Links
Archives
- 08/01/2003 - 09/01/2003
- 09/01/2003 - 10/01/2003
- 10/01/2003 - 11/01/2003
- 11/01/2003 - 12/01/2003
- 12/01/2003 - 01/01/2004
- 01/01/2004 - 02/01/2004
- 02/01/2004 - 03/01/2004
- 03/01/2004 - 04/01/2004
- 04/01/2004 - 05/01/2004
- 05/01/2004 - 06/01/2004
- 06/01/2004 - 07/01/2004
- 07/01/2004 - 08/01/2004
- 08/01/2004 - 09/01/2004
- 09/01/2004 - 10/01/2004
- 10/01/2004 - 11/01/2004
- 11/01/2004 - 12/01/2004
- 12/01/2004 - 01/01/2005
- 01/01/2005 - 02/01/2005
- 02/01/2005 - 03/01/2005
- 03/01/2005 - 04/01/2005
- 05/01/2005 - 06/01/2005
- 07/01/2005 - 08/01/2005
- 10/01/2005 - 11/01/2005
- 12/01/2005 - 01/01/2006
- 01/01/2006 - 02/01/2006
- 02/01/2006 - 03/01/2006
- 03/01/2006 - 04/01/2006
- 04/01/2006 - 05/01/2006
- 05/01/2006 - 06/01/2006
- 06/01/2006 - 07/01/2006
- 09/01/2006 - 10/01/2006
- 10/01/2006 - 11/01/2006
- 12/01/2006 - 01/01/2007
- 05/01/2013 - 06/01/2013
.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!
mánudagur, mars 29, 2004
Framundan...
er ferming í fjölskyldunni. Það er dálítið merkilegt hversu bankar, fataverslanir og aðrir seljendur vöru og þjónustu eru naskir á að þefa uppi nöfn og heimilisföng fermingarbarna í því skyni að ná til sín einhverju af fermingargjöfunum, þ.e.a.s. þeim sem eru í auraformi. Yfir okkur hefur rignt tilboðum um ýmsa bankaþjónustu, greiðslukortaviðskipti ofl. til handa ófjárráða barninu. Þá hafa ljósmyndastofur óspart auglýst þjónustu sína og veisluþjónustur hafa sent sínar kynningar í gríð og erg. Reyndar finnst mér fullseint í rassinn gripið að bjóða veisluþjónustu þegar svo nærri er dregið viðburðunum, ætla mætti að flestir væru komnir með sitt á þurrt enda fermingar komnar á fullt skrið. Einhverjir verða þó eflaust á síðustu stundu og grípa þá fegins hendi tilboð um staðlaða pakkaveislu með eða án húsakynna. Sjálf fórum við síðla hausts sl.af stað með undirbúning. Eftir talsverða leit að hentugum sal komumst við að því að svo margir höfðu haft vaðið fyrir neðan sig að flestir salir voru bókaðir á fermingardaginn, þann 04.04.04. Sumir salir höfðu þannig verið bókaðir allt að einu ári áður. Okkur var bent á skemmtistað í Rvk. sem leigði út sali með þjónustu og við náðum að bóka á síðustu stundu, allt var þegar orðið fullt. Nú þegar aðeins vika er til fermingar hefur verið gengið frá flestöllum lausum endum. Við munum eflaust njóta þess vel að geta gengið að veislunni tilbúinni og að henni lokinni staðið upp frá borðum, þakkað fyrir okkur, tekið upp veskið, borgað og gengið síðan út án þess að hugsa um uppvask og frágang. Ég hugsa að konan verði allavega fegin........
sunnudagur, mars 21, 2004
Ekki örvænta...
Þótt lítið sé að gerast. Síður en svo neinn dauði, nóg efni, reyndar of mikið en fáar frístundir hamla skrifum og vísa ég hér með til pistils frá sunnudegi 22.feb. Allt sem þar stendur er að koma fram. Kerran er að vísu að verða tilbúin en önnur verk markast þar af. Haf biðlund................................................
sunnudagur, mars 14, 2004
Jón er kominn heim!
Ja, eða því sem næst. Lendir líklega einhverntíma á morgun (sunnudag) eftir nokkra útiveru. Ágætt að sjá hann aftur. Í dag voru það Tungurnar sem lágu. Víða á leiðinni voru menn í sumarhúsabyggingum og hjá einum ókum við sem var með mannskap og skotbómulyftara við að reisa veggeiningar verðandi sumarparadísar. Um hádegið var einn veggur risinn og annar á uppleið. Hafði hjá sér sperrur og hefur líklega getað verið sáttur við dagsverkið í nær fokheldu húsi er kvöldaði. Sýndist vera farið að grænka allvíða enda svæðið að mestu upphitað neðanfrá og þegar lofthitinn hækkar svo mikið sem nú þýðir slíkt á almanaki náttúrunnar aðeins eitt: Vor. Í bakaleiðinni gos og meððí í sjoppunni að Laugarvatni. Skyldi virkilega allt þetta fólk sem þar býr hafa vinnu á staðnum? Mér finnst einhvernveginn allt of margar íbúðir þarna og enn er byggt og nýbyggingarnar auglýstar til sölu. Við héldum heimleiðis um Grímsnesið aftur og ég kemst aldrei hjá því að velta fyrir mér þegar ekið er framhjá Svínavatni: Skyldi nafnið á vatninu kannski vera dregið af ábúendum? Hvenig í ósköpunum er hægt að komast upp með að hafa allt þetta drasl kringum býlið? Minnir óneitanlega á ónefndan sveitabæ heima við Djúp.
þriðjudagur, mars 09, 2004
framh.
Hitt er svo annað mál, að hversu vel er vandað til skipa geta menn aldrei varist óhöppum og víst fékk útgerð Guggunnar sinn skerf gegnum árin, bæði mannskaða og strand. Samherjamenn hafa einnig reynt sitt af hverju og skemmst að minnast togarans Þorsteins, sem eyðilagðist í hafísskrúfum út af Vestfjörðum hér um árið. Sá togari hét reyndar áður Trausti og var gerður út frá Suðureyri. Ekki má heldur gleyma stórbruna í Guðbjörginni sem þá hafði fengið nafnið "Hannover" og var gerð út af þýsku fyrirtæki í eigu Samherja. Það mun væntanlega ráðast á næstunni hvort mögulegt verður að bjarga þessu stóra og fallega skipi af strandstað, veðurspá er slæm og því miður bendir flest til þess að leið skipsins muni liggja niður í sandinn fremur en á flot aftur.
Ljótt finnst mér.....
....að sjá "Guðbjörgina" í fjörunni við Meðalland. Óskandi að hægt verði að ná skipinu af strandstað þó svo sagan segi okkur að þarna séu skip oftar en ekki komin til að vera - og hverfa smám saman í sandinn. Einhvern veginn er það svo að engu máli skiptir hvaða nafn er málað á þetta skip, í mínum huga er það og verður ávallt Guggan. Þannig er því reyndar farið um fleiri skip sem smíðuð hafa verið fyrir vestanmenn. Manni hlýnar um hjartarætur þegar maður rekst á þessa gömlu kunningja víðsvegar um land, jafnvel þótt séu í misjöfnu ástandi og megi mörg muna sinn fífil fegri. Fagranesið gamla skipar sinn sérstaka sess enda er það óbreytt í útliti þótt liturinn sé framandi. Þá rekst ég oft á Hábergið frá Grindavík, þar er jú komin gamla Guðrún Jónsdóttir, óþekkjanleg eftir breytingar en samt--Guðrún Jóns. Í Kópavogshöfn liggur "hvíta Guggan", Guðbjörg nr. 2. Hún heitir nú Stormur SH, hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar um æfina en hefur nú líklega farið sinn síðasta róður. Um daginn mátti líta í Hafnarfirði togarann Hrafn frá Grindavík. Þar var komið Sléttanesið frá Þingeyri. Fyrir u.þ.b. tveimur árum voru nokkrir menn að dunda við að gera upp þreytulegan ryðkláf í Hafnarfirði. Uppgerðin tókst vel svo Víkingur lll náði aftur sinni fyrri reisn. Svona mætti telja áfram, þau hafa enst vel, mörg vestfirsku fiskiskipin, enda vel vandað til allrar gerðar.---- framh.
föstudagur, mars 05, 2004
...framh.
Skipulagið sem ég hef reynt að gera fyrir ferðir sumarsins á þessum "ör"húsbíl felur í sér m.a. eftir farandi leiðir: Jökulháls, yfir Snæfellsnes við jökulrætur.Væntanlega verður vélsleðinn með í þeirri ferð. Steinadalsheiði,úr Gilsfjarðarbotni í botn Kollafjarðar á Ströndum. Kollafjarðarheiði, úr botni Kollafjarðar á Barðaströnd yfir í Laugabólsdal í Ísafirði við Djúp. Kaldidalur og Arnarvatnsheiði.Línuvegurinn af Kaldadalsvegi norður fyrir Skjaldbreið og austur að Búrfelli Þá hef ég einsett mér að taka eina helgi í að aka norður til Hólmavíkur og til baka með öllum afdölum og lengri heimtröðum sem finnast á þeirri leið norðan Holtavörðuheiðar. Það sama langar mig að gera á Mýrunum, en þar er yfir mikið flæmi að fara og útúrdúrarnir oft æði langir. Reyndar mun stóri bíllinn henta þokkalega á því svæði sé varlega farið. Ofantaldar ferðir eru allar utan við ferðaáætlanir húsbílafélaganna beggja, sem við erum meðlimir í, og reyndar einnig utan áhugasviðs konunnar. Það er því útlit fyrir að við Stubba verðum mikið á ferðinni tvö ein, enda er hún nánast óþreytandi ferðalangur og afar góður félagsskapur. Þannig að ef fólk mætir í sumar einum minnsta húsbíl landsins með fyrrferðarmiklum bílstjóra og pínulitlu stelpuskotti í farþegasætinu - þá má telja nokkuð víst að þar förum við Stubba.
Í framhaldi af því....
......að sumarið verður að öllum líkindum of stutt eins og svo oft áður hef ég reynt að skipuleggja frítímann með tilliti til þess. Nú er það þannig að því meira sem maður ferðast innanlands kemur æ betur í ljós hversu mikið er eftir. Þ.e. hversu maður sjálfur er í raun fákunnandi um eigið land. Ég hef þvælst meira og minna um sunnan- og vestanvert landið undanfarin sumur en látið norðurhlutann að mestu sitja á hakanum og austurhlutann alveg frá Vík í Mýrdal að Eyjafirði. Vestfirðina telst ég hafa kannað meira en margur annar og hef þrælast þar um vegi og vegleysur jafnt sumar sem vetur, oft í hvaða veðri sem var. Hef einnig farið talsvert sjóleiðina norður um Jökulfirði og vestari hluta Hornstranda, þó miklu víðar hefði ég viljað fara um það svæði leyfðu eigin aðstæður það ekki og það finnst mér ákaflega miður. Ég hef gert mér grein fyrir því að búandi hér fyrir sunnan hef ég mun minni möguleika á Hornstrandaferðum en væri ég enn búsettur við Djúp, þar sem morgunskíman gaf fyrirheit um veður dagsins og því hægt að grípa góðan dag til ferðar þegar sýnt var að hann gæfist. Það eru þó margir staðir og margar leiðir sem skoða má í stuttum ferðum út frá höfuðborginni sé tækifæri til. Þar sem húsbíllinn okkar hentar síður á slæmum vegum fjárfesti fjölskyldan í átta manna aldrifsbíl sem ætlunin er að nota í sumar á þær slóðir sem þungur og stirður húsbíll kemst ekki. Með því að fækka sætum og koma fyrir svefnrými ásamt nauðsynlegum viðlegubúnaði mun þessi aldrifsbíll væntanlega henta til helgarferðalaga um þessar slóðir.....framh.
mánudagur, mars 01, 2004
Lítið skrifað.
Vegna fjarveru að heiman hefur lítið verið skrifað undanfarið enda lítið undirbúið. Nóg á þó að vera til af efni sem bíður, mismerkilegu eins og gengur. Rak augun í á textavarpinu að til stendur að ráða Árna Johnsen til Vesturbyggðar í tímabundin verkefni tengd atvinnu- og ferðamálum. Nærri má geta að Árni vilji komast sem fyrst af stað í atvinnulífinu eftir hlé og má telja víst að hann muni skila sínu starfi vel enda kunnur að atorku og dugnaði. Vinni Árni Johnsen af sama áhuga og krafti fyrir Vesturbyggð og hann hefur unnið sínu kjördæmi gegnum árin má vænta mikils árangurs af þessu verkefni. Er annars nýkominn af firðinum fríða þar sem fólkið er alltaf samt við sig og náttúran alltaf jafn heillandi, sama hvernig hún heilsar manni. Það leitar stundum á mann þessi hugsun: Væri ekki gaman ef maður gæti nú lifað af vinnunni sinni á Ísafirði en þyrfti ekki í aðra landshluta (les: suður) til að ná mannsæmandi afkomu og geta búið fjölskyldunni sæmilegt heimili án þess að þurfa að vinna allt að 16 tíma á sólarhring eins og reyndin var orðin vestra. Við þvílíkar aðstæður lenda menn gjarna inn í vítahring yfirvinnu sem alls ekki er auðvelt að rjúfa. Það var mín ákvörðun við brottflutning fjölskyldunnar ´99 að ef til þess kæmi að við flyttum aftur til Ísafjarðar yrði það ekki fyrr en við lok starfsævinnar, þegar ekki þyrfti lengur að treysta á undirborgaða vinnu til afkomu. Enda er góða veðrið alltaf í miðri viku, svo sem alkunna er, líkurnar á góðu helgarveðri aðeins tvær á móti fimm og því eins gott að eiga frí alla daga!