<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

laugardagur, nóvember 29, 2003

Vetrarsamgöngur. 4 kafli. 

Með tilkomu sjálfvirkra athugunarstöðva á fjallvegum, ljósaskilta við rætur þeirra sem stöðugt uppfæra tölur um hita og vindstyrk, og netupplýsinga á heimasíðu Vegagerðarinnar fást upplýsingar um veður og færð við upphaf ferðalags. Nú vantar það eitt að ferðalangar tileinki sér notkun bestu fáanlegra upplýsinga og hagi ferðum sínum samkvæmt því. Hefði ég semsagt kannað færð á Þorskafjarðarheiði áðurnefnt skipti hefði ég ekki sett fjölskylduna í hættu á vegi sem sannarlega var kolófær öllum nema stærstu jeppum og einungis heppni og góðu veðri að þakka að við sluppum yfir á okkar slyddujeppa á sumardekkjum.

Vetrarsamgöngur. 3. kafli. 

Þó getur auðvitað farið svo að í verstu veðrum verði þessi tæki að stöðva, þá aðallega vegna dimmviðris. Þar með hindrar ekkert snjósöfnun á þjóðvegina sem oft eru kolófærir þegar veðrum slotar. Þá er kallað til það tæki sem ég álít að sé einhver mesta bylting í snjómokstri sem við höfum enn séð - snjóblásarinn. Þetta magnaða tæki sem, þegar fest framan á öfluga hjólaskóflu, ruddist gegnum skafla og skildi eftir sig hreina akbraut. Þar sem fannirnar voru hærri lyfti vélin einungis blásaranum upp og blés snjóstálinu burtu hæðaskipt. Það er oft hrein unun að sjá þetta tæki vinna og bera í huganum saman við gömlu jarðýtuaðferðina. Stór snjóblásari vinnur þannig verk nokkurra jarðýtna í einu og á mun skemmri tíma. Auk þess ferðast hjólaskóflan um langveg með blásarann framan á sér þar sem áður þurfti að ferja ýtur með bílum eða dregnum vélavögnum. Allt þetta - uppbyggðir vegir, bundið slitlag og betri tækjakostur- leiðir til þess að við getum að öllu jöfnu ferðast um allar aðalleiðir landsins að vetrarlagi áhyggjulaust. Þó er fjórða atriðið ótalið. Upplýsingar um veður og færð hafa gjörbreyst síðustu árin.

Vetrarsamgöngur. 2. kafli. 

Þannig voru vestfirðir án vegasambands við aðra landshluta u.þ.b. 8 mánuði ársins. Samgöngur innan fjórðungs sama marki brenndar enda flestar byggðir tengdar með fjallvegum. Reynt var að moka þessa vegi að vori þegar einsýnt þótti að ekki snjóaði frekar en jafnframt áður en frost færi úr jörðu svo að þungar jarðýtur skemmdu síður vegina. Síðan þurfti á hverju vori að yfirfara vegina og lagfæra leysingaskemmdir. Þurfti þá oftar en ekki að ferðast með tæki um langan veg því ekki var til að dreifa vinnuvélum eða vörubílum nema á fáum stöðum. Hraðfara vinnuvélar á gúmmíhjólum voru fáar og því þurfti að flytja ýtur og gröfur til vinnusvæða með vörubílum, oft með afar takmarkaða burðargetu. Vegirnir voru oftar en ekki aðeins ruðningar ofan í landslagið og litu því oft út eins og árfarvegir að vori. Með þróun vinnuvéla ásamt aukinni tækni- og jarðvegsþekkingu hefur tekist að stíga risaskref í framfaraátt á tiltölulega fáum árum. Upphækkaðir vegir á þrautkönnuðum vegstæðum m.t.t. snjóalaga og vindstrengja eru afrakstur þeirrar vinnu. Bundið slitlag á þjóðvegi er enn eitt skrefið. Það hefur gert mönnum kleift að festa snjótennur á öfluga vörubíla og moka þessa þjóðvegi á 60-70 km. hraða, sem aftur þýðir að þeir þeyta snjónum langt útfyrir veg í stað þess að skilja eftir hrygg í kantinum sem síðan vildi skafa af inná veginn aftur ef éljaði. Þetta þýðir ennfremur að með þessum tækjum sem svo fljót eru yfirferðar næst að halda þjóðvegum hreinum af snjó að langmestu leyti.

Vetrarsamgöngur. 1.kafli. 

Fór yfir Þorskafjarðarheiði á dögunum í þungfæru,miklum snjó og aurbleytu. Hefði sennilega verið mun fljótari að fara Steingr. fj. heiði, þurra og malbikaða. Fór þá að velta fyrir mér samgöngum fyrri tíma ásamt þeim tækjum sem notuð voru við snjómokstur. Ég er nógu gamall til að muna þann tíma þegar snjóblásarar voru enn óþekktir hérlendis og vegir einungis mokaðir með jarðýtum - þeir sem á annað borð voru mokaðir yfir veturinn. Vöruflutningar til vestfjarða fóru að mestu fram sjóleiðina en þó voru flutningabílar í ferðum sumarmánuðina, varla þó lengur en 4 mánuði. Sjálfur ferðaðist ég í vörubíl með systur minni og foreldrum 10 ára gamall á leið til Ísafjarðar með búslóðina á bakinu eftir skamma búsetu í Reykjavík dagana 5-6 júní 1967. Á þessum árstíma voru vegir að koma undan snjó, vart færir vegna aurbleytu og hlýindin látin sjá um "snjómoksturinn". Þegar norður fyrir Bjarkalund kom þurfti oftar en einu sinni að keðja bílinn, ekki aðeins vegna skafla á veginum heldur einnig vegna aurbleytuslarka. Á Klettshálsi sökk bíllinn okkar upp að grind í veginn og þurfti aðstoð til að komast upp.( þetta voru tveir vörubílar í samfloti, fyrstu MAN vörubílarnir á Ísafjörð)

Enn bíður... 

Á erfitt með að komast í vélina vegna notkunnar annarra fjölskyldumeðlima og eigin anna. Þetta er samt alveg að koma.

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Væntanlegt.... 

Er búinn að bíða lengi með vangaveltur um vetrarsamgöngur. Er alveg að koma..

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Um gildi kortaveskja í stað minnisbóka. 

Snilldarhugmynd fæðist! - Auðvitað er miklu betra að nota debetkortanóturnar til að skrifa hugmyndir á í stað þess að burðast með vasabók auk kortaveskisins sem alltaf er jú meðferðis. Undarlegt að hafa ekki séð þetta fyrr. Fullkomin nýting á veskinu að nota bakhlið kortanótnanna sem minnismiða! Jahérna, þetta var svo sannarlega góð hugmynd. Hef reyndar í nokkuð langan tíma skrifað símanúmer og þ.h. á nótubökin en gleymt síðan að lesa aftaná þegar tekið var til í veskinu og hent öllu saman. Leysi þetta með því að nýta sérhólf í veskinu fyrir áritaðar nótur. Nú þarf ég bara að muna eftir penna........................................

laugardagur, nóvember 22, 2003

Um gildi minnisbóka. 

Nú er það svo að ekki getur maður munað allar hugljómanir sem maður fær. Kannski versnar minnið svona mikið með aldrinum eða hæfileikinn til að skipuleggja vangavelturnar inn á harða diskinn i höfðinu er að rýrna. Í það minnsta fimm sinnum á dag fæ ég einhverja þá hugdettu sem ég tel tilefni til ritgerðar. Auðvitað mismerkileg efni,eins og gefur að skilja, en samt..... Eitt af því sem mér hefur oft dottið í hug er að verða mér úti um vasabók. Með því móti gæti ég punktað nær samstundis hjá mér þær vangaveltur sem mér þættu umfjöllunarverðar. Þannig gæti ég smám saman myndað hugmyndabanka og gengið í hann eftir hendinni ef einhverju þyrfti að gera sérstök skil og eyða yrði í þessum efnum sem annars alltaf hvíla á manni eða klingja í eyrunum daglega sbr. síðasta pistil. Yfirleitt vantar mann ekki umfjöllunarefni en pennaletin ræður miklu um afköstin þó að nauðsynlegt sé samt að lauma inn efni öðru hvoru svo síðan deyi ekki ( og Jóni Þór fari að leiðast í Danmörku). Þetta með vasabókina tel ég alveg stórgóða hugmynd og svo oft sem hún hefur skotið upp kollinum þá hef ég enn ekki getað munað að kaupa hana!

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

enn framhald 

Í góðu samtali okkar eftir minn reiðilestur kom fram það sem mig hafði grunað: ef skólafólk er ekki búið að temja sér rétt mál strax í æsku er ekkert gert síðar á lífsleiðinni til að laga þær ambögur sem það hefur tamið sér á þroskaferlinum. Málfræðikennslu lýkur í grunnskóla og á efstu stigum háskólanáms er ekki einu sinni gerð krafa til þess að viðkomandi sé sæmilega fær í eigin tungumáli. Þetta er skýringin á því hvers vegna langskólagengið fólk talar í sumum tilfellum jafnvitlaust og börnin á leikskólanum. Það hefur einfaldlega enga frekari kennslu fengið í eigin tungumáli eftir að grunnskóla lauk og er þ.a.l. ennþá á grunnskólastiginu. Örugglega meira um þetta síðar.

framhald 

Þessi tvö síðari dæmi sýna hversu auðvelt þetta er. Ekkert mál! Hitt er svo ekki skárra hvernig foreldrar sem tamið hafa sér þessar kolvitlausu og forljótu beygingar eru heima fyrir að kenna sínum eigin börnum að tala, og fóðra þau beint og óbeint á þessu kjaftæði. Eins og ég nefndi fyrr berst þessi árans þágufallssýki síðan milli barna á leikskólum og börn sem reynt er að kenna sæmilega rétt mál heima fyrir koma bullandi " mér langar" " honum vantar" og "mig hlakkar" eða jafnvel "mér hlakkar" heim úr leikskólanum. Það sem ekki bætir síðan úr skák er að starfsfólk er margt hvert lítið skárra í málfari og lítil von fyrir börnin um leiðréttingu úr þeirri átt. Siðan fylgir þessi meinloka upp í grunnskóla og áfram. Ég hélt sl. vetur stuttan fyrirlestur fyrir kennara yngri dóttur minnar en sú stutta hafði borið heim úr skóla dæmi um málvillur kennarans og var mikið niðri fyrir. Á næsta foreldrafundi fékk ég síðan þetta beint í æð frá kennaranum: "henni vantar meiri æfingu!" Og þetta var kennarinn!!! Hún reyndi að malda í móinn og sagði marga íslenskufræðinga hafa fjallað um þetta efni og teldu það almennt óumflýjanlega þróun málsins. Ég svaraði því til að meðan engum ritreglum eða málfræði hefði verið breytt væri þetta einfaldlega rangt mál! Að halda öðru fram væri einfaldlega uppgjöf og kennurum væri nær að kenna málfræðilega rétt mál í stað þess að loka eyrunum og leiðrétta ekki börnin- auk þess að vanda sitt eigið mál............ enn framhald

....og hana nú! 

Fátt fer meira í mínar fínustu en þágufallssýki. Synd að ekki skuli vera til meðal við henni og væri verðugt verkefni fyrir Kára að finna genið sem veldur þessum kvilla. Sá andskoti fylgir þessari sýki að hún erfist innan fjölskyldna og smitast meðal barna í skólum og á leikskólum. Þágufallssýki er sérstaklega áberandi núna fyrir jólin vegna þess að í nokkrum nýlegum jólalögum (textum) hafa höfundarnir hnotið illilega. Dæmi: ung kona sem ég man ekki hvað heitir syngur í lagi sem ég man ekki heldur nafnið á:(seinni hluti viðlags) ..."það gerist margt á jólunum og okkur hlakkar til/ jibbíjei og komi nú jólin". Þetta finnst mér alveg skelfilegt. Annað dæmi: hljómsveitin Sixties (að ég held) syngur nýjan texta við gamalt jólalag, Jólasveinninn kemur í kvöld: þú veist vel að hann kemur/þig hlakkar alltaf til............hver andsk. er eiginlega að fólki? man enginn eftir laginu Pabbi segir, pabbi segir? "hæ, hæ, ég hlakka til...osfrv. Ha? Ha? Eða laginu hennar Svölu Björgvins, sem mikið er spilað fyrir hver jól- "Ég hlakka svo til/ ég hlakka alltaf svo til...osfrv...................................framhald

laugardagur, nóvember 15, 2003

.....framhald 

Hvergi var betra að leggja trillunni að, hoppa í land og leggjast í grasið með kaffibrúsann og nestið. Njóta gróðurilmsins og hlusta á náttúruna. Rölta um, fylgjast með berjasprettunni, fuglum með unga og jafnvel ( henda netstubb meðfram fjörunni og fanga nokkra silungstitti). Það eru margir staðir við Djúp hreinar náttúruperlur en engan hef ég tekið framyfir þennan. Mun þó sennilega fjalla um nokkra á næstunni og reyna þannig að skrifa mig frá heimþránni.

Um Ytraskarð. 

Fyrir framan mig á borðinu liggja tvær bækur opnar:árbók F.Í. ´94, bls 40 og bókin " Vestfirðir" eftir Hjálmar R. Bárðarson, bls 240. Báðar sýna myndir frá Ytraskarði á Snæfjallaströnd. Á þeim stað gæti ég trúað að maður kæmist næst paradís á jörð. Þetta er einhver fallegasti staður sem ég hef komð á að sumarlagi. Þarna var aðeins eitt býli, Skarð. Löngu farið í eyði og hús horfin. Aðeins mótar fyrir tóftum. Þarna eru engar raflínur, engir símastaurar, engar girðingar. Ekki einu sinni kindaskítur. Sauðfé hefur fækkað svo á svæðinu að þess hluti þess sleppur að mestu við ágang. Sem þýðir jú að gróður vex óheftur og ónagaður. Þarna eru flestar tegundir lággróðurs sem finnast við Djúp. Þar er berjaspretta með ágætum, kristaltærir lækir og hreint loft. Einu hljóðin sem heyrast eru fuglasöngur, öldugjálfur við fjöruna og niður ársprænu sem rennur til sjávar í litlum, grunnum vogi afmörkuðum af stuttri malareyri á aðra hönd og lágum klettarana á hina. Í fjörunni liggur kjölur 15 tonna báts sem þarna bar beinin, báts sem átti sér sögu samtvinnaða hægt deyjandi rækjuveiðum við Djúp. Angan af gróðri í loftinu, hvönnin hefur sinn sérstaka ilm............................framhald.

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Fallegt Ytraskarð. 

Það var jafn fallegt og áður að horfa yfir að Ytraskarði um helgina. Þó að veðrið hafi verið ágætt var ekki mjög bjart í lofti. Dálítið snjóföl á Snæfjallaströndinni, ekkert sem orð var á gerandi. Ég ætla samt ekki að skrifa um Ytraskarð að sinni- það má bíða. Hinsvegar ætla ég að fara nokkrum orðum um starfsmenn Ritsímans/póstsins. Þannig var að meðan við vorum fjarverandi um helgina barst símskeyti stílað á 'Aróru. Þar sem enginn var heima læddi útburðurinn miða innum lúguna. Á honum stóð m.a.: " Enginn var við til að veita skeytinu viðtöku" og neðar:" Þar sem ekki liggja fyrir nein boð um hvert fara skuli með skeytið er það geymt á ritsímanum í Reykjavík..............osfrv." Auðvitað! Hvað maður getur verið vitlaus! Ég á að sjálfsögðu að hafa miða negldan á útidyrnar með áletruninni: "Ef svo ólíklega vill til að hingað berist símskeyti og sé enginn heima til að veita því viðtöku þá vinsamlegast skutlið því til tengdó. Hún tekur við fyrir hönd okkar allra" >Núnú, við hringdum í dag á ritsímann(sem ber út skeyti til kl 22) og létum vita að við yrðum heima í kvöld og tækjum við skeytinu. Kl 20.10 fór konan niður í þvottahús. Liggur þá ekki annar helvítis miði innan við lúguna með árituðum tíma 20.04 !---"Enginn var við til að veita skeytinu viðtöku.......!!! Hvorugt okkar heyrði í dyrabjöllunni sem þó gæti vakið menn upp frá dauðum. Útburðurinn hefur sennilega staðið á þröskuldinum, horft á ljósin í gluggunum, bílana á stæðinu og hlustað á okkur tala saman inni. Hugsað síðan: það er greinilega enginn heima! Skrifað miðann, stungið innum lúguna og hlaupið í burt. Á miðanum var símanúmer ritsímans, 5506905. Ég hringdi strax í það og fékk svarið: "Þetta símanúmer er upptekið. Vinsaml. reynið aftur síðar" Nú, 4 klst síðar er enn þetta sama svar í símanum.............. Er eitthvað að þarna?

laugardagur, nóvember 08, 2003

Enn bíður Ytraskarð. 

Enn liggur leiðin heim á fjörðinn fríða. Í þetta sinn er erindið ferming í fjölskyldunni (osso auðvitað veisla á eftir). Það mun vera fátítt að ferma að hausti en kemur þó fyrir. Því ráða sérstakar aðstæður. Undanfarið hafa skipst á hörðustu vetrarveður og vorrigningar og því á ýmsu von á leiðinni. Þó er vorið ofaná í augnablikinu og því verða sumardekkin undir bílnum enn að sinni. Spáð er rigningu fram í næstu viku svo það er hreint enginn vetur í kortunum enn, sem er jú ágætt. Ég sé að víða er farið að bera á jólaskreytingum verslana, ss. við Smáralindina og á Smáratorginu. Eiginlega full snemmt, finnst mér en hver er ég svo sem að dæma? Þetta gleður börnin og ef börnin gleðjast, er þá ekki tilgangi jólanna náð? .....................við óskum sjálfum okkur góðrar ferðar heim og ennfremur heim aftur.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Ytraskarð. 

Þessi pistill átti að fjalla um Ytraskarð. Síðan sá ég Dorrit í fréttunum sem verndara söfnunarátaks til styrktar stofnun "Sjónarhóls" sem verður ráðgjafarmiðstöð fyrir aðstandendur langveikra barna. 'I fréttinni sat Dorrit á gólfinu og talaði og lék við hóp barna. Í lok fréttar var örstutt viðtal við hana þar sem hún tjáði sig- á vel þokkalegri íslensku! Þá ákvað ég að skrifa ekki um Ytraskarð að sinni. Mikið var ég heillaður af þessari konu. Hún kemur ákaflega vel fyrir, er einstaklega alþýðleg í framkomu og virtist ekki í neinum vandræðum með að ná til barnanna, en leikskólabörn gera sem kunnugt er engan greinarmun á forsetafrú og ræstingakonu ef viðkomandi er á annað borð skemmtilegur. Það er ekki fyrr en við fullorðinsaldurinn að snobbið fer að rugla framkomu fólks illu heilli. Annað sem ég fékk á tilfinninguna: Dorrit hefur gríðarlegt sjálfsöryggi og greinilega sterka sjálfsmynd. Nokkuð sem fer saman hjá fólki sem ekki aðeins er vel menntað heldur einnig vel gefið. Þetta tvennt fer því miður ekki alltaf saman en líklega markar það Dorrit einnig að hún er víðförul og hefur notið samvista við fólk víðsvegar í heiminum sem þekkt er að góðu af verkum sínum. Fátt þroskar fólk meira en samvistir við einstaklinga sem eru þess umkomnir að geta gefið af sér og miðlað af visku og reynslu. Ég held að Íslendingar geti verið ákaflega stoltir af þessari forsetafrú ekki síður en forvera hennar sem að sönnu var stórglæsileg kona bæði í framkomu og útliti. Það var sannarlega ekki allra að feta í fótspor Guðrúnar Katrínar en við megum vel við una. (Ég sleppti því vísvitandi að fjalla um Ólaf Ragnar. Hann er hins vegar Ísfirðingur, sem segir eiginlega allt sem segja þarf)

laugardagur, nóvember 01, 2003

Afsakaðu, 

Jón Þór! Ég er bara svo assgoti latur í kvöld að ég nenni ekki að skrifa neitt. Póstforritið er bilað, þ.a.l. nota ég þessa síðu til að tengja, vitandi að þú ert sá eini sem les. Það er mjög gott að geta í þeirri fullvissu hreytt skít í allt og alla í kringum sig og fengið þannig útrás fyrir innibyrgða reiði og vantrú á mannfólkinu væri maður á annað borð þannig innstilltur. Það er jú enginn sem les þetta nema þú. Allavega hef ég ekki sett upp gestabók eða álitsgjafir því ég vil lifa sæll í minni trú. Fjólan er komin með skoðun ´04, á síðasta degi frestsins. Kikkið sem það gefur er álíka og að standa á lestarsporinu miðju og stökkva síðan frá á síðasta augnabliki. Skrapp í Hveragerði í dag að sækja tengdaforeldrana úr betrunarvist. Hef ákveðið að væla sjálfur út svona dekurvist í nokkrar vikur. Er núna að upphugsa nothæf veikindi. Verst að þurfa að smygla með sér mannamat. Maðurinn lifir jú ekki á káli einu saman. L300 sveif Hellisheiðina eins og engill. Hann er sirka hálfum í einkunn neðar en Caravellan, geldur þar aðallega fyrir styttra nef og snubbóttari hreyfingar. Það vantar í hann þessa limmatilfinningu sem Járntjaldið var svo ríkt af. Að öðru leyti fyrirtaks hrísgrjónabrennari. Eins og ég sagði í upphafi nenni ég því miður ekkert að skrifa í kvöld og býð ykkur Trýnu því góða nótt...............................(úps, ruglaðist aftur,hún heitir Krína. Já, ég veit, ég veit,ég veit.......)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?