til skyldfólks og síðan skriðið í háttinn. Sunnudagurinn lofaði góðu, morguninn bjartur og við fórum beint í sund. Laugin á Akureyri er auðvitað miklu meira en bara sundlaug, öllu nær að kalla vatnsparadís eða vatnsskemmtigarð. Þarna skemmtum við okkur í klukkutíma en ferðbjuggumst að því loknu og áður en við renndum úr bænum klifruðum við á húsbílnum upp í Hlíðarfjall til að skoða útsýnið og kveðja Akureyri. Heimferðin var áfallalaus, frekar blaut framan af en úr Húnaþingi og suður var blíða og birta. (við renndum reyndar í bakaleiðinni út á Skagaströnd þar eð sú litla vildi hitta Hallbjörn í "búrinu". Hann var í "búrinu" að senda út tónlist en Kánríbær hinsvegar lokaður svo við komumst ekki inn. Það voru einu vonbrigðin í annars velheppnaðri ferð.)

Við stubba mín.... 

erum nýkomin úr ferð um norðurlandið sem hófst um kvöldmatarleytið á föstudegi og varð lengri en til stóð í upphafi. Það var upphaflega stefnt á Sauðárkrók sem endastöð og viðkomu skyldi hafa á Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd (ííííhaaaa). Á norðurleiðinni var rigningarsuddi og gjóla svo eftir hálftíma matarstopp á Blönduósi ókum við beint á Krókinn og komum þangað um kl. 22.30. Náttuðum á tjaldsvæðinu í nærveru eldri hjóna á nýlegum Fíat húsbíl. Laugardagurinn rann upp hlýr, sólríkur og lygn. Reiðhjólin voru tekin niður og hjólað um bæinn þar til sundlaugin opnaði kl. 10. Eftir hálfan annan tíma í lauginni var stubba loks tilbúin að halda af stað. Næst lá leiðin út í Fljót og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Þar stóð yfir heljarinnar vélsleðamót sem við litum á úr fjarska. Heimsóttum frænku, þáðum kaffi og rjómavöfflur og tókum svo stefnuna á Dalvík. Þar var ljótt um að litast á tjaldsvæðinu. Snjóþyngsli höfðu augljóslega farið illa með hreinlætisaðstöðuna og mikið verk framundan að lagfæra þetta ágæta gistisvæði. Við tókum hringinn um Svarfaðardalinn og höfðum stutta viðdvöl að Uppsölum. Litum á nýendurbyggt íbúðarhús og kirkju. Synir bóndans hringdu fyrir okkur kirkjuklukkunni, tveggja tonna málmflykki sem ómaði um alla sveit og sögðu okkur jafnframt að þessi klukka myndi vera sú stærsta á landinu utan Hallgrímskirkju. Að hringingu lokinni héldum við til Akureyrar og fundum okkur blett við harðlokað tjaldsvæðið. frh..........

sunnudagur, apríl 18, 2004

Fleiri skepnur á sveimi 

Þessi blaðaútburður er að verða eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri og ég stend sjálfan mig að því að vera farinn að hlakka til helganna til að geta vaknað hálfsex að morgni og fengið mér hressandi göngusprett (er ekki annars til eitthvað sem heitir göngusprettur?) Hundurinn áðurnefndi var í essinu sínu nú um helgina og færist sífellt í aukana og nær nú að gelta í allt að fimm mínútur samfleytt. Ég heyri í honum yfir í næstu garða og hef endalaust gaman af. Nú hef ég að auki uppgötvað nýtt skemmtiefni. Í einu húsinu búa kettir, sennilega tvær læður, hálfstálpaðar. Þær mæta oftast báðar í forstofuna til að fylgjast með blaðinu detta inn um lúguna. Önnur situr í gluggakistu meðan hin situr á gólfinu en báðar eru jafn dauðhræddar við blaðið og blaðberann. Hvorug má þó nokkru missa af. Þær hvæsa á blaðið og færa sig jafnan nokkur skref afturábak þegar það birtist í lúgunni en þegar það skellur í gólfið koma þær óðara til að skoða. Ég hef nokkrum sinnum reynt að hitta þá sem á gólfinu situr með því að skjóta blaðinu gegnum lúguopið en ekki náð. Þykist enda vita að kötturinn myndi bjarga sér undan laginu, jafn lipur skepna. Sennilega er þetta ekki rétta leiðin til að eignast vini, en ég næ þó ákveðnum tengslum við þessi dýr, þ.e. augnsambandi við kettina og hljóðsambandi við hundinn. Hef ekki rekist á önnur húsdýr ennþá..................

sunnudagur, apríl 11, 2004

...frh. 

Síðan ég hóf útburðinn hef ég orðið margs áskynja. Ég hef m.a. kynnst því hversu bréfalúgur geta verið mismunandi. Sumar eru á stærð við hanskahólf í bíl meðan aðrar eru aðeins nálaraugu. Þá er allvíða sem stærð lúgunnar gefur alranga hugmynd um gatið í hurðinni bakvið, aðeins er sagað úr til hálfs og aðeins örlítil rifa að baki stórrar lúgu. Ekki er síður margvíslegt það sem að lúgubaki býr. Sumsstaðar leggur fúkkalykt út um bréfalúgurnar, annarsstaðar angar af hreinlæti. Sumar forstofur bergmála sem galtómar meðan aðrar taka þegjandi við blaðasendingunni. Rúsínan í pylsuendanum er hundurinn- já hundurinn! Að baki einnar lúgunnar býr hundur. Hann étur dagblöð og því verður að setja blaðið á húninn en ekki inn um lúguna. Ég veit ekkert um stærð eða kyn en hávaðann þekki ég. Þessi hundur byrjar alltaf að gelta um leið og hann heyrir blaðberann nálgast. Þvílíkur hávaði! Húsið er fjórbýlishús og ég er sannfærður um að ekki er sála sofandi innandyra þegar blaðberinn yfirgefur lóðina. Það er hreint djöfullega gaman að rjála örlítið við húninn meðan blaðinu er komið fyrir og skepnan er hreint að tryllast innandyra. Að sjálfsögðu byrjar maður alltaf á þessum dyrum, hundurinn byrjar samstundis að öskra og þagnar ekki fyrr en eftir langa stund- því lengri, því meira gaman. Þvílík útrás fyrir púkann í manni! Öskrandi hundur klukkan rúml. sex að morgni um helgi! Svo hitti ég líka stundum moggaberann. Hann býður alltaf góðan dag en geltir ekkert.

...frh. 

Minn stóð sig með prýði í útburðinum, vaknaði snemma og ræsti trippið sem ætíð rauk upp og var tilbúin á augnabliki enda þarf enginn að fara málaður í blaðaútburð. Hún fór hins vegar alltaf beint í bólið aftur er heim var komið og svaf þá til hádegis- "því að maður er jú í helgarfríi, kommon" Fljótlega fór þó að bera á því að móðurinni þótti á sig hallað því faðirinn tók upp á að fara á fætur kl. 5.30 á laugardagsmorgnum, ræsa dótturina og byrja útburð jafnvel fyrir kl. 6. Þetta þótti móðurinni hin mesti óþarfi, taldi enda engan vaknaðan á þessum tíma. "Ég nenni ekki að vakna svona snemma og stelpan má alveg sofa aðeins lengur, allavega til svona sjö". Hún benti auk þess á að samræmi þyrfti að vera í stimplunum inn/út milli daga (þær eru framkvæmdar símleiðis og laun greidd með hliðsjón af þeim). Bóndinn féllst á það. Næsta sunnudagsmorgun var bein útsending frá Formúlunni, eldsnemma. Minn þurfti því að vakna hvort eð var og þar sem veðrið var gott og blöðin lágu í bunka framan við húsið ákvað hann að kíkja aðeins á útburðinn. Er ekki að orðlengja að þegar Formúlan skyldi hefjast var lokið svo sem helmingi hverfisins. Það var sveittur húsbóndi sem afhenti konu og dóttur afganginn af blöðunum ánægður með framlagið. Síðan hefur það orðið að reglu að húsbóndinn ber út með aðstoð trippisins á laugardögum en á sunnudögum er hann einn á ferð. Laugardagarnir eru enda erfiðari þar sem ýmis aukablöð, s.s. auglýsingapésar ýmsir auk.DV fylgja Fréttablaðinu þá. Á sunnudögum er aðeins Fréttablaðið og því léttari karfan. Frh.

Um blaðaútburð. 

Undanfarna mánuði hefur stelpuskottið nú nýfermda borið út Fréttablaðið í ónefnt hverfi hér í grennd. Aðeins er um að ræða helgarvinnu, þ.e. laugar- og sunnudagsmorgna. Stöku sinnum hefur hún verið beðin um afleysingu á virkum dögum en ekki tekið því bæði er starfið illa borgað og fátt veit gelgjan verra en að fara illa tilhöfð í skólann. Það fer því ekki minna en klukkutími í að setja upp andlitið að morgni og hún yrði því að vera óguðlega árrisul ætti hvorttveggja að nást, útburður og útlitsmeðferð. Upphaflega fór móðirin með í morgunleiðangrana og það voru ófáir helgarmorgnar sem þær komu heim eins og hundar af sundi eftir úrhelli á útburðartímanum, og á tímabili voru þær sannfærðar um að rigningunni væri beint sérstaklega gegn þeim þó svo að jafnt rigndi á aðra blaðbera sem þær. Þar kom að móðirin sagði stopp- nú skyldi fjölskyldufaðirinn standa sína pligt og taka a.m.k. annan morguninn að sér. Að sjálfsögðu skyldi trippið þó standa báðar vaktirnar enda jú hennar starf og launin hennar. Samkomulag var gert um að ég, faðirinn, tæki laugardagsmorgnana en móðirin sunnudagana. Þar réði miklu um að Stubba er á fótboltaæfingum á sunnudagsmorgnum kl.9 og taldi móðirin það sína heilögu skyldu að sjá um hana og dvelja á æfingunum með henni. Því myndi henta henni að fara að loknum útburði með trippinu á æfingu með Stubbu, þar sem hún væri vöknuð hvort eð væri. Að auki horfði húsbóndinn á beinar boxútsendingar aðfaranætur sunnudaga og því frekar linur í morgunsárið, enda oftast nýsofnaður þá.......frh.

föstudagur, apríl 09, 2004

Þögnin rofin. 

Fyrir margt löngu gaf íslenskur tónlistarmaður út plötu með þessum titli. Á henni voru aðeins tvö verk. Fyrrnefnt verk var aðeins löng, afar löng þögn. Að síðustu var hún rofin með ægilegu stríðsöskri. 'A hinni hliðinni var verk sem bar nafnið "Brotinn gítar", þar var plötuhliðin fyllt með glamri á mölbrotinn kassagítar. Hver og einn getur ímyndað sér þá tóna sem þannig myndast og dýpt þessarar listar var svo mikil að áratugum síðar hef ég engan skilning öðlast en minningin geymir plötutitilinn og innihaldið. Fermingin er afstaðin og unglingurinn hefur staðfest skírnarsáttmálann. Hefur enda uppskorið góðar gjafir að launum frá þeim fullorðnu fyrir að víkja ekki af vegi feðranna en feta troðnar slóðir. Sumarið nálgast skv. tímatalinu en er reyndar löngu komið í veðurfarið og enn lengra síðan það fór að marka sinnið. Húsbíllinn var sóttur í gær, skírdag, og er nú í hreinsun og yfirferð. Gæti jafnvel sést á ferðinni uppi við Meðalfell, Hvítanes, Brynjudal eða Botn í dag. Veðrið er "alletiders" og synd að eyða jafngóðum degi í vinnugalla (enda ókristilegt að starfa við nokkurn óþarfa á föstud. langa) Ætlaði annars að skrifa pistil um blaðaútburð unglingsins nýfermda en er kominn í tímaþröng svo það bíður þar til næst.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?