<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

sunnudagur, október 09, 2005

Frá 20. sept. 

Enn um bækur.

Bókamarkaðir og bókaútsölur virka jafnan á mig eins og auglýsing um frítt dóp myndi virka á dópista. Ég stekk af stað til að reyna að finna eitthvað bitastætt. Stundum tekst það, stundum ekki. Bókamarkaður Eddu í Fellsmúla nú um helgina hljómaði freistandi. Ég hafði að vísu ekki tíma fyrr en á sunnudegi og þá stuttan. Rak strax augun í Íslenska sjávarhætti eftir Lúðvík Kristjánsson, geysimikið rit í fimm bindum sem oft er vitnað til. Hver bók kostaði tvöþúsundkall sem er hreinlega skítur á priki fyrir þetta rit. Ég steig nú samt á skottið á sjálfum mér, fór út og heim, því þar var beðið eftir mér. Ég greip gott tækifæri til að spyrja konuna hvort ekki væri í lagi að ég fjárfesti í bókum fyrir tíuþúsundkall. Hún kvað öll tormerki á því (og er þá viðbrögðum hennar ekki lýst til hins ýtrasta).
Þegar ég svo stuttu síðar rak augun í auglýsingu frá markaðnum þar sem kynntur var opnunartími til kl. 19 var mér öllum lokið. Ég laumaðist út, ók niður í Fellsmúla og fór beint í bókastaflann. Tíni upp bindi nr. 1,2,3 og 5. Númer fjögur fann ég hvergi! Fór að afgreiðsluborðinu og spurði. Nei, því miður virtist fjórða bindið ekki vera til. Raunar var að skilja á afgreiðsludömunni að hún væri orðin þreytt á að svara spurningunni. Ég borgaði fjögur bindi, fékk í kaupbæti einhverja unglingaspennubók og hélt heim í þeirri bjargföstu vissu að ég muni finna fjórða bindið fyrr eða síðar og aukinheldur hefði ég ekki eytt tíuþúsundkalli, heldur aðeins átta-, og gæti því haft þokkalega samvisku gagnvart konunni. Ég hef samt ekki enn þorað að sýna henni bækurnar eða segja henni frá þessum prýðiskaupum. Missið ekki af næsta pistli sem gæti borið yfirskriftina: “48 ára karlmaður á lausu”

Frá 19. sept. 

Sumarlok.

Já, einmitt, nú hef ég sett lokið á sumarið. Ferðabíllinn var tekinn á hús á laugardag og þar með er formlega kominn vetur hjá mér. Það þýðir þó ekki endilega að ég hafi trú á því snjórinn sé á næsta leiti, heldur það að orðið "húsbíll" er hér með tímabundið tekið af dagskrá, ferðaárinu er lokið og nú taka við önnur verkefni. Mig minnir að ég hafi haft það á orði áður að veturinn sé jafnan tveim mánuðum of stuttur og ég er handviss um að svo verður einnig nú. Áhugamálin verða dægrastytting og dægrastyttingin er áhugamál. Trillan er nú væntanleg heim á hlað hvað úr hverju og verður verkefni vetrarins að endurbyggja hana. Ég hef skipt verkinu niður í hluta, eða áfanga og í fyrsta áfanga er vélarniðursetning til prófunar, uppmerking og smíði á nýjum undirstöðum. Þegar lokið verður við þann hluta verður vélin tekin úr aftur og sett í geymslu. Þá tekur við næsti hluti sem er uppskurður á sjálfum bátsskrokknum og borðhækkun um 30 cm, semer gríðarleg hækkun á ekki stærri bát. Gefur mikla möguleika auk þess sem öll yfirbygging samsvarar sér betur séu síðurnar hærri. Kvöldunum er nú að mestu eytt í vangaveltur, mælingar og riss á blöð, -teikningar- er alltof virðulegt heiti yfir það krafs sem ég reyni að búa til og er ætlað til stuðnings verkinu í vetur. Já, ég er nokkuð viss um að þessi vetur verður of stuttur..............

Frá 18. sept. 

Köttur lifandi!

Já, en maður lifandi hvað sérviskan getur verið rótföst! Hann verður að snúa þvert á matarskálina sína (sem er ílangur bakki) meðan hann borðar og ekki öðruvísi. Jafnvel þó búið sé að sýna honum hvað líf með skerm sé auðveldara ef maður bara borðaði frá endanum. Nei, hann skal alltaf snúa sér þvert, og rekur þar með matarskálina á undan sér um allt gólf. Yfirleitt endar ferðin undir miðstöðvarofni þar sem allt situr fast.
Kisi fékk sandkassann sinn aftur í notkun. Hann hefur um alllangt skeið aðeins gert sínar þarfir útivið og hafði ekki snert kassann svo mánuðum skipti. Kassinn var því settur í geymslu, en sóttur þangað vegna tilefnisins. NEI TAKK! Ekkert svona! Út vil ek og engar refjar. Jafnvel þó allir þeir runnar sem áður höfðu þjónað sem náðhús séu nú ókleif björg vegna skermsins og blómabeðin sem gengt hafa sama hlutverki séu honum harðlokuð, þá er samt reynt. Stillt upp með skerminn fastan í greinunum og síðan spólað með afturlöppunum. Ég er nú rétt kominn utan úr garði þar sem ég reyndi að hafa auga með kisa, að skipun konunnar (sem enn gistir úti í bæ). Ég hef sjaldan séð jafnmikla uppgjöf í svip kattarins eisn og nú í þetta sinn. Ég gafst upp, fór inn og settist við tölvuna, til að koma áhyggjum mínum vegna kattarins út til alheims. Á meðan röltir kisi um garðinn, leitandi að runna sem hægt er að létta á sér í. Ég held að andlegt samband okkar hafi beðið stóra hnekki því þegar ég sat við eldhúsborðð áðan kom hann til mín, nuddaði skerminum við mig og var augljóslega að biðja um aðstoð við að losna við óværuna. Nokkuð sem ég get því miður ekki veitt, því hann fer beint í sárið og sleikir. (nú þori ég ekki öðru en að kíkja eftir kettinum- hafið mig afsakaðan!)

Frá 17. sept. 

Dauður köttur.

Við neyddumst til að fara með prinsinn á dýraspítala í gær. Hann hafði orðið fyrir einhverju hnjaski fyrir u.þ.b. viku og var með ljótt bitsár á öðrum bógnum. Við héldum lengi framanaf að sárið myndi gróa og gerðum því ekkert í málinu. Á fimmtudagskvöld var þó orðið sýnt að eitthvað þyrfti að gera því sárið virtist frakar stækka en hitt. Við hringdum því á dýraspítalann í Víðidal, fengum að koma um fimmleytið í gær og kisi var svæfður. Eftir að hafa saumað sárið lagði dýralæknirinn okkur lífsreglurnar og sagði okkur að kötturinn myndi sofa í 1-2 tíma, yrði síðan heldur vankaður þannig að ekki væri annað ráðlegt en að láta hann sofa á gólfinu. Síðan var settur skermur á hálsinn, og haldið heim á leið. Búið um köttinn af mestu alúð, stubban stjanaði við sjúklinginn sem mest hún mátti, má enda ekkert aumt sjá. Kötturinn var hins vegar algerlega út úr heiminum og hreinlega ekkert lífsmark með honum. Þannig hagaði til í gærkvöld að konan þurfti að gista úti í bæ sem barnfóstra fyrir ættingja og stubban fór með henni. Þegar klukkan var rétt að detta í tíu í gærkvöldi hringdi ég í konuna og spurði hvort það gæti verið eðlilegt að kötturinn væri ekki enn farinn að bæra á sér, og þó búinn að sofa í eina fjóra tíma. Konan fékk nánast taugaáfall, bergmálaði allt sem ég sagði henni í símann og ég gat heyrt þá litlu byrja að snökta á bakvið. Konan bað mig að hringja hið snarasta á næturvakt dýraspítalans og las upp fyrir mig í símann þau lyf sem kisi hafði fengið og magn þeirra. Ég gegndi, og fyrir svörum varð vingjarnleg kona. Ég gat nærri því heyrt hana brosa í símann þegar ég nefndi þetta með "einn til tvo tíma" "Neinei, kötturinn sefur trúlega fram eftir nóttu, því lengur.því betra. Ekki reyna að gefa honum vatn eða neitt annað, hann bara jafnar sig". Ég þakkaði konunni fyrir, hringdi í mína eigin og lét hana vita svörin. Nákvæmlega á því augnabliki sýndi kötturinn lífsmark, og ældi lifur og lungum upp í skerminn. Ég kvaddi konu og stubbu hið snarasta og tók til, ásamt eldri dótturinni (sem er hinn raunverulegi eigandi kattarins) við að hreinsa skerminn og annað sem hægt var. Þegar sagan endurtók sig var ekki annað að gera en að fjarlægja skerminn enda var kötturinn áfram eins og dauður milli uppkastanna. Hann var síðan lagður til hvílu inni á baðherbergi þegar aðrir heimilismenn gengu til náða.
Ég vaknaði að vanda til útburðar rétt fyrir sex í morgun. Með hálfum huga leit ég inn á baðherbergi til að athuga hvernig kettinum hefði reitt af. Það reyndist tómt! Glugginn var galopinn og ég bölvaði sjálfum mér fyrir aulaháttinn. Kötturinn hafði margoft leikið það að fara út um baðherbergisgluggann, út á dyraskyggnið og hoppa þaðan niður á jörð með því að stíga niður á húsnúmerið! En hvernig hafði hafði honum reitt af í þetta sinn, snarvönkuðum? Með hálfum huga gáði ég út á stétt. Enginn köttur dauður þar. Hann hafði þá í það minnsta komist lifandi niður. Ég "kiskis-"aði litla stund við húsið. Það dugði. Kom ekki kisi undan bíl, hálf aumlegur og greinilega alls ekki búinn að jafna sig á svæfingunni. Ég tók hann upp, fór inn og leit á sárið. Til allrar hamingju var það óhreyft. Ég setti á hann skerminn,því í sárið mátti hann ekki ná, og lokaði hann svo aftur inni á baði. Fór og bar út í eitt hverfi. Þegar ég kom heim aftur leit ég inn á bað. Hann hafði ekki ætlað að gefast upp. Búinn að rífa niður gardínuna og moka öllu sem í glugganum var niður í baðker, enda eins og stjórnlaus skriðdreki með þennan bannsetta skerm. Ég lagaði til aftur og fór í seinni útburðinn. Þegar heim kom virtist kötturinn hafa fundið það út að ég væri undirrót allra hans vandræða, og flýr mig nú. Vill ekkert af mér vita en situr við útidyrnar og vælir látlaust.

Frá 14. sept. 

Seiseisei.....

Sem ég kíki hér inn nú rétt fyrir vinnu (en eftir útburð), blasir þá ekki við mér talan 1000 í teljaranum. Það átti þá fyrir mér að liggja að vera þúsundasti gesturinn sjálfur. Kannski ekki undarlegt í því ljósi að líklega á ég 15- 25% heimsóknanna sjálfur. Njótið vitleysunnar!
Vil svo bæta því við að nokkuð aldurhniginn kunningi minn og fyrrum vinnufélagi hjá Vélsm. Þór h/f á Ísafirði kenndi mér eitt sinn smá lexíu. Hann hefur auðsöfnun að áhugamáli, fer enda vel með peninga og er nú á efri árum með efnaðari mönnum vestra. Lexían var einföld. Hann sagði: "Teddi minn, fyrsta milljónin er erfiðust. Eftir það draga þær hver aðra að og sá sem getur safnað milljón, hann hefur lært aðspara"
Þetta var á þeim tíma þegar milljónin var allmiklu meira en nú er. Ekkert læt ég uppi um hvernig mér hefur gagnast lexían en nú, þegar ég hef náð þúsund heimsóknum á síðuna vil ég trúa því að framhaldið verði auðveldara og hér eftir muni teljarinn snúast hraðar en hingað til.
Það er svo aftur spurning hvort aukinn fjöldi lesenda bæti efnið. Þegar menn sjá að heimsóknum fjölgar og beðið er eftir nýjum pistli, myndast þá e.t.v. þrýstingur á menn að skrifa? Og ef menn eru farnir að skrifa eingöngu til að skrifa er þá ekki verr farið en heima setið ef þeir eru farnir að leita sér að viðfangsefnum til að skrifa um og hreinlega orðin kvöð að bæta inn efni?
Enn sem komið er skrifa ég fyrst og fremst fyrir sjálfan mig, af því að mér finnst það gaman. Á skjali í tölvunni á ég þó nokkrar hugdettur sem ég hef ætlað að stinga niður nokkrum orðum um en gengur illa að komast að þeim fyrir því sem jafnharðan flæðir...........

Frá 13. sept. 

Stundum kaupi ég bækur..........

Jú, ég get svosem alveg viðurkennt það að ég hef gaman af bókum. Ég kaupi talsvert af bókum árlega og síðan hef ég alloft nefnt það bæði við fjölskyldu og vini að henda aldrei bókum nema þá í mig. Mér hafa áskotnast am.k. tvö dánarbú og drjúgur slatti úr því þriðja. Mér er nokk sama hvort uppistaðan er Hemingway eða Teresa Charles. Mest held ég þó upp á ferðabækur, staðfræði ýmisskonar, landafræði, ævisögur og -þætti og síðan árbækur ýmisskonar.
Það ber við að ég heyri þreytutón í konunni. Það er helst þegar mér verður á að skilja eftir mig bækur á stofuborðinu, eða eldhússborðinu. Mig hefur langað til að fjölga bókahillum í íbúðinni en þar sem konan deilir ekki áhuga mínum á bókum og telur ekki sömu prýði að þeim og ég hefur ekki orðið af því. Nú sl. vetur brá ég á það ráð að rýma hluta háaloftsins og koma þar fyrir hillum. Þar sem lofthæðin er aðeins rúmur metri þar sem mest er er plássið frekar lítið, en þó betra en ekkert.
Það má oft finna ágætar og eigulegar bækur innan um allt ruslið í Kolaportinu. Þar hefur mér t.d tekist að ná í allar árbækur Ferðafélagsins frá ´28 og fram yfir ´90. Er að vinna í að eignast allar þær nýjustu en það kostar sitt og tekur tíma. Í húsbílnum er sérstakur skápur fyrir Ferðafélagsbækur ásamt skúffu fyrir Atlasblöðin, Íslandskortin hvítu í skala 1:100000. Tæpl. 90 kort spanna landið og góður helmingur þeirra er í bílnum.
Sl. helgi skrapp ég í Kolaportið. Það er ákveðið haustmerki þegar ég fer að fara í Kolaportið, því þangað fer ég ekki að öðru jöfnu yfir sumarið. Þegar ég fer í Kolaportið veit konan að ég kem ekki tómhentur heim og langoftast eru það bækur sem ég eyði í. Nú síðast var tilboð hjá litla kallinum, þið vitið, þessum sem lítur út eins og gyðingur án bænahúfu. Höndlar líka eins og slíkur. Tilboðið hljóðaði uppá eina bók á hundraðkall en tíu bækur á fimmhundruðkall. Ég pældi gegnum allar tilboðsbækurnar og trúið mér, þær voru allnokkrar. Og viti menn, í þessum hundruðum bóka tókst mér að finna tíu sem ég var til í að eiga. Titlarnir? Þeir voru þessir: Harmsaga æfi minnar, saga Jóhannesar Birkiland; Blítt lætur veröldin, eftir Hagalín; Við skulum halda á Skaga, eftir Gunnar M.Magnúss: Bernskunnar strönd, e.Þorvald Sæmundsson; Hvalur fram undan, e. F.T.Bullett; Scotland Yard, e.J.W.Brown; Dularfullu flugslysin, sannsögulegir þættir e. R.Barker; Stríðsminningar l og ll e.Hermann Wouk og Fimmtán gírar áfram e. Indriða G.
Af þessu má sjá að það er eitt og annað sem ratar ofan í pokann og þetta eru kannski ekki allt bókmenntaleg þrekvirki sem maður safnar að sér, heldur frekar það sem fangar athyglina það augnablikið.
Á grunnskólaárunum vestra var ég vanur, þegar heim úr skóla kom, að setjast niður með mjólkurglas, brauðsneið og bók. Síðan var lesið það sem eftir lifði dags fram undir kvöldmat. Öll þau dagblöð sem ég kom höndum yfir, bæjarblöð, tímarit, ársskýrslur, allan fjandann. Þannig las ég allt Alistair MacLean safnið, Hammond Innes, Ingibjörgu Sigurðar, Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Hornstrendingabók, Egyptann (eftir Mika Waltari) ofl.ofl.ofl. Allar stríðsminningar, sjóferðasögur erlendar og innlendar. Sveinn Sæmundsson var í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þá sótti ég sjóferðasögur og ferðabækur á bókasafnið þegar annað þraut.
Þegar eitthvað bar svo á góma í kennslustundum utan venjulegs námsefnis þá vissi viðrinið venjulega allan fjandann sem samnemendurnir höfðu ekki hugmynd um. Þetta orsakaði gjarnan aðhlátur og utansetu en manni fannst það ekki endilega skipta máli, maður var svo sem ekki endilega að leita eftir einhverri viðurkenningu, maður bara vissi hlutina beint og óbeint í gegnum allan þenna óhemju lestur.
Þegar svo kom upp í menntaskóla var maður fastur í því fari að vilja aðeins lesa það sem maður sjálfur valdi. Það gaf því auga leið að þurrt og staglkennt námsefni átti ekki uppá pallborðið þegar Ársskýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa og Brimgnýr og boðaföll voru annars vegar.
Og svo varð maður bifvélavirki.

Frá 12. sept. 

Þegar ég var á Ísafirði um daginn.(hluti 193 af 296, og saxast nú heldur á!)

Já, þá semsagt hitti ég JR á förnum vegi. Þetta var snemma að morgni og bærinn eins og dauðsmannsgröf, enda sunnudagur. Ég var á hjólinu mínu í Fjarðarstrætinu á leið hvert, haldiði? Jú, mikið rétt! Á bryggjuna að kíkja á trillurnar. Húsbíllinn svaf bakvið bílskúrina hans pabba (já ég sagði "bílskúrina" ) og það sama gerðu dömurnar mínar þrjár innan hans. Ég hafði verið svo séður, að fengnum skömmum fyrir skark og hávaða morguninn áður, að taka hjólið niður af hjólagrindinni að kvöldi svo harkið vekti ekki ekki dömurnar þegar ég færi á bryggjuna (því minn blaðberaheili fer mun fyrr í gang að morgni en þeirra). Nú, ég var sem sagt á leið niður Fjarðarstrætið þegar ég mætti JR. Hann var á Yarisnum sínum, skrúfaði niður rúðuna, stakk út úfnu höfðinu og heilsaði. Ég heilsaði á móti, enda alltaf gaman að hitta JR. (í JR vídeói forðum, voru bláu spólurnar alltaf í kommóðu í bakherbergi og aðeins útvaldir fengu aðgang. Þegar maður spurði JR um gæði einhverrar myndar svaraði hann ætíð á sama veg: "þeir segja að hún sé góð". Hann viðurkenndi nefnilega aldrei að horfa á bláar). Nú við semsagt heilsuðumst, við JR, og hann sagði að bragði:"þú átt húsbíl!" Ég játti því. "Ég var nefnilega að kaupa mér húsbíl" sagði JR, svona hálf-feimnislega, eins og honum þætti hann þurfa að biðja mig afsökunar á því. Nú skal ég viðurkenna að ég hafði pata af húsbílnum hans JR áður en ég kom vestur. Ég vissi hins vegar ekki hvaða bíl hann hafði keypt fyrr en ég sá hann. Ég spurði JR hver hefði selt honum bílinn. "Æ, ég man ekkert hvað hann heitir en hann býr í Hafnarfirði, frekar stuttur í annan endann" Nú fór að rifjast upp fyrir mér hver hafði átt þennan aldna bíl sem þó leit þokkalega út. Það var hann þarna Frank Holbæk-Löwenbrau, eða hvað hann heitir, litli snaggaralegi bílasalinn í Hafnarfirði.
(hér má bæta því inní að JR hefur nákvæmlega ekkert vit á bílum og hvað húsbíla snertir veit hann varla hvað snýr fram eða aftur á þeim. Það rýrir þó ekki þekkingu hans á mörgum öðrum sviðum, þar sem hann er betur heima en margur annar)
Það sem JR lá mest á hjarta var að spyrja mig sem húsbílseiganda og bifvélavirkja hvort nokkuð mál væri að setja stærri vél í bílinn. Sjálfur hljómaði hann vongóður og taldi aðgerðina lítið mál. "þeir segja að þetta sé smámál", sagði JR og brá fyrir gamalkunnum tón. Ég spurði hann hvort bíllinn væri fjögurra eða fimm gíra. "Ja", sagði JR, "það er nú það" Hann reyndi að muna með því að hreyfa gírstöngina á Yarisnum sem gekk illa því Yarisinn var sjálfskiptur. "Ég held hann sé fjögurra", var niðurstaðan. Ég sagði honum að þá þyrfti hann líka að skipta um gírkassa og þar sem hann yrði að kaupa bæði vél og kassa í lagi, auk allrar vinnu við ísetninguna yrði heildarkostnaðurinn vart undir 4-500 þúsundum. JR er alls ekki stórvaxinn maður, eiginlega frekar svona þvert á móti. En ég er sannfærður um að ég sá hann lækka nokkuð í bílsætinu við þessar auðsjáanlega slæmu fréttir.
Við ræddum nokkra stund um húsbíla, ferðir og fleira en það var greinilega ekki sami neistinn í samræðunum. Þegar bíll kom aftanað og flautaði var eins og JR vildi grípa tækifærið og slíta þessu samtali sem ekkert hafði fært honum nema vonbrigði. Hann kvaddi stuttlega og hélt leiðar sinnar.
PS. Nú man ég hvað hann heitir, bílasalinn stutti. Hann heitir Frank Höyby Christensen, ekki Löwenbrau!

Frá 10. sept. 

Bilaður teljari?

Teljarinn er augljóslega eitthvað bilaður, því nú sýnir hann 40 heimsóknir frá s.l. miðnætti! Þetta hef ég aldrei séð fyrr.
Hef verið upptekinn í morgun við að skoða fasteignaauglýsingar af landsbyggðinni. Dauðsé nefnilega eftir því að hafa selt húsið mitt á Suðureyri, því þó það hafi til margra ára verið notað sem verkstæði, fyrst trésmiðja og síðan járnsmiðja hjá mér, var það byggt sem íbúðarhús og vegna smæðar þess tiltölulega lítið mál að endurbyggja sem slíkt aftur.
Ég gæti hugsað mér hús á nokkrum stöðum. Efst á óskalistanum er Stykkishólmur. Þar á eftir er tvímælalaust Siglufjörður. Því næst koma staðir eins og Grundarfjörður, Hvammstangi, Sauðárkrókur og Skagaströnd. Mig langaði í hús á Ólafsfirði, Jaðar, eða Aðalgötu 9. Það hús byggði afi minn á sínum tíma og þar fæddist mamma mín. Því hefur verið breytt mikið og er nú verslun, að ég held.
Það hefur gengið hálfilla að finna hentugt hús á réttu verði. Mér liggur svo sem ekkert á. Gríp það rétta þegar það gefst og þegar það hentar. Siglufjörður er eiginlega fulllangt frá Kópavogi, en það er svo sem ekkert óyfirstíganlegt. Ég hafði svo sem komið þangað nokkrum sinnum og fundist fallegt en við kolféllum fyrir staðnum á Pæjumótinu´04. Komum í bæinn í sól og blíðu, fengum strax þessa tilfinningu sem maður fær örsjaldan, svona “heimkomutilfinningu”. Af því ég hafði komið tvisvar, þrisvar áður þá þekkti ég nokkuð “beinabyggingu” bæjarins og vissi nokkurn veginn hvar hvað var. Og þó bærinn hafi heilsað vel þá tók fólkið okkur jafnvel enn betur. Allir þeir bæjarbúar sem við spjölluðum við tóku okkur opnum örmum og leystu úr því sem þurfti að leysa úr. Ég hef áður minnst á tónlistarmanninn á skellinöðrunni, sem endilega vildi að ég prófaði hjólið. Þannig var allt viðmót staðarins.
Ég vil gjarnan meta staði eftir því hvernig er að hafa þar trillu og fell reyndar oft í þá gryfju að bera saman við Ísafjarðardjúpið, sem er óviðjafnanlegt. Allir þessir staðir, Sauðárkrókur, Sigló, Ólafsfjörður og Eyjafjarðarsvæðið uppfylla gerðar kröfur. Þegar vegalengdin að sunnan er metin þrengist þó hringurinn og þar með útilokast t.d. allir Vestfirðirnir, nema Hólmavík. Mig bara langar ekkert til Hólmavíkur. Og svo hefur Siglufjörður eina sérstöðu eftir Pæjumótið ´04: okkur finnst við þekkja alla............................

Frá 9. sept. 

Það hreyfist, það hreyfist......

Líkið er ekki alveg dautt, er reyndar allt að koma til og taka gleði sína á ný. Það fer þó varla hjá því að slík veikindi skilji eftir sig mark á mönnum, móti afstöðu til sumra hluta, breyti afstöðu til annara og komi mönnum til að endurmeta stöðu sína, bæði m.t.t atvinnu og ekki hvað síst fjölskyldunnar og lífsins sjálfs.
Ég hafði sett saman þokkalega minningargrein um sjálfan mig, vitandi að öðrum er vart treystandi til slíks stórvirkis, því þegar tíunda skal afrek manna um ævina er brýn nauðsyn að allt sé rétt og satt sem þar kemur fram. Og hverjum væri þá betur treystandi til þess háttar útlistunar en afreksmanninum sjálfum?
Einhverntíma á ferlinu áttaði ég mig á því að stór hluti þess sem ég hafði ritað niður átti mun betur heima í ævisögu en minningargrein. Hófst ég því handa við ritun endurminninga minna samhliða minningargreininni en reyndi þó hvað ég gat að halda sérkennum hvorra skrifa sem best, illt væri jú ef endurminningar litu út sem minningargrein og öfugt!
Eftir því sem á leið og verkunum miðaði áfram skildist mér tvennt öðru betur: í fyrsta lagi var heilsan öll að lagast og mér fannst dauðinn, sem mér áður fannst svo nálægur, vera að hopa, jafnvel að hverfa frá mér. Í öðru lagi fannst mér bæði minningargreinin og endurminningarnar vera hálf þunnur þrettándi þar sem ég finn nýjar hugmyndir kvikna með degi hverjum og er sannfærður um að afrekaskráin, þó alllöng sé nú þegar, eigi eftir að lengjast um allan helming á komandi árum. Endurminningar mínar yrðu því að vera í tveimur bindum minnst, og þar sem líkur benda til að síðara bindið yrði ritað af einhverjum öðrum yrði óneitanlega nokkur munur á efnistökum bindanna. Til að koma í veg fyrir slíkt hef ég ákveðið að geyma öll minningaskrif um sinn en mun þó íhuga sterklega að taka upp þráðinn ef kvefpest eða önnur viðlíka óværa kann að herja á mig hið annað sinn. Mun ég þá sjálfur sjá um bæði ritun og útgáfu og mun hagnaður af sölu ritsins, eða ritanna, sem væntanlega verður umtalsverður, nýtast fjölskyldu minni til framfæris um alllanga hríð

(þar sem ég hef ekki náð fullri heilsu ennþá má ég nú hvílast og þarf því að henda kettinum úr húsbóndastólnum til að svo megi verða – sjá mynd með síðasta pistli.)

Frá 6. sept. 

Ég finn dauðann nálgast!

Hálsbólga, hiti og beinverkir eru réttur dagsins. Var kominn með særindi í hálsinn þegar veiðiferðinni lauk á sunnudag. Að vestfirskum hetjusið vaknaði ég þó til skylduverka (les:blaðburðar) kl.06 á mánudagsmorgni. Varsvo brattur að því loknu að mér fannst vinnudagurinn framundan brosa við mér en þegar leiðá daginn lét hetjuskapurinn heldur undan síga og það var framlágur bifvélavirki sem ók í hnipri heimleiðis og skreið beint undir sæng. Lá í móki sl. nótt, raunar með hálfgerðu óráði. Ekki vildi konan neitt gera fyrir mig enda hef ég tekið eftir því að konur álíta jafnan veikindi manna sinna að mestu leyti uppgerð, eða aumingjaskap. Fyrst mér tókst að hjara nóttina mátti ég til að skreiðast í útburð í morgun. Í vinnu varð ég að fara því einn vinnufélaginn er í fríi og afar slæmt ef vantar tvo þegar mikið er að gera.
Ekki leist foringjanum á útlit okkar manns og hafði orð þar um. Nefndi koníak (sem ég raunar á til inni í skáp. Af því er til saga sem kemur síðar), toddý (sem ég er ekki alveg viss um hvað er) og sitthvað í þeim dúr. Hann var síðan að gefa mér auga eftir því sem á daginn leið enda illt að missa starfsmann en sýnu verra að missa hann inni á verkstæðisgólfi fyrir framan kúnnana. Þegar klukkuna vantaði korter í sex kom hann til mín og þakkaði mér fyrir að hafa þraukað daginn. Í orðunum mátti greina undirtón sem mátti skilja eitthvað á þennan veg: " og ef við sjáumst ekki að morgni þakka ég þér fyrir vel unnin störf og samhryggist fjölskyldu þinni.
Ég dróst heim, hríðskjálfandi. Konan tók á móti mér með síðustu kvöldmáltíðina, fisk dulbúinn sem eitthvað allt annað. Tókst að skreiðast undir heita sturtu og er þegar þetta er ritað í þykkri peysu berjandi á lyklana mér til hita. Ef ekki sést frá mér stafur næstu tvo daga er ég væntanlega genginn á vit forfeðranna og verður þá fyrsta verkið að koma sér heim að Djúpi og á skak. Kveðja og þökk þeim sem hafa lesið!

Frá 5. sept. 

Lax,lax,lax.

Varla búinn að jafna mig á fögnuðinum yfir að hafa leyst trilluflutninginn svona vandræðalaust þegar aftur var pakkað saman og haldið af stað. Nú skyldi farið í lax, hvorki meira né minna. Hef reyndar áður lýst áhuga mínum (eða áhugaleysi) fyrir þessháttar veiðum. Kýs frekar stórvirkari veiðarfæri og yrði trúlega rekinn úr ánni með skömm ef þær aðferðir sem ég kýs yrðu reyndar. Er hins vegar handviss um árangurinn.
Þar sem fyrirtækið býður í árlega veiðiferð er það til siðs að mæta og horfa á þær hetjur sem tileinkað hafa sér tilburðina búnir græjum uppá tugi þúsunda - jafnvel meira. Þar fer fremstur í flokki okkar guðumlíki foringi, framkvæmda- og verkstjóri verkstæðisins. Fast á hæla hans fylgir eldri sonurinn, sá yngri hefur ekki fallið fyrir veiðiskapnum í sama mæli en telur sig þó fullgildan veiðimann.
Lestina rekum við óbreyttir starfsmenn, lúðarnir sem mæta til veiða í Viking gúmmístígvélum en ekki vöðlum, með gamlar bryggjustengur og nokkra ryðgaða öngla. Í fyrsta skipti sem ég tók þátt í veiðiferð tók ég með mér veiðikistuna úr SÓLÓ, að mestu útbúna fyrir sjóstöng. Þegar dregið hafði úr hlátursöskrunum var ég spurður hver andskotinn þetta hvíta, rauða og gula væri eiginlega! Ég upplýsti menn um að þetta væru handfærakrókar og ekki von að menn sem dútluðu dögum saman við ársprænu fyrir nokkra fiska, ef þá einhverja, kynnu skil á slíku. Fyrirlitningin sem ég mætti var dýpri en nokkuð svarthol, og það var þá sem ég skildi að það má aldrei gera grín að laxveiðimönnum né útbúnaði þeirra. Enda virðist áhugamálið svo grípandi að græjuspádómarnir líkjast helst helgistundum. Það hefur jú hver maður rétt til áhugamáls, ekki satt?
Mér hefur samt fundist að þessar árlegu veiðiferðir , þar sem enginn veiðir neitt nema No.1 og No.2, og endrum og sinnum No.3, vera hálfgerðar græju- og tilburðasýningar tilvaldar til að efla andakt okkar óbreyttra fyrir yfirvaldinu. Þ.a.l. tók ég upp á því 2003 að taka Stubbuna með og fara á ferðabílnum svo við tvö gætum verið útaf fyrir okkur við stangadútlið og þegar gleðskapurinn í veiðikofanum keyrir um þverbak. ( sem stundum vill gerast).
Stubban reyndist miklu harðari veiðimaður en ég. Hún barði ána svo tímunum skipti og skeytti engu þó köstin væru aðeins 4-5 metrar, og pirhanar árinnar hreinsuðu maðkinn af króknum á nokkrum mínútum. Fyrsta árið fórum við heim með öngulinn í rassinum meðan hetjugengið bar með sér 6-7 væna fiska. Í fyrra gekk öllu betur því Stubban setti í einn svona 15-20 cm langan, aðeins korteri áður en veiðitíma lauk. Þar með var þeirri ferð bjargað og með sólskinsbrosi sleppti hún fiskinum aftur sannfærð um að hann biði HENNAR að ári, stór og feitur.
Lánið lék ekki við okkur í ár- þ.e.a.s. okkur Stubbu. Veiðiferðin hófst á föstudagseftirmiðdegi en við létum okkur nægja að mæta á svæðið uppúr hádegi á laugardegi. Fengum strax að heyra magnaðar veiðisögur félaganna og að sjá veiðina sem komin var, þrjá væna fiska. Við tvö mynduðum okkar eigin hóp og tókum til við að berja ána með fornaldargræjunum okkar. Ekki urðum við vör við alvöru fisk en Stubba tók fljótlega til við fyrri ára iðju, að fóðra smælkið á ánamöðkum.
Þegar horfði til loka á sunnudeginum og við vorum enn fisklaus að vanda tókst Stubbunni að setja í eitt seiðið og landa því. Þetta var laxaseiði, u.þ.b. 8-10 cm. að lengd og hlaut samstundis nafnið Laxi. Ekki var við það komandi að sleppa "fiskinum" aftur, heim skyldi hann svo hægt væri að sýna mömmu. Því var í skyndi útbúið fiskabúr úr tveggjalítrakókflösku, skreytt með steinum, mosa, grasi og einum ánamaðki svo Laxi hefði nóg að borða. Á heimleiðinni var "búrið" geymt í eldhúsvaski ferðabílsins og tappinn hafður í, svona sem tvöfalt öryggi.
Fögnuður mömmu var blendinn, en fögnuður kattarins sýnu meiri. Þegar Stubban orðaði það varlega að fá baðkerið lánað smátíma, var henni bent á að baðkerið væri einmitt eign kattarins og hann myndi ekki hika við að leggjast í víking ef von væri á svo góðum og auðfengnum málsverði. Það var því sæst á handlaugina.
Það tók mömmu um tvo tíma að sannfæra Stubbuna um að Laxa væri trúlega best borgið í Elliðaánum. Þar væri rétta ætið og rétti félagsskapurinn. Við lögðum því leið okkar niður að rafstöð í gærkvöldi og slepptum Laxa í lygnan poll. Hann varð frelsinu feginn, synti einn hring og hvarf okkur svo sjónum. Á bakkanum stóð Stubban og veifaði. Hún er nú réttmætur eigandi tveggja fiska sem báðir synda frjálsir og stækka fyrir HANA.

Frá 30. ágúst. 

Nei, ég get ekki sagt að ég hlakki til!

Auðvitað þarf veðurspáin fyrir næstu tvo sólarhringa að hljóða uppá hávaðarok af norðri. Á morgun þegar vinnu lýkur fer ég nefnilega upp að Reykhólum á húsbílnum með stóra kerru frá Húsasmiðjunni í eftirdragi. Ætlunin er að sækja trilluna og reyna að koma henni skammlaust suður. ‘Eg get ekki sagt að ég hlakki beinlínis til. Norðanrok þýðir það eitt að ég verð óhemjutíma á leið uppeftir og gangi það vandræðalaust hjá mér að koma trillunni á kerruna má búast við að hún taki á sig talsverðan vind á suðurleiðinni. Það er þó illskárra að vindurinn ætti að vera í bakið að mestu og gæti því allt eins flýtt fyrir.

Líklega verður ekki hátt á manni risið þegar yfir lýkur því törnin byrjar kl. 6 í fyrramálið með blaðaútburði. Á morgun þarf ég svo að eyða hádeginu í að leigja hentuga kerru. Eftir að vinnu lýkur þarf að sækja kerruna og koma henni aftan í húsbílinn með sérstökum ljósabúnaði þar sem voltatala venjulegra kerruljósa passar ekki við 24ra volta kerfi bílsins. Síðan er ætlunin að leggja strax af stað uppeftir og ég vonst til að ná þangað um miðnættið, jafnvel fyrr. Þá verður strax farið í að draga trilluna upp á kerruna með köðlum og stórri keðjutalíu. Þetta verður líklega erfiðasti hlutinn þar sem ég verð einn á ferð (að venju) og hef bara tvær hendur. Í því veðri sem spáð er verður verkið auk þess ekki auðveldara. Takist svo skammlaust að koma bátnum á kerruna er ætlunin að leggja strax af stað suður og ég vonast til að ná þangað fyrir morgunumferðina á fimmtudeginum. Ferðinni lýkur svo á bátageymslusvæðinu við Kópavogshöfn. Líklega verð ég að keyra Hvalfjörðinn því ég reikna ekki með því að mér verði hleypt niður í göngin með þvílíkan farm.
Ég hef heldur ekki hugmynd um hvort bíllinn getur yfirhöfuð dregið þetta hlass. Það veltur hins vegar á því hvort ég get dregið bátinn milli landshluta í framtíðinni. Hann á eftir að þyngjst um a.m.k. hálft tonn, enda vélarlaus núna. Kerran sem hann mun verða dreginn á í framtíðinni er aftur miklu léttari en vöru-og moldarkerrur Húsasmiðjunnar svo það ætti að vega hvort annað upp. Ferðin er því líka að vissu leyti prófraun á bílinn og ekilinn.
Ég þarf á góðum straumum að halda.......................

Frá 28. ágúst. 

Í hlaðinu heima!

Í Hólminn fórum við og heim komum við með Bayerische Motoren Werke í farteskinu. Tveggja strokka sleggju, þrjátíu hestöfl. Silfurgrá að lit, mun nýrri og betur búin en ég hafði vonað. Held að þessi ferð hafi verið til fjár.
Smá viðbót við síðasta pistil í tilefni kommentsins frá ljóninu siglfirska hér neðar. Það er þannig að þegar áhugamálin verða fleiri en eitt þá verður maður að forgangsraða. Síðan breytir maður forgangsröðinni eftir því hvað manni finnst skemmtilegast, eða best viðeigandi í það og það skiptið.
Trillan hefur alltaf verið í fyrsta sæti. Það var fyrsta áhugamálið og ristir dýpst. Ég er fæddur á sjómannadegi ´57 og kenni því gjarnan um. Í öðru sæti er vélsleðinn. Það áhugamál er nýrra, líklega tilkomið um ´74 þegar ég hóf störf hjá Pósti og síma á Ísaf. Í starfinu fólust m.a ferðir upp í endurvarpsstöðvarnar í fjöllunum kringum bæinn. Vetrarferðirnar voru farnar á vélsleða í eigu Símans og þar kviknaði sú baktería. Í dag á ég Yamaha sleða, gamlan reyndar en ég hef átt hann í ellefu ár. Bílarnir voru áhugamál, jú, en það hefur tekið breytingum með árunum og er ekki jafn brennandi og lengi framanaf. Mótorhjólið er nokkuð sem ég á eftir að endurnýja kynnin við, hef ekki átt slíkt síðan um tvítugt en finn nú fyrir vaxandi áhuga á að fá mér hjól aftur. Eyðibýlaskoðun, ferðalög innanlands á húsbílnum, þvælingur um eyðibyggðirnar í Jökulfjörðum og á Ströndum ásamt endalausum áhuga á öllu sem tengist horfnum atvinnuvegum, verkháttum og atvinnutækjum til sjós og lands. Með nýrri áhugamálum má svo telja bókasöfnun. Ég hef beðið alla mína ættingja að henda aldrei bók annað en í mig. Er nánast búinn að eignast allar ferðafélagsbækurnar frá upphafi og yfir veturinn fer ég um hverja helgi í Kolaportið að skoða bækur
Sem dæmi um mismunandi forgangsröðun má t.d.nefna það að vestur á Ísafirði var trillan að sjálfsögðu númer eitt, tvö og þrjú. Mig hafði langað í húsbíl eftir að hafa prófað tjaldvagn og fundist það liðónýtur búnaður. Húsbíll er hins vegar nokkuð sem illa gagnast fyrir vestan vegna slæmra vega og frekar fárra ferðamöguleika á landi. Þegar við fluttumst suður snerist þetta við. Trilluna tók ég suður og sjósetti til þess eins að sigla tvisvar sinnum út á Hafnarfjörðinn og til baka aftur. Seldi síðan með þeirri bjargföstu sannfæringu að hér vildi ég ekki eiga bát. Ekkert hægt að gera nema veiða fisk sem ekki má selja og ekki vildi ég éta fisk sem alinn er á mannaskít. Það segir sig sjálft að vilji maður sinna jafnmörgum áhugamálum af einhveju gagni þá kostar það sitt. Þess vegna hef ég haft hlutina svona, að marka mér einhverjar krónur sem hægt er með góðri samvisku að setja í fíflaganginn. Þannig er hægt að gera hlutina í sátt við fjölskylduna og tryggja nokkurn veginn að maður eigi fyrir vitleysunni, maður framkvæmir ekki fyrir aura sem ekki eru til.
Það er enn ótalin ein fjáröflunarleið, líklega sú langvirkasta. Um hana skrifaði ég eitt sinn langan pistil sem týndist í innsetningu og andinn kom ekki yfir mig aftur. Það efni bíður því betri tíma.
Bayerische Motoren Werke kostaði þrjátíuþúsundkall með gír og skrúfubúnaði, mælaborði, raflögnum,hljóðkút, haus og hala, hornum og klaufum! Það er u.þ.b. þriggja mánaða útburður. Ætli þessi vél hafi ekki kostað svosem eins og hálfa milljón ný. Ekki myndi ég nenna að bera út blöð fyrir nýrri vél.........................
En nú er eg farinn á bryggjurúnt í Hafnarfirði.

Frá 27. ágúst. 

Holmen- kollen? (eða þannig....)

Hólmurinn kallar! Er á leið í Stykkishólm nú með morgninum. Erindið? Jú, kíkja í kaffi hjá kunningjum og skoða trilluvél sem ég frétti af. ´Ætlaði upphaflega að fara á húsbílnum með stubbunni og með kerruna aftaní en eftir að gamli maðurinn hann pabbi boðaði komu sína til höfuðborgarinnar sl fimmtudag var ákveðið að fara á strumpastrætó að morgni laugardags og koma til baka að kvöldi. Sá gamli er ekki mikið fyrir að gista í húsbíl, en langar að koma með engu að síður.
Þetta er síðasta helgin sem við berum út blöð, a.m.k. sem fastir helgarblaðberar. Unglingurinn er kominn í aðra vinnu með skólanum og afgreiðir nú til skiptis í Korninu Hjallabrekku eða við Borgartún. Reyndar er hún svo stutt í annan endann að hún nær varla upp fyrir búðarborðið en bætir það upp með dugnaði og brosinu sínu óviðjafnanlega. Framvegis mun heimilisfaðirinn einn bera út virka morgna í eitt hverfi. Það er fín heilsurækt, ómissandi hreyfing fyrir letingja eins og mig. Það er alls ekki útilokað að maður rölti eitt og eitt hverfi um helgar í afleysingum, en semsagt, fjölskyldan hefur gefið blaðaútburði langt nef og ég fæ að sitja einn að því sem ég nenni .
Hef tjáð konunni að ég hyggist líta á þær tekjur sem þannig skapast sem "sértekjur". Þær nýtast þá inn á "vitleysisreikninginn" minn, sem er sérreikningur í Sparisjóðnum á Suðureyri, eingöngu notaður til að fjármagna áhugamálin og aðra vitleysu sem mér dettur í hug en kann ekki við að taka af matarpeningunum. Reikningurinn hefur svo verið hlaðinn með hagnaði af allskonar kaupa/sölubraski, orlofsafgöngum, vinnu í ákveðnum lit sem ég má ekki nefna og fleiru þess háttar. Það saxaðist á inneignina þegar ég keypti trilluna og nú er það semsagt vél. Síðan á eftir að koma bátsskrokknum frá Reykhólum og suður. Það verður gert á næstunni og kostar m.a. tveggja daga frí úr vinnu auk leigu á stórri kerru. Síðan á eftir að smíða bátavagn undir skipið. Allt kostar þetta sitt. Það veitir því ekki af að fá greiddar einhverjar krónur fyrir heilsubótargönguna í vetur.
Stykkishólmur, here we come.....................

Frá 24. ágúst. 

Þegar ég var á Ísafirði um daginn. (hluti 76 af 296)

Já, þá semsagt rakst ég á Óla á Gjögri eins og áður hefur komið fram. Hann var þar í hópi annarra Óla á bryggjunni að bíða eftir skipaskoðunarmanni. Óli á Gjögri er eilítið farinn að ryðga í kollinum og því þarf ég að kynna mig fyrir honum upp á nýtt í hvert skipti sem ég kem vestur og hitti hann. Minnið kemur svo smám saman og í þetta skipti spurði han mig hvort spottarnir sem hann splæsti fyrir mig í landfestar á Sóló hefðu nokkuð gefið sig. Ég sagði honum sem oftar að ég væri búinn að selja fyrir allnokkru. Svo datt mér í hug að láta nú reyna á langtímaminni karlsins. Við Steingrímur Kristinsson á Siglufirði höfðum átt nokkur orðaskipti vegna myndar af trillu sem S.K. var með í netalbúmi sínu og ég hafði áhuga fyrir. Trillan hét Hanna og S.K. vissi það síðast að hún hefði verið seld norður á Strandir. Nú skaut ég því á Óla hvot hann vissi nokkuð um Hönnu.
Það var ekki komið að tómum kofanum. Óli vissi að "maður að sunnan" hafði átt Hönnu og róið henni hvert sumar frá Gjögri. Það sem meira væri, hann sagðist eiga í fórum sínum u.þ.b. tuttugu mínútna langa kvikmynd sem gerð hefði verið um bátinn fyrir margt löngu og héti einfaldlega "Hanna frá Gjögri". Óli tók ekki illa í að sýna mér myndina við tækifæri. Það tækifæri kemur nú líklega ekki fyrr en næsta sumar úr þessu, og ef ég er svo heppinn að Óli verði staddur á Ísafirði en ekki á Gjögri, hvar hann eyðir öllum sumrum, mun ég örugglega kynna mig fyrir honum einu sinni enn og herma upp á hann myndasýningu.

Frá 22. ágúst. 

22.08.2005 19:07:39

Gaman að búa í Kópavogi.

Gunnar Birgisson vill ekki flugvöllinn út á Löngusker. Það myndi nefnilega loka höfninni í Kópavogi. Það væri ákaflega slæmt mál ef höfnin í Kópavogi lokaðist. Hún er nefnilega álíka mikilvæg og höfnin á Seltjarnarnesi, hafi einhver séð hana. Að vísu hefur eitt skipafélag aðstöðu í Kópavogshöfn, og þangað kemur lítið flutningaskip sirka einu sinni í viku. Fiskur berst ekki á land í Kópavogi, nema í hjólböruvís, jafnvel fötuvís. Að vísu er fiskverkun úti við smábátahöfnina en mér finnst einhvern veginn að hún flytji mestallan sinn vinnslufisk annarsstaðar frá og þá með bíl. Það þyrfti að leysa þetta með flutningaskipið og kannski gæti Kópavogsbær samið við Hafnarfjörð um leigu á nokkrum metrum af annars ónotuðum kanti fyrir skipafélagið eina.
En svona í öllu meiri alvöru: eftir þeim uppdráttum sem ég hef séð er það ekki flugvöllurinn sjálfur sem loka myndi Kópavogshöfn heldur vegur yfir á Áftanes. Og ef menn telja nauðsyn að beintengja Stór-Hafnarfjarðarsvæðið við flugvöllinn, mætti þá ekki einfaldlega gera göng frá Álftanesinu út á Löngusker? Ég skal m.a.s. stækka bombuna: hvers vegna má flugstöðin sjálf ekki standa á Álftanesinu og síðan færu farþegar með sporvögnum í jarðgöngum út í tengiskýli úti við flugbrautirnar sjálfar á skerjunum?
BINGÓ! Málið leyst! Göng undir siglingaleiðina að höfninni hans Gunnars B. Ekkert vesen! Ja, ekki nema þetta, að mögulega gæti flugvél hlekkst á og farið í innsiglinguna. Við vonum ekki, og gerum ekki ráð fyrir þeim möguleika. Hitt er öllu alvarlegra, ef skip tæki nú upp á því að stranda í innsiglingunni og stórskemmdi eða eyðilegði þannig flugvöllinn! (hér er vísað til pistils með yfirskriftinni "Flugskip" hér að neðan.)
Mér finnst vel athugandi að kanna eignarhaldið á Lönguskerjum. Séu borgarmörk Reykjavíkur Kópavogsmegin við skerin er það enn eitt dæmi um ásælni höfuðborgarinnar í landareignir nágrannasveitarfélaganna. Hver eða hverjir skyldu hafa ákveðið það? Voru það marktækir menn?
Nei, nú er næst í stöðunni að sýna fram á eignarrétt Kópavogs á Lönguskerjum, henda síðan á lofti hugmyndina um flugvöll og ná bisnessnum af borginni! Þeir geta bara byggt sínar blokkir í Vatnsmýrarfenjunum utanum mussuliðið í háskólunum sem fer ört fjölgandi á svæðinu. Við hér í Kópavogi getum rekið alvöru flugvallarbisness á alþjóðamælikvarða við nefið á þessum símótmælandi eftirlegukindum sextíuogátta kynslóðarinnar sem vilja flugvöllinn burt af háskólalóðinni! Síðan þurfum við bara að semja við eitt íslenskt skipafélag í viðbót um afnot af stálþilssýnishorninu okkar og þá höfum við náð undir okkur bæði loft- og sjóflutningum frá borginni. Þeir mega svo eiga sínar miðstöðvar fyrir flota reykspúandi landflutningabíla og allar þær vegaskemmdir sem þeim fylgja. Skák og mát.
.............................................................................
Eftir að ég lauk við ofanritað og sendi inn rifjaðist eitt upp fyrir mér. Skyldu þeir sem viljað hafa Rvíkurflugvöll burtu og innanlandsflugið allt suður til Keflavíkur nokkurn tíma hafa lesið Nostradamus? Ha?
Nei, líklega ekki. Nostradamus spáði nefnilega (eða þannig hafa spádómar hans verið túlkaðir) hamförum hér uppi á klakanum sem seinni tíma "sjáendur" hafa gjarnan tímasett fljótlega uppúr nýliðnum aldamótum. Samkvæmt þessum spádómum og sýnum mun mikið ganga á hér á suðvesturhorninu. Miðhluti Hafnarfjarðar mun sökkva í sæ og Reykjanesið verður eyja. Sömuleiðis Álftanesið, muni ég rétt. Nenni reyndar ekki að fletta upp í Nostradamusi og því verður mér að fyrirgefast ef smáatriði eru ónákvæm en mikið helvíti verður erfitt að komast á flugvöllinn til að flýja skerið ef vegurinn bæði í mið- Hafnarfirði og í Engidalnum er kominn á kaf í sjóðandi saltvatn! Og hvað mun þá gagna vegur eða göng frá Jörfanum á Álftanesinu og út í Löngusker ef Álftanesið verður í sömu svipan að eyju? Það var held ég ekkert talað um að Fossvogurinn sykki í sæ þannig að allir sem búa norðan Engidals ættu að ná flugi til Ísafjarðar, Egilsstaða eða Akureyrar. Þ.e.a.s. ef mussuliðið, afsakið, menntafólkið sem fæðist, lifir og deyr á háskólalóðinni fær ekki að leggja Skerjafjörðinn og nærliggjandi fenjasvæði undir sig.

Frá 20. ágúst. 

Thirtysomething!

Kveikjan að þessari vangaveltu er grein í nokkurra vikna gömlu dagblaði sem ég var að henda. Hún snerist um samningamál Arsenal við leikmenn sína og var svo sem ágæt þannig séð. það sem hins vegar vakti mína eftirtekt var þessi setning: "það hefur ekki verið vani hjá Arsenal að gera lengri samning lengur en eitt ár við menn sem eru komnir á þrítugsaldurinn”
Nú veit ég ekki hvaða viðmiðun hefur almennt gilt hjá breskum liðum þegar leikmannasamnngar hafa verið annars vegar. Það má vera að leikmenn sem komnir eru yfir tvítugt séu taldir svo brothættir eða komnir svo nálægt hættumörkum ellihrörnunar að ekki þyki þorandi að gera við þá lengri samning en til eins árs. Kannski er leikmannastefna Arsenal einfaldlega sú að gera aðeins þriggja ára samning við þá leikmenn sem enn eru á bleyjualdri, eða rétt komnir af honum.

En kannski var þetta bara léleg þýðing á enska orðasambandinu “in the thirties”, sem áþvímálimælandi menn skilja sem aldursárin sem byrja á tölunni 3 . Hins vegar er venjan hérlendis að þegar menn hafa náð 30 ára aldri, semsagt fyllt þrjá tugi ára, eru þeir taldir vera að hefja fjórða tuginn og þ.a.l. komnir á fertugsaldur.

Og kannski var ég að misskilja þetta allt saman og lið Arsenal muni í framtíðinni samanstanda eingöngu af leikmönnum sem sóttir verða beint inn á leikskólana og alast að öllu leyti upp hjá liðinu, svona eins og fimleikadrottingarnar sem forðum voru “framleiddar” austan járntjalds. Við þær mun þó ekki hafa verið gerður neinn samningur..............

Frá 18. ágúst. 

Taka tuttuguogtvö!

Þá held ég að allar myndirnar séu komnar inn aftur. Vona að þetta virki núna. Er orðinn frekar framlágur, enda var vaknað kl. 05 í gærmorgun til að bera út Fréttablaðið og allan þann helv. ruslpóst sem því fylgir reglulega. Eftir vinnu tók svo við barátta við tjónabílinn í skúrnum. Undir miðnættið var svo búist til Keflavíkurferðar til að sækja prinsessuna sem var að koma með flugi frá Mæjorku. Náði í bólið um kl. 01.30 og á lappir aftur um kl. 05 til að bera út meiri ruslpóst ásamt Fréttablaðinu. Þegar vinnu lauk í dag var því þrekið orðið hálf framorðið.

Frá 14. ágúst. 

14.08.2005 22:51:32

Að mér vatt sér maður með skjalatösku!

Hann kvaðst vera að selja geisladiska. Yfirleitt þegar menn með skjalatösku segjast vera að selja geisladiska eru þeir með í farteskinu eitthvað sem hefur verið hespað af í hvelli, jafnvel frumsamda tónlist setta saman og flutta af fólki sem hvorki getur sett saman né flutt tónlist skammlaust. Ég tók því manninum með skjalatöskuna með fyrirvara. Hann bætti í og sagðist raunar hafa tvo diska, annar væri til sölu á fimmtánhundruðkall og hinn fylgdi frítt með. Ég hef alltaf verið hrifinn af því að fá eitthvað frítt, jafnvel þó það kosti mig fimmtánhundruðkall. Ég fékk því að skoða diskana. Framan á þeim var mynd af -að því er ég hef vit á- fallegum, brosandi manni. Á myndinni var líka falleg kona, en á þessháttar hef ég mun meira vit. Mér leist þannig á myndina að svona fallegt fólk gæti vart verið mjög leiðinlegt. Og þó svo væri, þá væri jú fimmtánhundruð kall svo sem enginn peningur að tapa.
Svo fór ég að skoða innihaldið. Annar diskurinn (sá sem í kaupunum var talinn peninga virði) bar nafnið "Gömul spor". Flytjendur Gunnar Tryggvason, sem sá um hljóðfæraleik, og Herdís Ármannsdóttir sem söng. Þetta var semsagt fallega fólkið á myndinni. Mér fannst vera norðlensk lykt af verkinu. Það reyndist líka rétt. Ekki skrýtið þó fólkið væri fallegt, að norðan eins og ég og mamma! Diskurinn innihélt misgamlar dægurlagaperlur, þ.á.m. titillagið, Gömul spor, sem ég á nú líklega til í fjórum útgáfum, með Álftagerðisbræðrum, Strákabandinu, Afabandinu og svo þessari.
Hinn diskurinn, sá sem ekki varð metinn til fjár og fylgdi því frítt, innihélt mestmegnis frumsamin lög og texta. Aðeins tvö lög eru aðfengin og annað þeirra er hið frábæra, þýska eurovisionsigurlag "Ein bischen frieden" sem hún Nicole litla söng um árið, sitjandi með gítarinn sinn. Hér heitir það Sólódans, hefur verið hraðað eilítið og er titillag disksins. Flytjendur eru hins vegar danshljómsveitin "Cantabile", sem eru reyndar þau sömu Gunnar og Herdís, ásamt aðstoðarfólki.
Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt, að ég hef ekkert vit á tónlist. Ég veit hins vegar hvað mér finnst skemmtilegt. Og ég hef hlustað aftur og aftur og aftur............

Frá 10. ágúst. 

Anna Lára, Bryndís, Bára...........

Ég hef ekkert vit á tónlist - amk. ekki svona tæknilegaa séð. En ég veit hvenær mér finnst tónlist skemmtileg og hvenær leiðinleg. Eiginlega finnst mér engin tónlist leiðinleg. Nema nútímajazz, jú. Og hiphop, og raftónlist, og flest rapp sem ég heyri.
Skemmtilegasta tónlistin finnst mér sú sem listamanninum finnst auðheyrilega sjálfum skemmtilegt að fremja. Þar sem spila- eða sönggleðin nýtur sín út í æsar.
Eignaðist disk á dögunum sem heitir einfaldlega "Svona var á Sigló". Þar þóttist ég kenna gamlan kunningja og samstarfsmann, Björn Birgisson. Allavega var einn flytjandinn titlaður svo, auk þess sem röddin var kunnugleg. Ég sendi ljóninu siglfirska skeyti og bað um upplýsingar. Þær fengust ekki. Reyndar sýnist mér ljónið sjálft vera meðal flytjenda ásamt því að semja ágætt lag og texta, hvorttveggja innblásið sömu ættjarðartryggðinni og -ástinni sem einkennir skrifin hans. Lagið er flutt af Ara Jónssyni, sem skilar því með þeirri vandvirkni sem honum er svo lagin. Ég veit ekki hvort Bjössi Birgis samdi og söng þennan texta áður en hann hætti að fá sér í tána, eða síðar. Hvort sem er, er hann fjandi góður. Ekki vegna þess að hann hafi þarna framið ódauðlega list, heldur vegna þess að mér finnst ég heyra hversu óskaplega gaman honum sjálfum og þeim sem með honum voru, þótti að syngja og spila í þessum anda. Og þegar hlustandinn skemmtir sér líka, er þá ekki tilgangnum náð?

Frá 5. ágúst. 

Flugskip?

Rakst á skemmtilega frétt í Fréttablaðinu í gær, fimmtudag. Þar segir frá viðgerð á bryggjunni í Flatey á Skjálfanda. Orðrétt tilvitnun í fréttina er svona: "Lengi var flugvöllur í Flatey en hann skemmdist árið 1975 þegar Hvassafellið strandaði á eynni"
Þá vaknar spurningin: var Hvassafellið flugskip eða var flugvöllurinn í Flatey ætlaður fyrir sjóflugvélar? Hugsið ykkur hættuna sem oft skapast við sundin á Ísafirði, þar sem flugvöllurinn liggur samsíða innsiglingunni, og oft gerist það að skip og bátar "tylla sér" aðeins í sandinn, þegar beygjan verður erfið í roki. Þarna hlýtur, eðli málsins samkvæmt, flugvöllurinn að vera í stórhættu. Eða á Siglufirði, maður lifandi! Þar magalenti flugvél ekki alls fyrir löngu, og sé málið skoðað í víðu (og viðsnúnu) samhengi, má þá ekki gera ráð fyrir að innsiglingin hafi verið í stórhættu?
Hann var ekki síður skemmtilegur, pistillinn sem ég rakst á í vísindaritinu Hér og nú, sem fylgir DV á fimmtudögum. Þar ritaði kona sem tíundaði ástæður þess að foreldrum er illa við að sleppa unglingum sínum á útihátíðir: Kynlíf, dóp og rokk og ról!
Nú geta líklega allir verið sammála um að best væri að útrýma öllu dópi, allsstaðar. Ég er ekki alveg jafn viss um að okkur takist að útrýma kynlífi, né að það sé endilega af hinu góða. Kannski við gætum reynt að útrýma ótímabæru kynlífi, en það er skv. pistlinum ekki ástæða, heldur kynlíf "in general". Að útrýma því myndi ganga í einn mannsaldur eða svo, síðan væri því sjálfhætt. (ja, nema glasafrjóvganir tækju alfarið við. Nauðsynlegt efni til þeirra er svo alla jafna fengið með gamalgróinni aðferð, þannig að ósvöruðu spurningunni um hvort kynlíf með sjálfum sér teljist í raun kynlíf væri velt þar upp rétt einu sinni)
Það er semsagt þetta með rokkið og rólið sem ég staldraði við. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ein tegund tónlistar væri svo hættuleg unglingum. Mig minnir reyndar að nafni minn í Krossinum hafi haft sitthvað við rokk og ról að athuga, en að í því sem tónlist fælist hætta búin unglingum, var ég grandalaus um. Nú er það svo að mér er persónulega ekkert illa við r&r. Mér er hins vegar bölvanlega við nútímajazz, sem ég skoða sem alvarlega árás á geðheilsu mína. Hefði konan sett þessar þrjár meginhættur fram sem kynlíf, dóp og nútímajazz, hefði ég getað verið henni sammála að mestu. En að svo stöddu, verandi alls óviss um hvar hættan liggur í rokkinu og rólinu, verð ég að setja spurningarmerki við pistilinn. Ég legg málið í dóm.
(pistilinn má finna í Hér og nú, fylgiriti DV fimmtudaginn 5.8 sl. á bls. 24. Höfundur er Brynja Dögg)

Frá 3. ágúst. 

Anna.

Vegna anna er frekar lítið flæði þessa dagana. Það er reyndar frekar slæmt, nú þegar ljónið söngelska með síða, grásprengda makkann hefur svo rækilega bent á síðuna mína. Tíminn fer í vinnu, þ.e. brauðstritið, réttingarvinnu við bílinn í bílskúrnum (man einhver eftir tjónabílnum sem ég keypti sl. haust og er enn í skúrnum?), baráttu við vélina úr trillunni, samskipti við vélarframleiðandann á Ítalíu og varahlutasala í Þýskalandi (þið ættuð að sjá og heyra þýskuna mína og ítölskuna, maður lifandi!.....nei, grínlaust, enskan er látin duga)
Hef bókað frídag þann 12. nk. og hyggst fara ásamt stubbunni upp á Mýrar og í sundlaugina að Laugagerðisskóla (hótel Eldborg). Ætla síðan að reyna að komast í laugina að Lýsuhóli. Skilst reyndar að hún sé aðeins opnuð fyrir hópa en við stubban getum svo sem alveg verið tveggja manna hópur! Síðan eigum við eftir laugina í Grundarfirði. Þá munum við vera komin hátt í fjóra tugi sundlauga, víðsvegar um land. Á laugardegi og sunnudegi munum við tala dönsku að sið heldra fólks á "Dönskum dögum" í Hólminum. (og kíkja á eina trilluvél sem er þar til sölu) Hlakka til, hlakka til, hlakka til........................

This page is powered by Blogger. Isn't yours?