<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Garðhúsið. 

Hér kemur semsagt hluti skýringarinnar á því hversvegna veturinn vill svo oft verða of stuttur. Ég er að smíða garðhús fyrir sláttuvélina, reiðhjólin, garðhúsgögnin og - verkfærin o.s.frv. Veðrið hefur ekki leikið við mig svo ég ákvað að smíða húsið í hlutum inni í skúr. Efnið er stálprófíll í grind og klætt með viði. Þegar rétt hlutföll höfðu fengist reyndist húsið of hátt fyrir skúrdyrnar. Eftir að hafa smíðað allar veggjaeiningar hugðist ég því sjóða það saman inni í skúr, velta því síðan á hliðina og bera það þannig út. Þyngd grindarinnar án klæðningar var áætluð c.a. 100 kg og því létt tveggja manna meðfæri. Við nánari athugun kom í ljós að þó húsið gæti staðið inni í skúr leyfði lofthæðin ekki að því væri velt! Því kom ekki annað til greina en sjóða grindina saman utandyra. Ég stillti öllu galleríinu upp framan við skúrdyrnar, undirstöðurnar vísindalega hallamældar og fjölskyldan vöruð við að hrófla við mannvirkinu. Þá fór að snjóa. Og rigna. Og frysta. Ég fékk öll afbrigði þess veðurfars sem getur stöðvað slíkar framkvæmdir. Fyrir rest náði ég að stilla upp og sjóða húsið saman. Þá var komið frost í grassvörðinn þar sem undirstöðurnar skyldu grafast. Enn mátti ég bíða. Húsgrindinni var velt á hliðina úti og borin þannig inn í skúrinn. Svo var grunnmálað. Það fór aftur að rigna. Frostið hvarf úr sverðinum. Ég gróf og steypti undirstöður. Húsgrindin var borin upp í garð að undirstöðunum til að losa skúrinn fyrir varahlutabílinn. Þá fór aftur að snjóa. Og í þetta sinn allt á kaf. Undirstöðurnar hurfu. Húsgrindin fraus föst við grasið. Loks hlánaði. Grindin var lögð á undirstöðurnar og soðin föst. Plötur í klæðninguna sóttar í Byko. Húsið skyldi málað utan og því nauðsynlegt að olíugrunna plöturnar. Það rignir hins vegar nær stöðugt og þegar styttir upp frystir. Því er ekki annað til ráða en að grunna allar plöturnar í heilu inni í skúr, nú þegar varahlutabíllinn er horfinn, og síðan ráðast í að klæða allt húsið í einu þegar viðrar til þess næst. Hvenær það verður veit enginn. Þetta ferli hefur nú tekið hálfan annan mánuð og meðan ég bíð veðurs líður tíminn, næsta ár nálgast með ógnarhraða, jafndægur eftir þrjár vikur og tjónabíllinn bíður enn ósnertur. Eins og ég segi, veturinn er of stuttur, en það er sumarið reyndar líka. Legg til tveggja mánaða lengingu hvors um sig.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Aftur fimm. 

Nú er varahlutabíllinn horfinn og konan hefur tekið hluta gleði sinnar á ný. Ég mátti hluta bílinn sundur í smátt inni í bílskúr þar sem hver hluti mátti ekki vera þyngri en svo að ég gæti borið hann. Síðan fleygði ég hlutunum smátt og smátt í gám hjá Sorpu. Slapp með fimmhundruðkall í kostnað. Þar með hefur bílum á heimilinu aftur fækkað um einn og telja nú fimm. Konan hefur sína Fjólu, okkar maður sinn L300, sonurinn Ferozuna mína gömlu, tjónabíllinn bíður þolinmóður síns tíma í innkeyrslunni og ferðabílinn dreymir sína sumardrauma undir einfaldri bárujárnssúð minkabúsins fyrrverandi að Stærri-Bæ. Það er ágætt að hafa nóg fyrir stafni í skammdeginu en samt má passa sig á að ofhlaða ekki verkefnalistann. Ég hef einhverntíma minnst á það að veturinn vill alltof oft verða mér ca. tveim mánuðum of stuttur og mér sýnist stefna í það eitt árið enn. Skýringin á því kemur hér næst.

Mér vantar, mér langar, mér hlakkar...... 

Horfði á Mósaik í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þar var viðtal við ungan, rússneskan mann, læknanema í hlutanámi hérlendis og áhugahljóðfæraleikara og -smið. Pilturinn hafði náð allgóðum tökum á íslensku og gat þokkalega tjáð sig. Nú er íslenska ekki auðvelt mál að læra og því talsvert afrek að ná sæmilegum tökum á henni. Það sem á hinn bóginn vakti sérstaklega mína athygli var þágufallssýkin sem greinilega hafði fylgt með í pakkanum. Hann talaði um "það sem Íslendingum vantaði" og fleira í þeim dúr. Nú efa ég ekki að í þeirri kennslu sem pilturinn hefur fengið hafi þetta sérstaklega verið kennt og á það lögð áhersla. Umhverfið er hinsvegar sterkur þáttur í málnáminu og kannski eðlilegt að þegar 90% skólabarna þjást af þágufallssýki sem hluta foreldraarfsins, síist villan óhjákvæmilega inn hjá útlendingi sem leggur sig fram um að læra málið, ekki bara í skóla heldur einnig af vinum , kunningjum og yfirleitt öllu því sem lýtur að daglegum athöfnum. Mér finnst þetta slæm þróun og illt til þess að vita að útlendingar sem hafa vilja og getu til að læra íslensku skuli ekki læra hana rétta vegna þess að Íslendingar sjálfir geti ekki tjáð sig óbrenglað á eigin máli.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Að kaupa hús. 

Í ljósi stöðugra frétta af sífellt "batnandi" lánakjörum til íbúðakaupa þar sem lánshlutfall er komið í hundrað prósent og jafnvel hærra má ég til að láta þessa flakka: Fyrir u.þ.b. 18 árum var auglýst til sölu á Ísafirði "gamalt, lítið einbýlishús á besta stað í bænum". Sá böggull fylgdi skammrifi að húsið var orðið lélegt, þakið orðið lekt og fúið og það hafði staðið autt um tíma þar sem eigandinn var fluttur úr bænum. Staðurinn var hins vegar góður, um það var engu logið. Húsið stóð vel þrátt fyrir þreytumerki og leit alls ekki illa út, Tvílyft, forsköluð efri hæð á steyptum kjallara. Niðri voru tvö herbergi, þvottahús og baðherbergi, uppi stofa, eldhús og eitt herbergi. Lóðin var gríðarstór leigulóð. Efri hæðin gat hæglega þjónað eiganda og gestum sem stúkusæti við fótboltavöllinn því húsið var staðsett skáhallt ofan hans. Auk þess var hreint útsýni yfir alla eyrina og höfnina handan pollsins.
Við bjuggum svo sem allþokkalega á þessum tíma, þó þröngt væri var húsið okkar í góðu standi og vel staðsett. Samt var eitthvað sem rak mig til að athuga með kaup á þessu húsi, líklega bara athafnaþrá eða þetta að eignast meira "dót" - söfnunaráráttan! Eftir að hafa skoðað húsið gerði ég tilboð, fáránlega lágt að eigin mati en viti menn!: fljótlega eftir að skilafrestur tilboða rann út var hringt til mín og mér tjáð að ég ætti hæsta boð. Nú var að hrökkva eða stökkva. Ég heimsótti bankastjórann, enda vita blankur á þessum árum og baðst ásjár. Aðstoðin var auðfengin og okkar maður mælti sér mót við lögfræðinginn sem skyldi annast frágang sölu. Þar mætti einnig umboðsmaður seljanda, grandvar og alvarlegur maður í hárri opinberri stöðu í bænum. Það var auðséð á lögfræðingnum að hann vildi helst vera einhversstaðar annarsstaðar þegar minn stormaði inn í vinnugallanum til að ganga frá kaupum. Hann byrjaði samt að vélrita. Og vélritaði og vélritaði. Leit upp öðru hvoru, hummaði og hélt áfram að vélrita. Eftir langa stund reif hann blaðið upp úr ritvélinni og fleygði á borðið. "Skrifa hér og hér og hér" sagði hann og benti. Ég benti honum aftur á móti á að við konan værum bæði kaupendur en á blaðinu væri aðeins mitt nafn. Hann brást hinn versti við og skammaðist ógurlega. Af hverju ég hafi ekki tekið það fram strax og þar fram eftir götunum. "Það kom fram í tilboðinu", benti ég honum á "og þú ert að útbúa afsalið beint upp úr tilboðinu mínu". Hann tróð nýju blaði í vélina og byrjaði tuðandi að vélrita á ný. Skapið var við suðumark og tippexið oft gripið með tilheyrandi bölvi. Hinn grandvari embættismaður sem hafði setið þegjandi var farinn að kíma í laumi. Sagði þó ekkert. Að endingu lauk pikkinu og blöðin voru tilbúin til undirritunar. Eftir undirskriftir á báða bóga var aðeins eftir að greiða, en húsið skyldi staðgreitt og afhendast strax. Þá hófst aðalfjörið. Minn dró upp poka og tæmdi innihaldið á skrifborð þess lögfróða. Andvirði eins stykkis íbúðarhúss með öllu - í fimmþúsundköllum!! . Lögfræðingurinn sprakk í loft upp. Bókstaflega trylltist. Hvurn djöfulinn ég væri að meina með því að koma með andvirðið í seðlum sem nú þyrfti að "telja og allthvaðeina". Embættismaðurinn sem nú var farinn að glotta útí annað taldi nokkuð öruggt að taka bara við bunkanum ótöldum. Þetta yrði hvort eð væri talið við innlögn í bankann og stutt að fara til að ná í kaupandann væri rangtalið. Þetta kvað lögfræðingurinn óráð hið mesta og skyldi talið á staðnum. Hann lagði til atlögu við bunkann en skapið leyfði ekki svo vandasamt verk og eftir að hafa gefist upp tvisvar, bölvandi og ragnandi ákvað embættismaðurinn að taka málið í sínar hendur. Að sjálfsögðu stemmdu allar tölur í höndum hans, menn tókust í hendur og kvöddust, hver með sín blöð. Þetta er í fyrsta og örugglega síðasta skipti sem ég hef staðgreitt húseign með peningum og mig grunar að slíkt hafi verið og sé frekar fátítt. En mikið djöfull var það gaman...................

laugardagur, nóvember 13, 2004

Sagan endalausa.. 

(byrja á ath.semd: á þriðjudaginn skrifaði ég "R-listanum, Framsókn og V-G. átti auðvitað að vera Samfylkingunni, Framsókn og V-G).

Nú hefur Neyðarþjónustan haft viku til að laga svissinn minn. Þegar ég hringdi í þá í gær var mér sagt að þeir væru ekki búnir enn og í framhaldi fékk ég allskonar skýringar. Líklega væri svissinn eitthvað bilaður eða kannski eitthvað annað, og yfirhöfuð voru öll svörin frekar loðin. Ég dró þá ályktun miðað við vandræðaganginn að líklega hefði lagfæringin þeirra ekki tekist og svissinn væri nú óvirkur, en menn væru að reyna að snúa sig útúr vandræðum með því að halda fram að hlutur sem kom til þeirra í fullkomnu lagi til breytinga hefði "líklega"allan tímann verið bilaður! Ég sá mitt óvænna og bað menn halda að sér höndum og reyna ekki frekari "viðgerðir" að sinni. Í vikunni hafði nefnilega hringt til mín maður tengdur tryggingafélaginu sem seldi mér tjónabílinn lykillausa og boðið mér bilaðan samskonar bíl í eigu félaga síns, í varahluti. Við athugun reyndist sá bíll eldri og því ekki allskostar eins í útliti, en þó nægilega líkur til að nýtast mér að verulegu leyti. Ég festi kaup á bílnum, dröslaði honum heim og á nú sviss með lyklum ásamt öllum læsingum í hurðum og skottloki, frambretti, aðal-og stefnuljós ásamt fleiri hlutum nýtanlegum. Hvað ég á síðan að gera við allt hitt sem ekki nýtist er óleyst vandamál. Því má svo bæta við að brúnin er heldur farin að síga á konunni því nú er í hlaðinu einn bíll á hvern fjölskyldumeðlim og er þá ferðabíllinn ótalinn (enda ekki í hlaðinu. Bílaeign fjölskyldunnar telur því alls sex bíla í augnablikinu.)

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Gott að búa í Kópavogi 

Þá hefur Vinstri-grænum loks tekist að flæma Þórólf Árnason úr starfi borgarstjóra Reykjavíkur. Þar með er hann sá fyrsti til að axla ábyrgð á því að hafa tekið þátt í olíusamráðinu og brotum á samkeppnislögum. Óskandi að hann verði jafnframt ekki sá eini. Það þarf að taka í öxlina á toppunum og hrista duglega. Óþolandi og ólíðandi að menn komist upp með að þegja eigin sök í hel eins og forstjórarnir þrír virðast reyna. Þórólfur Árnason hefur verið vinsæll og farsæll í starfi. Hann hefur ekki verið ákveðið bundinn einum flokki heldur starfað með R-listanum, Framsókn og V-G jöfnum höndum. Hávaðalaus maður laus við pólitískan hroka og ákaflega þægilegur í framkomu hvar sem til hans hefur sést eða heyrst. En, semsagt, honum er ekki gert vært í starfi vegna þess að hann vildi standa sig í fyrra starfi og vinna vinnuna sína eftir þeim línum sem honum voru lagðar ofan frá. Þeir yrðu fáir starfhæfir, herirnir, þar sem dátarnir gætu neitað að framkvæma þær skipanir sem þeir fengju, ef þeim mislíkaði eða hefðu grun um að gengju gegn lögum. Hvað með alla hásetana sem horft hafa upp á brottkast afla? Áttu þeir að stappa í þilfarið, neita að henda smáfiskinum og afmunstra sig um leið og í land var komið? Ég legg til að Vinstri-grænir taki sér nýtt nafn: VINSTRI-VAMMLAUSIR.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Að prófa eitthvað nýtt. 

Fyrir stuttu var mér bent á netsíður tryggingafélaganna þar sem auglýst eru uppboð á tjónabílum. Kunningi sem hafði nasasjón af þessum uppboðum taldi oft hægt að gera þarna þokkaleg kaup. Ég mátti til að prófa og er skemmst frá að segja að eins og alkarnir varð ég "ánetjaður" strax við fyrstu kynni. Útboðin eru opnuð á föstudögum og lokað er fyrir boð næsta þriðjudagsmorgun. Fyrstu helgina lét ég mér nægja að skoða úrvalið auk þess að renna yfir eldri útboð og reyna að gera mér nokkra mynd af þeim verðum sem allajafna væri verið að borga fyrir bílana. Mér skildist að eftir að menn hefðu fest sér bíl væri strax greitt og gengið frá málum og bíllinn til afhendingar á fimmtudegi að öllu óbreyttu. Næstu helgi mátti ég til með að prófa. Ég sá tvo álitlega bíla sömu tegundar og gerði boð í báða. Annar var árg.´96 og sýnu minna skemmdur en hinn árg. ´99 og talsvert skemmdur á öðru framhorni. Beið síðan spenntur eftir að útboði lyki. Og viti menn! Um hádegi á þriðjudegi var hringt og mér tilkynnt að ég ætti næsta boð í nýrri bílinn. Ég ákvað að standa við boðið með fyrirvara um að bíllinn stæðist væntingar. Þaut síðan á skoðunarstöð viðk. tryggingafélags til að líta á gripinn. Er skemmst frá að segja að aldrei á æfinni hef ég séð jafn ógeðslegt farartæki. Bíllinn hafði líklega aldrei verið þrifinn frá fyrsta degi og var bókstaflega fullur af rusli, skótaui, dósum, flöskum,fatnadi, bréfarusli,matarumbúðum og jafnvel matarleifum. Lyktin var enda eftir því. Auk þessa var bíllinn talsvert smádældaður og rispaður. Ég tjáði starfsmanni sem þarna var að ekki litist mér gæfulega á farartækið. Hann sagði mér að reyndar ætti tryggingafélagið eftir að eignast bílinn, á því væri einhver seinagangur en einnig að eitthvert svigrúm myndi vera til afsláttar. Ég tók eftir að þetta var eini bíllinn sem lyklana vantaði í og spurði um þá. Varð fátt um svör, enginn vissi um lyklana. Einhver vissa var þó fyrir því að eigendur hefðu komið til að sækja dót í bílinn en miðað við það sem eftir var af rusli vantaði ekkert nema lyklana. Ég bað menn að leysa lyklamálin og eigendaskiptin og hafa síðan samband. Hélt heim við svo búið. Næstu tvær vikur gerðist ekkert. Í byrjun þriðju viku var hringt. Starfsmaður tryggingafélagsins tjáði mér að eigendaskipti væru loks að ganga í gegn en lyklamálin væru enn óleyst þar sem ekki næðist í umráðamenn bílsins. Bauð hann mér þokkalegan afslátt af tilboðinu í ljósi þessa gegn því að ég sæi sjálfur um lyklamálin. Hafði hann athugað lyklaverð hjá umboði og nefndi 2500 kr.,en um var að ræða lykil með tölvuflögu til þjófavarnar, s.k. kódaðan lykil, sem venjulega er frekar dýr. Ég gekk að boðinu en hringdi sjálfur í umboðið til að kanna með lykil. Þar fékk ég uppgefið verð sem var nær tvöfalt hærra en áðurnefnt. Fór samt á staðinn og bað um lykilefni. Á afgreiðsluborðinu kostaði lykillinn 6300 kr! Þar með voru komin þrjú verð án frekari skýringa. Eigi má sköpum renna svo ég keypti lykilinn. Fór næst í Neyðarþjónustuna á Laugavegi en þeir gátu skorið lykilinn eftir bílnúmerinu (eða kóda úr verksmiðjunúmeri). Bað um að fá einnig aukalykil án tölvuflögu sem hægt yrði að nota á hurðirnar eingöngu. Það var vandalaust, en að skera tölvulykilinn kostaði 3500 kr. og aukalykillinn 1500 kr. svo þar lágu samtals 11300 kr. og enn átti eftir að kóda tölvulykilinn saman við tölvu bílsins sem kostar um 3500 kr !!!!. Með fótsporin á bakinu hélt ég til tryggingafélagsins til að sækja bílinn. Lét menn þar vita um misræmið í lykilverðunum og fékk í staðinn aukaafslátt. Hélt til bílsins ásamt starfsmanni með stóran ruslapoka og tæmdum við í sameiningu ruslið úr bílnum. Síðan skyldi færa bílinn af svæði félagsins og út á bílastæði þangað sem ég gæti sótt hann að kvöldi. Viti menn! Lyklarnir gengu með ágætum að hurðum en hvorugur að sviss! Ég bölvaði hátt og í hljóði, fékk tryggingamenn til að færa bílinn út af svæðinu með lyftara en hringdi sjálfur í Neyðarþjónustuna. Starfsmaður þar tjáði mér glaðlega að "það væri sko pottþétt búið að skipta um sviss" og þar með rándýri skurðurinn á rándýru lyklunum ónýtur. 'Eg spurði um leið útúr vandræðunum og var sagt að líklega væri hægt að breyta svissnum eftir lyklunum. Ég komst að sjálfsögðu hvorki lönd né strönd með bílinn í stýrislás. Það þýddi að ég varð að ná svissnum úr bílnum úti á bílaplani að kvöldi, í myrkri vopnaður vasaljósi. Það tók tvo tíma og þurfti að taka stýrisbúnaðinn úr bílnum. Undir nóttina, þegar ég hafði lokið við að setja stýrisbúnaðinn svisslausan í bílinn aftur var loks hægt að draga hann heimleiðis. Sú ferð gekk áfallalaust en viðbrögð konunnar þegar ég birtist að kvöldi með kengbeyglaðan bíl í innkeyrslunni HENNAR eru efni í annan pistil. Nú standa málin þannig að úti í innkeyrslu stendur beyglaður, svisslaus bíll í ónáð, inni situr húsbóndi í ónáð en Neyðarþjónustan tók sér nokkra daga í að máta saman lykla og sviss. Að því verki loknu get ég loksins prófað hvort bíllinn sem ég keypti fer yfirhöfuð í gang................

This page is powered by Blogger. Isn't yours?