<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

laugardagur, janúar 31, 2004

Einu við að bæta.....(þó nýrra sé) 

Það er líka hrein snilld að heyra föroyinginn Eivöru Pálsdóttur syngja "Við gengum tvö" í nýrri reggaeútsetningu sem kom út fyrir jólin síðustu. Bæði er Eivör mjög sérstök söngkona og útsetningin góð. Þá bregður líka fyrir þessari sérstöku færeysku bjögun á íslenskunni á nokkrum stöðum í söngnum (.... á meðan norðurljósin leftra...)

föstudagur, janúar 30, 2004

frh.  

Reyndar man ég ekki í svipinn neinn titil á lagi með Svavari Ben. en mér fannst (og finnst enn) ákaflega gaman að heyra hann syngja. Erla Þorsteinsdóttir var sannarlega góð söngkona með ákaflega sérstaka rödd og stíl enda kölluð stúlkan með lævirkjaröddina. Hef því miður ekki enn eignast geisladiskinn hennar en stendur vonandi til bóta...........................................Nú rétt áðan heyrði ég Alfreð Clausen syngja lagið um Þórð sjóara. Þar var ekkert verið að snikka til errin eða essin. Þó minnir mig að Alfreð hafi átt sitt blómaskeið um eða fyrir ´58. Sjálfsagt er þetta misjafnlega áberandi eftir röddum og söngstíl en Alfreð og félagar renndu sér gegnum lagið mjúklega og hnökralaust.

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Það er draumur........... 

Það er stundum gaman að hlusta á íslenska tónlist sem hljóðrituð var á árunum fyrir seinna stríð og allt fram yfir´60. Það er ákaflega sérstakt að heyra hvernig söngvarar leggja sig fram um að fela eða mýkja -r- hljóð í framburði. Einnig ber dálítið á þessu með -s- hljóð en þó alls ekki eins mikið. Þetta virðist hafa verið einhver lenska á þessum tíma, að syngja -r- uppá amerísku. Reyndar held ég að þetta hafi verið dálítið einstaklingsbundið, þ.e. hvað einstakir söngvarar létu segja sér til við upptökur en einnig það að upptökutæknin, svo frumstæð sem hún var á þessum tíma, dró svo sterkt fram -r- hljóðið að það bókstaflega argaði gegnum lagið. Sumir söngvarar voru ákaflega fimir að sneiða hjá þessu hljóði, s.s. Ragnar Bjarna. (sem er hreinn snillingur í þessu, hlustið vel á "Vorkvöld í Reykjavík"). Einnig Soffía Karlsdóttir sem söng svo snilldarlega " Það er draumur að vera með dáta" og ýkir mýkta errið alveg hárfínt uppá amerísku, eins og á svo vel við í þessum texta. Líka má nefna "Við gengum tvö" (heitir það það ekki?) með Ingibjörgu Smith ( á meðan norðurljósin leiftra......) og Svavar Benediktsson..........frh.

mánudagur, janúar 26, 2004

...frh... 

Pétur leiðir að því getum að vitaskipið Hermóður, sem fórst með allri áhöfn undan Reykjanesi í áþekku veðri (hér er gat í mínu minni en það má vera að um sé að ræða sama veðrið) hafi mögulega lent í álíka broti á þessum slóðum en þar hafi lengdarmunur skipanna ráðið úrslitum og Hermóður því stungist fram fyrir sig og hvolft. Þetta finnst mér athyglisverð kenning í ljósi þess sem gerðist í Grindavík á föstudaginn, þó svo stærðarmunur skipanna hafi verið mikill og giftusamlega hafi tekist til með björgun mannanna tveggja. Hversu oft skyldi það hafa gerst að skip fari framfyrir sig á broti þegar nær dregur landi ? (mér skilst að brot af þessu tagi séu frekar sjaldgæf á rúmsjó en rífi sig frekar upp á grunnsævinu mögnuð af straumaskilum) Almennt var talið að Hermóður hefði fengið brot inn á skutinn sem hefði keyrt skipið niður á augabragði. En semsagt, Pétur lýsti þessari skoðun í ljósi eigin reynslu af hnútum undan Reykjanesi. Eflaust vildu fæstir sjófarendur lenda í viðlíka aðstæðum og lýst var, og ljóst að margir þeirra sem reynt hafa, eru ekki til frásagnar.

Sjóslys. 

Þegar sjóslysið varð við Grindavík sl. föstudag var því lýst af sjónarvotti hvernig báturinn fékk hnút aftan undir sig sem reisti hann upp á endann og endastakkst hann síðan fram fyrir sig. Mér skilst að báturinn hafi flotið með kjölinn upp þar til hann rak upp í fjöruna við varnargarðinn en líklega hefur brimið snúið honum þegar yfirbyggingin rakst niður. Mér datt í hug grein sem ég las eitt sinn, líklega í sjómannadagsblaði. Hún var skrifuð af Pétri Bjarnasyni skipstjóra á Ísafirði,nú búsettum á Kjalarnesi. Í þessari grein segir Pétur frá eftirminnilegri siglingu fyrir Reykjanes í gríðarlegu illviðri og sjógangi á vélskipinu "Richard" sem Björgvin Bjarnason á Langeyri átti. Pétur segir frá broti eða straumhnút sem reið aftan undir Richard og lyfti skutnum þannig að skipið stóð upp á endann og í brúnni stóðu menn í framhliðinni en ekki á gólfinu. Skipið brunaði þannig lóðrétt niður ölduna og við botn dalsins stakk það stefni á bólakaf svo framskipið hvarf undir sjávarfarg aftur undir brú. Náði síðan að lyftast og hreinsa sig.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

framh.  

Frystingin hefur m.a.s. haldið innreið sína í harðfiskverkunina þó margir stundi hana enn með gömlu vindþurrkunaraðferðinni. Súrmaturinn heyrir hins vegar sögunni til nema þennan stutta tíma á ári þegar eldri menn rifja upp "gömlu dagana" og gera jafnframt tilraun til að kenna pizzu- og hamborgarakynslóðinni dálítið um uppruna sinn. Því miður er árangurinn oft frekar lítill og því allt útlit fyrir að þessi forna verkunaraðferð verði hvergi til nema í fræðiritum eftir nokkra áratugi. Þangað til njótum við þess sem gefst, súrsaðra hrútspunga (sem reyndar eru lambaeistu), lundabagga, sviðasultu, súrsaðra bringubita og nú loks, eftir alltof langa bið - súrsaðra hvalbita.

Þorri gengur í garð. 

Samkvæmt mínum traustustu heimildum hefst þorri á laugardag. (mér finnst reyndar dálítið asnalegt að skrifa þennan langþráða árstíma með litlum staf en einhversstaðar mjög aftarlega í höfðinu er lág og hjáróma rödd míns gamla íslenskukennara í barnaskólanum fyrir vestan sem segir: rita skal með litlum staf nöfn daga, mánaða, hátíða og námsgreina......) Mikið hef ég hlakkað til þorrans. Aðallega vegna aukins framboðs á mat verkuðum með gömlum aðferðum, þegar menn höfðu ekki enn fundið upp frostið. (ha?) Já, þannig var það nú! Þessi matur sem menn neyttu yfir veturinn var jú aðallega verkaður að hausti, í sláturtíðinni. Síðan hélt þessi matur lífi í fólki yfir harðasta veturinn, oft naumt skammtaður. Því sátu menn í grimmdarfrosti og átu súrmat, án minnstu þekkingar á því hvernig geyma mætti frost vetrarins fram á sumar og nota til geymslu matvæla. Ég þekki lítillega af bókalestri til uppruna "frystihúsa" fyrir vestan, þar sem menn hlóðu torfkofa með veggþykkt um eða yfir 1 metra og báru þar í ís af tjörnum og lækjum. Með tilkomu frystivéla lögðust þessar gömlu verkunaraðferðir að mestu af. Hákarlsverkun er reyndar enn stunduð með vinnubrögðum þar sem frysting kemur hvergi nærri.

mánudagur, janúar 19, 2004

Íslandspóstur 

Hvernig er hægt að týna umslagi af stærðinni A4, fóðruðu og innihaldandi heila videospólu í hulstri? Spyr sá sem ekki veit. Á þorláksmessu sl. voru sendir frá Ísafirði tveir þannig pakkar , hvor á sitt heimilisfang. Annar í Garðabæinn, hinn í Kópavog. Bæði nöfn viðtakenda svo og heimilisföngin voru rétt rituð. Umslagið í Garðabæinn var komið í hús rétt um hádegisbil á aðfangadegi. Hitt hefur ekki skilað sér, þrátt fyrir eftirgrennslanir. Hver skyldi nú munurinn vera á þessum tveimur póstnúmerum? Eru samviskusamari bréfberar í Gb.? Er ekki allur póstur sem berst til Rvk. lesinn sundur á sama stað og síðan dreift þaðan til svæðispóststöðva sem síðan dreifa í hús? Fyrst annað umslagið kom suður, má þá ekki ætla að hitt hafi gert það líka? Og hvers vegna finnur ekki Íslandspóstur pakka sem er af þessarri stærð? Hvurslags ræfildómur er þetta? Er fólki bókstaflega ekki treystandi til neins? Eða er einhver einhversstaðar í allt öðru heimilisfangi, ennþá steinhissa á óvæntri jólagjöf sem hálfólæs bréfberi henti í hann á aðfangadegi, að horfa á myndina "Ómar lands og þjóðar" sem faðir minn keypti sem jólagjöf fyrir dóttur sína og hennar fjölskyldu og treysti Íslandspósti fyrir?

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Óveður. 

Unglingurinn á heimilinu útskrifaðist sem stúdent frá fyrrum Menntaskólanum á Ísafirði, nú Framhaldsskóla Vestfjarða, s.l. laugardag. Við lá að hann tæki við prófskírteinum og viðurkenningu fyrir námsárangur einn og yfirgefinn því við foreldrarnir og systur lögðum ekki í að aka vestur á föstudag vegna slæmrar veðurspár. Enda undir það seld að þurfa að aka aftur suður á sunnudag vegna vinnu. Unglingurinn komst hinsvegar vestur með einu vélinni sem komst á föstudag, og rétt náði því eigin útskrift. Hann áformaði síðan að fljúga suður seinnihluta sunudags. En kóngur vill sigla, o.s.frv. - nú á þriðjudagskvöldi er enn ófært til Ísafjarðar síðan á laugardag að tókst að koma einni vél fram og til baka. Ekki er útlit fyrir flug næstu daga og að auki eru allar aðalleiðir á jörðu niðri ófærar vegna snjóa,veðurhæðar eða hálku. Unglingurinn sem ætlaði að byrja í nýju starfi í gærmorgun fær enn og aftur að kynnast því hvernig vetrarveður geta leikið þá sem búsettir eru eða staddir úti á landi og þurfa að standa í ferðalögum eða halda áætlanir ýmisskonar. (það vildi til að gott fólk fylgdi pilti til útskriftar og á okkar bestu þakkir fyrir)

sunnudagur, janúar 11, 2004

....framh. 

"ég flýg ekki með lítilli vél" sagði kona ein. Henni var bent á að ATR og Fokker F-27 væru jafnstórar vélar en hún lét sig ekki: " allt annað en Fokker er lítil vél fyrir mér" Auðvitað kom að því að Íslandsflug, félag sem hafði verið tekið á Ísafirði með kostum og kynjum ásamt tertum og ræðuhöldum, gafst upp á að fljúga með hálftómar vélar milli Ífj. og Rvk. og lögðu flugið niður vegna skorts á farþegum. Að sjálfsögðu hélt F.Í. sínu lága verði áfram, eða hvað ? Nei, aldeilis ekki! Að fáum dögum liðnum var kynnt ný verðskrá, sem reyndist nánast ljósrit af þeirri sem gilt hafði fyrir komu Íslandsflugs. Sigurinn var í höfn, samkeppnin hafði verið rekin á flótta með aðstoð hundtryggra sakleysingja sem ekki höfðu áttað sig á því í hverju verðlækkun F.Í. raunverulega lá. Ég vona að menn beri gæfu til að átta sig á því nú þegar raunveruleg samkeppni býðst loks neytendum á höfuðborgarsvæðinu í bensínsölu. Mér þykir þó verst að þessi verðlækkun skuli ekki bjóðast mínum fyrrum sveitungum sem hafa jú eitthvað lært af biturri reynslunni og tóku Bónus opnum örmum þegar sú ágæta verslun opnaði á Ísafirði. Að síðustu, fyrir þá sem ekki vita; á Ísafirði er rekin bensínstöð undir merkjum Esso, en er í raun samrekstur allra félaganna þriggja,Esso, Olís og Skeljungs.

.......og í framhaldi af því... 

Flugfélag Íslands hefur nánast alla tíð verið einrátt í Ísafjarðarflugi með stórum vélum og þar með einnig getað ráðið verðlagningunni einhliða. Nokkrir aðilar, þ.m.t. ísfirskir, hafa þó reynt að veita samkeppni á flugleiðinni með minni vélum, 6-19 manna en ekki haft árangur sem erfiði. Þegar einkaleyfi F.'I. á flugleiðinni rann út ákvað Íslandsflug að hefja flug á þessarri leið með 45 manna ATR flugvél. Verðið skyldi vera það besta sem Ísfirðingar hefðu kynnst. Þetta gekk eftir og verðið lækkaði mjög tilfinnanlega. Um leið lækkaði F.Í. sín fargjöld til samræmis og talað var um verðhrun eða verðstríð. Farþegafjöldi rauk upp, allir gátu nú skroppið suður og heim aftur án þess að verða nánast öreigar af, þökk skyldi Íslandsflugi. Að vísu var það svo skrýtið að vél Ísl.flugs flaug nánast tóm leiðina fram og til baka meðan F.'I. fyllti sínar vélar farþegum sem lofuðu Íslandsflug í hástert fyrir það að F.Í. skyldi hafa neyðst til að lækka fargjöldin vegna samkeppninnar. Ósköp var nú þessi samkeppni góð. Aðspurðir um ástæðuna fyrir vali sínu á félagi nefndu sumir farþegar óheppilega áætlun Ísl. flugs. (mig minnir að vélin hafi verið á Ísafirði um áttaleytið að morgni). Aðrir vildu aðeins fljúga með vél sem þeir þekktu, en F.Í. hafði þá um árabil eingöngu notað Fokker F-27 vélar til Ísafjarðar..........framh.

Verðstríð. 

Það er dálítið merkilegt við þessi verðstríð sem við sjáum öðru hvoru á bensíni að rót þeirra er ekki alltaf sýnileg og stundum eru þau eins og fyrirfram ákveðnir leikir í taflstöðu olíufélaganna aðeins til þess gerð að hreyfa dálítið við markaðnum. Með tilkomu Atlantsolíu og þeirra bensínsölu er tilurð verðstríðsins öllu sýnilegri. Orkan lækkaði undir verð AO sem nam 20 aurum, og býður þar með lægsta verðið. Síðan er eftir að sjá hvort neytendur fatta djókið: það er jú AO sem í rauninni er að lækka verðið á markaðnum. Það er þeirra innkoma sem var hvati verðlækkana annarra seljenda. Það segir því sig sjálft að með því að versla á lægsta verðinu eru neytendur í raun að skjóta sig í fótinn: Ef Orkunni tekst með sínum 20 aurum að þreyta AO út af markaðnum skyldi enginn halda annað en bensínverðið tæki stökk uppávið strax þar á eftir. Þannig hlýtur raunverulegasta kjarabótin að vera sú að versla á næstlægsta verðinu, hjá þeim aðila sem raunverulega heldur niðri bensínverði hinna. Að vísu geldur AO að einhverju leyti slakrar smásöluaðstöðu en gera má ráð fyrir fleiri útsölustöðvum innan langs tíma ef salan sýnir sig standa undir væntingum.

föstudagur, janúar 09, 2004

Handónýtt Idol. 

Ég er ósáttur við úrslitin í kvöld og hananú! Ég er sáttur við grindvíska sjóarann sem hefur sýnt að hann getur eitt og annað. Jón Kringlu-Símaverslunarstjóri virðist hafa níu líf í keppninni og getur sungið þokkalega með sinni sérkennilegu rödd þótt fjölhæfnina vanti kannski. En að kjósa út Ardísi Ólöfu, stúlku sem virkilega getur sungið, og það vel - það er ofvaxið mínum skilningi. Litla akureyrska lukkutröllið getur vel sungið, jú, en hennar tími er bara ekki kominn frekar en Jóhönnu forðum. Röddin hefur nú í fjögur sl . skipti brugðist henni og hún hefur því ekki komist vandræðalaust í gegnum heilt lag sem hlýtur að vera alvarlegt vandamál. Enginn efast um hæfileika hennar. Þeir eru ótvíræðir. Röddin er frábær en notkuninni og þroskanum er ábótavant. Þessir hlutir munu eflaust lagast með tímanum en að hún skuli vera í þeim þriggja manna hópi sem keppir til úrslita,ja- það segir okkur það eitt að þjóðarsálin er óútreiknanleg. Sem skilur okkur aftur eftir með þá hugsun að Anna Katrín gæti allt eins unnið keppnina. Og þegar keppandi sem hefur í fjögur skipti hnökrað fær möguleika til þess í fimmta sinn - þá er eitthvað mikið að. Þá er keppnin farin að snúast um eitthvað annað en sönggetu.

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Viðbót við niðurlag (!) 

Skýringin á því hvers vegna ég var einn á ferð í þetta skipti ( ef einhver veltir því fyrir sér) er sú að skólarnir voru byrjaðir og börnin áttu því ekki heimangengt. Konan var heima raunar af sömu ástæðu auk þess sem hennar sumarfríi var lokið. Það er oft ágætt að ferðast einn en í þetta skipti saknaði ég félagsskapar sárlega því það vantaði einhvern til að deila þessarri upplifun með. Ég hef ákveðið að bjóða fjölskyldunni flugleiðis frá Akureyri til Grímseyjar einhverntíma við hentugleika því 2 x 3 1/2 klst sjóferð á ekki við hana!

mánudagur, janúar 05, 2004

Grímsey, niðurlag. 

Það var annars eitt sem ég ætlaði að nefna að lokum. Við komuna um borð í ferjuna Sævar í Dalvíkurhöfn tók ég eftir því að aðgengi að farþegasalnum var af gangi um tvennar stáldyr,vatnsheldar,sem nánast lágu þétt saman. Aftur úr salnum var síðan einföld útganga út á efra afturþilfar. Ég spurði skipverja sem þarna var um þennan dyraumbúnað og hann benti mér á skilti þar sem tiltekinn var leyfilegur farþegafjöldi skipsins. Flytja mátti um 60-80 farþega að sumri, minnir mig, en aðeins 10-12 að vetri. Þannig var að farþegarýmið er í heilu lagi híft af skipinu þegar haustar og ferðamönnum fækkar, enda byggt eins og stór járnkassi með gluggum og sætum. Fæst þannig minni yfirvigt á skipið auk minni vindmótstöðu í slæmum vetrarveðrum. Vatnsþéttar stálhurðir eru síðan á báðum endum farþegarýmisins en á skipinu einar dyr af gangi aftur á efra dekk. Þegar vorar er farþ. rýmið síðan híft á aftur og gangdyr skipsins og fremri dyr farþ.klefans mætast í einum! Þetta fannst mér mikil verkfræði: að sleppa því að burðast með klettþungan, háreistan og - galtóman farþegaklefa yfir hörðustu vetrarmánuðina. Þetta skip er,að ég held, íslensk hönnun og smíði.

Grímsey, 10.hl. 

Ég vaknaði morguninn eftir við kliðinn í börnunum sem voru að hópast í skólann. Ég hafði nefnilega í hugsunarleysi valið mér þann svefnstað á tjaldsvæðinu sem næstur var skólalóðinni! Það var annars ágætt að vakna snemma því sundlaugin þeirra Dalvíkinga var (og er) þarna rétt hjá, nýtt og glæsilegt mannvirki, og heitu pottarnir kjörnir til að slá á þreytuverkina og strengina sem enn voru í fótunum. Ég nýtti mér þessa fínu aðstöðu og dreif mig síðan af stað suður á bóginn. Á Öxnadalnum var farið að hellirigna og hélst það veður allt í Húnaþingið. Þar var heldur skárra en skrokkurinn var farinn að kalla á heitan pott aftur svo ég renndi út á Hvammstanga og í sundlaugina þar. Fín laug með 2 heitum pottum sem mýktu gönguvöðvana til mikilla muna. Kvaddi Hvammstanga eftir u.þ.b. hálfan annan tíma. Aftur fór að rigna í Hrútafirðinum og hvessa að auki. Það var því sannkallað skítaveður þegar ég renndi inn í Borgarnes, komið að kvöldmatartíma og ég mátti til að kíkja í sundlaugina undir lokun, þá þriðju þann daginn. Smá sundsprettur og hálftími í pottunum bjargaði kvöldinu og ég var kominn til félaganna í veiðihúsinu við Álftá á Mýrum um kl. 21. Þar með lauk frábærri ferð.

sunnudagur, janúar 04, 2004

Grímsey, 9.hl. 

Á landleiðinni var komin nokkur gola og ylgja í sjóinn auk þokubakka við landið svo ég naut þess að hola mér niður í bekk inni í farþegarýminu og leyfa gönguþreytunni að yfirtaka skrokkinn. Dagurinn hafði verið frábær í alla staði, veðrið leikið við okkur og nú sá fyrir endann á góðri ferð. Þegar stutt var eftir til lands brá ég mér upp í brú og spjallaði aðeins við stýrimanninn. Fékk þar staðfest það sem mig minnti um Gjögurtárvitann og sprenginguna þar um árið. Við tókum svo land á Dalvík rétt fyrir kl. 21 og Járntjaldið beið ofan bryggjunnar eftir ferðalangnum. Þar var einnig lítil rúta sem flutti hluta ferðafólksins til Akureyrar, þaðan sem það hafði komið á sama hátt um morguninn. Ég dróst með farangurinn upp að Járntjaldinu, hef líklega aldrei, hvorki fyrr né síðar verð jafn þreyttur í fótunum. Uppi á tjaldsvæðinu voru sömu rólegheitin og fyrr, enda mánudagskvöld í lok ferðamannatímans og frekar fáir á þvælingi. Grillið var drifið upp og grillaðar pylsur í síðbúinn kvöldverð, ábótin sterkt kaffi og "meððí". Um kl.22 var deginum lokið, skriðið undir feld og steinlegið til næsta morguns.

fimmtudagur, janúar 01, 2004

Grímsey, 8.hl. 

Tíminn var farinn að styttast svo ég gekk áfram fram hjá Miðgörðum, Sveinagörðum og fleiri húsum sem höfðu hvert sitt nafn. Úti undir vitanum stóðu undirstöður gamallar vindrafstöðvar, nokkuð sem sennilega hefur einhverntíma gefið birtu og yl en var nú aðeins beinagrind. Við vitann snéri ég við, enda ekki lengra komist í þá átt. Rösklega mátti ganga til baka, því tíminn var að renna út, skipið átti að stoppa 3 tíma í eynni en með aðlögn,landgangi og fleiru var sýnt að nýtanlegur tími yrði ekki meira en 2 1/2 klst. Auk þess var betra að vera kominn tímanlega um borð fyrir brottför. Það stóðst á endum að þegar ég náði til baka út að versluninni gall við flaut frá skipinu. Það mátti því hafa hraðar hendur við að taka saman farangur sem ég hafði skilið þar eftir til að létta mér síðari hluta göngunnar, og drífa sig til skips. Nákvæmlega 3 klst. eftir að stefni snerti bryggju var bakkað frá! Það virtist reyndar ekki vera pláss fyrir þetta stóra skip að snúa við inni í höfninni en það gekk nú samt. Það var fyrst þegar skuturinn snéri til lands og síðustu myndirnar höfðu verið teknar, að ég fann fyrir þreytunni í fótunum. (framh)

Grímsey, 7.hl. 

Samt minnist ég þess ekki að hafa heyrt að lambakjöt í Grímsey sé verra en annarsstaðar, en þar má líka ráða að Grímseyingar flytja væntanlega ekki "út" lambakjöt, heldur einungis fiskafurðir. Þegar gengið hafði verið með klettabeltinu meðfram ströndinni u.þ.b. hálfa eyjuna beygði stígurinn niður að þorpinu aftur, eins og kortið hafði bent til. Var þar komið niður í kjarna byggðarinnar og að skiltunum aftur. Rétt þar hjá var eina matvöruverslun eyjarinnar og tilvalið að fá sér næringu fyrir gönguna útí vitann. Eftir smástopp með kóki og prins var ekki til setunnar boðið, tíminn leið og skipið beið. Gangan meðfram byggðinni var eftirminnileg. Húsin sem fyrr segir að mestu í tvöfaldri röð, en ein aðalgata og frá henni stígar upp að bakhúsunum. Við þessa aðalgötu stóð samkomuhúsið og skólinn, snyrtileg bygging og vel við haldið. Stutt frá var kirkjan, stór, falleg og ekki síður vel við haldið en öðrum húsum, sem undantekningalaust voru hvert öðru snyrtilegra. Kirkjan var ólæst og ég mátti til að kíkja inn. Ég gekk upp stigann upp í turninn og naut útsýnisins yfir byggðina og Grímseyjarsundið, ógleymanlegt í svona veðri.

Grímsey, 6.hl. 

Ég valdi einnig þá leið. Fyrsti viðkomustaðurinn var flugstöðin, reisulegt hús og vel við haldið. Þar mátti ég til að fækka yfirhöfnum og troða í bakpokann, slíkt var veðrið að ómögulegt var að klæðast yfirhöfnum. Á bolnum einum var arkað af stað aftur og nú meðfram klettabelti sem fór hækkandi er lengra dró. Geysilega mikið var af fugli í bjarginu, margar tegundir og hávaðinn eftir því. Göngustígurinn var vel markaður litlum veifum, en einnig af sporum þeirra sem árum saman hafa gengið þessa leið, jafnt tví-sem ferfætlingum og var á köflum svo djúp rönd mörkuð niður í svörðinn að nam við miðjan legg! Á norðvesturhorni eyjarinnar, sem virtist jafnframt vera einn hæsti hlutinn, var eins konar tindur, talsverð brekka upp,grasigróin en er upp var komið var lóðrétt standberg í sjó. Þessi staður minnti einna helst á smækkaða mynd af Hornbjargi. Áfram gengum við eftir bjargbrúninni til suðausturs,allsstaðar var þverhnípi utan einnar mjórrar skoru í brúnina sem virtist ná alla leið niður í fjöru. Nokkrum kindum mættum við á göngunni og miðað við grassprettuna þarna hafa þær engan skort liðið. Þó má kannski nefna að líklega er aðaláburðurinn þarna fuglaskítur og hann er kannski ekki það allra heilnæmasta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?