<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

miðvikudagur, október 29, 2003

Reiðarslag! 

Fornbókasalan "Gvendur dúllari" hefur hætt bóksölu í kolaportinu! Þetta eru einhver verstu tíðindi síðustu vikna. Ófáar bækurnar hef ég eignast í þessari verslun og ótaldar eru þær ánægjustundir sem þær hafa veitt. T.d hef ég keypt þar smám saman nær allar árbækur F.Í. frá upphafi. Verslunin hafði alltaf sérstakan rekka með ódýrum bókum, 200 kr. uþb. Undir það síðasta lækkuðu þessar bækur í 100 kr.,síðan í 80 kr. og síðast í 50. kr.
Síðustu daga útsölunnar bar ég hvert fangið af öðru fullt af góðum bókum út í bíl. Var svo komið heima við að konan hugleiddi að taka af mér fjárráðin eða að öðrum kosti reka mig með bókaflóðið út í bílskúr. Hvorugt varð úr enda aðeins einn húsbóndi á heimilinu og nú hef ég metersháan bókastafla við hlið hægindastólsins og líklega nóg lesefni út veturinn. Verð vonandi öllu fróðari að vori því bókakosturinn samanstendur aðallega af ferðabókum,æfisögum og ritum um Ísland vítt og breitt. Skáldsögur les ég vart lengur en met því meira allan þjóðlegan fróðleik. Ellimörk?

sunnudagur, október 26, 2003

....framhald: 

Eftir að þessi risi hafði ætt framhjá trillunni í seilingarfjarlægð gerðist...........ekki neitt! Það komu engar öldur! Kaffibollinn við stýrið hjá mér hreyfðist varla! Skipið risti hafflötinn svo jafnt að það kastaði nánast engu frá sér! Eg hef aldrei séð neitt þessu líkt. Þegar ég var gutti og Fagranesið,djúpbáturinn, uþb 140 tonn,(sem nú er í Keflavík og heitir Moby Dick) böðlaðist inn og út Skutulsfjörðinn með hálft hafið á undan sér og hinn helminginn á eftir réri ég stundum á smájullu út á móti því til að fanga það sem við kölluðum "faggabárurnar", heljaröldur sem það kubbslega skip rótaði upp með sinni þrautseigu Listervél. Þetta þrjúþúsundtonna gámaskip hefði á sama mælikvarða átt að gera öldur álíka stórar og Fagranesið sjálft. Það var öðru nær. Gamla sorpeyðingarstöðin á Skarfaskeri stendur á sannkölluðum útsýnispalli yfir djúpið og fáir staðir jafngóðir til að virða fyrir sér umferð skipa og báta um þennan fallegasta stað í heimi sem mér finnst stundum á góðviðrisdögum að Ísafjarðardjúpið hljóti að vera.

Fortíðarþrá? 

Mér hefur alltaf fundist gaman að horfa á fallega smíðuð skip. Sumar fleytur eru nánast fullkomin listaverk meðan aðrar eru til marks um smekkleysi og skort á fegurðarskyni. Því miður eru flest nýleg skip dæmi um hið síðara. Þó ekki öll. Stóru nótaskipin, td. Helga II, Hákon, Pétur Jónsson, sem nú heitir Jóna Eðvalds (held ég) eru ákaflega falleg skip að mínu mati. Einhverjir fallegustu skipsskrokkar sem ég hef séð eru pólsku skuttogararnir sem voru smíðaðir upp úr ´71. Þar má nefna Ögra og Vigra sem dæmi. Einnig Baldur,sem LHG. notaði í 50 mílna þorskastríðinu með góðum árangri. Þá má einnig nefna fyrrverandi varðskipið Þór sem dæmi um ákaflega fallega smíðað skip. Því hefur verið lítill sómi sýndur og grotnar nú niður í Rvk. höfn, sveipað fáránlegum gulllit sem einhverjum datt í hug sem ætlaði að nota skipið fyrir næturklúbb erlendis. Úr því varð ekkert og þetta fallega, sögufræga skip lítur nú út eins og allir rónar höfuðborgarinnar hafi migið yfir það!
Nostalgían er aftur bundin Ísafjarðardjúpinu að venju. Fyrir uþb. 8 árum hafði Eimskip á leigu þýskt skip sem ég man ekki nafnið á en minnir að hafi hér borið nafnið Urriðafoss. Þetta var dæmigert gámaskip, ca 3000 tonn, afturbyggt með háa yfirbyggingu og litla brú. Skipið var hins vegar sannkallaður úlfur í sauðargæru því skrokkurinn var með einhverju fallegasta lagi sem gerist á flutningadalli. Ég gerði mér oft ferð til að sjá þetta skip á siglingu þegar þess var von, og þær voru ófáar ferðirnar sem ég fór út að Skarfaskeri utan við Hnífsdal eingöngu til að sjá skipið koma eða fara hjá á fullri ferð. Það er og verður ógleymanlegt að sjá þennan skrokk á 15-17 mílna siglingu fyrirhafnarlaust. Ég fór líka út á móts við það á trillunni minni til að komast nær og uppgötvaði þá hluta af töfrum þessa skips. ................framhald

fimmtudagur, október 23, 2003

.........framhald.... 

Það er hreint magnað að fara upp á eyjuna og virða fyrir sér búnaðinn sem bændurnir notuðu á árum áður til að komast á sjóinn. Stórt spil í miðju, blakkir sitthvoru megin við niðursprengda klettarennu og aðrar blakkir í skeri beint framaf lendingunni. Kengir í bátnum, tildráttartaug úr stafni til lands, báturinn í landi sjóklár festur við stálvír úr spilinu útí klettinn. Strekkt á vírnum með spilinu, báturinn lyftist með áhöfninni innanborðs, slakað með tildráttarvírnum út yfir brimgarðinn útundir skerið með blakkarfestunni. Þangað kominn, slakað á hífivírnum, báturinn sígur í sjóinn, losað úr kengjunum og róið út fyrir á auðan sjó. Í lok róðrar sama athöfn í öfugri röð, róið undir vírinn, menn í landi slaka hífivírnum með tildráttartauginni á hlaupaketti. Báturinn festur við hífivírinn á kengjunum, tildráttartaugin fest í stafninn. Landmenn strekkja hífivírinn, báturinn lyftist úr sjó ásamt áhöfn og afla, er síðan dreginn inn yfir brimgarðinn upp í gegnum klettarennuna og á þurrt!
Nú er enginn bátur lengur, engir vírar og mannskapurinn löngu horfinn. Eftir standa spil og blakkir sem minnisvarði um ótrúlegt hugvit, og kjarkinn sem þurfti til að nýta það.

Haustið nálgast. 

Þó enn sé tiltölulega milt veður má finna haustið nálgast. Birtutíminn styttist og nýtanlegur hluti frítímans til útiverka minnkar stöðugt. Ég finn þetta vel þar sem ég á talsverðu enn ólokið utandyra af verkum sem ég lofaði konunni að framkvæma þegar ferðasumrinu lyki.
Mér finnst alltaf eitthvað við það á þessum árstíma að fara í ljósaskiptunum upp að Kópavogskirkju og virða fyrir mér Snæfellsjökul bera við himin.(þeas. þegar þannig viðrar) Það þarf ekki alltaf að fara langt til að njóta náttúrunar, en stundum nauðsynlegt að geta útilokað utanaðkomandi hávaða, lokað eyrunum og notið útsýnisins án hljóðs. Dagarnir undanfarið hafa verið hver öðrum fallegri en spáin fyrir helgina er öllu síðri eða "hvasst og rigning" Virðist þetta nokkuð kunnugleg helgarspá? Í öllu falli er "afleysingahúsbíllinn" smátt og smátt að taka á sig mynd, búið að hreinsa innréttinguna að mestu og verður vonandi fljótlega ferðafær. Mig langar að fara Kaldadalinn meðan veður helst, ég hef aldrei farið þann veg. Einnig langar mig að fara inn á Hengilinn, hitaveituveginn. Langaði að skreppa austur að Dyrhólaey fyrir veturinn en veit ekki hvort ég næ því..................framhald.

þriðjudagur, október 21, 2003

Betri tíð........ 

Þá er einkasonurinn farinn aftur vestur á fjörðinn fríða, helgarfríinu lokið og sestur á skólabekk á ný. Þar með losnaði sæti við tölvuna sem hefur verið upptekin síðan á miðv.dag. Sá í fréttablaðinu að biskupinn hefur loks uppgötvað "Galdrasýninguna á Ströndum" og er tekinn til við að henda í hana skít. Hann ætlar seint að skilja það blessaður að það voru nú einu sinni menn af hans eigin sauðahúsi sem ólu hvað mest á galdra- og draugatrú fyrri alda með glórulausu ofstæki og þröngsýni, og alþýða manna elti merina blinduð af þekkingar(menntunar)skorti og heimóttarskap. Þetta lagðist nú helst fyrir kirkjunnar menn á þeim tíma. Nú vil biskup ekkert við þátt kirkjunnar kannast. Hef eytt kvöldinu í að hreinsa sæti og teppi úr nýja (12 ára) bílnum mínum. Bílinn sjálfan lánaði ég til Keflavíkur í kvöld. Fæ hann vonandi heilan heim. Bergrós er orðin syfjuð, Áróra er horfin út í kvöldið rekin áfram af unglingaveiki og konan er enn á fundi sem átti að standa til kl. 20. Ratar trúlega ekki heim í myrkrinu. Er sjálfur rennblautur eftir sæta- og teppisþvottinn og hyggst nú skipta um föt. Takk.

sunnudagur, október 19, 2003

Til Jóns Þórs: 

Við þetta síðasta er litlu að bæta. Konan sárlasin af flensu en lifir. Er sjálfur alveg eins og síðast. 'Aróra skárri. Sú litla orðin brött. Kötturinn vakandi, en fúll. Bíllinn í lagi en nýi geislaspilarinn bilaði í dag. Vinna á morgun. Rigningarúði. Þoka. Hlýtt. Lítið að gera. Póstforritið bilað, þess vegna er þetta skrifað hér! Góða nótt.

föstudagur, október 17, 2003

Framhald.  

Nú þegar þetta er skrifað hafa báðar dömurnar misst alla vikuna úr skóla. Sú eldri er að skána í fætinum en er að fá flensu í staðinn. Sú litla er enn með hita og trúlega eyrnabólgu. Bíllinn komst í lag í kvöld eftir þrotlausa bilanaleit alla vikuna. Reyndist hafa verið með ónýtt tölvubox. Þar fuku 20 þús. til partasölu. Er sjálfur að verða slappur þrátt fyrir að hafa fengið flensusprautu. Konan hangir saman. Kötturinn sefur.

13 dagur mánaðarins. 

Sl. mánudagur var sá 13. í dagaröð þessa mánaðar. Ég hef löngum haldið því fram að þennan mánaðardag ætti maður helst ekki að fara á fætur heldur eyða deginum með breitt yfir haus. Að morgni sl.mánudags var stelpuskottið mitt orðið lasið. Ég bauðst höfðinglega til að vera heima hjá henni meðan konan sinnti sinni vinnu og eldri daman sækti skóla. Allt gekk vel framan af en um hádegið skrapp ég út í bílskúr og komst að því að hitastýringin þar var biluð og skúrinn kaldur. Konan kom heim úr vinnu kl. 16 og tikynnti að hún væri að fara á fund kl. 17 og til kl. 20. Semsagt, ég hafði klukkutíma til að laga hitastýringuna. Ég hentist út í bíl. Um leið og ég setti í gang bilaði bíllinn. (ég er búinn að eiga þennan bíl í ca. 3 vikur) Ég hljóp yfir í konubílinn og rauk af stað. Tók eftir því á næsta götuhorni að klukkan í bílnum virkaði ekki.(þetta er nýlegur bíll sem hefur hingað til verið vandræðalaus). Vonaðist til að hafa nægan tíma, hélt áfram niður í bæ og keypti stýringuna. Þegar ég kom heim var konan farin af stað gangandi. "Mamma var alveg brjáluð", sagði krílið og grínaði. Ég rauk af stað á eftir konunni. við fórum á mis og ég fann hana ekki. Fór heim. Lagaði stýringuna. Um kl. 19. hringdi sú eldri hálfgrátandi, sagðist hafa hrasað illa á gangstíg, snúið fótinn og gæti ekki gengið. Ég sótti hana, enda enn á konubílnum. Hun var illa meidd. Ég gat ekki farið með hana upp á slysó því ekki gat ég farið frá krílinu sárlösnu. Varð að bíða eftir konunni til kl. 20. Hún fór með þá eldri upp á slysó strax. Ég sinnti þeirri yngri ásamt því að líta á bilaða bílinn. 'Arangurslaust. Svæfði krílið og konan kom heim af slysó kl. 23.30 með þá eldri á tveimur hækjum.........................framhald

miðvikudagur, október 15, 2003

Viðbót. 

Því má bæta við að ekki hef ég heyrt neinn,hvorki biskup né aðra kirkjunnar menn agnúast útí galdrasýninguna á Ströndum. Er þó verið þar að fjalla um hluti af sama meiði og á Stokkseyri.

þriðjudagur, október 14, 2003

Framhald. 

Þetta mun reyndar hafa verið síðasta galdrabrenna á Íslandi. Fyrir henni stóðu kirkjunnar menn og mér vitanlega hefur trúin ekki breyst svo mikið gegnum árin. Menn hafa þó séð út úr þessu svartnætti fáfræði og hindurvitna sem betur fer en skiljanlegt að blessaður biskupinn kveinki sér, minnntur á þá tíma sem kirkjan átti ekki hvað minnstan þátt í að gera svo ógnarlega sem sagan greinir, tíma "myrkurs, hjátrúar, fáfræði,ógnar og ótta."

Sofið vel.

Humm! 

Las á textavarpinu að blessaður biskupinn var í messu á Stokkseyri að agnúast útí nýstofnað "draugasetur" á staðnum. Mun hann hafa talið óviðeigandi þessa upprifjun á tímum "myrkurs, hjátrúar,fáfræði,ógnar og ótta" Það væri miður að einmitt slíkir hlutir virtust selja.
Kannski gleymdi biskupinn því að þjóðtrúin og kristintrúin hafa löngum verið ákaflega samtvinnaðar hér á landi. Mig minnir að það hafi ávallt verið þrautalendingin væru menn þjakaðir af ásókn drauga, að kalla til prest eða komast í kirkju. Var það ekki djákninn á Myrká sem ekki gat nefnt Guðs nafn og sagði því Garún? Það er meiri tenging milli þessara þátta en margan grunar. Að síðustu má nefna að þegar hvað harðast var gengið í að brenna menn fyrir galdra á sautjándu öld voru það kirkjunnar menn sem fóru í fararbroddi þeirra sem sáu galdramenn- og kerlingar í hverju horni, kærðu síðan og brenndu þá sem á einhvern hátt skáru sig úr fjöldanum eða þóttu liggja vel við höggi. Þá var það ekki síst hrein öfund sem réði för. Það var ekki ómerkari maður en séra Jón Magnússon (auknefndur Þumlungur), prestur á Eyri við Skutulsfjörð sem kærði fyrir galdra og lét brenna Kirkjubólsfeðga á ofanverðri sautjándu öld. Getum hefur verið leitt að því að prestur hafi ekki verið heill á geði, en söm var sú gerð því ekki stóð hann einn að málum. Framhald

sunnudagur, október 12, 2003

Framhald. 

Eftir sit ég eins og bjáni, fastur á innri akrein meðan röðin ekur framhjá stefnuljósinu mínu. Vel á minnst- stefnuljós er eitthvað sem ég gæti trúað að sumir ættu erfitt með að slökkva ef þeir rækju sig óvart í rofann, þar sem fæstir virðast yfir höfuð vita um þessi ljós á bílunum. En, semsagt- hvers vegna í ósköpunum tapa ég réttinum þegar út úr hringnum er komið? Hefði ekki verið eðlilegra að ytri akreinin rynni saman við þá innri? Þá hefðu hlutirnir virkað rétt. Ég held að einhversstaðar hafi menn lært yfir sig. Nú, eða þá hreinlega ekki lært. Sem mér finnst líklegra. Í öllu falli finnst mér þessi leið í gegnum Mosó vandrötuð. Ég hef reynt upp á síðkastið að gera eins og hinir í þessum hringtorgum - bara einhvernveginn. Það kemur þokkalega út. Bara haga sér eins og hinir bílstjórarnir, sem mér reyndar sýnist ansi oft hálfráðvilltir þarna. Auglýsi hérmeð eftir námskeið í þessum annarar kynslóðar hringtorgum. Þangað til, eins og sagt var: In Rome you do as the Romans do....................

(og ef einhver skyldi furða sig á þessum eilífu framhöldum: Ef ég skrifa of langa klausu í einu þá detta íslensku stafirnir og broddstafirnir út. Því sendi ég langar klausur í tvennu lagi. Takk)

Hringtorg 

Leiðinlegasti hluti hvers ferðalags er að koma sér út úr bænum ( og sömuleiðis tilbaka). Þetta gildir raunar kannski bara um okkur sem búum á Reykjav.svæðinu. Það er þó illskárra að fara austur fyrir fjall en í norður. Ég get nefnilega ekki skilið hugmyndina á bak við hringtorgin þrjú í Mosó. Ég lærði á sínum tíma að í hringtorgi veldi maður innri hring væri ætlunin að aka framhjá gatnamótum. Ætlaði maður hins vegar út á næstu gatnamótum veldist ytri hringur. Þetta þýðir jú að ætli menn framhjá gatnamótum í ytri hring skulu þeir bíða og hleypa þeirri umferð úr innri hring framhjá sér sem þar vill út. Semsagt: innri hringurinn er að þessu leyti rétthærri þeim ytri,ekki satt?. Nú gerist það í Mósó ( og reyndar við Rauðavatn líka og eflaust víðar) að byggt er hringtorg sem ´bókstaflega lúskrar á þessum reglum sem ég hélt að væru skynsamlegar. Tökum dæmi: Ekið norður í átt að Mosó framhjá Blikastöðum. Við ætlum beint áfram, ekki upp í iðnaðarhverfið og förum því inn í hringtorgið á vinstri akrein og beint í innri hring. Ökum framhjá veginum uppeftir og út á næstu mótum. En hvað gerist? Nokkrum bíllengdum eftir að út er komið endar akreinin og rennur saman við þá ytri. Ég sem fór hringtorgið á nákvæmlega réttan hátt á mínum hægfara húsbíl er tekinn harkalega í rxxsgatið strax og út kemur af frekjum sem nenntu ekki að aka á eftir mér, sömdu í skyndi sína eigin útgáfu af umferðarlögum og fóru kaflann allan í ytri hring. framhald

fimmtudagur, október 09, 2003

Hvað kostar öryggið? 

Bílaumboð auglýsir mikið: " öruggur staður til að vera á ". Á eflaust við að þeirra bílar séu öruggari en aðrir. Veit ekkert um það. Hitt veit ég að ég á einn af smábílum þessa umboðs og sl. vor varð ég var við að í honum var orðinn lélegur stýrisendi. Fyrir aðra en Jón Þór sem kynnu að lesa þetta þá er stýrisendi lítill hlutur sem tengir framhjól við stýrisbúnað. Semsagt afar mikilvægur hlutur ætli menn að geta beygt.(sem er jú allajafna nauðsynlegt). Jújú, "öruggi staðurinn til að vera á" kannaðist við hlutinn- en átti hann því miður ekki til. Svo reyndist einnig vera um aðra varahlutasala sem ég talaði við. Ég athugaði aftur um einum mánuði síðar hjá umboðinu. Hluturinn var kominn og kostaði tæp átta þúsund, takk. Ég gerði smá samanburð og komst að því að áþekkur stýrisendi í aðrar tegundir smábíla kostaði frá 2500-4000 kr. Ég keypti ekki endann. Ég gat ekki gert "örugga staðnum" það til geðs að kaupa öryggið hans á verði sem aðrir salar hlógu að, og gera sjálfan mig þar með að fífli. Nú er verið að kaupa þennan stýrisenda fyrir mig erlendis og ég vona að ég þurfi aldrei framar að heimsækja þetta umboð. Bílinn hyggst ég selja um leið og hann kemst í lag. Þá fyrst verð ég öruggur!

þriðjudagur, október 07, 2003

Þar steinlá´ann! 

Í fréttum í dag var fjallað um niðurstöður enn einnar könnunarinnar um búsetu á landsbyggðinni. Þar kemur fram að meðalaldur íbúa á landsbyggðinni fer hækkandi. Hvað sagði ég? HVAÐ SAGÐI ÉG?. Lesið föstudaginn 3 okt. aftur. Lokum öllum skólum í dreifbýli, eflum öldrunar- og heilbrigðisþjónustu og opnum augun fyrir þróuninni!

mánudagur, október 06, 2003

Þjórsárver. 

Það var afar fallegur dagur, síðasti laugardagur þegar við konan (börnin urðu eftir) lögðum af stað úr Kópavoginum að fél.heimilinu Þjórsárveri til að eyða þar stund með húsbílafélögum í síðustu skipulögðu ferð sumarsins. Flestir höfðu reyndar mætt strax á föstudeginum. Við ókum beint austur að Þjórsárbrú og þaðan niður að Urriðafossi. Þar var hópur húsb.félaga í skoðunarferð og við slógumst í hópinn. Gaman að sjá þennan foss og skrýtið hve hljótt hefur verið um hann. Eyddum síðari hluta dagsins á tjaldsvæðinu við Þjórsárver ásamt 110-120 bílum. Undir kvöldið grilluðum við svínakjöt og kartöflur, svo var kaffi og koníak á eftir. Varðeldur var kl 21 og þar ríkti mikil gleði í blíðunni. Eftir að varðeldi lauk færði hjörðin sig inn í hús þar sem var slegið upp balli með "einsmannshljómsveit", náunga sem ég veit ekki hvaðan kom en kunni þetta allt og stóð sig eins og hetja. Við konan höfðum ekki úthald nema til miðnættis enda í engri skemmtanaæfingu. Fórum í háttinn en vöknuðum um nóttina við hávaðarok og ausandi rigningu. Taldi konan á stundum sína síðustu stund upp runna en hélt þó sönsum eftir þá huggun að " hún hefði sko bara átt að vera með að Tungu í Svínadal um daginn! Þetta væri nú bara andvari miðað við það." Undir morgun dúraði og við sváfum til kl. 9.30 sem er nýtt met. Lögðum af stað heim um kl 11 og ókum um Gaulverjabæ að Stokkseyri. Tókum því rólega og vorum komin í bæinn um kl. 17. Strax hafist handa að gera bílinn geymslukláran og þegar þetta er skrifað er því að ljúka. Takk, ferðafélagar fyrir góða helgi. Góða nótt, Jón Þór og Krína.

Sumri hallar (og lýkur) 

Þá er þessu ferðasumri að ljúka. Það byrjaði seint, fór illa af stað en braggaðist síðan dag frá degi og síðari hlutinn leið vandræðalaust. Þar er aðallega átt við nýja húsbílinn sem á tvítugsafmælinu gekk í endurnýjun lífdaga sem ferðaapparat eftir að hafa marga fjöruna sopið sem rúta. Á þessum aldri bíls býst maður ekki við barnakvillum en líklega eru þeir alltaf væntanlegir eftir langar stöður og notkunarleysi. Við fengum okkar skerf og vel það, og vorum á tímabili í sumar að hugsa um að henda bílnum, taka tapinu og hætta þessu húsbílsrugli. Tókum á þolinmæðinni og fengum margfalt til baka í bíl sem nú svínvirkar og getur varla verið betur heppnaður. Enn höfum við ekkert rekist á sem við hefðum viljað hafa öðruvísi og hönnun innréttinganna sem er innblásin af Guðmundi Jónssyni á Selfossi hefur fullkomlega gengið upp. Svo skemmtilega vildi til að í Þjórsárveri um síðustu helgi vorum við næst öðrum Toyota Coaster, fallegum bíl, tveimur árum nýrri, frá Selfossi. Við litum inn í hann og hann reyndist vera innréttaður í höfuðdráttum eins og okkar bíll. Eigendur hans voru enda afar ánægðir með vagninn.

sunnudagur, október 05, 2003

Haf biðlund!  

Bið þennan eina sem ég veit fyrir víst að les þetta að hafa biðlund. Ég er rétt kominn heim úr síðustu ferð sumarsins og hef eytt öllu kvöldinu í að tæma bílinn og gera geymslukláran. Bæti úr annað kvöld. Takk og góða nótt.

föstudagur, október 03, 2003

Framhald. 

Í þessum tilfellum þykir mér rökrétt að álykta að þeir staðir verði þá helst fyrir valinu sem hafa uppá að bjóða góða heilbrigðisþjónustu en ætla má að þessi aldurshópur borgara hafi einna helst not fyrir hana af opinberri þjónustu. Því mætti spyrja: Fyrst það hefur verið tekið sem heilög sannindi að ungt fólk á landsbyggðinni vilji úr landi, gætum við þá ekki skorið niður í framhaldsskólum í dreifbýlinu? Unga fólkið fer jú flest suður í háskólann hvort sem er. Þeir einstaklingar sem hafa viljað mennta sig hafa sjálfkrafa fluzt suður. Aðeins á síðustu árum hefur háskólastig verið starfrækt á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Það virðist ekki hafa dugað, skv. umræddri könnun. Það fólk sem ég nefndi sem framtíðaríbúa dreifbýlisins mun hvorki nota leikskóla, grunnskóla né framhaldsskóla. Það mun þurfa góða heilbrigðisþjónustu. Hún er til staðar víðast hvar. Það mun þurfa góðar samgöngur. Þær eru stöðugt að batna. Það mun vilja góðar verslanir. Það hangir saman við samgöngurnar. Skyldi okkar Flórída verða á landsbyggðinni í framtíðinni? Eitt er víst, og það get ég sagt hverjum sem heyra vill: Þegar við hjónin komumst á besta aldurinn munum við yfirgefa borgina og flytjast á einhvern Stokkseyrarbakkann þar sem við munum njóta seinnihlutans!

Unga fólkið og landsbyggðin. 

Fyrir framan mig er DV í dag. Bls.10. Grein eftir Geir R. Andersen blaðamann. Þar veltir hann fyrir sér nýlegri könnun sem leiddi í ljós að ungt fólk á landsbyggðinni vill frekar flytja beint til útlanda en á höfuðborgarsvæðið. Geir spyr hvort öll uppbyggingin á höfuðb. svæðinu sé óþörf, það muni s.s. vanta fólk í þessi nýbyggðu hús og jafnvel verði þau fyllt af innflytjendum. Að sama skapi sé sýnt að öll afbrigði byggðastefnu hafi beðið skipbrot fyrst að þessi sé niðurstaða könnunarinnar. Svo kemur gullkornið: "Í raun ber stjórnvöldum að gera ítarlega úttekt á því hvort sú sé raunin - að fólk hafi ekki hug á að búa í íslensku dreifbýli öllu lengur, og þá sömuleiðis hvort það sjái sér ekki heldur neinn akk í því að setjast að í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Ekki einu sinni í Reykjavík"
Jamm. Mig grunar að í dreifbýlinu búi fleiri - langtum fleiri - en bara ungt fólk. Þarna gleymir G.R.A. öllu því fólki, fullorðnu,miðaldra og uppúr sem engan hug hefur á því að flytja. Hvorki til Reykjavíkur né neitt annað. Það þýðir ekki endalok landsbyggðarinnar þó ungt fólk vilji flytja til útlanda. Mig langar að sjá samskonar könnun gerða hér fyrir sunnan. Hversu margt ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu vill gjarnan flytja til útlanda? Ég bendi á að talsverður hópur fólks, miðaldra og yfir hefur á hverju ári fluzt út á land. Hvers vegna? Jú, til að sækjast í meiri rólegheit, taka við þeim störfum sem unga fólkið vill ekki sinna vegna launakjara, nálgast náttúruna, hverfa til uppeldisstöðva og síðan trúlega stærsta ástæðan: fólk er að selja tiltölulega verðmiklar eignir á höfuðborgarsvæðinu, losa fjármagn, kaupa ódýrari eignir á landsbyggðinni og skapa sér með því fjárhagslegt öryggi á efri árum. framhald

miðvikudagur, október 01, 2003

KA-BÚMM.......... eða næstum því! 

Þegar okkar maður var að búast til svefns í ferðabílnum síðastl. laugard.kvöld á kirkjuplaninu í Stykkishólmi (bestu sjónvarpsskilyrðin voru þar) var það að venju eitt síðasta verkið að taka ruslapokann úr grindinni, loka honum og koma útfyrir. Þannig hagar til að gasmiðstöðin, sem er lokaður þilofn, (margumrædd og löngu orðin fræg að endemum fyrir dynti) er framan á ruslaskápnum og felld inní hann. Þess vegna vill hitna í ruslapokanum sé hann skilinn eftir yfir nótt í skápnum. Sem ég teygði hendina inn í skápinn kom ég óvart við gaskranana sem deila gasi á miðstöð/eldavél - og brenndi mig! Í smíðinni lagði ég gaslagnirnar uþb. 7-8 cm ofan við miðstöðina, á skápþilið innanvert. Mig grunaði ekki að ofninn myndi hita svona út frá sér. Hafði þó orðið var við að vaskurinn var alltaf vel heitur eftir að lengi hafði logað í miðstöðinni. Þarna varð ég semsagt óþyrmilega var við mistök sem hefðu getað dregið dilk á eftir sér því slöngurnar voru logheitar líka og mjúkar. Hefði ekki þurft mikið til að samskeyti færu að leka og þá hefði ekki verið gott að vera sofandi afturí. Með hálfum huga galopnaði ég skápinn og stillti ofninn á minnsta loga. Lagnirnar kólnuðu von bráðar en voru þó alltaf vel volgar. Gat ekki hugsað mér annað en að breyta þessu strax og lauk við það í kvöld. En svona er ég búinn að keyra miðstöðina í allt sumar, meira og minna á fullu! Skyldi einhver þarna uppi passa svona vitleysinga? (og börnin þeirra) ---- Þjórsárver fyrir stafni .... góða nótt!

EN NÚ ER HINS VEGAR ANNAR DAGUR 

Þú þarna sem tókst mynd af mér á Nýbýlaveginum í gær! Eflaust ertu hróðugur að hafa náð á mynd einum fjandans ökuníðingnum enn á u.þ.b. 60-65 km. hraða á vegi þar sem varla er leyfður nema rétt rúmlega gönguhraði. Þegar veturinn kallar ykkur glæpaveiðarana í bæinn aftur eftir að hafa hrellt ökumenn úti á landi yfir sumarið þá verður nú aldeilis veisla. Um að gera að setjast við allar þær þungu umferðargötur þar sem búið er að lækka hámarkshraða niður í 30-50 km.á klst. (sbr.Álfhólsveginn) og sauma að mönnum sem reyna að forðast það eitt að ekið verði aftan á þá. Að síðustu vil ég benda ykkur myndasmiðum á eitt: Á undan mér í gær var leigubíll sem ók á sama hraða og ég (annars hefði ég væntanlega ekið aftan á hann, ekki satt?).Það er undarlegt þetta þegjandi samkomulag ykkar lögreglunnar og leigubílstjóra. Þeir brjóta umferðarlög eins og þau komi þeim hreint ekki við og þið snúið höfðinu í aðra átt, vegna þess að sé stolið bíl eða eitthvað kemur uppá sem þarfnast leitar getið þið leitað til leigubílstjóra og beðið þá að fylgjast með. Ég get ekki skilið að þetta þegjandi samkomulag hefji menn yfir lög og rétt. Leigubíllinn var á undan mér, á sama hraða en þið biðuð með að mynda þar til hann var farinn hjá! Sannkallaðir "heiðursmenn"

This page is powered by Blogger. Isn't yours?