<$BlogRSDUrl$>

.....það sem þessum Ísfirðingum dettur í hug.........!

miðvikudagur, júní 09, 2004

Iðnnám - á leið hvert? 

Hef undanfarið velt dálítið fyrir mér þeim breytingum sem orðið hafa á iðnnámi gegnum árin og hvort þær séu til batnaðar eða ekki. Fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi, eða á árunum rétt fyrir og um ´80 hafði iðnnám almennt verið að mestu óbreytt í áratugi. Uppbyggingin var einföld: fjögurra ára nám til sveinsprófs/sveinsstykkis og innan þess tíma tveggja vetra nám við iðnskóla.Að loknum námstíma með tilheyrandi skólagöngu og lokaverkefni tók við tveggja ára starfstími undir handleiðslu meistara. Eftir tvö ár mátti síðan sækja um meistarabréf til lögreglustjóra/sýslumanns og, að uppfylltum einföldum skilyrðum fékk viðkomandi iðnsveinn sitt meistarabréf og mátti þar með standa fyrir rekstri í sinni grein og "að lögmæltum skilyrðum uppfylltum" taka til sín nema og kenna það sem hann sjálfur hafði á liðnum árum lært. Svo einfalt var það.
Gallar þessa einfalda kerfis voru auðvitað fjölmargir. Oft var erfitt í smærri byggðarlögum að fá námssamning í þeirri grein sem hugurinn stefndi til. Meistarar höfðu margir hverjir tilhneigingu til að nýta nemana í verstu skítverkin þar sem þeir voru bundnir námssamningi við viðk. fyrirtæki og gátu illa neitað eða hætt. Launin voru smánarleg og í raun ákveðin af vinnuveitanda þar sem samningar fyrir iðnnema voru oft og tíðum illa útfærðir og óskýrir. Því var neminn oft undir járnhæl og ófáir sem hreinlega hrökkluðust úr námi vegna aðstæðna á vinnustað,framkomu yfirmanna og lúsarlauna.
Með tímanum hefur verið reynt að höggva á þessa hnúta. Mikið starf hefur verið unnið í þágu iðnmenntunar og stefnt hefur verið að samræmingu iðnnáms þannig að nemar í sömu grein njóti sömu eða sambærilegrar kennslu. Þetta hefur m.a. verið gert með eflingu iðnskóla á þann hátt að þeir taki við verklega þættinum líka og því læri neminn sína iðngrein að mestu eða öllu leyti innan veggja skólans.Að sveinsprófi loknu þurfa nemar síðan að ljúka tilteknum starfstíma í grein sinni úti á vinnumarkaði áður en þeir setjast í skóla á ný og læra til meistara. Er þá farið yfir rekstrarleg fræði ásamt verkstjórnarfræðslu o.fl.
Þessi þróun hefur hins vegar leitt til annars. Áður fyrr höfðu nemar í reynd starfað fjögur ár á almennum vinnumarkaði er þeir hlutu sín sveinsréttindi. Þeir höfðu því fengið sína praktísku reynslu samfara náminu og töldust því fullgildir á vinnumarkaði við námslok.Þeir höfðu lært að vinna, bæði einir og í hóp og voru vanir þeim kröfum sem markaðurinn gerir til iðnaðarmanna.
Nú er öldin hinsvegar önnur. Iðnskólinn útskrifar sveina sem varla hafa nokkurn tíma komið inn á vinnustað, hvað þá unnið undir kröfum markaðarins um tímamörk og afköst. Nemarnir leysa hópverkefni í skólanum, þeir snörpustu eru fremstir og hinir hægari og óframfærnari færast aftast í hópinn. Verkefni t.d. 5 manna hóps eru þannig oft unnin af einum eða tveimur og hinir horfa á. Að loknum prófum halda þessir nýútskrifuðu iðnsveinar út á vinnumarkaðinn og mæta þar kröfum sem þeir vissu ekki einu sinni að væru til. Oft vantar allan vinnuhraða og sveinninn dundar við verk sem verið er að selja út á mörg þúsund kr. pr. klst. Mjög algengt er að sveinn sem lendir í vandræðum með úrlausn verkefnis gefist hreinlega upp,fallist hendur og kalli á aðra sér til aðstoðar. Það virðist sem skólinn svipti nemana því sjálfstæði í vinnubrögðum sem eldra kerfið ól þá upp við. Þ.a.l. eru það ekki fullnuma einstaklingar sem iðnskólinn skilar út á vinnumarkaðinn heldur fólk sem í raun kann fagið en kann ekki að vinna við það.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?